Bankasýslan gerir óraunhæfa ávöxtunarkröfu

Bankasýsla ríkisins gerir 7% ávöxtunarkröfu umfram áhættulausa vexti á þá eignarhluti í fjármálafyrirtækjum sem hún fer með fyrir hönd ríkisins.

Síðan hvenær er til eitthvað sem heitir "áhættulausir vextir"? Forsenda þess að innheimta vexti er að þeir séu einhverskonar endurgjald fyrir áhættu lánveitandans af endurheimtu lánsins. En þegar innheimtir eru vextir án þess að nein áhætta sé fyrir hendi, þá er það eins og að fá eitthvað fyrir ekkert, einnig þekkt sem eignaupptaka. En nóg um það, Bankasýslan hefur vafalaust á þessu afar tæknilegar skýringar sem enginn nema Bankasýslan skilur.

Það sem er hinsvegar mikilvægara við þessa frétt er sú ávöxtunarkrafa sem bankasýslan gerir til eignarhluta sinna í bönkunum. Það er athyglisvert að ríkið skuli ætla sér að græða svona vel á bönkunum og þar með viðskiptavinum þeirra. Steingrímur tekur því vafalaust fagnandi að þarna sé komin fram ein leið í viðbót til að skattleggja almenning. Merkilegust hlýtur samt að vera sú firra að gert skuli ráð fyrir fyrir sambærilegri ávöxtun af eigin fé Landsbankans (NBI) eins og hinna bankanna, bæði í ljósi þess að frá því hann var stofnaður hefur honum ekki tekist það hingað til, og ekki síst hversu skuldsettur hann er.

Landsbankinn, sá eini sem er í meirihlutaeigu ríkisins, er nefninlega skuldbundinn til að greiða u.þ.b. 300 milljarða inn í þrotabú gamla bankans á næstu 10 árum (tölur fengnar úr árshlutauppgjöri skilanefndar LBI siðasta haust), en þeir peningar munu svo ganga upp í kröfur vegna IceSave. Þetta er falinn kostnaður við yfirtöku ríkisins á bankanum, því þetta verður ekki greitt nema af því sem annars hefði orðið rekstrarafgangur bankans í framtíðinni. Á sömu forsendum er kolrangt að halda öðru fram en að Íslendingar hafi nú þegar skuldbundist til að taka á sig umtalsverðar greiðslur vegna IceSave svikamyllunnar. En það er vandséð hvernig bankinn (NBI) á að fara að því greiða af þessu gengistryggða skuldabréfi og skila samt nógu miklum hagnaði til að standa undir ávöxtunarkröfu Bankasýslunnar á eigin fé.

Til að setja þetta í samhengi er hægt að fara í smá talnaleik. Samkvæmt stofnefnahagsreikningi bankans er eignarhlutur ríkisins rúm 80%. Samkvæmt árshlutareikningi NBI síðasta haust er eigið fé bankans 170 milljarðar og er hlutur ríkisins því um 136 milljarðar. Nú skulum við líta á nokkrar lykiltölur úr síðasta árshlutareikningi bankans til að átta okkur á stærðargráðu og mögulegum afleiðingum umræddrar skuldbindingar:

  • Eigið fé: 170 milljarðar. 300 milljarðar eru 176% af eigin fé bankans. Nýlega komst í hámæli rannsókn sérstaks saksóknara á lánveitingum Kaupþings á nánast öllu eigin fé bankans rétt fyrir hrun sem þótti ámælisvert. Hérna erum við að tala um næstum tvöfalt hærra hlutfall í einni áhættuskuldbindingu.
  • Eignir: 1.085 milljarðar. 300 milljarðar eru tæp 29% af verðmæti eigna bankans.
  • Skuldir: 915 milljarðar. 300 milljarðar eru tæpur þriðjungur af heildarskuldum.
  • Útlán til viðskiptavina: 600 milljarðar. 300 milljarðar eru helmingur af því.
  • Innlán frá viðskiptavinum: 382 milljarðar. 300 milljarðar eru 79% af því.
  • Afborgun á ári: 300/10 = 30 milljarðar sem NBI mun þurfa að greiða LBI árlega næstu 10 árin, að viðbættum vöxtum.

Það er ekki síður merkilegt að skoða þetta í samhengi við árshlutareikning skilanefndar gamla bankans (LBI) frá því síðasta haust:

  • Eigið fé: neikvætt. Gamli bankinn er gjaldþrota og sú tala því merkingarlaus í þessu samhengi. 
  • Eignir (bókfærðar): 2.251 milljarðar. 300 milljarðar eru rúm 13% af eignum skilanefndarinnar
  • Eignir (matsvirði): 1.138 milljarðar eða um helmingur af bókfærðu virði. Skuldabréf NBI er hinsvegar metið á fullu verði (sem miðað við áðurnefndar efnahagsstæðrir NBI og aðrar kringumstæður er afar bjartsýnt) en það gerir 26% af matsvirði heildareigna.* Á móti þessum heildareignum er forgangskrafa vegna innstæðna (sjá innlán**).
  • Skuldir: 3.427 milljarðar. 300 milljarðar eru tæp 9% af því.
  • Útlán til viðskiptavina (bókfærð): 1.060 milljarðar. 300 milljarða skuld NBI er 28% af því.
  • Útlán til viðskiptavina (matsvirði): 346 milljarðar. Skuld NBI er tæp 87% af því.
  • Smásöluinnlán: 1.161 milljarðar. 300 milljarðar eru rúm 25 prósent af þessu. Athugið að hérna erum við að tala um IceSave innstæðurnar sem Bretar og Hollendingar vilja fá endurgreiddar.**
*Athygli skal vakinn á því að svo hátt hlutfall lánveitingar til eins aðila (26%) væri brot á öllum lögum og reglum um áhættudreifingu ef um væri að ræða starfandi fjármálafyrirtæki. En skilanefndirnar eru ríki í ríkinu, hafnar yfir þau lög sem almennt gilda meðal okkar dauðlegra þjóðfélagsþegna, eða hvað?

**IceSave innstæðurnar eru forgangskrafa í þrotabúið sem nemur örfáum prósentum hærri upphæð en eignirnar. Miðað við 80% eignarhlut ríkisins er því gert ráð fyrir að Íslendingar muni greiða a.m.k. rúman fimmtung af kröfum vegna IceSave. Athugið að þetta er algjörlega óháð þeim samningum sem nú liggja fyrir Alþingi vegna ábyrgðar á lántöku innstæðutryggingasjóðs (TIF), sú ábyrgðarkrafa er aðeins fyrir mismuninum á heildareignum skilanefndarinnar og kröfum Hollendinga og Breta í þrotabúið, sem samkvæmt þessum tölum er ekki nema 26 milljarðar þó vissulega megi deila um hvort það mat sé óhóflega bjartsýnt. Miðað við þessar tölur er ekki annað að sjá en að svo sé.

Skyldi einhver enn velkjast í vafa um hverjir raunverulegir eigendur bankanna eru, þá er út frá þessum upplýsingum nú hægt að svara þeirri spurningu í tilviki Landsbankans. Nýi Landsbankinn (NBI) er í 80% eigu íslenska ríkisins í gegnum bankasýsluna, hin 20% tilheyra þrotabúinu og munu því ganga upp í forgangskröfur vegna IceSave sem þýðir að raunverulegir meðeigendur eru (eða munu verða) Bretar og Hollendingar. Þetta verður semsagt 100% ríkisbanki, í eigu þriggja ríkja. Enn fremur, ef hinu 300 milljarða skuldabréfi yrði síðar breytt í hlutafé í nýja bankanum (NBI) þá myndi eignarhlutur Íslands þynnast niður í 29% en afgangurinn, 71% skiptast milli Bretlands og Hollands. Hinir bankarnir eru svo aftur í meirihlutaeigu skilanefnda, þannig að til að greina eignarhald þeirra  nánar þyrfti að rýna í kröfulistana ef þeir eru aðgengilegir, en það er efni í aðra grein og síst viðaminni en þessa.
 
Enn fremur er nú hægt að svara að hluta til þeirri spurningu hver gæti orðið kostnaður Íslendinga vegna IceSave, fari svo að frumvarp um ríkisábyrgð á nýjustu samningunum verði samþykkt. Eins og kemur fram hér að ofan er hlutur ríkisins 80% af 300 milljarða skuld NBI við skilanefnd LBI, sem gerir 300*0,8 = 240 milljarðar. Við það bætast 26 milljarðar sem vantar upp á fullar endurheimtur í forgangskröfur og ríkið ábyrgist gegnum lántöku TIF skv. IceSave-III samningunum, en það gerir 240+26 = 266 milljarða lágmarks skuldbindingu. Reynist verðmat skilanefndarinnar á öðrum eignum í þrotabúinu bjartsýnt, þá verður þessi upphæð hærri. Punkturinn er sá að upphæðin sem nú þegar er búið að ábyrgjast er 240 milljarðar, og ég vek athygli á því að í samkomulagi ríkisstjórnarinnar við kröfuhafa (Breta og Hollendinga eins og áður sagði) um endurfjármögnun nýja bankans og uppgjör við skilanefndina er kveðið á um heimild til að gefa út viðbótarskuldabréf samkvæmt ótilgreindum skilyrðum um "efnahagslega framvindu" á afborgunartímanum. Það skyldi þó aldrei vera að þetta sé í raun dulmál um að þegar þrotabúið hefur verið gert upp muni Íslendingar verða látnir borga það sem útaf stendur vegna IceSave, með einum eða öðrum hætti? Dæmi nú hver fyrir sig.
 
Þeir sem eru áhugasamir um þau mál sem snúa að endurreisn fjármálakerfisins ættu kannski að lesa nokkrum sinnum yfir þessar tölur og átta sig á því hvað þær þýða. Ég geri mér grein fyrir því að þetta eru flóknar og þéttar upplýsingar en mikilvægi þeirra er hinsvegar ótvírætt, ekki síst fyrir okkur sem eigum þennan nýja banka og verðum hugsanlega látin gangast í ábyrgð fyrir forgangskröfum í gamla bankann. Af þessum tölum fæ ég ekki séð að þetta dæmi geti staðist, hvorki rekstrarmódel og viðskiptaáætlun nýja bankans, ávöxtunarkrafa bankasýslunnar, né áætlanir um endurheimtur upp í IceSave kröfurnar. Þar sem þetta hangir allt saman tel ég að minnsta kosti útilokað að allt þrennt geti gengið upp samtímis, nema einhverjum takist að draga kanínu úr hatti.
 
Öll gögn sem þessi greining byggir á eru í meðfylgjandi viðhengjum. Upplýsingar og ályktanir endurspegla eingöngu persónuleg viðhorf höfundar og eru sett fram af fullkomnu ábyrgðarleysi, með fyrirvara um villur og hugsanlegt notagildi. Lesendur eru hvattir til að sannreyna þessar upplýsingar sjálfir og athugasemdir eru mjög æskilegar. Notist á eigin ábyrgð.

mbl.is Bankasýslan gerir háa ávöxtunarkröfu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Flott samantekt og segir allt sem segja þarf! Ég hef haldið því fram að bankakerfið sé að rúlla aftur og með þessum upplýsingum þá er ég viss!

Sigurður Haraldsson, 4.2.2011 kl. 07:15

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Og viti menn, þetta er forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag með framhaldi á bls. 16 undir fyrirsögninni "NBI getur ekki greitt allt skuldabréfið í erlendri mynt" (tengill hér fyrir áskrifendur Morgunblaðsins), en einnig hefur verið fjallað um þetta á vefsíðum Viðskiptablaðsins, visir.is og Eyjunni. Landsbankinn virðist hafa séð sig knúinn til að senda út tilkynningu þar sem fréttinni er afneitað, en Eygló Harðardóttir fulltrúi Framsóknarmanna í viðskiptanefnd Alþingis hefur óskað eftir fundi í nefndinni vegna málsins. Muna ekki örugglega allir hvað gerðist síðast þegar nauðsynlegt var talið að gefa út yfirlýsingar um íslenska banka í afneitunartón og haldnir voru neyðarfundir vegna stöðu þeirra út um allan bæ? Ef þið heyrið hávært brak og bresti á næstu dögum, þá gæti það verið bankakerfið að hrynja í annað sinn... vonandi gufar það bara upp í hljóðlausu reykskýi en ég held það sé samt bjartsýni að búast við því.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.2.2011 kl. 22:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband