Fjármálastjóri 365 dæmdur til greiðslu gengisláns
2.12.2010 | 20:29
Héraðdómur Reykjavíkur dæmdi á þriðjudaginn sl. Stefán Hilmar Hilmarsson, fjármálastjóra 365 miðla og fyrrverandi fjármálastjóra Baugs til að endurgreiða Arion banka gengislán sem hann tók hjá gamla Kaupþingi í júní 2007. Í dómnum segir meðal annars að um sé að ræða lánasamning í formi yfirdráttar á tveimur veltureikningum að upphaflegri fjárhæð CHF 501.900 (svissneskir frankar) og JPY 50.989.100 (japönsk yen). Gjalddagi var upphaflega í júli 2008, síðar framlengdur til janúar 2009 og gjaldfelldur þá, en eftir það hefur höfuðstóllinn verið í vanskilum að mestu leyti ef skilningur minn er réttur.
Dómurinn er hin áhugaverðasta lesning, en til að útskýra tilkomu þessara skulda er þar lýst allskyns flóknum fjármálafléttum sem voru útfærðar af einkabankaþjónustu Kaupþings, en það var þjónustuleið sem bankinn bauð "efnameiri" viðskiptavinum sínum upp á. Einn af gullmolum fjármálaverkfræðinnar er eftirfarandi tilvitnun í tölvupóst frá starfsmanni Kaupþings þar sem hann leggur til hvernig ráðstafa skuli 12 milljón kr. hagnaði af fjárfestingarsjóðnum Arctic Ventures:
Ég legg til að við gerum þetta svona...
- Leggjum fram 10 mkr. í eigið fé í Kaupþings strúktúr fáum lánað 20-30 milljónir í gírun á Libor + 1,4%. (Fjárfesting í Kaupþings bréfum með höfuðstólsvörn)
- Bjarki Diego lánar 50 mkr. með veði í Baugs bréfum sem að við stillum upp á 3-4 erlend félög.
Það væri gaman að fá að vita hvað er í þessum 3-4 erlendu félögum, getur verið að þangað hafi verið skotið undan fjármunum sem stefndi getur gengið að erlendis og lifað þar lúxuslífi þegar hann hefur skilið eftir sviðna jörð hér á Íslandi? Ég veit ekki...
Athygli vekur að til málsvarnar ber stefndi við brostnum forsendum og vísar til stöðu sinnar sem neytanda gagnvart bankanum. Skondið að einstaklingur sem er í sérþjónustu fyrir hina "efnameiri" skuli fara fram á að vera meðhöndlaður fyrir dómstólum eins og hver annar almennur viðskiptavinur, og enn merkilegra þegar um er að ræða fyrrverandi fjármálastjóra hjá einu af stærstu fyrirtækjum landsins. Vissulega er hann bara maður eins og við hin og á sömu mannréttindi og aðrir. En það er engu að síður hjákátlegt að slíkur aðili skuli reyna að bera fyrir sig meintri vankunnáttu í fjármálastjórnun, enda vísar dómurinn þeim röksemdum á bug:
Í ljósi menntunar sinnar og sérþekkingar á verðbréfaviðskiptum má stefnda vera ljóst að það fylgir því áhætta að taka lán í erlendum myntum... að kaup á hlutabréfum eru áhættusöm viðskipti og áhættan var stefnda. Stefndi hafði þekkingu og reynslu og gat og átti að fylgjast með þeim verðbréfaviðskiptum sem gerð voru... Stefndi fór í þessi viðskipti til að fá ágóða, en það brást. Á því ber hann ábyrgð.
Dómurinn áréttar þannig hið forkveðna að engin skuli ávinningur án áhættu, sem eru orð að sönnu. Í niðurstöðu dómsins er Stefáni gert að greiða Arion banka CHF 510.842,44 og JPY 51.750.538, að frádreginni innborgun kr. 732.602. Á gengi dagsins í dag gerir það samtals rúmar 130 milljónir króna, sem ólíklegt er að muni innheimtast því fjármálastjórinn fyrrverandi var úrskurðaður gjaldþrota í hæstarétti þann 31. ágúst sl.
Miðað við hvernig tókst upp við fjármálastjórnun þeirra fyrirtækja sem stefndi hefur starfað hjá, þá ættu þessar málalyktir í raun alls ekki að koma neinum á óvart.
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkur: Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 20:34 | Facebook
Athugasemdir
Athyglisvert!! Ótrúlegt að sjá hvernig hin íslenska "nomenklatura" hagaði sér á valdatíma Baugsmanna.
Þeir virðast hafa haft bankana og bankastarfsmennina algjörlega í vasanum og nýtt sér stöðu sína innan valdakerfis Baugs í persónulegu gróðaskyni.
Þetta er enn eitt dæmið um að stjórn peningamála hefur verið komið að stærsta hluta úr höndum Seðlabanka og ríkisstjórnar yfir í hendurnar á mönnum úti í viðskiptalífinu sem báru eingöngu eigin hag fyrir brjósti
Sveinn Úlfarsson (IP-tala skráð) 3.12.2010 kl. 08:27
Sú spurning sem þetta skilur eftir ósvarað að mínu mati er, fyrst fjármálastjórinn taldist vera svona "efnamikill" viðskiptavinur, hvers vegna í fjáranum þurfti þá að vera að lána honum 130 milljónir til að standa í einhverj braskviðskiptum? Dugði það honum ekki að fjárfesta fyrir sitt eigið fé? Eina skýringin sem mér dettur í hug er sú að hann hafi eygt von um skjótfenginn ávinning, án þess að þurfa að vinna fyrir honum sjálfur. En svoleiðis dæmi getur aðeins gengið upp í firrtum heimi fjármálaverkfræðinnar.
Guðmundur Ásgeirsson, 3.12.2010 kl. 11:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.