Bankarnir hafa líklega rétt fyrir sér, í þetta sinn...
13.11.2010 | 20:17
...og aldrei þessu vant! Í frumvarpi viðskiptaráðuneytisins fæst nefninlega ekki betur séð en að bönkum sé gert að leiðrétta öll gengisbundin lán til einstaklinga. Gildi þá einu hvort um sé að ræða gengistryggð krónulán eða lán veitt í erlendri mynt, en á þessu tvennu er grundvallarmismunur.
Gengistryggðu krónulánin voru einfaldlega ólögleg, og fjármálafyrirtækjum var aldrei heimilt að veita slík lán. Þeim ber því að leiðrétta þá gjörninga hið snarasta og bæta brotaþolum tjónið. Til þess þarf engin ný lög, heldur aðeins að framfylgja þeim sem fyrir eru, og með hliðsjón af niðurstöðu hæstaréttar um hvaða endurgjald skuli miða við í staðinn (seðlabankavexti). Þó ég sé reyndar ekki sammála þeirri síðastnefndu niðurstöðu hæstaréttar þá er það önnur saga, dómurinn stendur og hann ber að virða.
Gjaldeyrislán sem sannanlega voru veitt í erlendri mynt (og gjaldeyrinum svo hugsanlega skipt yfir í krónur) voru hinsvegar, og eru fullkomlega lögleg. Það er ekki einungis vafasamt að setja lög til að breyta því afturvirkt hvað telst hafa verið löglegt í fortíðinni og hvað ekki, heldur eru slík lög í raun ólög sem munu skapa hættulegt fordæmi ef þau verða samþykkt. Í vestrænni lagahefð eru afturvirkar lagabreytingar almennt taldar óæskilegar og ógildar, því þegnarnir sem eiga að fara eftir lögunum verða að vera vissir um að þeim sé óhætt að gera í dag það sem er löglegt í dag, og að þeim verði ekki refsað síðar fyrir að hafa gert eitthvað sem þeir töldu leyfilegt þegar það var gert.
Til að útskýra þetta betur má nota einfalda samlíkingu: Maður ekur bifreið sinni niður Laugaveginn sem er einstefnugata, en þar sem ekið er í rétta átt samkvæmt umferðarskiltum er það fullkomlega löglegur gjörningur. Nokkru seinna er svo gerð afturvirk lagabreyting sem gerir allan akstur á einstefnugötum óheimilan, í hvora áttina sem er, og það er látið gilda nokkra mánuði eða ár aftur í tímann. Því næst er viðkomandi ökumaður sektaður fyrir brot á hinum nýju lögum, ásamt öllum öðrum sem vitað er að hafi ekið eftir Laugaveginum eða öðrum einstefnugötum á umræddu tímabili, burtséð frá því í hvaða átt var farið. Ættu þessir ökumenn að taka því þegjandi og hljóðalaust að borga slíka sekt, fyrir athæfi sem þeir máttu ekki vita betur en að væri leyfilegt á þeim tíma sem það átti sér stað? Nei, alls ekki, því það væri ekki bara ósanngjarnt heldur myndi það beinlínis fela í sér ólögmæta eignaupptöku! Á sama hátt myndi líklega ekki hvarfla að neinum að Geiri á Goldfinger verðskuldi refsingu fyrir að hafa starfrækt nektardansstað í fyrra, þó að nú sé það orðið ólöglegt.
Í þetta skipti (og hugsanlega bara þetta eina skipti) er ég algjörlega sammála bönkunum, sem vilja ekki leggja blessun sína yfir svona vitleysu. Að baki liggja hinsvegar gjörólíkar hvatir, því mér finnst þetta rangt út frá réttlætissjónarmiðum eins og ég hef útskýrt hér að ofan. Bankarnir eru hinsvegar líklega fyrst og fremst að hugsa um eigin hagsmuni með því að afsala ekki rétti sínum til skaðabóta vegna áhrifa þessarar fyrirhuguðu lögleysu, og skiptir réttlætiskennd þá engu máli. Ég giska á að ef lögin væru á hinn veginn, að gengistryggðu lánin væru lögleidd með afturvirkum hætti, þá myndu bankarnir ekki andmæla því að fá að halda þýfinu óáreittir.
Bankar veita ekki skaðleysisyfirlýsingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Gengistrygging, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:34 | Facebook
Athugasemdir
Ekki samála dómnum það er rétt því að hann var pantaður af mafíunni og hún fékk nákvæmlega það sem hún vildi, en nú á að láta hana borga og þá kemur annað hljóð í skrokkinn!
Sigurður Haraldsson, 14.11.2010 kl. 00:53
Það er rétt, að lán veitt í erlendum gjaldeyri þar sem lántakanda er frjálst að skipta þegar honum hentar, er verulega öðruvísi en gengistengt lán, þar sem lántakandi fær bílinn með láninu, en fær hvorki svissneska franka né japönsk yen í hendurnar og ræður engu um það.
Að öðru leyti er ég gífurlega ósáttur við að samningsvextir voru ekki látnir gilda. Ef Lýsing og SP fjármögnun hefðu farið á hausinn við það, so what?
Vendetta, 14.11.2010 kl. 13:28
Vendetta: Lýsing og SP-Fjármögnun eru hvort sem er löngu gjaldþrota.
SP er dótturfélag Landsbankans sem hefur það í öndunarvél að eilífu.
Lýsing er að mér skilst í einhverskonar gjörgæslu hjá Deutsche Bank.
Það þriðja, Avant, er formlega gjaldþrota eða í nauðasamningum.
En svo eru auðvitað bankarnir sjálfir með gengistryggðu húsnæðislánin, held þau séu mest hjá Kaupþing/Arion og eitthvað hjá Landsbanka.
Guðmundur Ásgeirsson, 14.11.2010 kl. 14:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.