Mótmælendur funduðu með forseta Íslands

Svipan sagði frá því í gær að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hefði rætt við mótmælendur á Bessastöðum. Rakel Sigurgeirsdóttir óskaði eftir fundi með honum til að koma á viðræðum á milli almennings og stjórnvalda. Auk Rakelar sátu Ásta Hafberg og Þórarinn Einarsson fundinn en þau hafa eins og Rakel komið að tunnumótmælunum síðustu daga.

Hér fyrir neðan er bréf Rakelar til Ólafs Ragnars Grímssonar:

Reykjavík 8. október 2010

Góðan daginn, Ólafur Ragnar!

Tilefni þessa bréfs er það að mig langar til að óska eftir áheyrn eða fundi með þér í tilefni af stöðunni í samfélaginu. Ég verð ekki ein heldur hef ég í hyggju að koma með fleirum. Þau eru auk mín: Ásta Hafberg og Þórarinn Einarsson.

Þessi hópur á það sameiginlegt að hafa áhyggjur af ástandinu en búa líka yfir löngun til að breyta því og hugmyndum að lausnum. Hér á eftir ætla ég að segja svolítið frá þessum hópi.

Ég stóð fyrir borgarafundum á Akureyri ásamt fjórum öðrum norðlenskum konum yfir vetrarmánuðina 2009. Vorið 2010 stóð ég að þeim ein. Nú er ég flutt hérna suður og hef tekið þátt í ýmissi viðspyrnu hér í höfuðborginni seinni parts sumars og það sem af er vetri. Ég er framhaldsskólakennari. Kenni íslensku.

Ásta Hafberg bjó og starfaði fyrir austan fram til síðustu áramóta en þá missti hún vinnuna og flutti hingað suður. Núna stundar hún mastersnám við Háskólann á Bifröst. Hún var mjög virk í hópnum Pennavinir Dominics Strauss Kahns. Við tvær erum líka í hópi þeirra sem hefur staðið að baki tunnumótmælunum í þessari viku.

Þórarinn Einarsson hefur komið að margvíslegum grasrótar- og viðspyrnuverkefnum. Hann var byrjaður á því löngu fyrir hrun enda hefur hann alla tíð dreymt um sanngjarnara og réttlátara samfélag. Frá sl. vori hefur hann tekið virkan þátt í starfi með hópi sem vann að hugmyndum að nýju fjármálakerfi á Íslandi en hópurinn kynnti þessar hugmyndir á blaðamannafundi í Norræna húsinu sl. miðvikudag. Þórarinn hefur líka komið þó nokkuð að undirbúningi og framkvæmd tunnumótmælanna.

Viljir þú frekari upplýsingar um framangreinda einstaklinga og/eða hvað býr að baki umleitan minni um áheyrn þína áður en þú svarar slíku erindi er velkomið að verða við þeirri ósk.

Virðingarfyllst,
Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er auðvitað mikið fagnaðarefni að forsetinn skuli veita þessu ágæta fólki áheyrn, en svo verður bara að fá að koma í ljós hverju það skilar. Rakel, Ásta og Þórarinn eiga mikinn heiður skilinn fyrir óeigingjarnt framlag til hagsmunagæslu í þágu almennings.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband