Engin rök fyrir því að Arnór haldi áfram...
1.7.2010 | 02:34
...og ekki heldur Gunnar.
Það er ekki hlutverk embættismanna að skera úr um meintan réttarágreining um samningsskilmála, heldur er skýrt kveðið á um það í 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að á meðan svo sé þá eigi að styðjast við túlkun neytandans. Lánveitandi verður í þessu tilviki þá að höfða mál gegn skuldaranum til að setja fram kröfur um annað. Fari lánafyrirtæki eftir tilmælum Seðlabankans og Fjármálaeftirlits eru þau þar með að gerast brotleg við áðurnefnd lög. Með því að hlutast til um þetta í óhag neytenda er þannig í raun hvatt til lögbrots.
Seðlabankastjóri og fjármálaeftirlitsmaður sem hvetja til lögbrota og að gildandi samningar verði hafðir að engu hafa með slíkum ummælum að sjálfsögðu gert sig algjörlega vanhæfa til að gegna þessum störfum. Það er ljóst að Arnór Sighvatsson og Gunnar Þ. Andersen þurfa að víkja og það sem fyrst, en því næst fari fram rannsókn á embættisfærslum þeirra og annara sem að málinu komu.
Engin rök fyrir að vaxtakjör haldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Gengistrygging | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 02:35 | Facebook
Athugasemdir
Kallagreyjunum er bara att á foraðið. Steingrímur sem er eins og mús undir fjalarketti þegar sú heilaga skipar fyrir, reynir að þegja sig í skjól. Gylfi galar það sem Jóka hugsar: Ekki styggja fjármagnsprinsa ESB. og saman reka þau undirmenn sína fram á vígvöllinn.
Gylfi karlinn þarf samt alvarlega að fara að passa sig. Grímulaus fylgispekt hans við fjármagnsöflin gegn þjóðinni gæti endað í gapastokknum.
Dingli, 1.7.2010 kl. 07:30
Ég held að Gylfi hafi brennt allar brýr a baki sér á XV. Borgarafundinum í fyrradag, þar sem hann reyndi til streitu að verja vonlausan málstað.
Guðmundur Ásgeirsson, 1.7.2010 kl. 12:09
Var að horfa á fundinn, þar kom upp margt merkilegt og ekki síður furðulegt. Gylfi er nú gjörsamlega úti að skíta. Hvað kemur það málinu við hvort hann sem bankamálaráðherra geti fallist á samningsvexti g-samningana. Ekki getur hann einhliða búið til nýjan vaxtagrunn sem á sér enga lagastoð- en gerði það samt!
Hvernig verður staðan ef tilmælin verða svo dæmd brot á lögum? Lendir það á bönkunum, eða verða Gylfi sem yfirmaður FME og JÓKA sem Svörtuloft heyra undir fyrstu gestir nýahrauns?
Dingli, 2.7.2010 kl. 01:17
Dingli, ég treysti mér ekki til að spá fyrir um hverjar kynnu að verða afleiðingar þess ef tilmælin yrðu dæmd ólögleg, vonandi yrðu afleiðingar bara í samræmi við lögin. Ef það þýðir refsiábyrgð stjórnenda SÍ og FME þá er það bara svo en ég er auðvitað enginn dómari um það þó ég hafi e.t.v. skoðun á því. Ég er sammála því sem þú segir um Gylfa, mér þykir hann vera algerlega úti á þekju og skorti allt skynbragð á stöðu sina í þessu máli. Honum má finnast hvað sem hann vill en á ekki að hlutast til um niðurstöður dómsmála eða hugsanleg réttaráhrif þeirra.
Það er gott að þú skulir hafa horft á upptökurnar frá Borgarafundinum Dingli, og eru allir sem hafa áhuga á að setja sig inn í málið hvattir til að gera slíkt hið sama. Ég vil sérstaklega vekja athygli á seinni helming 12. hluta myndskeiðanna, þar sem eru spurningar úr sal.
Meðal annars var spurt hvort Seðlabankinn og eftir atvikum FME hafi veitt SP Fjármögnun leyfi til að versla með gjaldeyri og hvort mögulega hafi fleiri fjármálafyrirtæki stundað slík viðskipti í leyfisleysi. Eins merkilegt og það kann að vera þá svarar Gylfi á þá leið að hann viti ekki svarið og hafi ekki sett sig inn í það sérstaklega hverjar séu starfsheimildir einstakra fjármálafyrirtækja. Samt er þetta sá ráðherra sem ber ábyrgð á viðkomandi málaflokki og vanþekking hans hlýtur því að koma nokkuð á óvart!
Reyndar var einstaklingur í salnum sem lesendur hér kannast e.t.v. við, sem gat upplýst Gylfa og aðra viðstadda um það að SP-Fjármögnun hafði hvorki starfsleyfi til viðskipta með gjaldeyri, gengistryggð verðbréf né framvirka samninga sem fyrirtækið notaði að eigin sögn til að verjast gengissveiflum. Enn fremur er bent á að FME hafi beinlínis reynt að leyna þessum upplýsingum, en loks er þeirri spurningu beint til Gylfa sem æðsta yfirmanns stofnunarinnar hvað sé eiginlega í gangi þar. Enn neyðist Gylfi til að viðurkenna vanþekkingu sína, en segist þó muni fylgja því eftir að þetta verði upplýst. Í framhaldinu fellur það væntanlega í skaut okkar kjósenda að veita nauðsynlegt aðhald og knýja á um að ráðherrann standi við þessa yfirlýsingu sína.
En er það viðunandi að viðskiptaráðherra skuli ekki hafa það á hreinu hverjar starfsheimildir fjármálafyrirtækja séu, og að eigin sögn ekki hafa hugmynd um hvað er á seyði í Fjármálaeftirlitinu? Mér finnst það a.m.k. stóralvarlegt!
Guðmundur Ásgeirsson, 2.7.2010 kl. 12:34
VIÐBÓT: Eftir ábendingu mína til Gylfa Magnússonar á borgarafundi í lok júní þá virðist frétt um starfsleyfi hafa verið sett aftur í birtingu hjá FME, en fréttin hafði þar áður verið fjarlægð af vef stofnunarinnar. Hinsvegar virðast vera einhverjir hnökrar á skjalavistunarkerfi vefsins því það er happa og glappa hvort hægt er að nálgast skjölin sem fréttin vísar í. Miðað við það sem á undan er gengið kæmi mér ekkert á óvart ef FME ætli svo að láta sem ekkert sé, og halda því fram að ekkert hafi verið gert til að reyna að hylma yfir þetta hjá stofnuninni. Þetta er svona hegðun eins og hjá litlum krakka sem er búinn að kúka á sig og mamma kemur að honum með allt niður um sig en samt neitar krakkinn að viðurkenna að nokkuð sé að.
Guðmundur Ásgeirsson, 10.7.2010 kl. 18:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.