Mun ESB hafna aðildarumsókn Íslands?
22.5.2010 | 21:46
"Samninganefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu vonast til að leiðtogaráð sambandsins ákveði á lýðveldisdegi Íslendinga að hefja aðildarviðræður."
Stefán Haukur Jóhannesson formaður samninganefndar Íslands opinberar hér firringu sína með óskhyggju um að innganga í Evrópusambandið verði tekin til umfjöllunar á sjálfan þjóðhátíðardag Íslendinga! Samninganefndin er hinsvegar í hrópandi andstöðu við meirihlutavilja þjóðarinnar, og getur því tæplega talist koma fram sem fulltrúar hennar í fyrirhuguðum viðræðum. Þessum tvískinnungi hefur framkvæmdastjórn sambandsins áttað sig á og látið í ljós efasemdir þar að lútandi í skýrslu sinni til Evrópuþingsins. Það skyldi þó aldrei fara svo að Ísland yrði fyrsta ríkið í sögunni til að vera beinlínis synjað um aðild að Evrópusambandinu? Að minnsta kosti yrði það skynsamlegasta niðurstaðan ef ekki ríkir traust milli aðila um að viðræðurnar fari fram af heilum hug, nema íslensk stjórnvöld sjái að sér og dragi umsóknina til baka fyrr heldur en seinna.
Grænt ljós gefið 17. júní? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Vissulega yrðu það góðar fréttir ef ESB hafnaði umsókn okkar, þó eru líkurnar á því litlar.
Það er annars spurning hvernig hægt er að stöðva þessa vitleysu. Meir en tveir þriðju þjóðarinnar er á móti aðild, annar stjórnarflokkurinn er á móti og þó einhverjir þingmenn annara flokka en Samfylkingar séu samþykkir þessari vegferð, eru litlar líkur á að raunverulegur þingmeirihluti sé fyrir henni.
Nú þegar verulega á að herða ólina á landsmönnum er algerlega útilokað að nokkur hugsandi maður hafi samvisku til að henda peningum í þessa vitleysu.
Ein leiðin til að stöðva þetta er að þingmenn VG komi fram með tillögu á þingi um að draga umsóknina til baka. Slík tilllaga gæti ekki komið frá stjórnarandstöðunni, það yrði túlkað sem vantraust á stjórnina. Ef slík tillaga kæmi hins vegar frá öðrum stjórnarflokknum er ekki hægt að túlka málið á þann veg. Samstarfsflokkurinn yrði þá að gera upp við sig hvort stjórnarsamstarfið væri fyrir bí. Ef hann tæki því á þann veg er sá flokkur búinn að sanna í eitt skipti fyrir öll að hann er ekki samstarfshæfur.
Því miður eru engar líkur á að þetta verði, til þess eru þingmenn VG of hræddir við Samfylkinguna.
Því er spurningin: Hvernig er hægt að stöðva þessa vitleysu?
Gunnar Heiðarsson, 22.5.2010 kl. 22:19
Það eru allir í kringum mig brjálaðir yfir þessari frétt. Sumir íhuga að koma úr fríum til að mótmæla ef þessi verður raunin. Andstöðuflokkarnir gætu víst lýst yfir vanþóknun á þetta. Það yrði opinbert með stuðningi meirihluta landsmanna og gaman að sjá stjórnarskröltormana kjafta sig frá því. Ég skora á stjórnarandstöðuna að mótmæla þessu fullum hálsi. Ég skora jafnframt á Íslendinga með þjóðerniskennd að stofna undirskriftalista á heimasíðu. Ég er ekki með heimasíðu og því skora ég á aðra að setja upp slíkan lista.
Dagga (IP-tala skráð) 22.5.2010 kl. 22:33
Mér sýnist allt stefna í mótmæli en ekki fagnaðarhöld. Það er samt líklega enginn dagur meira viðeigandi að berjast fyrir sjálfstæði landsins, heldur en einmitt 17. júní.
Guðmundur Ásgeirsson, 23.5.2010 kl. 00:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.