Til þess að skilja hvernig vestræn hagkerfi virka flest í raun og veru þarf til að byrja með að átta sig á því og samþykkja að þegar banki lánar peninga þá er hann í flestum tilvikum ekki að afhenda neina seðla úr peningageymslunni eins og þegar maður lánar vini sínum fyrir kók og prins póló. Ef svo væri þá þyrftu bílfarmar af peningaseðlum og mynt að fara milli útibúa vegna daglegra viðskipta á borð við íbúðakaup o.fl., en það sem gerist hinsvegar er að bankinn býr einfaldlega til innstæðu í bókhaldi sínu. Það eru bara tölur á blaði sem voru aldrei til staðar sem alvöru peningar, heldur verða að alvöru peningum seinna eftir því sem lánið innheimtist smám saman, en undirliggjandi raunverðmæti felst í þeim veðum eða lánstrausti sem liggja til grundvallar láninu. Þess vegna þarf heldur ekki að "skila" neinum peningum þó að lánið sé afskrifað eins og margir virðast halda, eini raunkostnaðurinn sem því fylgir hér og nú er strokleður eða rafrænt ígildi þess. Bankalán eru ekki verðmæti í núinu heldur ávísun á verðmæti í framtíðinni, haldi menn annað er það ranghugmynd.
Þessi lýsing á því hvernig peningar verða til í kerfinu er auðvitað talsverð einföldun, því bankinn þarf vissulega að eiga til peninga á móti láninu sem nemur bindiskyldu og lágmarks eigin fé, en þeir peningar eru aldrei afhentir viðskiptavinum heldur geymdir í fjárhirslunni. Lágmarks eigið fé banka er 10% skv. alþjóðlegum viðmiðum, en bindiskylda á Íslandi var nýlega lækkuð og er ekki nema 3-5% minnir mig á meðan t.d. í Kína er nýlega búið að hækka hana í 15% þegar þetta er skrifað. Því lægri sem þessi hlutföll eru því meira geta bankarnir framleitt af peningum með útlánum, sem útskýrir e.t.v. hveru grimmt þeir hafa lánað í allskyns vitleysu ekki síst til eigenda sinna sem sátu þannig á nokkurskonar peningaprentvél.
Bankar þurfa líka að fjármagna starfsemi sína, greiða starfsfólki laun og skila arði til eigenda sinna, en þeir fjármunir verða ekki búnir til í kerfinu nema með meiri lánveitingum. Hinsvegar eru engin verðmæti framleidd í bönkum sem þeir geta lagt að veði fyrir lánum til sjálfra sín, hvorki matur, lyf né aðrar nauðsynjar, ekki einusinni lúxusvarningur heldur bara ómerkilegir pappírar sem liggja þar og safna ryki fáum til yndisauka. Til þess að fjármagna sig þurfa því bankarnir einhvernveginn að ná til sín utanaðkomandi fjármagni, sem þeir gera með því að taka vexti af lánveitingum til viðskiptavinanna sem er þá eins og leigugjald fyrir lánstraustið. En einhverstaðar frá verða peningar að koma til að borga vextina sem þýðir að meira þarf að lána og þegar sífellt er lánað meira þarf sífellt að borga meiri peninga í vexti. Vestræn bankastarfsemi er þannig í raun sjálfsskaparvíti sem endar alltaf á því að borða skottið á sjálfu sér, en þó ekki fyrr en í eftirmat þegar það er fyrst búið að borða okkur hin upp til agna. Þess má geta í framhjáhlaupi að samkvæmt Kóraninum er múslimum bannað að innheimta vexti, sem ef maður veltir því fyrir sér dálítið varpar alveg nýju ljósi á átökin milli þessara ólíku menningarheima.
En afhverju eiga bara bankarnir að hagnast á lánstrausti, þegar það er í raun almenningseign rétt eins og vatnið í ánum og loftið sem við öndum að okkur? Lánstraust getur nefninlega aldrei verið fyrir hendi nema í heilbrigðu og stöðugu þjóðfélagi þar sem allir hlutaðeigandi geta treyst því að aðrir muni virða gerða samninga. Bankar eins og við þekkjum þá munu aldrei geta framkallað þennan stöðugleika sjálfir enda búa þeir ekkert til nema skjöl og pappíra sem eru ekki raunverðmæti, heldur felur rekstur þeirra í sér aukakostnað fyrir þjóðfélagið sem er eingöngu réttlætanlegur á meðan það þjónar hagsmunum almennings. Sívaxandi útlánaþörf bankanna er ein af meginástæðum þess að það er nánast alltaf verðbólga. Ekki vegna þess að það sé náttúrulögmál heldur vegna þess að eins og kerfið er uppbyggt þá þurfa bankarnir sífellt að lána meira út í kerfið til að standa undir vöxtum þannig að þeir geti greitt sjálfum sér tekjur. Í harðnandi samkeppnisumhverfi fer sú krafa sívaxandi, en við þessa útlánaþenslu verður til viðbótarfjármagn í kerfinu og offramleiðsla á peningum umfram undirliggjandi verðmæti leiðir alltaf á endanum til aukinnar verðbólgu. Það er einfaldlega markaðslögmálið um framboð og eftirspurn sem ræður því.
Þetta sjáum við best ef við berum saman stöðuna í einfölduðu hagkerfi þar sem í byrjun dags eru tveir fiskar og tvær krónur en í lok dags eru tveir fiskar og fjórar krónur, þá er augljóst að verðmæti gjaldmiðilsins hefur rýrnað um helming. Þetta gerist svo enn hraðar þegar lánað er óhóflega út á vafasöm veð eða ofmetið lánstraust, hagkerfið drukknar bókstaflega í fjármagni langt umfram undirliggjandi verðmætasköpun. Áhrifin verða hin sömu og af peningafölsun í stórum stíl líkt og Þjóðverjar beittu sem herbragði gegn Bretum í seinni heimsstyrjöldinni og reyndu þannig að fella pundið.
Við ættum alls ekki að óttast réttmætar afskriftir því þær halda aftur af verðbólgu og afskriftir í stórum stíl geta jafnvel leitt til verðhjöðnunar þannig að hver króna sem þú átt eftir í vasanum verður verðmætari en hún var áður, rétt eins og þegar búið er taka fölsuðu peningana úr umferð. Hagkerfið verður heilbrigðara og verðmæti færast aftur á hendur fólksins sem þau voru upphaflega tekin frá með þessari miklu sjónhverfingu. Hugsanlegur fórnarkostnaður vegna skammtímaáhrifa af slíkum inngripum er hverfandi miðað við jákvæð langtímaáhrif á gjaldmiðilinn og hagkerfið í heild. Það er nefninlega alveg jafn auðvelt að láta skuldir og peninga hverfa eins og var að búa þá til, og í raun og veru er verið að gera það allan tímann jafnvel undir venjulegum kringumstæðum. Í því felst meðal annars útgáfa gjaldmiðils sem ásamt greiðslumiðlun er eitt meginhlutverk flestra seðlabanka.
Því miður fáum við aldrei að vita í gegnum skólakerfið hvernig þetta virkar í raun og veru (afhverju ætli það sé?) þannig að meirihlutinn vex úr grasi án þess að skilja eðli fjármagns og heldur að hugtakið peningar takmarkist að mestu við seðla og mynt. Raunveruleikinn er hinsvegar allt annar og þeir fáu sem skilja það átta sig fljótlega á því hversu mikil völd fylgja því að eiga banka, ekki síst einkarekinn banka sem getur haft talsverð áhrif á örlög og þróun gjaldmiðilsins en þarf ekki að þjóna hagsmunum neins nema eigendanna. Þessi völd eru auðvitað eftisóknarverð, eða afhverju ætli tvær stærstu valdablokkir á Íslandi hefðu annars sammælst á sínum tíma um að skipta á milli sín bönkunum þegar þeir voru einkavæddir, og sú þriðja reynt að ná til sín Íslandsbanka allar götur síðan og alveg þar til það tókst? Það var a.m.k. ekki vegna þess að bankastarfsemi væri eitthvað sérstaklega spennandi rekstur, hún er það alls ekki, heldur snýst þetta um völdin til þess að stjórna peningunum okkar allra. Þess vegna ætti ríkið alltaf að eiga minnst einn banka og stjórna sjálft útgáfu gjaldmiðilsins sem notaður er, því annars mun kerfið ekki þjóna hagsmunum ríkisins heldur sérhagsmunum fárra í þjóðfélaginu.
Það að stjórna peningunum og geta framkallað verðbólgu er nefninlega ekkert annað en dulbúin skattheimta í formi gjaldmiðilsrýrnunar svo að launin sem ég fæ í dag verða minna virði á morgun þegar ég fer að kaupa mér í matinn. Þannig hirða bankarnir af okkur öll verðmæti smám saman þangað til þeir hafa að jafnaði á einni mannsævi sölsað undir sig nánast allt sem hægt er að veðsetja. Ef við búum þar að auki í landi þar sem er einhliða verðtrygging á lánsfé þannig að eignir bankans aukast jafn hratt og lán fólksins hækka (enda eru þau einn og sami hluturinn) þá tekur arðránið mun skemmri tíma eða svona u.þ.b. eina kynslóð af nýjum fórnarlömbum miðað við íslenskar aðstæður. Ef kaupmaðurinn sem selur þér lífsins gæði og nauðsynjar hefur vit á að forðast verðtryggð lán, þá getur hann hugsanlega líka haft áhrif á verðlag og vísitölur þannig að lánin hans lækka að raungildi samanborið við þá sem greiða fyrir verðtrygginguna. Þegar þessi sami kaupmaður eignast svo bankann líka er voðinn vís því þá getur arðránið farið fram á margföldum hraða með samspili verðtryggingar, vaxtaokurs og útlánaþenslu. Hljómar það kunnuglega?
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Menntun og skóli, Stjórnmál og samfélag | 17.3.2010 | 18:22 (breytt 27.1.2013 kl. 13:38) | Facebook