Helsjúkt þjóðfélag?
16.3.2010 | 19:16
Miðað við það sem ég hef sjálfur orðið vitni að, þá var eitt af því sem "góðærið" hafði í för með að vandamálaþröskuldurinn slípaðist niður í ekki neitt! Ég hef haft kynni af mörgu ágætis fólki sem var hreinlega orðið svo vant því að fá allt sjálfkrafa upp í hendurnar að þegar ballið var búið, þá var eins og allri tilverunni hefði verið kippt undan fótum þess. Og loforð gefin við altarið virðast mörg hafa verið innantóm, meira að segja sjálf kirkjan og þjónar hennar leggja ósköp litla áherslu á mikilvægi slíkra gilda núorðið, það sem einu sinni var kallað að leita sátta hjá presti er nú orðið formsatriði, eyðublað sem er útfyllt og stimplað eins og hvert annað myntkörfulán.
Stundum hugsa ég með nostalgíu til fyrri tíðar þegar það var ýsa í matinn á þriðjudögum og heimurinn var nógu einfaldur til að vera viðráðanlegur á löngum köflum. Í dag er allt svo yfirþyrmandi og það gerir okkur viðkvæm fyrir óvæntu áreiti og minniháttar óþægindum sem eru þó ekkert nema lúxusvandamál, svo þegar alvöru vandamál kemur upp þá springur allt í tætlur. Alvarlegustu vandamálin sem ég hef staðið frammi fyrir í mínu einkalífi að undanförnu komu ekki einu sinni upp í kjölfar hrunsins heldur fyrir, eða einmitt á hápunkti "góðærisins" þegar yfirkeyrslan í þjóðfélaginu var hvað mest svo jaðraði við almenna geðveiki.
Ég sjálfur hef varla verið ónæmur fyrir þessum áhrifum heldur þó mér hafi reyndar alltaf þótt hið svokallaða góðæri vera hið mesta furðuverk. En þegar svona gerist er það oft ekki einangrað við einstaklinginn heldur smitar út frá sér á alla sem hann umgengst náið. Mér var búið að líða illa lengi áður en hrunið varð að veruleika, og ekki batnaði það við allan skítinn sem afhjúpaðist þá. Það var ekki fyrr en ég talaði um daginn við gamlan og góðan vin sem ég hafði ekki heyrt í lengi að mér fór að líða aðeins betur með sjálfan mig. Hann sagði: "Veistu, að það er ekki merki um persónulega bresti hjá einstaklingnum, þó hann aðlagist ekki samfélagi sem er helsjúkt.
Margir eiga um sárt að binda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mikið var góður pistill, einkum lokaorðin. Takk fyrir hann Guðmundur. Ég er sjálfur búinn að fylgjast of mikið, og of lengi, með þessu íslenska efnahagsfurðuverki. Svo miklar áhyggjur hafði ég af stöðunni að ég fann til léttis loks þegar formleg endalok ísl. bankanna urðu ljós í Okt 2008.
Íslenskt samfélag var (og er) helsjúkt.
kv.
Ólafur Eiríksson, 16.3.2010 kl. 19:59
Vel mælt Guðmundur. Það þarf harða nagla til að standa af sér öll veður. Þjóðin okkar er yfirfull að sveimhuga liði, sem aldrei getur tekist á við neitt nema matseðil kvöldsins. Varla hann.
Björn Birgisson, 16.3.2010 kl. 20:35
Kærar þakkir fyrir undirtektirnar, ég er auðvitað að gera mig svolítið berskjaldaðan með því að skrifa á svona persónulegum nótum í aðra röndina og vona að allir lesendur virði það jafn vel og þið Björn og Ólafur. Ég vil líka biðja fólk að oftúlka þetta ekki sem hreina lífsreynslusögu því ég er líka að miðla hér innsæi í reynsluheim fleira fólks sem ég hef kynnst á lífsleiðinni.
Sjálfur hef ég oft verið reiður og örvæntingarfullur og látið gammin geisa undanfarið, sérstakleg í hinu frjálslega umhverfi sem bloggheimurinn býður upp á. Ég hef þó ávallt reynt að hafa að forðast að vega harkalega að persónu fólks, fyrir utan kannski sem eru hvort sem er opinberar fígúrur og gefa þannig út óformlegt skotleyfi á þá fígúru hvort sem hún er leikin eða ekta.
(Ef ég skýt einhverntíman á þig, lesandi góður, þá vil ég biðja þig að taka það ekki heldur mjög nærri þér. Ég er bara maður úti í bæ sem er alls ekki alvitur. ;)
Guðmundur Ásgeirsson, 16.3.2010 kl. 23:11
Ég er alveg sannfærð um það að hrunið muni leiða gott af sér. Gildismat okkar hefur tekið stórtækum framförum undanfarna 17 mánuði.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.3.2010 kl. 01:00
Sammála því Jóna. Samt er því miður til fullt af fólki sem virðist halda að það sé ennþá árið 2007, en sú hugsun er líklega á undanhaldi sem betur fer.
Guðmundur Ásgeirsson, 17.3.2010 kl. 03:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.