EMF = Ennþá meiri fantaskapur ?

Í kjölfar þess að bæði Evran og Pundið féllu vegna óvissu um skuldastöðu Grikklands ætla Jean-Claude Trichet og kollegar hans hjá Seðlabanka Evrópu að taka til athugunar hugmynd þýskra og franskra embættismanna um að stofna evrópskan gjaldeyrissjóð, sem eigi að koma skuldsettum aðildarríkjum evrusvæðisins til aðstoðar þegar þörf er á.* Sjóðurinn mun eflaust koma til með að heita European Monetary Fund eða EMF, leggið skammstöfunina á minnið því henni á mjög líklega eftir að bregða fyrir víða á næstunni.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var stofnaður í þessum sama tilgangi á sínum tíma, en það sem gerðist hinsvegar var að gömlu stórveldin hófu að beita áhrifum sínum innan sjóðsins í eigin þágu. Þetta gerðu þau oft af skeytingarleysi og jafnvel fantaskap gagnvart þeim þjóðum sem leituðu á náðir sjóðsins og þurftu að þola afleiðingarnar, eins og við Íslendingar höfum nú fengið að reyna. Það ætti öllum að vera ljóst að þessir aðilar stunda ekki góðgerðastarfsemi, heldur vilja fá allt sitt til baka með vöxtum, og nú virðist eiga að herða tökin á Evrópu með nýjum sjóði að þessari fyrirmynd.

Hin svokölluðu "vestrænu" ríki ráða yfir 53,62% atkvæða í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þar af Evrópusambandsríkin 32,08%, en engilsaxneska blokkin u.þ.b. 27%. Hinsvegar þarf aðeins 15% atkvæða til að ná fram neitunarvaldi yfir ákvörðunum sjóðsins, og það getur aðeins ein þjóð upp á sitt einsdæmi: Bandaríkin með 16,77%, en Evrópumegin þurfa a.m.k. Bretland, Frakkland og Þýskaland að hafa samráð til að ná því marki. Þannig er talsverð skekkja innbyggð í kerfið, sem setur t.d. Breta í algera lykilstöðu, ekki síst vegna sérstakra tengsla sinna við Bandaríkin.

Hættan er sú að þetta fari á sama veg hjá ESB, allavega munu Frakkar varla standa í vegi fyrir því að fá aukin völd í sínar hendur en fulltrúar þeirra stjórna nú bæði Evrópska Seðlabankanum (ECB) og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF) auk tveggja fulltrúa í stjórn Alþjóðagreiðslubankans (BIS). Stjórn Evrópusambandsins með Þjóðverja í fararbroddi er þegar byrjuð að marka stefnuna að fyrirmynd IMF með þeim skilyrðum sem þau hafa sett Grikklandi um skattahækkanir og niðurskurð ásamt frystingu launa og lífeyrisgreiðslna, við afar neikvæðar undirtektir hjá grískum almenningi.

Ef þetta eru þær lausnir við efnahagsvanda Íslands sem evrópusinnar hafa boðað við inngöngu í fyrirheitna ríkið, þá má benda á að við erum komin á nokkurnveginn sama stað nú þegar með dyggu samstarfi íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Okkar bíður því miður engin töfralausn, né heldur sjötíu hreinar meyjar ef út í það er farið...

* Fróðleikskorn: samskonar sjóður, Afríski Gjaldeyrissjóðurinn (AMF) er á teikniborðinu hjá hinu upprennandi Afríkusambandi og er gert ráð fyrir að verkefni hans verði þegar fram líða stundir yfirtekin af sameiginlegum Seðlabanka Afríku sem gefi út sameiginlega mynt: Afro. Ef það skyldi dyljast einhverjum þá er þetta nánast orðrétt að evrópskri fyrirmynd.

mbl.is Munu skoða hugmynd um Gjaldeyrissjóð Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Var ekki IMF stofnað fyrir allar þjóðir heims? Að vísu eru sumar þjóðir víst betri en aðrar, en hvað um það.

Ef aðildarþjóðir ESB eru að tala um að stofna sérstakan sjóð fyrir sig, eru þær þá ekki að segja sig úr IMF og þá um leið alþjóðlegu samstarfi.

Þá er spurning hvort betra að tilheyra Evrópu eða alþjóðasamfélaginu.

Gunnar Heiðarsson, 12.3.2010 kl. 12:44

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þarna hittirðu naglann á höfuðið Gunnar. Samrunastefna Evrópusambandsins er nefninlega í raun og veru einangrunarstefna! Við ættum frekar að standa utan við þetta þannig að við getum haldið áfram sjálfstæðum samskiptum við öll 193 fullvalda ríki í heiminum ásamt sjálfsstjórnarsvæðum eins og Færeyjum, Grænlandi Tíbet o.fl., í stað þess að afsala okkur sjálfstæði í utanríkismálum og loka okkur inni með 27 ríkjum sem stefna í að verða að einu.

Guðmundur Ásgeirsson, 12.3.2010 kl. 12:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband