Styðjum sjálfstæði Skotlands
25.2.2010 | 14:15
Hugmyndir um sjálfstæði Skotlands frá breska heimsveldinu eru ekki nýjar af nálinni, og hefur undirliggjandi stuðningur við það meðal skosku þjóðarinnar mælst allnokkur í skoðanakönnunum. Fari svo að Skotar ætli að leggja út í raunverulega sjálfstæðisbaráttu ættum við Íslendingar að sjálfsögðu að styðja það. Þjóðirnar eiga margt sameiginlegt og eiga sambærilegra hagsmuna að gæta. Sjálfstæði Skotlands myndi virka hvetjandi á grannþjóðir sem vilja öðlast aukið sjálfstæði, t.d. Færeyjar og Grænland, og opna fyrir mjög áhugaverða samstarfsmöguleika meðal þjóðanna á N-Atlantshafi.
Þessi hugmynd hefur gengið undir ýmsum nöfnum, t.d. Norðurbandalag eða Atlantis, og gengur í grunninn út á það að smærri þjóðir á norðurhjara sem vilja standa vörð um sjálfstæði sitt myndi með sér bandalag. Ekki formlegt ríkjasamband með samruna að markmiði, heldur sem frjáls vettvangur fyrir sameiginlega hagsmunagæslu norðursvæðisins. Slíkt samstarf gæti t.d. höfðað til Norðmanna sem hafa tvisvar hafnað ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu, og Grænlendinga sem eru eina þjóðin sem hefur gengið úr Evrópusambandinu. Norðurbandalag myndi virka sem mótvægi gegn útþenslustefnu Evrópusambandsins og festa í sessi sérstöðu ríkjanna nyrst við Atlantshaf.
Slíkt bandalag gæti orðið mikilvægur samráðsvettvangur fyrir nýtingu aðlinda í hafinu, t.d. stjórnun fiskveiða úr sameiginlegum stofnum og vinnslu jarðefnaeldsneytis undan hafsbotni. Skiptir þar máli víða á svæðinu eru slíkir möguleikar fyrir hendi en þjóðirnar mjög misjafnlega langt komnar í þeirri þróun. Þannig gætu þeir sem lengra eru komnir í að nýta sínar olíulindir eins og Norðmenn miðlað reynslu sinni þangað sem hugsanlega er meira af ónýttum svæðum eins og við Ísland og Grænland, og allir sem að slíkri uppbyggingu koma gætu hagnast á því.
Bandalagið gæti líka myndað sterka einingu til að gæta hagsmuna ríkjanna varðandi aðgengi að norðurskautinu og nýtingarréttindi þar, sem margir ásælast og þar á meðal stórþjóðir Evrópusambandsins. Samstarf í öryggismálum væri kjörið verkefni fyrir svona bandalag, með áherslu á leit og björgun en auðvitað líka með tilliti til löggæslu á höfunum og gerð samhæfðra viðbragðsáætlana vegna óvæntra stóratburða og náttúruhamfara. Annað sem má nefna er vernd lífríkisins sem er viðkvæmt á svæðinu en skiptir miklu máli fyrir lífsviðurværi fólk, og svona mætti lengi telja.
Á sama hátt og hugmyndin um Evrópusambandið er mjög rökrétt fyrir ríkin á meginlandinu sem öll eru samliggjandi, þá tel ég að laustengt bandalag af þessu tagi væri a.m.k. jafn skynsamlegt fyrir löndin í norðri sem eru að mestu aðskilin af stórum hafsvæðum þar sem miklar auðlindir er að finna. Þessi lönd eru Grænland, Ísland, Færeyjar, Noregur, Skotland, og jafnvel Hjaltlandseyjar líka. Þrátt fyrir ólíka þjóðfélagsgerð og jafnvel ólíka kynþætti eiga þessar þjóðir margt sameiginlegt, og teldi ég hagsmunum þeirra betur borgið með þessum hætti heldur en beint eða óbeint undir áhrifavaldi ESB.
Áhrif þingkosninga á sjálfstæðisbaráttu Skota | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Írar líka.
Axel Þór Kolbeinsson, 25.2.2010 kl. 14:35
Hárrétt Axel, Írar ættu líka vel heima í þessum félagsskap, ekki síst með okkur Íslendingum sem erum náskyldir þeim að blóðböndum.
Guðmundur Ásgeirsson, 25.2.2010 kl. 14:49
Alvöru ríkisstjórn á Íslandi hefði verið búin að lýsa yfir stuðningi við sjálfstætt Skotland. Við eigum að taka upp andstöðu við Bretana allsstaðar þar sem við fáum því komið við.
Loftur Altice Þorsteinsson, 25.2.2010 kl. 16:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.