Þýðing RÚV á orðum Lipietz í Silfrinu

Hér er uppskrift af þýðingu RÚV á viðtali Egils Helgasonar við Alain Lipietz í þætti sínum Silfri Egils á sl. sunnudag. Lipietz þessi er Evrópuþingmaður sem hefur tekið þátt í mótun regluverks um fjármálastarfsemi og þekkir því vel til evrópskra tilskipana á því sviði. Tilefni þess að ég birti þetta hér er að vissir íslenskir þingmenn hafa gert sér far um að reyna að hafa vitið fyrir manninum og segja að hann misskilji regluverkið þrátt fyrir að vera einn af höfundum þess. Maður er svosem hættur að kippa sér upp við slíka hroka frá Samfylkingarfólki en kannski er misskilningurinn bara þeirra og jafnvel afsakanlegur þar sem blessaður maðurinn talaði ensku eins og dæmigerður Frakki (óskýrt) og íslenska þýðingin var beinlínis röng í lykilatriðum. Innskot, áherslur og leiðréttingar eru frá mér komnar en að öðru leyti er textinn orðréttur.

[Egill Helgason í myndveri RÚV, Alain Lipietz og Eva Joly úr myndveri í París.]

EH: Velkominn í þáttinn. Þú ert nýkominn úr neðanjarðarlestinni. Gætirðu skýrt í stuttu máli álit þitt á stöðu Íslands í samhengi við tilskipunina um tryggingasjóð innstæðueigenda?

AL: Við erum að tala um tilskipun 94. Ég er höfundur annarar tilskipunar um eftirlit fjármálafyrirtækja og veit því sitthvað um þessi vandamál. Hver hefur umsjón með eftirlitinu? Þetta eru tvö vandamál. Í tilskipun 94 [n.t.t. EB 94/19] er skýrt að tryggingasjóður innstæðueigenda er einkarekinn sjóður. Það þýðir að einkabankar gera eins og þá lystir en ef þeir bregðast má gríða til einkasjóðsins þannig að hægt sé að greiða innstæðueigendum tapið. Eða hluta tapsins. Í tilskipuninni sem ég samdi, sex árum síðar, var spurt hver sæi um eftirlitið með því að tryggingin væri í lagi, að bankinn tæki ekki of mikla áhættu. Hver er afstaða ríkisstjórnanna í Bretlandi og Hollandi? Hún er sú að breyta skuli Icesave-skuldinni, skuld einkarekins banka, í skuld íslenska ríkisins. Ekki vegna þess að það sé í samræmi við tilskipun 94, því þar kemur ekkert slíkt fram, heldur er það af einhverjum sökum túlkað sem svo að íslenska ríkið sé ábyrgt fyrir mistökum íslenskra einkafyrirtækja. Þetta er alveg andstætt inntakinu í tilskipununum, tilskipun 94, 2002 og öllum öðrum sem málið varða. [Hér er líklega vísað í tilskipun 2002/87/EB um viðbótareftirlit með fjármálafyrirtækjum.] Ákvörðun um að breyta skuldum einkafyrirtækja í skuld ríkisins gæti aðeins tekið gildi eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta hefur verið í gildi frá því í byltingunum á 18. öld. Ríkið getur ekki tekið peninga af þegnum sínum af því að það vilji lána einhverjum öðrum féð. Það ættu að vera lög um þetta og það er heldur ekkert sem kveður á um þetta í tilskipun 94 og ekki heldur í tilskipun 2008. Eða 2002 öllu heldur.

EH: Viltu þá meina að Ísland...

AL: Í öðru lagi...

EH: Haltu áfram.

AL: Það er ekkert af því tagi þarna. En varðandi ábyrgð ríkisins kemur skýrt fram í tilskipun 94 að ríkinu ber að benda bönkum á að reka almennilegan tryggingasjóð. Hvað gerist ef banki hefur höfuðstöðvar sínar utan ESB? Tilskipun 94 er skýr hvað þetta varðar og líka mín tilskipun [sú frá 2002]; það er á ábyrgð heimaríkisins [leiðréttir sig síðar að hér sé átt við gistiríki] að láta yfirvöld í landinu þar sem nýju höfuðstöðvarnar [á vafalaust að vera ný starfsstöð] eru vita að tryggingin sé ekki næg og bankinn verði því að greiða í sjóð í viðkomandi landi; þar sem bankinn er með þessa starfsemi. Ríkisstjórnir gestgjafanna, þ.e. sú breska og hollenska, hefðu átt að gera útibúum Icesave alveg ljóst að tryggingasjóðurinn á Íslandi væri of veikburða og að útibúin yrðu að greiða í breska og hollenska sjóði.

EH: Bretar og Hollendingar brugðust þá í þessu.

AL: En núna... Já, þeir brugðust. Það er því ljóst að bresku og hollensku ríkisstjórnirnar verða að greiða breskum og hollenskum innstæðueigendum í breskum og hollenskum dótturfyrirtækjum Icesave [ATH: ranglega þýtt sem dótturfyrirtæki eingöngu en Alain er í raun að tala um bæði útibú og dótturfyirtæki ('branches and subsidiaries')!]. Þetta liggur ljóst fyrir í tilskipun 94. Ef ríkisstjórnirnar fallast ekki á þetta er hægt að skjóta málunum til Evrópudómstólsins sem gerir út um slík mál. Þeir hafa engan rétt til að beita hryðjuverkalögum til að gera upptækar eigur Íslendinga í Bretlandi. Ekki nema þeir haldi því fram að Ísland sé hryðjuverkaríki sem fjármagni al-Kaída. En þá yrðu þeir að sanna það.

EH: Þú telur þá ábyrgðina í raun fremur hvíla hjá Hollendingum og Bretum en Íslendingum?

AL:  Að sjálfsögðu. Eina tryggingin sem kveðið er á um í tilskipun 94 á við ríkið þar sem starfsemin er, ekki heimalandið. Þetta varð að almennri reglu þegar tilskipanirnar tóku breytingum eftir árið 2000. Þetta á til dæmis við um mína tilskipun vegna eftirlits með fjármálastofnunum. Í þessari nýju kynslóð tilskipana er spurt, í alþjóðlegu samhengi; hvað skal gera við banka sem eiga sínar höfuðstöðvar í landi utan ESB þegar megnið af innstæðum og starfsemi bankans fer fram í einhverju ESB-ríki. Í nýju tilskipununum kemur fram að eftirlit skuli vera á ábyrgð yfirvalda í landinu þar sem aðalstarfsemin fer fram. Í þessu tilfelli eru það bresk yfirvöld.

EH: Eigum við þá að semja um allt saman upp á nýtt? Eru allir samningapappírarnir eins og þeir eru nú einskis virði?

AL: Að mínu mati var nálgun hollenskra og breskra stjórnvalda sú að forðast lagalega umfjöllun. Þau vissu að staða þeirra væri lagalega afar veik innan Evrópusambandsins og að þau hefðu tapað málinu fyrir Evrópudómstólnum. Því hegðuðu Bretar og Hollendingar sér eins og í vestra eða í Amazon-skóginum í Brasilíu. Þeir neyttu semsagt aflsmunar til að gera Ísland að því sem kallast á spænsku peon. Í Suður-Ameríku eru peones menn sem eru svo fátækir að þeir gerast þrælar þess sem getur lánað þeim fé. En þeir þurfa alltaf að endurgreiða skuldirnar. Það sem Bretar reyndu að þvinga upp á Ísland var þetta: Ég lánaði þér peningana en þú verður að endurgreiða þá kynslóðum saman. Til dæmis jafngildir vaxtaupphæðin milli áranna 2017 og 2024 hálfri skuldinni vegna Icesave.

EH: Eva, eins og þú sagðir er Alain Evrópuþingmaður og hefur tekið þátt í að semja tilskipanirnar.

EJ: Hann samdi eina tilskipunina sjálfur svo hann þekkir þær vel. Mig langar að segja þér dálitla sögu. Þegar ég fékk áhuga á þessu vandamáli eftir að hafa hitt Íslendinga að máli ræddi ég þetta við Alain vegna þess að ég vissi að hann hafði mikla þekkingu á þessum tilskipunum. Hann sagði mér frá þessari lausn. Saman skrifuðum við til forstjóra AGS, hr. Strauss-Kahn, og sögðum honum að lausnin sem Bretar og Hollendingar vildu væri ekki lögleg og að við skildum ekki hvernig AGS gæti komið fram sem málsvari innheimtu fyrir hönd ákveðinna aðildarríkja. Við sendum þetta skeyti á netfang hans hjá sjóðnum og á hans einkanetfang. Hann svaraði okkur ekki.

EH: Það var leitt. Eitt að lokum. Nú greiðir þjóðin atkvæði um Icesave-samninginn eftir um tvo mánuði. Hvernig vilt þú gera málið upp, Eva?

EJ:  Ég vil að samið verði upp á nýtt áður en kemur til þjóðaratkvæðagreiðslunnar til að verja hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Eins og ég sagði þér áðan er almenningsálitið að snúast. Áður voru flestir á bandi Breta og Hollendinga en ekki lengur, að ég tel. Nú ætti að vera mögulegt að fara fyrir gerðardóm og biðja ESB um aðstoð og finna svo betri lausn. ... ... ...


mbl.is Segir misskilnings gæta hjá Lipietz
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Góð færsla og greinilegt að Ólína Þorvarðardóttir hefur heldur betur hlaupið á sig í sínum útskýringum.  Ekki í fyrsta sinn hjá henni, því miður.

Og sama má segja um Björn Val Gíslason.

Sigurður Sigurðsson, 12.1.2010 kl. 08:07

2 identicon

Takk fyrir þetta en getur verið að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að við erum aðilar að EES. Hann talar um ríki utan ESB, sem við erum klárlega en hins vegar erum við aðilar að EES. Sjá tilkynningu frá ríkisstjórninni í gærkveldi.

http://www.visir.is/article/2010831763519

Þorsteinn (IP-tala skráð) 12.1.2010 kl. 10:44

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk fyrir þetta.  Oft er gott að þekkja frumgögnin áður en menn blása og mása!

Marinó G. Njálsson, 12.1.2010 kl. 11:07

4 identicon

"Hvað gerist ef banki hefur höfuðstöðvar sínar utan ESB?"

spyr Lipietz og verð viðtalinu í að svara því.

Hann ítrekar misskilning sinn hér:

"Í þessari nýju kynslóð tilskipana er spurt, í alþjóðlegu samhengi; hvað skal gera við banka sem eiga sínar höfuðstöðvar í landi utan ESB þegar megnið af innstæðum og starfsemi bankans fer fram í einhverju ESB-ríki. Í nýju tilskipununum kemur fram að eftirlit skuli vera á ábyrgð yfirvalda í landinu þar sem aðalstarfsemin fer fram. Í þessu tilfelli eru það bresk yfirvöld."

Vandinn við þennan rökstuðning er að hann á ekki við Icesave sem rekið var í útibúi íslensks banka sem er með höfuðstöðvar innan ESB í skilningi beggja þessara tilskipana. Í báðum tilskipunum er alveg skýlaust að ábyrgðin liggur hjá því aðildarríki þar sem bankinn er með höfðustöðvar eða veitt hefur móðurfélagi fjármálasamsteypu starfsleyfi.

Tek því hjartanlega undir með Marínó sem hvetur fólk til að skoða frumgögnin áður en byrjað er að blása.

Arnar (IP-tala skráð) 12.1.2010 kl. 11:38

5 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Gott hjá þér Guðmundur að setja þetta viðtal upp. Ég hef fjallað um sama mál í bloggum mínum og blaðaskrifum og komist að sömu niðurstöðu og Alain Lipietz núna staðfestir.

Þorsteini get ég sagt að Alain gerir sér fullkomlega grein fyrir að við erum í EES. Það er einmitt málið, að ekki eru allir jafnir innan þess samstarfs.

Arnar er að bulla og augljóst að hann hefur ekki nennt að kynna sér málið.

Alain Lipietz staðfestir það sem ég hef sagt um Icesave !

Loftur Altice Þorsteinsson, 12.1.2010 kl. 15:53

6 Smámynd: Fannar frá Rifi

Arnar, mér þætti vænt um ef þú upplýstir mig og aðra um það hvenær Ísland gekk í ESB. Ísland er í Evrópska Efnahagssvæðinu EES, ekki í ESB.

Fannar frá Rifi, 12.1.2010 kl. 18:10

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir athugasemdirnar, líka þær sem ég er ekki endilega sammála. ;)

Ef að flækjustigið í málum sem tengjast ESB er svona rosalegt að það veldur bara misskilningi að því er virðist á báða bóga, vernig verður það þá ef við göngum inn í þetta bákn? Miðað hvað Íslendingar geta verið þrasgjarnir þá mun það leiða til þess að við eyðum öllum okkar tíma í að rífast um túlkanir á tilskipunum sem eru óljósar og jafnvel ósamrýmanlegar. Og komum engu af því sem máli skiptir í verk á meðan!

Guðmundur Ásgeirsson, 12.1.2010 kl. 19:43

8 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæll Guðmundur frábært framtak og góð þýðing.

Kv. Sigurjón Vigfússon

Rauða Ljónið, 12.1.2010 kl. 19:57

9 identicon

Guðmundur !  TAKK FYRIR ÞESSA FRÁBÆRU ÞYÐINGU , langar að spurja þig hvert þú hefur sent hana á Þingmenn   og RIKISSTJORN !"!. Vinsamleg tilmæli að byðja þig að gera það ! Þvi það er ekki bara Ólina OG Björn Valur sem misskilja   Islendingar almenn eru ekki góðir i Ensku , hvorki tala ne skilja og það er búið að skapa augljos vandamál , Oft !!  takk fyrir

Ransy (IP-tala skráð) 12.1.2010 kl. 21:53

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þýðingin er ekki mín heldur skrifaði ég hana bara upp eftir íslenska textanum í endursýningunni á RÚV. Takk samt fyrir jákvæðar undirtektir.

Eins og ég skil Lipietz þá var hann ekki að tala um hvort tryggingasjóður heimaríkisins eða gistiríkisins bæri ábyrgð á innstæðum samkvæmt tilskipun 94/19/EB. Heldur ábyrgð gistiríkisins (í þessu tilviki Bretlands og Hollands) á því að halda úti fjármálaeftirliti á eigin markaði í samræmi við tilskipun 2002/87/EB, en það er sú tilskipun sem Lipietz átti þátt í að semja á sínum tíma. Eins og ég skil það þá vill hann meina að þar hafi fjármálaeftirlit Breta og Hollendinga brugðist tilskipuninni frá 2002 á nákvæmlega sama hátt og íslenski tryggingasjóðurinn brást hlutverki sínu gagnvart innstæðueigendum samkvæmt tilskipuninni frá '94. Lykilatriði í þessu sambandi er að skv. tilskipun 2002/87 ber gistiríkið ábyrgð á eftirlitinu (Bretland/Holland), en hinsvegar er það tryggingasjóður í heimaríkinu sem ber ábyrgð á innstæðunum og ekki heimaríkið sjálft vegna þess að samkvæmt tilskipun 94/19 á sjóðurinn að vera einkarekinn án ríkisábyrgðar. Þetta er alveg ný nálgun á málið sem hefur ekki áður komið fram mér vitandi.

Guðmundur Ásgeirsson, 12.1.2010 kl. 22:21

11 identicon

Af hverju lesið þið ekki bara tilskipunina frá 2002 um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum? Hún er aðgengileg í íslenskri þýðingu: http://brunnur.stjr.is/ees.nsf/pages/004DFF613E269333002570BD0052353C/$file/302L0087.pdf

Þar getið þið fengið staðfest að Alain Lipietz er að gera nákvæmlegu sömu mistökin og varðandi tilskipunina um innstæðutryggingar, þ.e. að samræmingaraðili viðbótareftirlits á að vera tilnefndur af heimaríki móðurfélags eða því ríki sem gaf eftirlitsskyldum aðila starfsleyfi þegar um er að ræða ríki innan ESB/EES (Fannar frá Rifi, aðild að EES jafngildir aðgangi að innri markaði ESB með þeim reglum sem þar gilda).

Þegar um er að ræða fjármálasamsteypu þar sem móðurfélag eða hinn eftirlitsskyldi aðili er frá landi utan ESB/EES þá er það gistiríkið sem ber ábyrgð á að ganga úr skugga um að sambærilegt eftirlit sé í heimalandinu og ef ekki þá á að koma slíku upp með starfseminni í gistiríkinu. 

Svo Alain er því miður að snúa hlutunum á haus í þessu tilviki líka og rökin væru skiljanleg ef við stæðum utan sameiginlega markaðarins. 

Órökstuddar fullyrðingar um bull duga skammt gegn staðreyndum Loftur. Ég endurtek að allar frumheimildir eru aðgengilegar og miklu nær fyrir ykkur að skoða þær í rólegheitunum en grípa upp misskilning.

Arnar (IP-tala skráð) 12.1.2010 kl. 23:57

12 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Guðmundur, þetta er nærstum rétt skilið hjá þér og um þetta hef ég fjallað í bloggum og í Morgunblaðinu.

 

Innistæðu-trygginga-kerfi heima-ríkisins sér um trygginguna eftir beztu getu, en gisti-ríkið innan ESB sér um eftirlitið ef bankinn sem rekur útibúið er með höfuðstöðvar utan ESB.

 

Eftirlit gisti-ríkisins innifelur eftirlit með tryggingum, hvað varðar útibúið. Eftirlit gisti-ríkisins getur til dæmis fyrirskipað útibúinu að tryggja í tryggingakerfi gisti-ríkisins.

 

Ekki er rétt hjá þér að jafna fjármáleftirliti Breta og Hollendinga við Íslendska tryggingasjóðinn. Ekki er heldur alveg rétt það sem þú segir í nærst síðustu setningunni. Tryggingasjóður heimaríkis ber einungis ábyrgð með innistæðum, en hefur þó heimild til að taka lán ef einhver vill lána honum.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 13.1.2010 kl. 00:14

13 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Arnar skilur ekki ennþá meginatriðið, sem er að mismunur er gerður á milli banka sem eru með útibú innan ESB. Við erum auðvitað að skoða aðstæður innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ef banki frá Íslandi vill stofna útibú í Bretlandi þarf að fást leyfi frá Bretskum yfirvöldum. Bretsk yfirvöld hafa einnig allt eftirlit með rekstri útibúsins.

 

Ef banki frá Danmörku vill stofna útibú í Bretlandi, þá gildir það leyfi sem hann hefur í Danmörku og yfirvöld í Bretlandi koma ekkert að málinu. Það er vegna þess að bæði Danmörk og Bretland eru í ESB. Það er þessi mismunun sem bjargar okkur frá allri ábyrgð á Icesave.

 

Ég skora á menn að hætta að draga í efa þekkingu Alain Lipietz, sem er fremsti sérfræðingur Evrópu á þessu sviði.

  

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 13.1.2010 kl. 00:28

14 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir þetta Loftur, þú útskýrir þetta mjög vel.

Arnar, ég var búinn að setja þennan link út um allt þar sem ég minnist á tilskipun 2002/87/EB. Ég hef hinsvegar ekki ennþá gefið mér tíma til að lesa hana enda er þessi vinkill á málið nýr fyrir mér þó hann hafi ekki áhrif á afstöðu mína sem er sú að við eigum að afhenda þeim þrotabú Landsbankans í "þakkarskyni" fyrir beitingu hryðjuverkalaga og láta þar við sitja. Siðferðilega tel ég ekki rétt að borga neinar skaðabætur til þeirra sem hafa skaðað okkur.

Guðmundur Ásgeirsson, 13.1.2010 kl. 01:56

15 identicon

Ríkisendurskoðun hefur áður lagt til að ríkisreikningsnefnd taki til skoðunar hvort fella beri Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta úr D-hluta ríkisreiknings. Að mati stofnunarinnar eru ekki lagalegar forsendur fyrir birtingu sjóðsins í ríkisreikningi enda getur hann með engu móti talist eign ríkisins og það ber heldur ekki ábyrgð á skuldbindingum hans.

http://www.rikisend.is/files/skyrslur_2008/Endurskodun_rikisreiknings_2007.pdf

bls. 57

Nonni (IP-tala skráð) 13.1.2010 kl. 16:26

16 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það sem er stórmerkilegt við þetta er,  að Lipietz - og jafnvel Eva líka - virðast ekki þekkja til EEA Areement  (Óportósamninginn)

Þetta er alveg rétt hjá Arnari,  að nákvæmkega sama misskilnings virðist gæta hjá Lipietz gagnvart Rammalögum 2002/87 og 94/19 þ.e. að því leiti að hann áttar sig eigi á Óportósamkomulaginu og afleggjurum þess.

En að vísu, að vísu sko, verður maður oft var við að fólk útí evrópu veit ekkert af tilvist hans.  Segir:  Haa ? E hvað etc.  Hefur bara aldrei heyrt um það.

Veit ekki, en þetta er helv. neyðarlegt. 

(En varðandi það sem sumir spurja,  erum við þá í ESB o.s.frv. ?   Þá er því til að svara, að ég er margúinn að útskýra það atriði fyrir fólki.  Við erum að stórum hluta inní ESB !  Það sem breytist fyrst og fremst við aðild, að þá aukast áhrif Íslands og þar með fullveldið)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.1.2010 kl. 23:41

17 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Nonni: Nákvæemlega þetta hef ég óspart reynt að benda fólki á, ásamt öðrum rökum gegn ríkisábyrgð t.d. þeim að hún er BÖNNUÐ !

Ómar:  Bara enn meira tilefni til að endurskoða aðildina að EES. Ef við værum ekki í EES þá hefði IceSave aldrei getað orðið til nema sem breskt og/eða hollenskt fyrirtæki sem Íslendingar hefðu aldrei þurft að hafa áhyggjur af.

Guðmundur Ásgeirsson, 15.1.2010 kl. 17:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband