Misskilningur # 2 um IceSave
6.1.2010 | 00:45
Fátt hefur verið um annað rætt í dag en þau sögulegu tíðindi að Forseti Íslands hefur í annað sinn neitað að samþykkja lög frá Alþingi og vísað þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu. Í fyrra skiptið varð atkvæðagreiðslan reyndar aldrei að veruleika því viðkomandi lög voru felld úr gildi en í þetta sinn er annað uppi á teningnum og allt stefnir í að 26. grein stjórnarskrárinnar verði virkjuð í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins. Burtséð frá afstöðu til IceSave málsins hlýtur að mega telja þetta jákvætt svar við háværum kröfum um aukna aðkomu kjósenda að hinu lýðræðislega ferli.
Því miður virðist gæta þess misskilnings* í erlendum fjölmiðlum að með þessu sé verið að hafna því að innstæðueigendur fái tjón sitt bætt, þrátt fyrir að bresk og hollensk yfirvöld séu í reynd löngu búin að greiða bætur til tjónþolanna. Það eina sem eftir stendur er fjárhagslegt uppgjör þess kostnaðar við íslenska tryggingasjóðinn, sem hin erlendu stjórnvöld hafa einhverra hluta vegna ákveðið að snúa upp í deilumál við íslenska ríkið þrátt fyrir að tryggingasjóðurinn sé sjálfseignarstofnun. Það er heldur ekki satt að verið sé að hafna ríkisábyrgð á endurgreiðslunni, því þrátt fyrir synjun forsetans á þeim lagabreytingum sem Alþingi samþykkti á gamlársdag þá gilda lög nr. 96/2009 frá því í sumar ennþá óbreytt. Þar er fjármálaráðherra gefin heimild til að veita ríkisábyrgð með ákveðnum fyrirvörum, en það hefur hann hinsvegar ekki gert.
Svo virðast menn líka gleyma því að hvort sem er með ríkisábyrgð eða ekki þá hefur verið unnið að því hörðum höndum allan tímann að endurheimta eignir úr þrotabúi Landsbankans. Þær eignir ganga að langmestu leyti upp í kröfu tryggingasjóðsins sem hefur milligöngu um endurgreiðslu til Breta og Hollendinga. Meðal þeirra eigna sem þegar hafa verið seldar úr þrotabúinu er innlend starfsemi Landsbankans undir nafni NBI hf. sem íslenska ríkið eignast að meirihluta fyrir 348-410 milljarða. Sú upphæð er u.þ.b. helmingurinn af IceSave skaðabótunum, frekar hátt kaupverð í ljósi þess að bankinn var einkavæddur á sínum tíma fyrir aðeins 25 milljarða, en gott dæmi um þær bókhaldsbrellur sem ætlað er að tryggja margumræddar "95% endurheimtur" og "glæsilega niðurstöðu" í málinu.
Með öðrum orðum þá má færa rök fyrir því að við séum í raun þegar byrjuð að greiða skaðabætur vegna IceSave, þrátt fyrir að okkur greini á við kröfuhafana um greiðsluáætlun og aðrar tæknilegar útfærslur á lánasamningunum. Afhverju er ekki hver einast starfsmaður utanríkisráðuneytisins í símanum að útskýra þetta fyrir erlendu fjölmiðlafólki???
*Misskilningur #2 um IceSave. Misskilningur #1 er sá að við séum yfir höfuð skyldug til greiðslu.
Ákvörðun Íslands hneyksli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.