Persónuverndarlög og dreifing nektarmynda

Eftirfarandi pistill er byggður á minnisblaði undirritaðs frá 3. apríl 2017 um stafrænt kynferðisofbeldi (svokallað hrelliklám) með hliðsjón af lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 (pvl.).

Þessi grein er samin í tilefni af umfjöllun í íslensku samfélagi um athæfi sem stundum er kallað hrelliklám. Slíkt athæfi felur jafnan í sér upptöku nektarmynda eða myndefnis sem sýnir kynferðislega hegðun og er svo dreift síðar í óþökk þeirra sem sjást á þeim myndum.

Aðallega er fjallað um tvennskonar persónuupplýsingar í pvl. þ.e. annars vegar almennar persónuupplýsingar og hins vegar viðkvæmar persónuupplýsingar en eðli málsins samkvæmt gilda strangari reglur um viðkvæmar upplýsingar heldur en almennar. Samkvæmt d-lið 8. tl. 1. mgr. 2. gr. pvl. teljast „upplýsingar um kynlíf manna og kynhegðan“ vera viðkvæmar persónuupplýsingar, sem hlýtur að eiga við um myndir sem sýna nekt eða kynlífsathafnir og hafa kynferðislega skírskotun. Samkvæmt 2. tl. sama ákvæðis er hugtakið vinnsla skilgreint sem „Sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn.“ Að taka myndir af einstaklingum og dreifa þeim eftir rafrænum leiðum getur samkvæmt því talist fela í sér vinnslu persónuupplýsinga.

Samkvæmt 9. gr. pvl. er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga óheimil nema uppfyllt sé eitthvert af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. og enn fremur eitthvert af þeim níu skilyrðum sem talin eru upp í 1. mgr. 9. gr. Auk þess þarf öll vinnsla að uppfylla meginreglur 1. mgr. 7. gr. sem meðal annars eru þær að vinnslan þarf að vera sanngjörn og lögmæt, ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er í vinnslunni, og að upplýsingarnar séu aðeins notaðar í þeim tilgangi sem ætlað er en ekki öðrum ósamrýmanlegum tilgangi. Umræddar meginreglur eiga m.a. uppruna sinn að rekja til samnings Evrópuráðsins um vernd persónuupplýsinga frá 1981 sem Ísland fullgilti árið 1991 og eiga sér einnig stoð í 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu ásamt 71. gr. stjórnarskrárinnar sem kveða á um friðhelgi einkalífs.(1)

Stundum hefur verið bent á að myndefni af þessu tagi sé í einhverjum tilfellum tekið upp með samþykki viðkomandi í upphafi, en sé svo birt eða því miðlað í óþökk viðkomandi, til dæmis eftir að samband hlutaðeigandi aðila hefur versnað eða slitnað upp úr því. Samþykki er einmitt eitt þeirra skilyrða sem heimild til vinnslu persónuupplýsinga getur byggst á sbr. 1. tl. 1. mgr. 8. gr. og 1. tl. 1. mgr. 9. gr. pvl. Á hinn bóginn segir í 1. mgr. 28. gr. að hinn skráði, í þessu samhengi sá sem myndin er af, eigi rétt á að andmæla vinnslu persónuupplýsinga um sig, og séu þau andmæli réttmæt, eins og þau hljóta að vera í tilfellum sem þessum, þá sé frekari vinnsla óheimil. Jafnframt segir í 1. mgr. 25. gr. að eyða skuli persónuupplýsingum sem hafi verið skráðar án tilskilinnar heimildar. Enn fremur segir í 1. mgr. 26. gr. að skylt sé að eyða persónuupplýsingum þegar ekki sé lengur málefnaleg ástæða til að varðveita þær, sem getur til dæmis átt við eftir að samband aðilanna hefur versnað og sá sem sést á mynd vill ekki lengur að sú mynd sé varðveitt og hvað þá miðlað. Þá segir einnig í 2. mgr. 26. gr. að hinn skráði geti ávallt krafist þess að upplýsingum um sig sé eytt eða notkun þeirra bönnuð, teljist það réttlætanlegt út frá heildstæðu hagsmunamati. Samkvæmt slíku mati getur sá sem hefur tekið nektarmynd af öðrum, almennt séð ekki talist hafa neina réttmæta hagsmuni af því að varðveita hana í óþökk viðkomandi, heldur hefur sá sem sést á slíkri mynd þvert á móti ríka hagsmuni af því að henni sé eytt í tilfellum sem þessum. Enda telst friðhelgi einkalífs þess aðila til grundvallar mannréttinda eins og kemur fram í 71. gr. stjórnarskrárinnar sem og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994.

Af framangreindu leiðir að vinnsla persónuupplýsinga sem felst í miðlun nektarmynda eða myndefnis af kynferðislegum toga er almennt séð óheimil í óþökk viðkomandi og varðveisla slíks myndefnis er bönnuð gegn andmælum þeirra sem sjást á slíkum myndum. Samkvæmt því sem segir í 1. mgr. 42. gr. pvl. varða brot á ákvæðum þeirra laga fésektum eða fangelsi allt að þremur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

Persónuvernd er sú stofnun sem hefur eftirlit með framkvæmd pvl. samkvæmt 1. mgr. 37. gr. og samkvæmt 2. mgr. úrskurðar stofnunin í ágreiningsmálum um vinnslu persónuupplýsinga. Persónuvernd tekur mikinn fjölda slíkra mála til meðferðar á hverju ári, en í einu tilfelli var um að ræða svo alvarlegt brot að stofnunin ákvað að kæra málið til lögreglu.(2) Þá var um að ræða fjarskiptafyrirtæki sem hafði unnið úr og notað upplýsingar úr farsímakerfinu um símnotkun viðskiptavina annars fjarskiptafyrirtækis sem það var í samkeppni við en athæfið braut einnig í bága við fjarskiptalög. Það blasir því við að birting og miðlun nektarmynda í óþökk þeirra sem slíkar myndir eru af, hljóti að vera að minnsta kosti jafn alvarlegt lögbrot og misnotkun upplýsinga um farsímanotkun, jafnvel mun alvarlegra.

Þeir sem hafa orðið fyrir því að viðkvæmum myndum af þeim hafi verið dreift eða þær birtar í þeirra óþökk, geta beint kvörtun yfir því til Persónuverndar, auk þess að sjálfsögðu að kæra brotið til lögreglu. Jafnframt gæti brotaþoli krafið hinn brotlega um miskabætur á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga vegna ólögmætrar meingerðar gegn frelsi, friði, æru eða persónu sinnar. Slíka skaðabótakröfu má setja fram í sakamáli sem getur veitt brotaþola það hagræði að þurfa ekki að höfða einkamál til að sækja sér miskabætur.

Að endingu er rétt að benda á þau ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (hgl.) sem kunna að eiga við um athæfi sem þetta. Þar liggur beinast við að nefna 209. gr. um brot gegn blygðunarsemi þar sem refsiramminn nær allt að 4 árum fyrir alvarleg brot en 6 mánuðum fyrir smávægileg brot. Til hliðsjónar má nefna 199. gr. um kynferðislega áreitni en þar er þó aðeins 2 ára refsirammi, eða 229. gr. um brot gegn friðhelgi einkalífs en þar er refsiramminn þó aðeins 1 ár og verður sök aðeins sótt í einkarefsimáli sbr. 3. tl. 242. gr. hgl.

Samkvæmt framangreindu getur verið við hæfi að byggja ákæru vegna ólögmætrar dreifingar myndefnis sem sýnir nekt eða er af kynferðislegum toga, á bæði 209. gr. hgl. og 42. gr. pvl. Blygðunarsemisákvæðið hefur hærri refsiramma, en sérrefsiákvæðið í pvl. getur þjónað þeim tilgangi að undirbyggja betur verknaðarlýsinguna enda innihalda lögin ítarlegar skilgreiningar á því hvenær tiltekin vinnsla persónuuplýsinga er heimil og hvenær ekki, sem er tvímælalaust til þess fallið að styðja við skýrleika refsiheimildarinnar. Þess má geta að í þeim málum sem nú þegar hafa komið til kasta dómstóla af þessu tagi hafa fangelsisrefsingar gjarnan verið ákvarðaðar til nokkurra mánaða, oftast innan við eitt ár. Virðist því refsiramminn samkvæmt pvl. vera nægilega víður til að rúma hæfilegar refsingar fyrir athæfi af þessu tagi.

Tilvísanir:

(1) II. og III. kafli greinargerðar með frumvarpi til persónuverndarlaga

(2) Úrskurður Persónuverndar í máli nr. 2010/488


mbl.is Kæra ólöglega dreifingu á nektarmyndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Röng hugtakanotkun um þjóðerni lána

Í meðfylgjandi frétt gætir misvísandi og rangrar hugtakanotkunar um þjóðerni lána, sem hefur verið þrálát í umræðu um slík lán. Talað er jöfnum höndum um "lán í erlendri mynt" og "erlend lán". Þetta tvennt er þó engan veginn jafngilt.

Það sem ræður því hvort lán er "innlent" eða "erlent" er einfaldlega hvort það er tekið í heimalandi lántakandans eða í öðru landi. Þannig er lán sem íslenskur aðili tekur hjá íslenskum banka alltaf íslenskt lán, óháð gjaldmiðli þess.

Ef íslenskur aðili myndi aftur á móti taka lán hjá erlendum banka t.d. Deutsche Bank þá væri það erlent lán, alveg óháð því hvaða gjaldmiðlar eru lánaðir. Ef þýski bankinn myndi lána íslenskar krónur þá væri það samt erlent lán.

Gjaldmiðill lánsfjár ræður ekki skilgreiningu á þjóðerni láns heldur ræðst það af því hvort þjóðerni lánveitanda og lántaka er það sama eða ólíkt. Íslensk lán mega vera í hvaða gjaldmiðli sem er, líkt og ef ég myndi fá lánaða 100 dollara hjá nágranna mínum.

Rétt er þó að taka fram að það er ennþá ólöglegt á Íslandi að tengja lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Slíkt fyrirkomulag tíðkaðist áður en það breytir engu um að slík lán eru íslensk og í íslenskum krónum. Gengisviðmiðunin er einfaldlega ólöglegt form verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum.


mbl.is Áhætta vegna vægis erlendra lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostuleg rangfærsla dómsmálaráðherra

Á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um uppreist æru sem haldinn var á Alþingi í morgun lét dómsmálaráðherra svohljóðandi ummæli falla (59:22):

"Er sanngjarnt að halda því fram að til dæmis einhver sem gaf umsögn í máli árið 1995, að hann hafi mátt þá vænta þess að nafnið hans yrði komið inn á eitthvað internet árið 2017? Það var ekki búið að finna upp internetið, sko, þá." [þ.e. árið 1995]

Ráðherrann heldur kannski líka að Al Gore hafi fundið upp internetið?

Til fróðleiks eru hér nokkrir lykilatburðir í þróun internetsins:

  • Október 1962: Rannsóknarstofnun varnarmála í Bandaríkjunum (DARPA) hefur þróun á þeirri tækni sem síðar varð að internetinu.
  • September 1969: Fyrsti netþjóninn gangsettur við Kaliforníuháskóla.
  • Október 1969: Fyrsta skeytið sent milli tveggja netþjóna.
  • 1971: Ray Tomlinson sendir sjálfum sér fyrsta tölvupóstinn.
  • Maí 1974: TCP/IP samskiptastaðallinn birtur opinberlega í fagtímariti og verður í kjölfarið grundvöllur internetsins eins og það þekkist í dag.
  • 1980-1990: Ýmsir þjónustuaðilar koma fram á sjónarsviðið sem bjóða almennum notendum aðgang að internetinu.
  • 1986: Vísir að netvæðingu hefst á Íslandi.
  • 21. júlí 1989: Ísland tengist hinu eiginlega interneti.
  • 1989: Tim Berners-Lee finnur upp veraldarvefinn.
  • 1991: Tim Berners-Lee gefur út fyrsta vafrann.
  • 1993: Fyrsta netþjónustufyrirtækið stofnað á Íslandi sem gefur almenningi kost á aðgangi að internetinu.
  • 1995: Aðgangur að internetinu opnaður að fullu fyrir almenning og fyrirtæki í Bandaríkjunum.

Af þessum staðreyndum má ráða að internetið var ekki fundið upp á einum degi enda er það ekki ein uppfinning heldur samansafn margra. Engu að síður er morgunljóst að það varð til löngu fyrir árið 1995 þegar það var orðið aðgengilegt almenningi víðast hvar í Ameríku og Evrópu. Þrátt fyrir ýmislegt sem á undan hefur gengið er þó örugglega hægt að fyrirgefa ráðherranum að hafa ekki þessar tilteknu staðreyndir alveg á hreinu.


mbl.is Sigríður: „Afskaplega ómaklegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögfestum stöðugasta gjaldmiðil heims

Það er ekki oft sem til er lausn á einhverju samfélagslegu viðfangsefni sem uppfyllir kröfur allra sem hafa ólíkar skoðanir á því hvað sé besta lausnin á því. Þegar um er að ræða framtíð peningamála á Íslandi takast jafnan á tveir hópar sem eru algjörlega á öndverðum meiði. Annars vegar þeir sem finnst núverandi króna ómöguleg og vilja taka upp það sem þeir kalla "stöðugan" gjaldmiðil (án þess þó að hafa nokkru sinni bent á neinn slíkan). Hins vegar þeirra sem gera sér grein fyrir þeim hættum sem myndu fylgja afsali fullveldis Íslands í peningamálum og vilja því halda í krónuna til að varast þær hættur.

Svo virðist sem hvorugur hópurinn hafi gert sér grein fyrir því að það fyrirfinnst einföld lausn á þessu ágreiningsefni sem kemur fyllilega til móts við sjónarmið beggja þessarra ólíku hópa. Sú lausn felst í því að taka einfaldlega verðtryggðu krónuna upp sem lögeyri á Íslandi, en til þess þyrfti aðeins að bæta einu orði við lögeyrislögin.

Þessi lausn kemur til móts við bæði sjónarmiðin. Annars vegar myndi hún fela í sér upptöku gjaldmiðils sem er ekki aðeins stöðugur heldur bókstaflega sá stöðugasti sem fyrirfinnst á yfirborði jarðar, því verðtryggða krónan tapar aldrei neinu af verðmæti sínu sama hvaða áföll dynja yfir. Hins vegar þeirra sem vilja af góðum og gildum ástæðum ekki grafa undan fullveldi Íslands, en með upptöku verðtryggðrar krónu yrði engu fórnað af því fullveldi og ef eitthvað er yrði það fest mun betur í sessi en hingað til hefur verið.

Auk alls þessa myndi upptaka verðtryggðrar krónu hafa í för með sér ýmsar mjög eftirsóttar hliðarverkanir. Í fyrsta lagi afnám verðbólgu, sem myndi leiða af sjálfu sér ef verðlag yrði mælt í gjaldmiðli sem samkvæmt skilgreiningu sinni rýrnar aldrei að verðgildi. Í öðru lagi yrði verðtrygging fjárskuldbindinga óþörf markleysa þar sem í reynd yrðu allar fjárskuldbindingar verðtryggðar óháð því hvort kveðið verði á um það sérstaklega í samningum. Í þriðja lagi talsverða og varanlega vaxtalækkun ef eitthvað er að marka kenningar hagfræðinga um slíkt því þá yrði sjálfkrafa óþarfi að reikna álag ofan á vexti vegna væntinga og óvissu um framtíðarverðbólgu. Jafnframt yrði auðveldara fyrir almenning og fyrirtæki að gera áætlanir til langs tíma, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Augljóslega er þetta besti valkosturinn og sá sem er öðrum fremur til þess fallinn að skapa sátt og samlyndi um fyrirkomulag peningamála á Íslandi. Hér með er því lagt til að opinberlega verði teknir til skoðunar með formlegum hætti, kostir og gallar þess að lögfesta verðtryggðu krónuna sem framtíðargjaldmiðil Íslands.


mbl.is Óbreytt ástand „óforsvaranlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tillaga að útfærslu...

...á mislægum gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar ("Sprengisandur"):

http://bofs.blog.is/users/10/bofs/img/sprengisandur-teikning.jpg

Þessi tillaga hefur legið hér frammi frá árinu 2008. Hún hefur þann ótvíræða kost að vera laus við alla þverun þannig að ekkert hindrar frjálst flæði umferðar. Til að mynda á umferð frá Bústaðavegi greiða leið upp í Ártúnsbrekku án þess að þurfa að fara í gegnum neinar sérstakar slaufur. Veitingahúsið við Sprengisand gæti jafnvel staðið áfram á sínum stað þó það yrði reyndar lokað inni í einni umferðarslaufunni, en bensínstöðina sem er þar við hlið þyrfti líklega að færa eilítið til norðvesturs.

Til samanburðar má sjá núverandi gatnamót hér fyrir neðan.

http://bofs.blog.is/users/10/bofs/img/sprengisandur-skipulag.jpg

Einnig loftmyndir hér.


mbl.is Borgin vill viðræður um gatnamót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söngvakeppnin: Hljóðstjórn ábótavant

RÚV virðist hafa brugðist við gagnrýni undanfarinna daga á hljóðblöndun í útsendingum frá forkeppnum evrópsku söngvakeppninnar með því að senda úrslitakvöldið hér á Íslandi út óhljóðblandað. Ég vona þeirra vegna sem keyptu sig inn á viðburðinn að þetta...

545 milljarðar frá hruni

Uppsafnaður hagnaður nýju bankanna frá stofnun þeirra í kjölfar hruns fjármálakerfisins nemur nú samtals 545 milljörðum króna sem hafa verið teknar út úr hagkerfinu og þar með úr höndum almennings. Stærstan hluta þess tíma hefur ríkt kreppa og samdráttur...

Tvöfalt ríkisfang veldur vandræðum

Í frétt RÚV sem er endursögð hér á mbl.is segir meðal annars: "...kennara frá Wales, sem var á leið til Bandaríkjanna með nemendum sínum, var vísað frá borði í Keflavík þann 16. febrúar þegar hann millilenti hér á leið vestur um haf." Af gefnu tilefni...

Röng þýðing: "Æfing" er ekki lagahugtak

Því miður virðast hafa orðið "þýðingarmistök" við endurritun viðtengdrar fréttar um þróun mála vestanhafs varðandi tilskipun Bandaríkjaforseta um svokallað ferðabann. Samkvæmt tilvitnun Washington post (innan gæsalappa) er textinn sem um ræðir...

Flatjarðarkenningar um afnám verðtryggingar

Meðal umtöluðustu kosningaloforða í seinni tíð eru þau fyrirheit sem gefin voru í aðdraganda síðustu kosninga um afnám verðtryggingar neytendalána. Nú þegar langt er liðið á kjörtímabilið bólar hinsvegar ekkert á efndum þeirra fyrirheita. Jú, það var...

Ekki afnám heldur aukning verðtryggingar

Á uppfærðri þingmálaskrá ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar, er ekki að finna neitt frumvarp um afnám verðtryggingar. Ekki einu sinni um að taka þau hænuskref að afnema verðtryggingu 40 ára jafngreiðslulána eða lána sem veitt eru til styttri tíma...

Tuttuguþúsund mótmælendur

Bara svo að það sé á hreinu þá var Austurvöllur gjörsamlega smekkfullur á milli 17:00 og 19:00 og ekki nóg með það heldur voru allar aðliggjandi götur líka troðnar af fólki. Til sönnunar því eru myndir sem teknar voru á staðnum. Hafandi verið viðstaddur...

Íslenska krónan stöðugasti gjaldmiðillinn

Greiningardeild Arion banka hefur gefið út afar athyglisverða greiningu á gengisflökti nokkurra gjaldmiðla miðað við evru. Meðal þeirra eru allir helstu gjaldmiðlar sem notaðir eru í alþjóðlegum viðskiptum eins og Bandaríkjadalur, japanskt jen, og...

Uppskrift að lausn húsnæðisvandans

Ríkisskattstjóri er sagður hafa sett sig í samband við Airbnb og sambærileg fyrirtæki sem hafa milligöngu um skammtímaleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna, í því skyni að gera grein fyrir íslenskum reglum um svokallað gistináttagjald. Það er þarft og gott...

Óhagstæðari en 3,2% verðtryggt?

Fé­lags­bú­staðir hafa óskað eft­ir því að 500 millj­óna króna lán­taka fé­lags­ins hjá Lána­sjóði sveit­ar­fé­laga verði tryggð með veði í út­svar­s­tekj­um Reykja­vík­ur­borg­ar. Beiðnin var tek­in fyr­ir á fundi borg­ar­ráðs í gær og var samþykkt að...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband