Lögfestum stöðugasta gjaldmiðil heims

Það er ekki oft sem til er lausn á einhverju samfélagslegu viðfangsefni sem uppfyllir kröfur allra sem hafa ólíkar skoðanir á því hvað sé besta lausnin á því. Þegar um er að ræða framtíð peningamála á Íslandi takast jafnan á tveir hópar sem eru algjörlega á öndverðum meiði. Annars vegar þeir sem finnst núverandi króna ómöguleg og vilja taka upp það sem þeir kalla "stöðugan" gjaldmiðil (án þess þó að hafa nokkru sinni bent á neinn slíkan). Hins vegar þeirra sem gera sér grein fyrir þeim hættum sem myndu fylgja afsali fullveldis Íslands í peningamálum og vilja því halda í krónuna til að varast þær hættur.

Svo virðist sem hvorugur hópurinn hafi gert sér grein fyrir því að það fyrirfinnst einföld lausn á þessu ágreiningsefni sem kemur fyllilega til móts við sjónarmið beggja þessarra ólíku hópa. Sú lausn felst í því að taka einfaldlega verðtryggðu krónuna upp sem lögeyri á Íslandi, en til þess þyrfti aðeins að bæta einu orði við lögeyrislögin.

Þessi lausn kemur til móts við bæði sjónarmiðin. Annars vegar myndi hún fela í sér upptöku gjaldmiðils sem er ekki aðeins stöðugur heldur bókstaflega sá stöðugasti sem fyrirfinnst á yfirborði jarðar, því verðtryggða krónan tapar aldrei neinu af verðmæti sínu sama hvaða áföll dynja yfir. Hins vegar þeirra sem vilja af góðum og gildum ástæðum ekki grafa undan fullveldi Íslands, en með upptöku verðtryggðrar krónu yrði engu fórnað af því fullveldi og ef eitthvað er yrði það fest mun betur í sessi en hingað til hefur verið.

Auk alls þessa myndi upptaka verðtryggðrar krónu hafa í för með sér ýmsar mjög eftirsóttar hliðarverkanir. Í fyrsta lagi afnám verðbólgu, sem myndi leiða af sjálfu sér ef verðlag yrði mælt í gjaldmiðli sem samkvæmt skilgreiningu sinni rýrnar aldrei að verðgildi. Í öðru lagi yrði verðtrygging fjárskuldbindinga óþörf markleysa þar sem í reynd yrðu allar fjárskuldbindingar verðtryggðar óháð því hvort kveðið verði á um það sérstaklega í samningum. Í þriðja lagi talsverða og varanlega vaxtalækkun ef eitthvað er að marka kenningar hagfræðinga um slíkt því þá yrði sjálfkrafa óþarfi að reikna álag ofan á vexti vegna væntinga og óvissu um framtíðarverðbólgu. Jafnframt yrði auðveldara fyrir almenning og fyrirtæki að gera áætlanir til langs tíma, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Augljóslega er þetta besti valkosturinn og sá sem er öðrum fremur til þess fallinn að skapa sátt og samlyndi um fyrirkomulag peningamála á Íslandi. Hér með er því lagt til að opinberlega verði teknir til skoðunar með formlegum hætti, kostir og gallar þess að lögfesta verðtryggðu krónuna sem framtíðargjaldmiðil Íslands.


mbl.is Óbreytt ástand „óforsvaranlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Eru laun verðtryggð? Er ekki verðtrygging háð ýmsum annmörkum Guðmundur.

Sigurður Antonsson, 1.4.2017 kl. 23:54

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Sigurður.

Mín laun eru ekki verðtryggð, en ég veit ekki með þín.

Verðtrygging er vissulega háð ýmsum annmörkum, sá helsti þeirra er sá að hún er einhliða á útlánum fjármálafyrirtækja. Með því að jafna það ójafnvægi sem í því felst væri þeim annmarka útrýmt. Ein leið til þess er að lögfesta verðtryggðu krónuna sem lögeyri.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.4.2017 kl. 01:01

3 Smámynd: Óskar

Guð minn góður, þvílíkt bull.

Óskar, 2.4.2017 kl. 02:51

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Óskar.

Viltu sem sagt ekki innleiða stöðugan gjaldmiðil?

Eða hvað myndir þú annars leggja til í staðinn?

Guðmundur Ásgeirsson, 2.4.2017 kl. 02:59

5 Smámynd: Jóhann Elíasson

Góð grein, sem ætti að vera SKYLDULESNING, sérstaklega fyrir harða INNLIMUNARSINNA.

Jóhann Elíasson, 2.4.2017 kl. 10:39

6 identicon

 Innlimursinni? Þetta hljómar frekar eins og eitthvað klám.

Hilmar (IP-tala skráð) 2.4.2017 kl. 11:47

7 Smámynd: Jóhann Elíasson

Hilmar, túlkunin fer eftir hugarfari viðkomandi, ég tek enga ábyrgð á þínum þankagangi....

Jóhann Elíasson, 2.4.2017 kl. 12:23

8 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Er ekki einfaldara að afnema verðtrygginguna alfarið?

Kolbrún Hilmars, 2.4.2017 kl. 14:31

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Kolbrún.

Jú ég hefði talið það vera einfaldara, en samt hefur því ekki fengist framgengt, meðal annars vegna andstöðu þeirra sem óttast að þá verði miklar sveiflur og háir vextir. Þessari tillögu hér að ofan er einmitt ætlað að koma til móts við þau sjónarmið.

Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.4.2017 kl. 14:45

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Óskar.

Við bíðum enn eftir því að þú gerir grein því að hverju gagnrýni þín lýtur nákvæmlega, og hvaða tillögur þú hefur í staðinn.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.4.2017 kl. 14:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband