Hvað þýða neyðarlögin eiginlega?

Fá eða engin lög sem Alþingi Íslendinga hefur sett hafa verið jafn umdeild og jafn misskilin eins og hin svokölluðu "neyðarlög" sem sett voru aðfaranótt 7. október þegar hrun bankakerfisins var yfirvofandi. Ég ætla því að birta hér greiningu á innihaldi þeirra og hvaða þýðingu þau hafa. Það skal tekið fram að ég er ekki lögfræðingur, skoðanir  og viðhorf sem hér koma fram endurspegla aðeins persónulegt álit mitt sem leikmanns.

Má ég kynna: Lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.

Eins og sést þegar lögin eru skoðuð innihalda þau aðeins tvær efnislegar greinar. Sú fyrri kveður á um heimild til handa fjármálaráðherra að leggja fram fjármagn úr ríkissjóði til að yfirtaka eða stofna nýtt fjármálafyrirtæki. Með öðrum orðum að þjóðnýta banka og endurfjármagna hann, eins og var svo gert við stóru bankana þrjá. Seinni greinin kveður á um heimild til svipaðrar endurfjármögnunar sparisjóða eftir ákveðnum skilyrðum. Aftur á móti er hvergi fjallað um ríkisábyrgð á innstæðum.

Það sem skilgreinir svo lögin sem "neyðarlög" er sérstakt flýtiákvæði um gildistöku þeirra í 14. gr. sem víkur til hliðar hefðbundnu lögbirtingarferli, eða eins og þar segir "binda lög þessi alla þegar við birtingu". Einnig er bráðabirgðaákvæði sem kveður á um endurskoðun lagana fyrir 1. janúar 2010. Ég veit hinsvegar ekki til þess að þau hafi nokkurntíma verið endurskoðuð.

Auk þessara ákvæða er frumvarpið sjálft ekki síður merkilegt en það innihélt einnig ákvæði um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, fjármálaeftirlit, innstæðutryggingar og húsnæðismál. Í 3.-5. og 7. gr. eru útfærðar nánar heimildir Fjármálaeftirlitsins til yfirtöku og/eða rekstrarstöðvunar fjármálafyrirtækja, skipun skilanefnda og framkvæmd slitameðferðar. Það eru þó 6. og 9. grein sem eru hvað örlagaríkastar, og því birti ég þær hér orðrétt (með minni leturbreytingu):

  • 6. gr. Við 103. gr. laganna [um fjármálafyrirtæki] bætist ný málsgrein sem verður 1. mgr., svohljóðandi: Við skipti á búi fjármálafyrirtækis njóta kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, rétthæðar skv. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
  • 9. gr. Við 3. mgr. 10. gr. laganna [um innstæðutryggingar] bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Krafa sjóðsins nýtur rétthæðar í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti, en ella er hún aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.

Með öðrum orðum eru kröfur Tryggingasjóðs Innstæðueigenda og Fjárfesta (TIF) fyrir hönd innstæðueigenda gerðar að forgangskröfum við slitameðferð, en í 10. gr. laga um innstæðutryggingar stendur einmitt að "Komi til greiðslu úr sjóðnum yfirtekur hann kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi.". Með þessum ákvæðum ásamt heimild skv. 1. gr. til að endurfjármagna kennitöluflakkandi banka var ríkinu gert kleift að bjarga innstæðum með því að stofna nýtt rekstrarfélag utan um þær ásamt eignum viðkomandi banka, án þess þó að setja beina ríkisábyrgð á sjálfar innstæðurnar. Þannig hefur aldrei verið í gildi ríkisábyrgð á innstæðum, heldur aðeins yfirlýsingar um að gripið verði til björgunaraðgerða eins og þeirra sem hér er lýst. Réttarfarslega er stór munur á þessu tvennu, og í rauninni eiga höfundar þessara laga nokkurn heiður skilinn fyrir að takast að búa til þessa glufu með aðeins örfáum setningum af lagatexta sem hingað til hefur reynst skotheldur. Mesta klúðrið átti sér ekki stað við setningu neyðarlaganna eins og margir hafa haldið, heldur var það um veturinn 2008-2009 þegar stökkbreytt afkvæmi gömlu bankanna voru getin í synd og sköpuð á kostnað skattgreiðenda. Eins og nú er sífellt að koma betur í ljós bendir margt til þess að um andvanafæðingu hafi verið að ræða (sjá niðurlag).

Ákvæðin um kröfuforgang eru sérstaklega mikilvæg í tengslum við IceSave samningana, því samkvæmt lögunum ætti forgangur á kröfu TIF í þrotabúið að vera ótvíræður og ekkert því til fyrirstöðu að sjóðurinn standi undir lágmarkstryggingu á innstæðum, nema ef vera skyldi sú töf sem orðið hefur á uppgjöri þrotabúsins vegna yfirstandandi deilu við Breta og Hollendinga. Ekki fæst betur séð en að þessi breyting á kröfuforgangi nái aðeins til þeirrar fjárhæðar sem TIF ábyrgist, en hvergi er gerð breyting á forgangi krafna umfram það. Bretar og Hollendingar gera með IceSave samningunum kröfu um fullnaðargreiðslu frá TIF, en þar sem TIF eignast samkvæmt lögunum þá kröfu þýðir það að Bretar og Hollendingar eiga í raun enga kröfu á þrotabú Landsbankans heldur aðeins á TIF. Úthlutun úr TIF á ekki að fara fram samkvæmt gjaldþrotalögum heldur sérstökum lögum um innstæðutryggingar, og þar er skýrt kveðið á um að innstæður skuli aðeins greiddar út að því marki sem eignir sjóðsins hrökkva til. Loks er rétt að benda á að samkvæmt 114. gr. gjaldþrotalaga er ótvírætt að "kröfur um vexti, verðbætur, gengismun og kostnað af innheimtu kröfu skv. 112. eða 113. gr." lenda aftast í kröfuröð og afskrifast þar með ef endurheimtur nægja ekki. Þrátt fyrir það gerir IceSave-III samningurinn ráð fyrir ábyrgð íslenska ríkisins á greiðslu sem samanstendur aðallega af vöxtum af forgangskröfunni og ætti þar af leiðandi að afskrifast.

Með 8. gr. eru gerð sú breyting á lögum um innstæðutryggingar að tryggingasjóðnum er gert heimilt að greiða innstæður á gjaldeyrisreikningum út í krónum. Samt innihalda IceSave-III samningarnir skilyrði um greiðslur í erlendum gjaldmiðlum.

Að ofansögðu ætti að vera ljóst að allir samningar sem stjórnvöld hafa gert hingað til um IceSave kveða á um málsmeðferð og niðurstöðu sem er í hrópandi ósamræmi við gildandi lög. En framferði sem stangast á við lög getur ekki orðið löglegt við það eitt að um það sé gerður samningur (sbr. vændi). Það er líka mjög athyglisvert að gera samanburð við slitameðferð danska fjármálaeftirlitsins á Amagerbank og úrvinnslu tryggingasjóðs á innstæðum viðskiptavina þar, sem er eins og skólabókardæmi um vel heppnað inngrip, þveröfugt við IceSave. Sjá færsluna: Innstæður EKKI að fullu tryggðar, og upplýsingar sem þar koma fram í athugasemdum

Loks eru í 10.-13. gr. gerðar breytingar á lögum um húsnæðismál sem heimila Íbúðalánasjóði að kaupa húsnæðislán af fjármálastofnunum. Þetta var nokkuð vel útfært sem bendir til þess að á einhverjum tímapunkti hafi staðið til að færa húsnæðislánin úr bönkunum yfir í Íbúðalánasjóð. Þetta er hin svokallaða "eignarnámsleið" sem Gísli Tryggvason talsmaður neytenda lagði til árið 2009 að yrði farin og færði fyrir því ítarleg lagarök, auk þess sem það hefði einfaldað stórlega alla útfærslu og kostnaðarmat á úrræðum vegna skuldavanda heimilanna. Samkvæmt bráðabirgðaúttekt sem ég gerði á hugsanlegum kostnaði við þessa útfærslu síðasta haust hefði verið hægt að mæta kröfum Hagsmunasamtaka Heimilanna um 15% flata niðurfellingu ríkinu (nánast) að kostnaðarlausu, en frekari leiðréttingum hefði svo mátt jafna út með eignaskatti og vaxtabótum á næstu árum. Þessa úttekt má nálgast hér: (Eignarnámsleiðin kostar ekkert) en þó með þeim fyrirvara að forsendur lágu ekki allar ljósar fyrir þegar hún var unnin.

Þó það sé e.t.v. auðvelt að vera svona vitur eftir á þá er samt þeim mun erfiðara að vera vitur fyrirfram. Það virðist þó hafa tekist í síðustu viku þegar hér var fjallað um óraunhæfa ávöxtunarkröfu Bankasýslunnar á eigin fé ríkisins í Nýja Landsbankanum (NBI). Þar var meðal annars lýst áhyggjum af því hvort og hvernig myndi takast að standa skil á greiðslu 300 milljarða í erlendum gjaldeyri að viðbættum vöxtum á næstu tíu árum, til skilanefndar gamla bankans, jafnframt því að athygli var vakin á því hversu stór hluti þessi skuldbinding er af væntanlegum "endurheimtum" upp í þrotabúið fyrir áðurnefndri kröfu vegna IceSave. Og viti menn, þetta er forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag með framhaldi á bls. 16 undir fyrirsögninni "NBI getur ekki greitt allt skuldabréfið í erlendri mynt" (tengill hér fyrir áskrifendur Morgunblaðsins), en einnig hefur verið fjallað um þetta á vefsíðum Viðskiptablaðsins, visir.is og Eyjunni. Landsbankinn virðist hafa séð sig knúinn til að senda út tilkynningu þar sem fréttinni er afneitað, en Eygló Harðardóttir fulltrúi Framsóknarmanna í viðskiptanefnd Alþingis hefur óskað eftir fundi í nefndinni vegna málsins. Muna ekki örugglega allir hvað gerðist síðast þegar nauðsynlegt var talið að gefa út yfirlýsingar um íslenska banka í afneitunartón og haldnir voru neyðarfundir vegna stöðu þeirra út um allan bæ? Ef þið heyrið hávært brak og bresti á næstu dögum, þá gæti það verið bankakerfið að hrynja í annað sinn... vonandi gufar það bara upp í hljóðlausu reykskýi en ég held það sé samt bjartsýni að búast við því.

Að lokum vil ég nota tækifærið og vekja athygli á því að efnt hefur verið til undirskriftasöfnunar til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um IceSave-III. Vefsíða áskorunarinnar verður kynnt nánar á fréttamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu nk. mánudag kl. 11:00


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Takk fyrir þessar upplýsingar.

Vendetta, 11.2.2011 kl. 20:50

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Vefsíðan kjósa.is hefur verið opnuð fyrir undirskriftir þeirra sem vilja skora á um að IceSave-III verði ekki samþykkt nema af þjóðinni.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.2.2011 kl. 22:52

3 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Þetta er flott samantekt Guðmundur.

Erlingur Alfreð Jónsson, 12.2.2011 kl. 14:57

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Annan daginn í röð er frétt um greiðsluerfiðleika Nýja Landsbankans af áðurnefndu skuldabréfi á forsíðu Morgunblaðsins með nánari umfjöllun á innsíðu. (tengill hér fyrir áskrifendur)

Guðmundur Ásgeirsson, 12.2.2011 kl. 19:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband