Innstæður EKKI að fullu tryggðar

Amagerbankinn, einn af 15 stærstu bönkum Danmerkur, er gjaldþrota.

Nýr banki, sem reistur er á rústum hins gamla, verður opnaður í fyrramálið. Það þýðir þó ekki, að allir þeir, sem áttu innistæður í gamla bankanum, fái allt sitt fé til baka. Að sögn Finansiel Stabiletet eiga um 700 viðskiptavinir meiri innistæður en danski innistæðutryggingarsjóðurinn bætir.

Á Amager í Danmörku opnar nýr banki á morgun. Þó aðeins nýr í þeim skilningi að kennitalan er ný sem og eigendurnir, en allt annað er óbreytt.

Þar sem fyrri eigendur settu gömlu kennitöluna í þrot munu allmargir innstæðueigendur verða fyrir tapi sem þó takmarkast miðað við greiðslugetu tryggingasjóðs þeirra.

Með öðrum orðum, upp í kröfur vegna innstæðna fæst ráðstafað því sem er til í þrotabúinu og ekki krónu meir.

Sumir halda því fram að það sé "skásta niðurstaðan" að skattleggja almenning fyrir því sem vantar upp á, jafnvel þó enginn viti hversu mikið það verður.

Flestum sýnist þó að Danir séu að fá muni skárri og eðlilegri niðurstöðu þegar einkarekinn banki fer á hausinn.

     Áfram Ísland!


mbl.is Amagerbankinn gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já við hefðum betur farið dönsku leiðina. Hvað erum við að borga (skattgreiðendur) vegna neyðarlaganna? Allt í topp.

Villi (IP-tala skráð) 6.2.2011 kl. 22:56

2 identicon

Þetta innlegg þitt sýnir í hnotskurn þau gríðarlegu mistök sem neyðarlögin voru, að tryggja ALLAR innistæður í íslensku bönkunum í stað þess að setja þak. Þar var ríkisstjórnin að hygla ríkustu vildarvinunum sínum en færði óvart ensku og hollensku tryggingasjóðunum beitt vopn í hendur.

Matthías (IP-tala skráð) 6.2.2011 kl. 23:02

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég skora á ykkur báða að lesa neyðarlögin. Það er hvergi stafkrókur í þeim um ríkisábyrgð á innstæðum, hvorki að hluta né öllu leyti. Hinsvegar er þar heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði til að endurfjármagna og yfirtaka bankana í því skyni að koma í veg fyrir að greiðsluskylda myndist hjá innstæðutryggingasjóði. Á þessu tvennu er grundvallarmunur því TIF átti ekki nema 18 milljarða við hrun og ef það hefði fallið á hann hefði hver innstæðueigandi í besta falli fengið nokkra þúsundkalla í sinn hlut. Ef það hefði gerst í ástandinu sem skapaðist hér haustið 2008 hefði það getað leitt til blóðsúthellinga, svo má deila um hvort það hefði jafnvel verið til góðs að fá smá hreinsanir en flestir eru þó líklega sammála því að betra sé að forðast ofbeldi.

Það er ekki vegna neyðarlaganna sem við erum að borga allt í topp. Í rauninni erum við ekki heldur að borga allt í topp heldur aðeins að litlu leyti, meirhlutinn er fjármagnaður með því sem eftir er af eignasöfnum bankanna, en skattgreiðendur þurfa að standa undir eiginfjárframlagi ríkisins til nýju bankanna og ríkið fær eignarhlut í þeim á móti. En það skiptir ekki máli, upphæðirnar eru háar og það er fullkomlega óeðlilegt að velta þessum einkaskuldum yfir á almenning. Alveg sama hvort einhver samningur sé "ódýrari" en sá fyrri, þá eru þetta ekki peningar sem ég og þú skuldum nokkrum manni. Hvorki innstæðueigendum á Íslandi né annars staðar. Innheimta slíkrar kröfu er í besta falli skattheimta og versta falli þjófnaður.

Guðmundur Ásgeirsson, 6.2.2011 kl. 23:47

4 identicon

Ég hef lesið neyðarlögin, m.a.s. nokkuð vel.

Geir sagði að neyðarlögin tryggðu eftirfarandi: ,,Ég vil taka af öll tvímæli um að innstæður Íslendinga og séreignasparnaður í íslensku bönkunum öllum er tryggur og ríkissjóður mun sjá til þess slíkar inneignir skili sér til sparifjáreigenda að fullu."

Hefðu stjórnvöld t.d. sett þak og miðað við 20.000 evrur hefðu auðvitað engar blóðsúthellingar orðið (þvílíkur hræðsluáróður annars!) en hins vegar hefði hann fengið nokkra fokilla flokksbræður á kontórinn.

Matthías (IP-tala skráð) 6.2.2011 kl. 23:59

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Geir lofaði því að hann myndi passa upp á að þú gætir farið í banka og tekið út pening. Og það stóðst, ótrúlegt en satt, þrátt fyrir að stjórnmálamenn séu sífellt að svíkja loforð án þess að það hafi eftirmála. En ef það hefði komið í ljós að bankinn væri tómur, þá hefði verið hætta á mikilli reiði, ég er ekki að reyna að bera fram hræðsluáróður heldur er þetta bara svoleiðis.

Hann lofaði hinsvegar ekki ríkisábyrgð á þessu loforði sínu, því það gat hann ekki. Ríkisábyrgð getur löglega aðeins verið fyrir hendi ef Alþingi samþykkir það, og í neyðarlögunum kemur orðið ríkisábyrgð hvergi fyrir. Alþingi var ekki heldur búið að setja neyðarlögin þegar Geir hélt ræðuna. Ef honum hefði mistekist að standa við þetta loforð, þá hefðu innstæðueigendur samt ekki átt neina lögmæta kröfu á ríkissjóð, heldur aðeins á tryggingasjóðinn.

Leitaðu bara ef þú trúir mér ekki. Ég hef rannsakað þetta í þaula.

Guðmundur Ásgeirsson, 7.2.2011 kl. 00:10

6 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Sælir við getum ekki sætt okkur við að samþykkja Icesave því verðum við að fá þjóðaratkvæðagreiðslu og segja nei!

Sigurður Haraldsson, 7.2.2011 kl. 00:38

7 identicon

Góðan dag, Guðmundur. Málið er að Geir heldur ræðu, væntanlega eftir að hafa gaumgæft hvert einasta orð, sem er þýdd umsvifalaust og lesin af öllum erlendis sem málið snerti.
Fram hefur komið í viðtali við Davíð Oddsson að neyðarlögin hafi verið meira og minna tilbúin þegar í mars 2008 svo Geir þekkti innihald þeirra í þaula.
Persson hinn sænski sagði að sama væri hve alvarleg kreppan yrði, afleiðingar rangra ákvarðanna stjórnmálamanna yrðu alltaf mesti vandinn. Það sannaðist nú heldur betur hér. Ef aldrei stóð til að bæta sparifjáreigendum tjónið nema ,,það myndi reddast" átti Geir aldrei að lofa því.
Vonandi getum við nú fljótlega hætt að hringsnúast í þressum drullupytti fortíðar og snúið okkar að framtíðinni!

Matthías (IP-tala skráð) 7.2.2011 kl. 08:29

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Guðmundur.

Þar sem ég sé að vinir breta eru að reyna réttlæta ICEsave með því að vísa í neyðarlögin þá vil ég hnykkja á þínu góða svari að ekkert ríkisvald getur ábyrgst allar innistæður ef allir fara í banka og taka út innistæður sínar. 

Það þýðir endanlegt hrun bankakerfisins.  

Við því yrði brugðist með því að loka bönkunum með neyðarlögum og stöðva úttektir.

Það er grátlegt að þó eina sem heppnaðist hjá Hrunstjórninni skuli síðan verið afbakað af stuðningsmönnum breta á Íslandi sem rök fyrir því að við eigum að greiða ólöglega fjárkúgun.

Hvað rekur svona fólk áfram????

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.2.2011 kl. 08:33

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Matthías: Sammála því að það var óábyrgt gefa svona loforð, enda var þá fullkomin óvissa um hvort hægt yrði að standa við það. En eins og áður sagði eru stjórnmálamenn vanir því að gefa loforð sem þeir ætla ekki að standa við.

Ómar: Hárrétt að ef allir flykkjast í bankann þá klárast einfaldlega peningarnir miklu hraðar en fólk gæti órað fyrir. Og það sem meira er, jafnvel þó allir þeir peningar væru notaðir til að greiða upp skuldir þá myndi það ekki bjarga neinu. Ef við myndum nú ætla að taka okkur til og reyna að greiða upp allar skuldir, þá myndi tvennt gerast: 1) allir peningar myndu klárast og 2) það myndu samt standa eftir ógreiddar skuldir sem aldrei væri hægt að borga. Það er vegna þess að höfuðstóll útgefinna lána að viðbættum vöxtum er alltaf hærri tala en peningar í umferð. Augljóslega getur slíkt fyrirkomulag ekki gengið upp það er einfaldlega stærðfræðilega ómögulegt. Það furðulegasta er samt að við skulum láta bjóða okkur svo galið og ófullkomið kerfi þegar önnur betri eru til.

Guðmundur Ásgeirsson, 7.2.2011 kl. 08:56

10 identicon

Sæll aftur Guðmundur. Hér ómar sú fullyrðing að ég eigi að vera vinur Breta, bara af því að ég leyfi mér draga fram að á þessu máli séu svo margar hliðar að vænlegra sé að ná samningum um lausn þess en að fara fyrir dómstól (Betri er mögur sátt en feitur dómur). Vonandi tilheyra þannig raddir liðnum tíma, í samfélagi framtíðar verður þörf fyrir rök en ekki ad hominem sleggjudóma.

Matthías (IP-tala skráð) 7.2.2011 kl. 09:24

11 identicon

Þetta mun ekki takmarkast við greiðslugetu tryggingarsjóðsins eins og þú fullyrðir.

Hérna getur þú lesið betur um þetta á mbl.is

http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2011/02/07/amagerbankinn_starfar_enn/

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 7.2.2011 kl. 11:02

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Æ, æ Matthías, tókst þú þetta til þín, en leiðinlegt.

En höfum eitt á hreinu, þó Guðmundur segði þér það kurteislega, þá er hvergi minnst á ríkisábyrgð í neyðarlögunum, og þegar þú vitnar í yfirlýsingu Geirs Harde málinu þínu til stuðnings, þá ertu að blekkja.

Fullyrðing þín er því lygi, sett fram í þeim tilgangi að koma ólöglegum skuldum á samborgara þína.  Og því miður, lygi til að valda saklausu fólki tjóni, er ekki rökræður, í löggjöfum siðaðra þjóða er það kallað allt annað.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.2.2011 kl. 11:16

13 identicon

@ Ómar: Ég blekki engan, vitna aðeins í forsætisráðherra á þeim tíma sem kannski var þá að reyna að blekkja.
Og það er auðvitað broslegt að halda því fram að umræður á bloggi, þar sem ýmsum hliðum afar umdeildra og flókinna mála er velt upp til að skoða, séu fullyrðingar, lygar til þess ætlaðar að valda saklausu fólki tjóni. Tuðið í þér og mér hefur ekki þau áhrif, þar er langur vegur frá. Ákvarðanir eru ekki teknar á þessum vettvangi - og það ber að þakka!

Matthías (IP-tala skráð) 7.2.2011 kl. 11:48

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Nú ert þú ekki að blekkja Matthías, hvað ertu þá að gera???, bera fyrir þig meðvitaða vanþekkingu??

"þau gríðarlegu mistök sem neyðarlögin voru, að tryggja ALLAR innistæður í íslensku bönkunum í stað þess að setja þak. "

Þegar Guðmundur, mjög kurteislega enda kurteis maður, útskýrir fyrir þér málið, hvað bölvaða vitleysu þú ert að halda fram, þá kemur þessi dýrlega setning, "Ég hef lesið neyðarlögin, m.a.s. nokkuð vel. Geir sagði að neyðarlögin tryggðu eftirfarandi:"

Hvar er þessi texti í neyðarlögunum, "Geir sagði að neyðarlögin tryggðu eftirfarandi:".

Það var búið að útskýra þetta fyrir þér, en samt rærð þú í sömu knérum, þegar maður ætlar viðmælandanum fullt vit, þá kallast þetta að hann sé að blekkja. 

Hver einasti kosningabær maður ætti að vita að yfirlýsingar eru yfirlýsingar og lög eru lög.  Reyndu að hugsa þá hugsun til enda ef þjóðin hefði þurft að standa við þá yfirlýsingu Geirs að ríkissjóður stæði að baki bönkunum og því þyrftu lánardrottnar þeirra ekki að hafa neinar áhyggjur af stöðu þeirra.  Ingibjörg margítrekaði þetta svo á fundi með blaðamönnum í Kaupmannahöfn, vorið 2008.

Ætlar þú að krefjast að íslenska þjóðin standi við að baktryggja 10.000 milljarða???

Nei, sannleikurinn er sá Matthías, að það er enginn svona vitlaus eins og þú spilar þig.  Þessar fullyrðingar þínar eru settar fram í þeim hráskinsleik að styðja málstað þeirra stjórnmálamanna sem vilja að þjóðin ábyrgist löglausar kröfur breta.

Og hráskinsleikur þinn er ljótur leikur því hann veldur öðru fólki búsifjum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.2.2011 kl. 12:12

15 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Já með ólíkindum hvað sumir eru heilaþvegnir af flokksræðinu! Lýðræðið má ekki gleymast í græðisvæðingu flokkræðisins ásamt einkavinavæðingunni sem henni fylgir!

Sigurður Haraldsson, 7.2.2011 kl. 12:34

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, Sigurður, það mátti rökræða þetta fyrir ári síðan, en þegar fólk kemur ítrekað með sömu fullyrðinguna, ranga en lúmska, þá er erfitt að trúa upp á það vanþekkingu.  Það er eðli vanþekkingu að hún hverfur þegar hún er leiðrétt.

Þarna eru menn að berjast fyrir rangan málstað, skuldaþrælkun þjóðar sinnar.  Þeir taka flokk fram yfir þjóð, líkt og kommúnistar Austur Evrópu sem sviku landa sína inní sovéska gúlagið.

Skömm þessa liðs er mikil.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.2.2011 kl. 13:29

17 Smámynd: Skeggi Skaftason

Þú ferð ekki alveg rétt með, Guðmundur.

Tryggingasjóðurinn danski tryggir ákveðna lágmarksupphæð, sem er 750.000 DKK, eða ca. 16.000.000 ISK.

Þannig að það er ekki rétt eins og þú segir að "upp í kröfur vegna innstæðna fæst ráðstafað því sem er til í þrotabúinu og ekki krónu meir."

Viðskiptavinir Amager Bank fá því ekki 100% tryggingu eins og viðskiptavinir íslesnku bankanna (þ.e. þeir sem bjuggu á Íslandi) heldur fá þeir lágmarkstryggingu, eins og Icesave-viðskiptavinir Landsbankans íslenska.

Skeggi Skaftason, 7.2.2011 kl. 21:37

18 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Stefán Júlíusson:

Greiðslugeta tryggingasjóðs er ekki aðalatriði í þessu samhengi, heldur að Amagerbanki var með neikvætt eigin fé sem þýðir meiri skuldir en eignir. Skuldir banka eru fyrst og fremst gagnvart innstæðueigendum, en þar sem eignir bankans voru minna virði en það þá verða sumir innstæðueigendur fyrir tapi. Það tjón takmarkast af reglum tryggingasjóðsins, sem eru einmitt til þess gerðar að síður reyni á greiðslugetu hans. Þannig eru eignir Amagerbankans, þó þær standi ekki undir ábyrgð á öllum innstæðum í topp, látnar standa undir lægri upphæð sem er margfeldið af 100.000 EUR og fjölda reikningseigenda. Tryggingasjóðurinn þarf því ekki að leggja fram neinn pening í þetta uppgjör, heldur er þetta einfaldlega gert með leiðréttingu á efnahagsreikningi bankans eftir þessa endurskipulagningu. Í einu skiptin sem tryggingasjóðurinn á að þurfa að leggja út pening er þegar eignir bankans duga ekki einu sinni fyrir lágmarkstryggingu, sem gerist mun sjaldnar og eftirlitsstofnanir eru oftast búnar að loka viðkomandi banka áður en til þess kemur. Það er akkúrat ekkert nýtt við þetta, svona hefur FDIC gert upp fallna banka í massavís í Bandaríkjunum á undanförnum árum og er algjörlega viðurkennd aðferðafræði. Það sem er nýjung er hinsvegar að þessari aðferðafræði skuli ekki hafa verið beitt við uppgjör innstæðna í Landsbankanum.

Skeggi Skaftason:

Danski tryggingasjóðurinn ábyrgist 100.000 EUR (750.000 DK) í samræmi við núgildandi reglur (þetta viðmið var áður 20.888 EUR).

Ástæðan fyrir því að viðskiptavinir Amagerbank fá ekki meira en lágmarkstrygginguna er vegna þess að eignir í þrotabúinu duga ekki fyrir meiru. Þannig eru bæturnar svo sannarlega í samræmi við endurheimtur úr eignasafni bankans. Lykilatriði er að þannig kemst tryggingasjóðurinn einmitt hjá því að leggja út fé til viðbótar. Tapið af falli bankans lendir því að hluta til á reikningseigendum líka, en ekki óskipt á tryggingakerfinu, enda gæti ekkert tryggingakerfi í veröldinni staðið undir slíkri ótakmarkaðri ábyrgð. Þess vegna er einmitt tekið fram í reglum ESB um þetta að það megi alls ekki setja ríkisábyrgð á sjóðinn. Ríkisábyrgðir á tapi vegna bankastarfsemi eru einmitt það sem er að stofna evrópska myntbandalaginu í hættu um þessar mundir, þvert gegn tilgangi innstæðutryggingakerfisins sem er að einangra tapið.

Það er misskilningur að viðskiptavinir íslensku bankanna á Íslandi hafi fengið 100% tryggingu. Ef þú ferð og skoðar ársreikninga Tryggingasjóðs Innstæðueigenda þá kemur þar fram að sjóðurinn hefur hingað til aldrei greitt út neinar bætur, hvorki til Íslendinga né annara innstæðueigenda, enda ekki nema 18 milljarðar til í þeim sjóði við hrun sem hefði aldrei náð yfir 100.000 kall á mann ef bæta hefði átt allar innstæður. Yfirlýsing um að innstæður væru tryggðar hefur ekkert lagagildi, þeir sögðu þetta einfaldlega vegna þess að þeir ætluðu að bjarga innlendri starfsemi bankanna, meðal annars gagngert til að afstýra atburðarás eins og þeirri sem hér var lýst. (Ef allar innstæður hefðu tapast og hver innstæðueigandi aðeins fengið 100.000 í bætur hefði blóð runnið um göturnar!)

Svo það sé ítrekað: það er engin ríkisábyrgð á innstæðum á Íslandi. Aðeins óskuldbindandi yfirlýsing um að reynt verði að forða tjóni.

Viðskiptavinir IceSave fengu ekki lágmarkstryggingu, heldur talsvert meira. Bretar færðu sínar tryggingar upp í 50.000 EUR og Hollendingar 100.000 ef ég man rétt. Þetta var hinsvegar ákvörðun þarlendra stjórnvalda að greiða þetta út með þessum skilmálum, áður en lá fyrir hversu mikið myndi endurheimtast úr bankanum. Ef málsmeðferðin hefði verið á sama hátt og virðist hafa verið viðhöfð hjá danska tryggingasjóðnum í tilfelli Amagerbank og hefur verið viðhöfð hjá FDIC í áraraðir, þá hefðu innstæðueigendur hjá IceSave aldrei fengið meira en 20.888 EUR beint úr tryggingasjóðnum og restin hefði farið á forgangskröfu í það sem eftir stæði í þrotabúinu.

Guðmundur Ásgeirsson, 8.2.2011 kl. 19:37

19 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Nýjar upplýsingar um Amagerbank, sem virðist ætla að verða skólabókardæmi um farsæla slitameðferð á gjaldþrota fjármálafyrirtæki:

Viðskiptablaðið: Kröfuhafar Amagerbanken fái 59% krafna sinna greiddar

Þeir sem eiga óveðtryggð skuldabréf á Amagerbanken munu fá um 59% af kröfum sínum greiddar að mati Bloomberg. Sama gildir um þá sem áttu innistæður í bankanum umfram lágmarkstrygginguna sem er 750.000 danskar krónur, tæpar 16 milljónir íslenskra króna.

Verði þetta niðurstaðan eru eftirfarandi lykilatriðin:

  • Forgangskrafa í þrotabúið er eingöngu fyrir lágmarkstryggingunni af hálfu tryggingasjóðsins.
  • Forgangskrafan fæst greidd 100% úr þrotabúinu og allir innstæðueigendur fá lágmarkstryggingu greidda úr tryggingasjóði.
  • Kröfur vegna innstæðna umfram það eru ekki á tryggingasjóðinn heldur á þrotabúið sem almennar kröfur við slitameðferð, jafnsettar ýmsum öðrum kröfum t.d. af hálfu skuldabréfaeigenda og annara fjárfesta.
  • Almennar kröfur endurheimtast á 59% af nafnvirði, sem þýðir að innstæðueigendur fá 59% af innstæðu umfram lágmarkstryggingu.
  • Ekkert fæst upp í kröfur um vexti af innstæðunum!
  • Innstæðueigendur verða að bíða eftir útgreiðslu úr þrotabúinu á því sem er umfram lágmarkstrygginguna.
  • Greiðsluskylda tryggingasjóðsins nær eingöngu til þess að flýta fyrir útgreiðslu á lágmarksupphæðinni, restin er skv. gjaldþrotaskiptum.
Það eina sem þetta kennslubókardæmi tekur ekki á er hvað skuli taka til bragðs ef ske kynni að slitameðferð tefjist og inneign í tryggingasjóðnum dugi ekki til að flyta fyrir útgreiðslu lágmarkstryggingar. En að öðru leyti er athyglisvert að bera þetta saman við IceSave-III samningana þar sem við erum enn krafin um vexti af innstæðum, ekki aðeins því sem var dekkað fyrir lágmarkstryggingunni, heldur öllum innstæðum alveg í topp, jafnvel þó þær muni ekki einu sinni endurheimtast að fullu úr þrotabúinu. Svo má spyrja sig að því hversu góður díll IceSave-III sé, er það t.d. sanngjarnt að tiltekinn hópur kröfuhafa sleppi frá viðskiptunum án þess að taka á sig skerðingu?

Guðmundur Ásgeirsson, 9.2.2011 kl. 16:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband