Stríðglæpamaður forðast athygli

Heimsókn George W. Bush fyrrum Bandaríkjaforseta á fjáröflunarsamkomu í þágu zíonisma í Sviss, hefur verið aflýst vegna boðaðra mótmæla og hættu á óróa. Þetta má rekja til réttmætrar kröfu samtaka gegn pyntingum og stríðsglæpum, um að hafin verði rannsókn á óhæfuverkum sem Bush heimilaði í stjórnartíð sinni, og hvatningu til mótmæla við áður fyrirhugaða komu hans til hins rótrgróna lýðræðisríkis Sviss.

Þetta er að sjálfsögðu hárrétt nálgun, það á ekki að sýna ofbeldismönnum neina linkind þó þeir gegni einhverju embætti eða hafi gert það í fortíðinni, og þess þá heldur ef um fyrrverandi eða núverandi valdamikla aðila er að ræða því völdum fylgir ábyrgð. Svo dæmi sé tekið þá getur Henry Kissinger ekki ferðast frjálst á milli landa nema eiga á hættu að verða jafnvel handtekinn. Með því að hindra för þeirra með þessum hætti er þeim gert erfitt fyrir, ekki bara að ferðast þangað sem þeir vilja fara heldur einnig fjárhagslega, því fyrirlestrar og þáttaka í hinum ýmsu viðburðum sem svona fólk sækir hafa gjarnan í för með sér dágóðar aukatekjur.

Síðast þegar annar þekktur stríðsglæpamaður og samverkakona Bush, Condoleeza Rice, heimsótti Ísland, hvatti ég einmitt til þess að hún yrði handtekin fyrir stuðning sinn við glæpi gegn mannkyni. Því miður hafði það lítil sem engin áhrif, enda íslensk stjórnvöld á þeim tíma afar handgengin umræddum glæpamönnum, en þann stuðning er ekki síður tilefni til að rannsaka og hugsanlega saksækja. Við skulum sjá hvað Almenn Hegningarlög hafa að segja sem kynni að eiga við um stuðningsyfirlýsingu tveggja manna fyrir hönd íslenskra stjórnvalda við innrásarstríð í Afghanistan og Írak:

X. kafli. Landráð.

90. gr. Rjúfi maður, meðan á ófriði stendur eða þegar hann vofir yfir, samning eða skuldbindingu, sem varðar ráðstafanir, sem íslenska ríkið hefur gert vegna ófriðar eða ófriðarhættu, þá skal hann sæta fangelsi allt að 3 árum. 

Samkvæmt stofnmála Sameinuðu Þjóðanna, sem Ísland á aðild að, er beiting hervalds eða hótanir þar að lútandi almennt óheimilar í alþjóðasamskiptum. Ekki verður annað séð en að yfirlýsingar um stuðning við slíkar aðgerðir kunni að fela í sér hótun um beitingu hervalds í aðdraganda ófriðar, þar með brot á samningi sem hefur áhrif á ráðstafanir íslenska ríkisins vegna ófriðarhættu, og þar með brot á almennum hegningarlögum að viðlagðri allt 3 ára fangelsisvist.

91. gr. Hver, sem kunngerir, skýrir frá eða lætur á annan hátt uppi við óviðkomandi menn leynilega samninga, ráðagerðir eða ályktanir ríkisins um málefni, sem heill þess eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin, eða hafa mikilvæga fjárhagsþýðingu eða viðskipta fyrir íslensku þjóðina gagnvart útlöndum, skal sæta fangelsi allt að 16 árum.
Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem falsar, ónýtir eða kemur undan skjali eða öðrum munum, sem heill ríkisins eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin.
Sömu refsingu skal enn fremur hver sá sæta, sem falið hefur verið á hendur af íslenska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri. 

Færa má rök fyrir því að stuðningyfirlýsing íslenskra ráðamanna við umræddan stríðsrekstur hafi verið hluti af samningaviðræðum um áframhaldandi veru bandaríska hersins á Íslandi, en með því að brjóta stofnsáttmála SÞ hafi hagsmunir Íslands af því að fylgja lögum verið fyrir borð bornir. Í þessu samhengi er e.t.v. rétt að benda á að ekki er aðeins um að ræða brot á alþjóðalögum heldur þar með íslenskum lögum. Íslenska ríkið hlýtur að hafa beina hagsmuni af því að farið sé að íslenskum lögum á Íslandi og í ákvarðanatöku íslenskra stjórnvalda. Ekki var aðeins brotið gegn þeim hagsmunum heldur mistókst jafnframt að ná settu markmiði í samningaviðræðunum, þó vissulega megi deila um ágæti þess. Samkvæmt 3. mgr. 91. gr. hegningarlaga kann slíkt brot að varða við allt að 16 ára fangelsisvist, sem er að ég held þyngsta mögulega refsiúrræði íslenskra laga. Athygli vekur hinsvegar hver fer með ákæruvaldið vegna brota skilgreindra sem landráð:

97. gr. Mál út af brotum, sem í þessum kafla getur, skal því aðeins höfða, að dómsmálaráðherra hafi lagt svo fyrir, og sæta þau öll opinberri meðferð.

Mikil er ábyrgð dómsmálaráðherra, að þurfa hugsanlega einhverntíma að taka slíka ákvörðun. Þetta er ekki síst merkilegt í ljósi eftirfarandi ákvæðis:

93. gr. Stuðli maður að því, að njósnir fyrir erlent ríki eða erlenda stjórnmálaflokka beinist að einhverju innan íslenska ríkisins eða geti beint eða óbeint farið þar fram, þá varðar það fangelsi allt að 5 árum. 

Það er með öðrum orðum bannað að stunda njósnir á Íslandi aðrar en lögheimilað eftirlit af hálfu íslenskrar lögreglu vegna rannsókna sakamála, og enn fremur er það á valdi dómsmálaráðherra hvort menn skuli sóttir til saka fyrir njósnir og önnur landráð sem er sérstakt því oftast er það saksóknari sem fer með ákæruvald í hegningarlagabrotum. Með þessu móti eru dómsmálaráðherra hinsvegar falin mikil völd yfir framkvæmd þjóðaröryggisstefnu íslenska ríkisins, og að þessu leyti afar verðmætt valdatæki að eiga dómsmálaráðherra, enda skipar hann líka dómarana. Lögin eru ámóta gömul og lýðveldið sjálft, og að ofansögðu er eflaust fróðlegt að skoða hverjir hafa gegnt embætti dómsmálaráðherra síðan þá og hvaða stjórnmálahreyfingum þeir hafa tilheyrt. Frá 1942 eru það 23 einstaklingar, þar af 9 Sjálfstæðismenn og þar af Bjarni Benediktsson tvisvar + 1 úr klofningsflokknum Borgaraflokki, 5 Framsóknarmenn, 4 Alþýðuflokksmenn, 3 óflokksbundnir og 1 Vinstri-grænn. Dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa verið langþaulsætnastir á þessu 70 ára tímabili eða í ca. 43 ár (>60%), því næst Framsóknarmenn í 15 ár, Alþýðuflokkurinn í 8 ár, óflokksbundnir í 3 og VG á sínu öðru ári. Að minnsta kosti fjórir þessara fyrrverandi ráðherra hafa svo vitað sé verið í trúnaðarsamskiptum við erlenda valdaklíku sem kennd er við Bilderberg. Þegar búsáhaldabylting var gerð árið 2009 á Íslandi hafði dómsmálaráðherra verið Sjálfstæðismaður í 18 ár samfleytt. Án þess að tekin sé afstaða til þess hvað þetta merkir, þá er tölfræðin í það minnsta forvitnileg.


mbl.is Bush aflýsir ferð til Sviss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Bjuggust essi samtök, sem safna fé fyrir Ísraelsríki(!), að Svisslendingar myndu fagna komu Bush? Fyrir utan það að vera ömurlegasti forsetinn í sögu Bandaríkjanna, má segja, að hann sé jafnvel óvinsælli en Adolf Hitler: Bush er aðeins vinsæll í tveimur ríkjum, Ísrael og Texas, en Hitler er hetja í öllum múslímaríkjum af augljósum ástæðum.

Annars hefur nú lítið breytzt með Obama. Jú, vatnspyntingum og fangaflutningum hefur verið hætt, eða amk. ekki framkvæmdar með vitneskju Obamas, en hins vegar eru ennþá fjöldi fanga í Guantánamo án nokkurra mannréttinda.

Vendetta, 6.2.2011 kl. 12:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband