Hvað með SDR?

Samkvæmt fréttinni mætti halda að Kínverjar hafi ekki áttað sig á því að það sem þeir eru að leggja til hefur þegar verið framkvæmt, að vísu í takmarkaðri mynd. Árið 1969 varið komið á fót mynteiningunni SDR (Special Drawing Rights) hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og í uppgjörum sjóðsins er notast við þessa viðmiðunareiningu. Gengið var upphaflega miðað við 0.888671g af gulli sem var sama verðgildi og þá var á Bandaríkjadollar. Eftir að gullfóturinn var endanlega afnuminn og Bretton-Woods kerfið leið undir lok 1973 með innleiðingu flotgengis helstu viðskiptamynta, var þetta viðmið endurskoðað og í dag er gengi SDR miðað við myntkörfu sem samanstendur af Dollar, Pundi, Evru og Yeni. Verðgildi þessarar myntkörfu er hinsvegar birt á vef sjóðsins umreiknað í dollara, en gæti allt eins verið í kínverskum Yuan, íslenskum Krónum eða jafnvel Zimbabwe dollurum því það er bara útreiknuð stærð sem byggir á undirliggjandi gengi fjögurra gjaldmiðla.

Það sem mig grunar hinsvegar að þessi frétt sé að reyna að segja okkur, en tekst það frekar illa upp, er að Kínverjar vilja að Yuan verði tekinn með í þessa körfu. Enda er það fullkomlega eðlileg krafa í ljósi stærðar kínverska hagkerfisins og mikilvægis þess í alþjóðaviðskiptum. Þetta hefur hinsvegar hingað til mætt andstöðu engilsaxnesku valdablokkarinnar sem vill að allir noti dollara og hafa jafnvel farið í stríð gegn þeim sem það ekki vildu (t.d. Saddam Hussein sem ætlaði að hefja olíusölu fyrir Evrur árið 2003 en var hengdur í staðinn). Ástæðan er einföld, þeir eru bara að verja "Mikka mús" gengi dollarans, en mikilvægi hans í alþjóðaviðskiptum sem hefur verið þvingað upp á heimsbyggðina er það eina sem heldur honum uppi nú þegar allar efnahagslegar forsendur í heimalandinu USA eru brostnar. Hrun Bandaríkjadollars sem hefur verið yfirvofandi í mörg ár mun hafa slæmar afleiðingar fyrir vesturveldin öll, sem eru orðin vön því að dansa í takt við þá stefnu sem er mörkuð í Washington. Þessu vilja Kínverjarnir breyta, og fyrir mitt leyti tel ég það hið besta mál. Það er löngu tímabært að lækka rostann í því sem eftir stendur af breska heimsveldinu eftir aldalangan yfirgang og arðrán í öðrum löndum sem þeir hafa skilgreint sem "þróunarlönd".

Það væri athyglisvert í þessu samhengi að kanna hver er staða fríverslunarsamninga við Kína, sem verið hafa í bígerð um árabil. Ekki síst hvaða viðhorf stjórnvöld hafa til slíkra samninga, þar sem mikilvægi Kína í alþjóðaviðskiptum mun bara aukast á næstu árum. Velgengni Íslands hefur í gegnum tíðina stafað einna mest af því að vera milliliður bæði í pólitík og viðskiptum, en með fríverslun við Kínverja gætum við nýtt EES-samninginn til þess að verða nokkurskonar "tollhlið" inn á Evrusvæðið sem er einn stærsti neytendamarkaður í heiminum. Ef við göngum hinsvegar í Evrópusambandið lokast sá möguleiki, þar sem við myndum þurfa að afsala samningsvaldinu til búrókratanna í Brüssel.

Ef fram heldur sem horfir og ísinn á Norðurskautinu bráðnar, þá styttist í að senn opnist ný siglingaleið sem verður sú stysta milli Evrópu og austurlanda. Sú leið mun liggja framhjá Íslandi, í næsta námunda við þau svæði sem nú er verið að horfa til í tengslum við olíuvinnslu. Verði eitthvað af þessu að veruleika munum við í framtíðinni vera áfram í hringiðu alþjóðaviðskipta, og þá yrði framtíðin björt fyrir íslenska þjóð. Þess vegna er mikilvægt að hafna ESB-aðild og merkja x við L !


mbl.is Vilja minnka vægi dollarans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valan

Áhugaverð viðbót við fréttina - mér fannst einmitt undarlegt að SDR skyldi hvergi nefndur í fréttinni heldur bara dollarinn -- en maður er nú farin að venjast hálfkláruðum fréttum á borð við þessa þegar kemur að þessum tiltekna málaflokki.

Valan, 25.3.2009 kl. 03:57

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir innlitið Vala.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.3.2009 kl. 11:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband