Hverjum treystir þú fyrir persónuupplýsingum?

Hveru margar af þessum 75.000 hræðum ætli hafi áttað sig á því að Facebook er í raun einskonar "skúffufyrirtæki", stofnað af bandarísku leyniþjónustunni CIA? Fyrirkomulag þess er í raun ekki ósvipað og á fyrirtækjunum sem sáu um fangaflugið fyrir þá sem komst í hámæli hér á landi í fyrra. Tilgangurinn er að sjálfsögðu söfnun persónuupplýsinga, en upphaflega var stærstur hluti notendanna bandarískir háskólanemendur. Afskiptin af rekstrinum hafa reyndar verið lítil önnur en aðkoma að gangsetningu fyrirtækisins og fjármögnun þess. Persónuupplýsingarnar safnast af sjálfu sér inn í kerfið hjá þeim, og það að láta notendurna skrá þær inn sjálfir (í skipulegan gagnagrunn gegnum vefviðmót) sparar leyniþjónustunni mikla vinnu við bæði söfnun og skráningu upplýsinga. Þar að auki eru upplýsingarnar sem safnast nokkuð áreiðanlegar, þar sem þær koma frá bestu mögulegum heimildarmönnum: fólkinu sjálfu.

Eins og mörg nýleg mál frá Bretlandi sýna þá er vel hægt að láta upplýsingar af ýmsu tagi sem safnað hefur verið saman, "leka" hingað og þangað eða týnast jafnvel, og kenna svo bara um mistökum eða vanhæfni starfsmanna. Í tilviki Facebook væri t.d. hægðarleikur að fría sig frá allri ábyrgð með því að skilja einfaldlega "óvart" eftir opna einhverja "öryggisholu" á tölvukerfi fyrirtækisins sem "starfsmenn á vegum hins opinbera" gætu svo notað til "brjótast inn" og "stela persónuupplýsingum um notendur". Slíkar vangaveltur teygja sig hinsvegar rækilega inn á svið samsæriskenninga sem verða seint sannaðar, enda vilja fyrirtæki sem verða fyrir einhverskonar broti á upplýsingaöryggi ógjarnan upplýsa um það opinberlega af ótta við orðsporstjón. Á þetta sérstaklega við um banka en einnig önnur fyrirtæki sem sýsla með persónuleg gögn viðskiptavina sinna, sem nú orðið getur átt við um allflest fyrirtæki, að vísu í mismiklum mæli en þó sérstaklega netfyrirtæki vegna þess hversu auðveldlega þau geta safnað hverskyns upplýsingum.

Ég vil eindregið hvetja fólk til að kynna sér sérstaklega vel notkunarskilmála og persónuverndarstefnu Facebook, sem veita fyrirtækinu ekki bara víðtækar heimildir til söfnunar og ráðstöfunar persónuupplýsingu, heldur líka eignarhald á þeim ásamt hverjum þeim hugverkum notenda sem þeir hlaða inn á sínar Facebook síður. Það skyldi heldur engan undra að úrvinnsla þessara gagna ásamt sölu þeirra til þriðja aðila er ein af aðal tekjulindum fyrirtækisins. Einnig skal tekið fram að Facebook er ekki með aðsetur á Íslandi heldur er það bandarískt fyrirtæki og lýtur þar með bandarískum lögum og dómafordæmum. Samkvæmt þeim er t.d. fyrirtækjum sem safna persónuupplýsingum skylt að afhenda þær stefnendum, sé þeim birtur dómsúrskurður þar að lútandi eins og t.d. í nýlegu máli Viacom gegn YouTube.

Eins og ekki sé nóg að persónuupplýsingum sé varla óhætt lengur í Bandaríkjunum fyrir lögfræðingum stórfyrirtækja, heldur hefur jafnvel sjálf Þjóðaröryggisstofnun þeirra (NSA) orðið uppvís að víðtækum ólöglegum hlerunum á símtölum og netumferð almennings þvert á þágildandi lög. Fyrir þá sem ekki vita þá er sú stofnun einna fremst í heiminum á sviði sjálfvirkrar úrvinnslu gagna og greiningu dulkóðunar (cryptanalysis), sem snýst um að lesa dulkóðuð gögn og finna aðferðir til þess. Hleranir þessar voru (og eru) framkvæmdar í samstarfi við bandarísk fjarskipta- og netfyrirtæki, en viðbrögð bandarískra yfirvalda þegar upp komst um þær jafngiltu að miklu leyti náðun á umræddum fyrirtækjum fyrir áður framda glæpi sem og samþykki fyrir að þeim verði haldið áfram. Til að átta sig á víðtæku valdi Bandaríkjaforseta í slíkum málum má t.d. benda á State Secrets Privilige sem heimilar beinlínis að sönnunargögn í dómsmáli megi skilgreina sem ríkisleyndarmál og þar með gera þau ótæk fyrir dómi. Að óbreyttu má því gera ráð fyrir að slíkar persónunjósnir standi enn yfir og muni halda áfram í þessu "landi hinna frjálsu", og ef stjórnvöld eða leyniþjónusta eru ekki nú þegar í samstarfi við ýmis fyrirtæki á borð við Google og Facebook um öflun hverskyns upplýsinga, þá virðist engu að síður vera hægðarleikur að mæta með dómsúrskurð og fá þær afhentar. Ef upp kemst um samstarfsaðila fá þeir svo syndakvittun hvort sem er, a.m.k. hjá núverandi leiðtogum þar í landi.

Þegar maður víkkar aðeins yfirsýnina og horfir á stóru myndina þá er það alveg ótrúlegt hvað við mannfólkið eigum margt sameiginlegt með maurum í maurabúi. Sumt fólk á reyndar afar erfitt með að kyngja svona staðreyndum, og finnst mikið þægilegra að trúa þeim barnaskap að þetta sé bara ósköp venjuleg vefsíða og fyrirtæki sem hægt sé að treysta, og sannfæra sig þannig um að allt hljóti að vera í góðu lagi. Þetta sama fólk er á vissan búið að skuldbinda sig við þetta viðhorf eftir að hafa e.t.v. skráð þarna inn allar upplýsingar um sjálfan sig ásamt greiðslukortanúmeri og fleiru. En að svo búnu máli þá vaknar óhjákvæmilega sú spurning hvaða tilgangi svona vefur þjónar sem einhverjar aðrar síður eða bara venjulegt blogg gerir ekki, og hvaðan koma allar tekjurnar sem hafa gert Facebook að einhverju mesta spútnikfyrirtæki internetsins síðan Google bauð út hlutafé sitt á opnum markaði? Svörin eru í raun einföld: verðmætasöfnun, í persónuupplýsingum felast mikil verðmæti ekki síst þar sem eftirlítsárátta tröllríður þjóðfélaginu, en vestanhafs sem og víðar eru miklir peningar í þeim bransa nú til dags og er það ekki af góðu til komið.

Svo tekið sé hliðstætt dæmi sem tengist annari tegund verðmæta, þá er ég viss um að notendur vefsíðunnar www.icesave.co.uk hafa verið sama sinnis þegar þeir lögðu peningana sína þar inn, héldu að fyrirtækið væri fullkomlega traustsins vert! Enn eitt dæmi eru svokallaðir peningamarkaðssjóðir sem fólk var fullvissað um að væru örugg fjárfesting, þangað til annað kom á daginn. Viðbótarlífeyrir minn er t.d. ennþá frosinn og ég veit ekkert hvort ég mun nokkurntíma sjá þann pening aftur, eitthvað sem flestum hefði þótt gjörsamlega óhugsandi fyrir nokkrum vikum síðan. Á þeim vettvangi er ekkert ósvipað uppi á teningnum og hjá fyrirtækjum eins og Facebook, kerfið virkar fínt á meðan allir trúa því að það sé í lagi og starfi eðlilega, ekkert óeðlilegt sé á seyði og ekkert geti farið úrskeiðis. Þangað til einn daginn það gerir það, og búmm: allir eru f###ed!

 


mbl.is Fjórðungur þjóðarinnar á Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: fannar

Haha.... þú ert fyndinn :) En svosem margt til í þessum pælingum.

fannar, 3.11.2008 kl. 21:19

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það sem mér finnst hinsvegar ekki fyndið er að ekki nema ca. helmingurinn af þessu eru einhverjar "svona pælingar" og restin eru blákaldar staðreyndir!

Guðmundur Ásgeirsson, 3.11.2008 kl. 22:27

3 Smámynd: Heimir Hannesson

já ... spes ...

Heimir Hannesson, 4.11.2008 kl. 07:09

4 identicon

Skemmtilegar pælingar hjá þér.

Hvaðan hefur þú upplýsingar að þetta sé "skúffufyrirtæki" stofnað af CIA?

Ég veit ekki betur en það hafi verið Harvard nemandinn Mark Zuckerberg sem stofnaði Facebook og á hann það enn þann dag í dag. 

Er þá alveg eins hægt að segja að Google, Microsoft, MySpace o.fl fyrirtæki séu skúffufyrirtæki í eigu CIA þar sem CIA getur alltaf fengið þær upplýsingar sem þeir vilja óski þeir eftir þeim.

Hefur þú eitthvað að fela?

Hjalti Sveinsson (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 14:49

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Eftir að Mark Zuckerberg stofnaði fyrirtæki utan um þessa hugmynd sína kom allt í einu fullt af fjármagni frá "áhættufjárfestum" inn í reksturinn, og með því fylgdi 1 stk. framkvæmdastjóri (tengiliður) til að hafa umsjón með stráknum. Mig minnir að plottið hafi verið einhvernveginn þannig, en svo kom í ljós að fullt af liðinu á bak við þessa fjárveitingu hafði tengsl við Department of Defense og hin ýmsu njósnaverktakafyrirtæki. Þetta er alls ekki bara einhver samsæriskenning úr lausu lofti gripin, heldur virðist raunverulega vera eitthvað gruggugt á ferðinni þarna. CIA skúffufyrirtæki eru vel þekkt staðreynd eftir að upp komst um fangaflug þeirra. Til að átta sig á umfangi og markmiðum svona tæknivæddra njósna í Bandaríkjunum má benda á dæmi eins og Information Awareness Office en flest við þá stofnun virðist sem það hafi verið klippt beint út úr martröðum Orwells. Þetta er margmilljarða bransi sem er nú orðinn að stórum hluta einkavæddur, ekki síst fyrir tilstilli bankakerfisins en það safnar miklu magni upplýsinga sem fást svo afhentar gegn dómsurskurði. Í neysluþjóðfélagi er svo kauphegðunin nánast jafngild ævisögunni og segir því mikið um viðkomandi.

Guðmundur Ásgeirsson, 6.11.2008 kl. 02:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband