Facebook er hættulegt!

Ég vil nota hér tækifærið og frá sjónarmiði persónuverndar og upplýsingaöryggis vara fólk eindregið við notkun Facebook og/eða sambærilegrar þjónustu, sérstaklega ef viðkomandi fyrirtæki er staðsett í Bandaríkjunum. Netnotendum hættir gjarnan til að halda að "What happens in Vegas stays in Vegas" eigi líka við um internetið en svo er ekki, nær væri að segja: "What goes on the web stays on the web, which today is just about anywhere!" en á vefnum er oft útilokað að vera viss um hver verður endanlegur viðtakandi upplýsinga. Tölvuinnbrot eru orðin daglegt brauð og jafnvel þó að hugbúnaður eða vefkerfi sem maður notar lofi því að senda engar upplýsingar (að eigin frumkvæði) til þriðja aðila, þá er slíkt jafnframt engin trygging fyrir því að viðkomandi fyrirtæki eða stofnun verji kröftum sínum gagngert í að tryggja öryggi notenda sinna að nokkru marki. Nærtækt dæmi eru nýleg tilvik þar sem breskir ríkisstarfsmenn hafa af einskærri vanrækslu skilið eftir á glámbekk viðkvæmar tölvuskrár með óvörðum persónuupplýsingum.

Í nýlegu máli Viacom gegn Youtube hefur svo komið skýrt og greinilega í ljós hversu skammt hugtakið persónuvernd nær í Bandaríkjunum, þar sem dómstólar láta lögfræðilega burði eins stórfyrirtækis (í því tilviki Viacom) vega þyngra en persónuhagsmuni allra notenda annars fyrirtækis (Youtube). Útkoman úr þessu prófmáli þýðir að í raun er persónulegum upplýsingum manns í besta falli óhætt hjá þarlendum netfyrirtækjum aðeins svo lengi sem ekki kemur hátt launaður lögfræðingur og bankar upp á hjá þeim með hótun um málsókn! Þegar mikilsmetið spútnikfyritæki á borð við Facebook er annars vegar þá er engin ástæða til að ætla að annað sé uppi á teningnum þar ef á reynir, a.m.k. er þarna kominn nýr og stór vettvangur fyrir lögfræðihákarlana!

Svo eru það notkunarskilmálar hjá Facebook, en með því að gerast notandi þar er maður beinlínis að gefa þeim leyfi til að safna öllum upplýsingum um sig sem þeir mögulega gætu fundið, ekki bara á manns eigin síðu heldur líka frá öðrum notendum, öllum öðrum netsíðum og jafnvel prentmiðlum sem hafa þó ekkert með Facebook eða önnur félagsleg netkerfi að gera. Í meginatriðum þá nær þetta yfir nánast allt sem er til um mann í rituðum heimildum, auk þess sem Facebook eignast sjálfkrafa öll hugverkaréttindi á því efni sem sett er inn á síður notenda. Samkvæmt persónuverndarstefnu sinni áskilur Facebook sér svo fullan rétt til þess að afhenda þriðja aðila þessar upplýsingar, en jafnvel þó þeir segi að það nái ekki til "persónugreinanlegra" upplýsinga þá hafa dómstólar (t.d. í áðurnefndu YouTube-máli) þegar sett það fordæmi að t.d. IP-tölur notenda falli ekki undir slíka skilgreiningu. Þannig felst í reynd engin "vernd" í slíkum ákvæðum, fyrst nóg er að stefna til þess að fá upplýsingarnar afhentar. Auk þess eru fjölmargir notendur sem gefa upp heilmiklar upplýsingar sjálfviljugir án þess að einu sinni skoða skilmálana, vegna þess að Facebook hefur á sér sakleysislegt yfirbragð netfyrirtækis sem gefur sig út fyrir að starfa í þjónustu notenda sinna, en þó er ekki allt sem sýnist ef það er skoðað til hlítar.

Það er nefninlega margt sem bendir til þess að Facebook sé ekkert annað en platfyrirtæki á snærum CIA (svipað og "fangaflugfélögin" alræmdu), stofnað með það fyrir augum að safna sem mestum persónulegum upplýsingum um netnotendur (sjá einnig hér). En hvort sem maður trúir því eða ekki að Facebook sé í raun "útibú" frá DARPA, þá er það a.m.k. staðreynd að tekjur Facebook koma ekki frá notendunum sem eru í raun eins og hver önnur auðlind sem fyrirtækið nýtir sér að kostnaðarlausu. Stærsta (og eina) tekjulind fyrirtækisins er söfnun persónulegra upplýsinga, úrvinnsla og sala þeirra til þriðja aðila. Augljóslega mun slík atvinnustarfsemi aldrei geta samræmst persónuverndarhagsmunum netnotenda. Sérstaklega ekki í hinum nýju Sovétríkjum Norður-Ameríku, þar sem viðurkennd stefna í varnarmálaráðuneytinu er að kaupa vinnu af hinum og þessum fyrirtækjum, oft á tíðum jafnvel án útboðs og þrátt fyrir náin tengsl háttsettra embættismanna við mörg stærstu fyrirtækin á þessu sviði! Þjónustan sem þessir "verktakar" veita getur verið allt frá vöruflutningum til "öryggisgæslu" eða einkavæddrar hermennsku eins og það kallast á mannmáli, og líka þess sem færri vita af:"upplýsingaöflunar" eða njósna eins og það heitir, einnig á mannamáli.

Einnig má nefna umdeilda lagabreytingu sem Bandaríkjaþing samþykkti nýlega og veitir yfirvöldum þar heimild til ótakmarkaðs leynilegs eftirlits með hvaða einstaklingi sem er í allt að viku tíma án undangengis dómsúrskurðar! Með dómsúrskurði fyrir leynilegum dómstóli má svo framlengja eftirlitið að þessari viku liðinni, en slíkur úrskurður er sjálfkrafa leynilegur og þar með eftirlitið líka! Þessi mikla tilslökun á borgaralegum réttindum er gerð í kjölfarið á máli sem kom upp árið 2005 þar sem í ljós kom að víðtækar ólöglegar hleranir höfðu verið framkvæmdar af þjóðaröryggisstofnuninni NSA a.m.k. frá árinu 2002 ef ekki lengur, með virkri samvinnu ýmissa fjarskiptafyrirtækja þ.á.m. AT&T. Með lagabreytingunni fyrr í þessum mánuði er þessum aðilum hinsvegar veitt afturvirk undanþága frá þágildandi bókstaf laganna, sem er auðvitað í reynd ekkert annað en náðun fyrir undangengna glæpi. Með öðrum orðum þá er það orðið (og hefur "allt í einu" verið frá árinu 2002!) fullkomlega löglegt fyrir einhvern af samstarfsmönnum Bush og félaga í dómsmálaráðuneytinu að taka upp símann, hringja í AT&T, Facebook eða önnur fyrirtæki og óska eftir að þeir afhendi hvaða upplýsingar sem er um hvern sem er, og jafnvel bjóða þeim greiðslu fyrir "þjónustuna" sem er auðvitað mun betra og þægilegra fyrir þá en dómsúrskurður. Verið velkomin til ársins 1984 að hætti Orwells...


mbl.is Útlitsbreytingar hjá Facebook
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Takk fyrir þetta, held bara að ég loki þessu hjá mér, sé ekki fram á að ég nenni meiru en moggablogginu mínu.  Er ekki hrifin að hafa opna upplýsingagátt fyrir heiminn til að skoða, en ég var forvitin. Kveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 22.7.2008 kl. 21:00

2 Smámynd: Stefán Þór Steindórsson

*Þú málar heiminn ansi svartann. Það getur verið að jafnvel CIA sé að safna upplýsingum um fólk en ég segi bara að það sé í góðu lagi. Það kanski hjálpar þeim í baráttu sinni við glæpi, hryðjuverk og þessháttar og ég er allveg til í að leggja mitt á vogaskálarnar.

Þú passar þig bara og ég prófa að passa mig ekki og sjáum svo eftir 50 ár hvort það hafi breytt einhverju í lífi okkar. 

Enn mjög ítarlegt og gott blogg eingu að síður þó ég velji að vera ekki á verði fyrir "big brother" sem ég hef ekkert á móti. 

Ég myndi nú frekar segja fólki bara að passa sig á öllum þjónustunum sem rigna yfir mann á facebook þar sem maður er sífellt spurður hvort maður vilji bæta þessu inn og gefa þar með facebook aðgang að öllum gögnum á síðunni því þar liggur vandamálið.

Stefán Þór Steindórsson, 23.7.2008 kl. 09:30

3 Smámynd: kaptein ÍSLAND

þú er með ofsóknaræði á háu stigi leitaðu þér hjálpar hjá geðdeild lsh áður enn þetta verður verra ;)

kaptein ÍSLAND, 23.7.2008 kl. 20:51

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Í sjálfu sér efast ég ekkert um að þetta geti allt verið satt og rétt. Hins vegar er ég sannfærð um að allar okkar persónuupplýsingar eru meira og minna á glámbekk nú þegar og þeir sem virkilega vilja nálgast upplýsingar um okkur hin geti það og geri. Sorrí, ég vildi gjarnan sjá heiminn öðru vísi, en þetta er samt það sem mér finnst sennilegast. Sannarlega ekki hrifin af því, ef ég hef rétt fyrir mér í þessum efnum. Líklega bítum við hausinn af skömminni með því að undirrita yfirlýsingum um að það MEGI fara svona illa með okkur, en sem sagt, að kostum og göllum vegnum þá held ég mig enn um sinn á Facebook, af því ég hef gaman af því og held ég ,,náist" hvort sem er ;-|

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 23.7.2008 kl. 22:50

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Kaptein Ísland, ég hvet þig til að elta linkanna í greininni og lesa heimildirnar. Það sem þar stendur fjallar ekki um neinar ofsóknir heldur meðferð persónuupplýsinga og (oft á tíðum ólöglega) framkomu fyrirtækja jafnt sem opinberra stofnana gagnvart venjulegu fólki eins og mér og þér, þarna er verið að benda á að kannski sé nú ekki allt sem sýnist á yfirborðinu og sjálfur fer ég varlega í fullyrðingar í texta mínum. Ef það fellur undir þína skilgreiningu á oksóknarbrjálæði, á það þá ekki jafnt við um t.d. umfjöllun fréttamannsins Ingólfs Bjarna Sigfússonar o.fl. bæði á Stöð 2 og fleiri fjölmiðlum um meint fangaflug CIA? Fullt af fólki um víða veröld hefur mjög sennilega lögmætar ástæður til að telja sig vera ofsótt, en ofsóknarbrjálæði er hinsvegar þegar viðkomandi er haldinn ranghugmyndum, þ.e. hann ímyndar sér hluti sem enginn fótur er fyrir. "So is it "paranoia" when there's really someone out to get you?!!!"  ;)

Ég fullyrði að þær heimildir sem ég vitna í eru fjarri því að vera ímyndun ein, og ég mun líklega fyrr leita til Geðsviðs LSH af öðrum orsökum en beinlínis paranoiu. Getur nokkuð verið að kapteinnin sé kannski bara haldinn afneitun á háu stigi? (Sem er btw. bráðsmitandi í þessu samhengi, "Ignorance is bliss!".) Svona svipað og fólkið sem ennþá trúir því að réttlætingarnar fyrir Íraksstríðinu hafi verið heilagur sannleikur (já það fyrirfinnast ennþá slíkir einstaklingar). Og finnst það kannski líka hljóma sennilega að "19 arabar vopnaðir blaðahnífum" hafi einir síns liðs náð að snúa á stærsta, dýrasta, tæknivæddasta eftirlits- og herveldi mannkynssögunnar, ræna fjórum flugvélum af alþjóðaflugvelli en samt verið svo kærulausir að skilja eftir sönnunargögn í bílaleigubíl fyrir utan, og flogið þeim svo í dágóðan tíma óáreittir gegnum þéttbýlustu svæði N-Ameríku í átt að skotmörkum sínum og hitt þau með 75% nákvæmni (3 af 4, en einni vél var grandað í dreifbýli). Yeah right... ef allir væru svo móttækilegir, þá væri lögregluríkið nú þegar orðið að veruleika og umræða sem þessi væri þá að sjálfsögðu bönnuð!

Guðmundur Ásgeirsson, 24.7.2008 kl. 02:52

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Stefán Þór, þó heimurinn í dag sé ansi svartur, þá var það ekki ég sem málaði hann þannig! Ef ég fengi að ráða væri hann fjólublár. ;)

Guðmundur Ásgeirsson, 24.7.2008 kl. 03:02

7 Smámynd: Stefán Þór Steindórsson

Ég er bara þeirrar skoðunnar að við lifum í þessum heimi svo fá ár að svona pælingar eru kanski bara tímasóun í stað þess (einsog í mínu tilfelli) að vafra bara um facebookið og finna gamla félaga sem ég undir öðrum kringumstæðum vissi ekkert hvar væri staddur í heiminum (og svo getum við talað heillengi um það hvað ég hef uppúr því að finna svona fólk sem ég áður hef hætt að ræða við )

Stefán Þór Steindórsson, 24.7.2008 kl. 09:37

8 identicon

Sæll,

Ég verð að koma með eina athugasemd, sérstaklega þar sem þú nefnir að Facebook hefur einu tekjurnar sýnar af upplýsingaöflun og sölu til þriðja aðila, þá hljóta einhverjar tekjur að koma frá auglýsingum því ansi margir íslenskir aðilar auglýsa hjá þeim, ekkert ósvipað og google gerir. Eru google kannski partur af samsærinu?

Grétar Þorsteinsson (IP-tala skráð) 29.7.2008 kl. 19:08

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk Grétar, ágætis ábending með auglýsingatekjurnar, þar sem ég nota þetta ekki sjálfur þá er mér auðvitað ekki fullkunnugt um allt sem þarna er að finna. Hvort það er um eitthvað "samsæri" að ræða skal ósagt látið. Ég vildi fyrst og fremst vekja athygli á ákveðnum tengslum sem í vissu samhengi gætu tvímælalaust þótt vafasöm, og þeim réttindum sem fólk er (óafvitandi?) að afsala sér þarna. Hinsvegar verður fólk sjálft að gera upp við sig hvað því þykir grunsamlegt og hverjum það treystir, svo eru auðvitað alltaf einhverjir sem vilja bara stinga hausnum í sandinn alveg sama hvað... Sjálfur er ég hæfilega tortrygginn gagnvart netfyritækjum almennt en hef samt ekkert verið að sleppa mér í alvöru paranoiu eins og að dulkóða allan póst eða eitthvað slíkt, ég held ég sé bara varla svo merkilegur að það myndi skipta máli. (Auk þess skilst mér að NSA hleri hvort sem er netið eins og það leggur sig og viti líka um flesta gallana á nútíma dulkóðun sem geri þeim kleift að leysa hana frekar auðveldlega... en þá er maður líka kominn út í samsæriskenningar! ;)

Guðmundur Ásgeirsson, 31.7.2008 kl. 16:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband