Ekki fréttir í mínum eyrum!

Þessu var að hluta til spáð hér 17. september 2008. Það sem er búið að vera að koma fyrir Ísland undanfarna daga er bara fyrsta atvikið í keðjuverkun sem er farin af stað í fleiri löndum og mun breiðast út eins og farsótt, sannið bara til.

Heyrið þið hljóðið?  ... það eru Dómínókubbarnir sem eru byrjaðir að falla. Í þessu geópólitíska endatafli erum vér Íslendingar því miður aðeins peð* á leikvelli hinna stóru og sterku.

*Í skák er það gjarnan þannig að peðunum er fórnað fyrst, en eftir það eru svo allar líkur á meira blóðbaði.

Í fyrradag var það Ísland með tilheyrandi dramatískum skeytasendingum við bandaríska Seðlabankann, í gær féll Þýskaland og Spánn, í dag Bretland, og svo koma Rússar öllum að óvörum færandi það sem virðist vera gylliboð inn í vonlausa stöðu hér á meðan kauphöllin í Moskvu er í frjálsu falli! (huh?) Í dag heyrist svo frá Nicolas Sarkozy (sem er kyrfilega í vasanum á bankamafíunni btw, bróðir hans vann meira að segja hjá Carlyle), sem kallar hástöfum eftir "enduruppstokkun" á hagkerfum veraldar.

Augljóslega er veruleiki gjaldþrotsins smám saman að renna upp fyrir leiðtogum heims sem keppast nú um það hver verði skiptastjóri og fái að útdeila bestu bitunum úr þrotabúinu. Á meðan enn vinnst tími til er eflaust víða keppst við að "dömpa" hinum og þessum eignum út um bakdyr og brunastiga til Cayman í "öruggt skjól". Á meðan er "peningum" dælt eins og í botnlausan pytt út úr þeim prentvélum sem enn virka og inn í kerfið, til að láta líta út fyrir að það virki ennþá þrátt fyrir að það bráðni nú hratt undan þynningu lausfjárgrunnsins. Eða kannski er ég bara af tala af fávisku, getur ekki galdramaðurinn Davíð Oddsson bara prentað helling af krónum og notað þær til að borga allar skuldirnar sem eru að angra okkur? Það myndi heldur betur redda málum, eða þannig, hehe...

Ég myndi fara afar varlega í það að hrapa að einhverri niðurstöðu í þessu óðagoti, afleiðingarnar geta orðið mjög afdrifaríkar, ef þið eigið verðmæti önnur en peninga væri réttast að geyma þau vel núna. Prentaðir pappírspeningar (sérstaklega $) stefna hraðbyri í að verða einskis virði, þegar engin ríkisstjórn verður eftir sem vill "bakka þá upp" er það eina sem eftir stendur það traust sem ríkir milli einstaklinga og því er mikilvægt að við höldum í það sem fastast og þéttum raðirnar. Kannski "nýja hagkerfið" muni e.t.v. fyrst og fremst snúast um vöruskipti eins og á öldum áður, hver veit? Kannski þeir sem tóku á sínum tíma ákvörðun um stuðning við gegndarlausan stríðsrekstur Bandaríkjamanna, sem hefur nú sogað upp allt laust fjármagn í dollurum ásamt húsnæði og ævisparnaði fólks um víða veröld. Ráðamenn tala um hamfarir, en hvað eru svona hamfarir sem óneitanlegu eru af mannavöldum, annað en efnahagsleg hryðjuverk? Mikilvægur hluti af því að sætta þjóðina við örlög sín, hver sem þau verða, hlýtur að vera að draga þá sem ábyrgir eru fyrir þar til gerðar stofnanir og láta þá svara til ábyrgðar.

Ég veit ekki hvort einhverntíma í Íslandssögunni hefur verið dæmt fyrir landráð, en er ekki kominn tími til að dusta rykið af þeim lagabókstaf [feitletranir af minni hálfu]:

- Úrdr. úr X. kafla almennra hegningarlaga -

91. gr. Hver, sem kunngerir, skýrir frá eða lætur á annan hátt uppi við óviðkomandi menn leynilega samninga, ráðagerðir eða ályktanir ríkisins um málefni, sem heill þess eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin, eða hafa mikilvæga fjárhagsþýðingu eða viðskipta fyrir íslensku þjóðina gagnvart útlöndum, skal sæta fangelsi allt að 16 árum.
Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem falsar, ónýtir eða kemur undan skjali eða öðrum munum, sem heill ríkisins eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin.
Sömu refsingu skal enn fremur hver sá sæta, sem falið hefur verið á hendur af íslenska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri.
Hafi verknaður sá, sem í 1. og 2. mgr. hér á undan getur, verið framinn af gáleysi, skal refsað með …1) fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef sérstakar málsbætur eru fyrir hendi.

Við skulum vona fyrir hönd allra hlutaðeigandi að þeir muni geta borið við gáleysi þegar þar að kemur.

Sem fyrr er þessi færsla um stöðu efnahagsmála undir "Öryggis- og alþjóðamál" en vonandi verður seinna hægt að færa hana undir "Fjármál og viðskipti", og Viðskiptablaðið muni að sami skapi geta hætt að flytja fréttir af milliríkjadeilum í uppsiglingu.

Góðar stundir.


mbl.is IMF: Hagkerfi heimsins að sökkva
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

Fólk á náttúrulega að vera duglegra að kommenta og segja já við þessari ágætistillögu - það sem DO og félagar hafa gert okkur eru ekkert annað en landráð verstu landráð Íslandssögunnar.

halkatla, 8.10.2008 kl. 23:47

2 Smámynd: halkatla

"Tyrkirnir" í Tyrkjaráninu eru einsog algjör krútt í samanburðinum

halkatla, 8.10.2008 kl. 23:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband