Á að taka þetta alvarlega?

"Hópurinn sem um ræðir er hinsvegar á þeirri skoðun að Bandaríkjastjórn eigi að taka slíkar fullyrðingar alvarlega, en ekki vísa þeim á bug."

Er það ekki einmitt vegna þess að þetta er tekið alvarlega, sem svona löguðu er undantekningalaust vísað á bug? Í 60 ár (þ.e. frá ætlaðri brotlendingu óþekkts flugfars í Roswell) hafa bandarísk yfirvöld staðfastlega neitað að viðurkenna eða taka slík fyrirbæri alvarlega með opinberum hætti. Þeir sem fást við að smíða samsæriskenningar halda því hinsvegar fram að ýmsar sérdeildir sem heyra undir varnarmálaráðuneytið hafi á sama tíma fengist við umfangsmiklar rannsóknir á þessu sviði, en haldi þeim leyndum vegna "þjóðaröryggis" eins og öðru sem þeir vilja ekki að líti dagsins ljós. Eins og þegar slíkar kenningar eru annars vegar, þá eru sögurnar mjög misjafnar, og margar hverjar afar langsóttar og lítt trúverðugar. Enn aðrir halda því fram að það sé einmitt taktíkin, að láta það óáreitt að slíkir furðufuglar blási þetta upp í bull og vitleysu sem enginn trúir. Það er nefninlega mun auðveldara að halda leynd yfir einhverju sem flest venjulegt fólk efast um að sé einu sinni raunverulegt, og ef einhver kjaftar frá einhverju sem ekki má fréttast, þá er auðvelt að draga upp þá mynd að viðkomandi sé bara eitthvað skrýtinn og ekki mark takandi á slíku rugli.

Hér stendur ekki til að taka eindregna afstöðu til þessara mála að svo stöddu, en þetta eru hinsvegar að mörgu leyti forvitnilegar vangaveltur. Í dag eru æ fleiri vísindamenn að snúast á þá skoðun að líf utan Jarðar sé ekki bara góður möguleiki, heldur sé það allt að því óhjákvæmileg afleiðing aðstæðna sem eru algengar og einskorðast engan veginn við gufuhvolf Jarðarinnar. Þegar hafa fundist sólkerfi með plánetur svo líkar Jörðinni að eiginleikum, að nú telja menn aðeins tímaspursmál hvenær finnst annar "blár depill" þarna úti sambærilegur að stærð, hitastigi og efnasamsetningu. Ef líf finnst ekki á slíkum plánetum, má hinsvegar búast við því að sömu vísindamenn muni þurfa að finna skýringar á því afhverju er yfirhöfuð líf hér á Jörðinni en hvergi annarsstaðar, sem gengur þvert gegn líkindum og mörgum þeim uppgötvunum sem þegar hafa verið gerðar.

Sá möguleiki að við séu "ein" í tóminu er tölfræðilega afar ólíklegur og nánast útilokaður nema aðstæður hér séu þeim mun sérstæðari á alheimsmælikvarða, en eins og máltækið segir þá er "ekkert nýtt undir sólinni" og væntanlega á það líka við utan sólkerfisins. Hér á jörðinni gildir almennt það viðmið að líf fyrirfinnst á flestum þeim stöðum þar sem það þrífst yfirhöfuð. Dæmi: ef ákveðin fisktegund finnst t.d. í Eyjafirði myndum við fastlega búast við að finna hana líka í Skagafirði þar sem flest skilyrði í hafinu eru frekar svipuð, en á slíkum forsendum byggist m.a. auðlindastjórnun og efnahagsleg afkoma þjóðarinnar allrar! Ef við ætluðum að halda til streitu þeirri hugmynd að mannkynið sé einstakt í sköpunarsögunni, þá yrðum við fyrst að útskýra á fullnægjandi hátt hvað það er sem gerir jörðina frábrugðna öllum öðrum plánetum í alheiminum (en ekki bara sumum þeirra).


mbl.is Vilja að Bandaríkjastjórn hefji aftur rannsókn á fljúgandi furðuhlutum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Skemmtilegar vangaveltur, sjálfur er ég sannfærður um að það sé fráleit hugmynd að við séum ein í hinum óendanlega stóra geim. Svo er maður alltaf að læra það betur og betur að mörgu er haldið frá almenningi í allskonar málum sem gætu valdið óróa eða hræðslu...nú eða truflað vinnufriðinn.

Georg P Sveinbjörnsson, 13.11.2007 kl. 13:56

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Svo er maður alltaf að læra það betur og betur að mörgu er haldið frá almenningi"

 Til hamingju, og velkomin í þann ört stækkandi hóp. Skortur á gagnrýnu hugarfari er eitt alverlegasta samfélagsmeinið á vesturlöndum. Athugasemdir þínar benda til þess að rökhugsun þín sé hinsvegar við góða heilsu!

Guðmundur Ásgeirsson, 13.11.2007 kl. 14:43

3 identicon

Hvað segir Þorsteinn Sæmundsson við þessu?

Guðmundur Ben (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 14:47

4 Smámynd: halkatla

fljúgandi furðuhlutir þurfa ekkert að þýða geimverur endilega, en semsagt mjög mörg lönd/ríkisstjórnir eru farin að ræða um UFO einsog hversdagsleg fyrirbæri því þeir sjást svo oft, það er verið að rannsaka þá mjög víða, okkur er bara ekki sagt frá því...

halkatla, 13.11.2007 kl. 18:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband