Gjaldþrot vænlegra en greiðsluaðlögun

Samkvæmt upplýsingum frá embætti umboðsmanns skuldara er kostnaður við hvert mál sem tekið er fyrir hjá embættinu að jafnaði 300.000 krónur. Einnig kemur fram að það séu lánveitendur sem standi straum af þessum kostnaði, en starfsemi embættisins er fjármögnuð með gjöldum sem fjármálafyrirtækjum er gert að greiða.

Sé miðað við algenga taxta lögfræðinga ekki síst þeirra sem sitja í slitastjórnum föllnu bankanna er ekki fjarri lagi að miða 30.000 kr./klst. Miðað við þann taxta er hægt að áætla að hvert mál taki um 10 klst. vinnu að jafnaði. Þetta segir þó ekki alla söguna því málin sem koma inn á borð embættisins eru mörg og misjöfn, og getur verið mjög breytilegt hversu tímafrek þau eru.

Samtals eru mál sem komið hafa á borð umboðsmanns skuldara frá stofnun embættisins um mitt ár 2010 orðin rúmlega 12 þúsund talsins. Þar af eru um 5.000 greiðsluaðlögunarmál, um 3.500 ráðgjafarmál, um 3.500 erindi og um 300 umsóknir um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar samkvæmt lögum sem tóku gildi þann 1. febrúar á þessu ári.

Þar sem greiðsluaðlögunarmál eru umfangsmeiri en aðrar tegundir mála hjá embættinu er næsta öruggt að þau séu að jafnaði bæði tímafrekari og þar með kostnaðarsamari heldur en önnur mál. Jafnframt eru greiðsluaðlögunarmálin innan við helmingur heildarmálafjölda samkvæmt þessari tölfræði og er því er alls ekki útilokað að þau geti jafnvel verið umtalsvert tímafrekari og dýrari heldur en meðaltal allra mála segir til um.

Til samanburðar þá er kostnaður við fjárhagstoð vegna gjaldþotaskipta samkvæmt áðurnefndu úrræði sem er nýtilkomið, lægri heldur en sú fjárhæð sem jafnan er krafist af dómstólum sem tryggingu fyrir skiptakostnaði. Almennt viðmið er nú kr. 250.000 en þó getur endanlegur skiptakostnaður orðið lægri en það í mörgum tilfellum. Þessi kostnaður er einnig greiddur af gjöldum sem innheimt eru af fjármálafyrirtækjum.

Fyrir utan þennan kostnaðarmun, er fleira sem gerir gjaldþrot að vænlegri valkosti fyrir marga heldur en greiðsluaðlögun. Hér eru nokkur þeirra atriða:

Greiðsluaðlögun tekur þrjú ár á meðan gjaldþrot tekur aðeins tvö.

Greiðsluaðlögun felur það í sér að áfram er greitt af skuldum miðað við áætlaða greiðslugetu á aðlögunartímabilinu og ekki fyrr en að því langa óvissutímabili liðnu liggur fyrir hvort og hvað mikið fellur niður. Við gjaldþrot stöðvast hinsvegar allar greiðslur strax og fullvíst er að allar skuldir eru fallnar niður að tveggja ára fyrningartíma liðnum, nema skuldarinn fái lottóvinning.

Greiðsluaðlögun er í raun sársaukafullt og langdregið nauðasamningaferli. Gjaldþrot er hinsvegar eins og að rífa plástur snöggt af sári, vont í smá stund en svo er allt búið.

Ábyrðgarmenn fá skuldirnar í báðum tilvikum umsvifalaust í hausinn. Þó skuldari semji um fulla niðurfellingu við greiðsluaðlögun eru ábyrgðarmennirnir samt rukkaðir inn að skinni. Þrátt fyrir að þetta séu að sjálfsögðu samningsbrot þá njóta þau því miður blessunar dómskerfisins. Staða ábyrgðarmanna er því ekkert verri við gjaldþrot skuldara heldur en leiti hann greiðsluaðlögunar.

Svokallað "greiðsluskjól" sem hefur verið haldið fram að eigi að taka gildi þegar umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið samþykkt, er nafnið tómt. Þrátt fyrir að kveðið sé um að á meðan umsókn sé til meðferðar sé óheimilt að ganga að eignum skuldara eins og við greiðslustöðvun vegna nauðasamninga, hafa kröfuhafar samt virt það að vettugi.

Skýrasta dæmið um það eru vörslusviptingar á ökutækjum en slíkir þjófnaðir fóru lengi vel fram að næturlagi og algjörlega utan dóms og laga, en með blessun og beinlínis þáttöku lögregluyfirvalda á höfuðborgarsvæðinu að skipan aðstoðaryfirlögregluþjóns. Þolendur slíkra glæpaverka hefðu ekkert verið verr settir þó þeir hefðu þurft að láta sömu eignir af hendi við gjaldþrot.

Hvorki við gjaldþrot né greiðsluaðlögun er á neinum stað í ferlinu staldrað við og spurt að því hvort að þær"skuldir" sem um ræðir byggi yfir höfuð á löglegum lánasamningum. Þess eru jafnvel dæmi að fólk sem setið hafi uppi með ólögleg lán sem hafa tvöfaldast eða þrefaldast í meðförum bankanna hafi sótt um greiðsluaðlögun. Eftir að allar eignir hafi verið hirtar hafi svo verið boðin greiðsluaðlögun upp á nákvæmlega það sama og þau hefðu hvort eð er átt rétt með leiðréttingu á ólöglega láninu.

Þannig eru ótal dæmi þess að fólk hafi í góðri trú sótt um greiðsluaðlögun, en fengið eitthvað allt annað en þau töldu sig í góðri trú vera að sækja um, jafnvel verri útkomu en ef þau hefðu aldrei sóst eftir greiðsluaðlögun.

Niðurstaðan er sú að af öllum misheppnuðum "úrræðum" stjórnvalda vegna skuldavanda heimila eftir hrun eru greiðsluaðlögun án efa það allra versta og er beinlínis skaðlegt. Ekki síst vegna þess að það gefur í skyn þá hugmynd sem leitt hefur marga inn um dyr umboðsmanns skuldara, að þar sé að finna raunverulegan umboðsmann skuldara sem taki það hlutverk alvarlega að gæta hagsmuna þeirra og réttinda.

Það er því miður fullkomin ranghugmynd.


mbl.is Hvert mál kostar um 300.000
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband