Hálfa trilljón eða greiðslufall í ágúst

Minnesotaríki í Bandaríkjunum er komið í greiðslustöðvun vegna þess að ekki hefur náðst samkomulag um lántökuheimildir á fjárlögum til að fjármagna ríkisreksturinn.

Þetta er í raun samskonar staða og er uppi í þjóðþinginu í Washington, en ríkissjóður hefur nú skuldsett sig að ystu mörkum lántökuheimilda eða um rúmlega 14 trilljónir dala. Til að standa undir rekstri alríkisins hefur fjármálaráðuneytið gripið til þess ráðs að fresta inngreiðslum í ýmsa velferðarsjóði, þar á meðal lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna. Þessi bókhaldsbrella mun þó aðeins duga til að fresta óhjákvæmilegu greiðslufalli til 2. ágúst, hafi ekki náðst samkomulag fyrir þann tíma um auknar lántökuheimildir.

Vegna þessarar stöðu mun þingið ekki taka sumarfrí, en því hefur verið spáð hér að mikið sjónarspil og hrossakaup muni eiga sér stað í sumar á meðan þingmenn ræða niðurskurðaraðgerðir sem stjórnarandstaðan vill setja sem skilmála fyrir hækkun skuldaþaksins. Eftir að hafa mjólkað út hina ýmsu bitlinga fyrir sína hagsmunaaðila muni þingmenn svo á elleftu stundu samþykkja hækkunina, hugsanlega ekki fyrr en 1. ágúst.

En jafnvel þó að þetta gangi eftir og veitt verði heimild fyrir aukinni skuldsetningu, sem mun þá hugsanlega í fyrsta skipti fara yfir 100% af vergri þjóðarframleiðslu, er samt ekki víst að það dugi til. Í ágúst koma nefninlega ríkisskuldabréf fyrir $467,4 milljarða til innlausnar, sem mun þurfa að endurfjármagna með einhverjum hætti. Á sama tíma þarf líka einhvernveginn að fjármagna $134,3 milljarða uppsafnaðan rekstrarhalla.

Bandaríkin hafa verið rekin með viðvarandi tapi það sem af er þessari öld og opinberar skuldir nema nú tæpri þjóðarframleiðslu, sem er svipað og skuldahlutfall Írlands. Þegar þetta er skrifað hefur Bandaríkjastjórn 60 daga til að finna kaupendur að skuldarviðurkenningum sínum fyrir meira en hálfa trilljón dala eða hér um bil 4% af þjóðarframleiðslu. Gangi þeim vel.


mbl.is Starfsemi ríkisins í Minnesota hefur stöðvast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn R. Pálsson

Hafa þeir ekki látið seðlabankann kaupa þessi skuldabréf? Las það á vald.org. En maður verður frekar svartsýnn á framtíð vesturlanda ef maður fer að spá of mikið í þetta, þau eru ansi mörg komin gjörsamlega á hausinn. Spurning hvort verið sé að setja þriðju heimstyrjöldina í gang til að komast út úr þessu.

Sveinn R. Pálsson, 2.7.2011 kl. 16:06

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sannur, þegar þjóðir eru í þeirri aðstöðu að allir skulda öllum þá er það áreiðanlega engin lausn að "ýta á takkann".

Dauðir menn greiða engar skuldir.

Vonandi setjast heimisins þjóðarleiðtogar niður, saman, og skiptast á ónýtum skuldaviðurkenningum og strika svo út rest. Á því tapar enginn nema fjármálaspekúlantarnir - og hver vorkennir þeim svo sem?

Kolbrún Hilmars, 2.7.2011 kl. 16:30

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sannur, í fyrra voru 80% af útgefnum ríkisskuldabréfum keypt jafnharðan af bandaríska seðlabankanum. Þetta er auðvitað peningaprentun, en kaupmáttur gjaldmiðils rýrnar óhjákvæmilega við slíka fölsun.

Þess vegna hefur evran ekki gefið eftir enn: hún er mæld í dollurum. Rýrni dollarinn hraðar en evran mælist það sem hækkun evru gagnvart dollar, jafnvel þó báðar myntirnar séu að hrynja.

P.S. Þriðja heimsstyrjöldin er löngu hafin þó það hafi ekki verið tilkynnt með formlegum hætti. Eða hver ætti eiginlega að senda út slíka tilkynningu???

Guðmundur Ásgeirsson, 2.7.2011 kl. 16:37

4 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sælir,

Kína hefur fjármagnað megnið af þessu eyðslufylleríi hér, og þeir eiga nú um 55% af kröfum á bandaríska ríkið skv. síðustu tölum sem ég sá frá því einhverntíma á síðasta ári.  Þeir kaupa þetta sennilega líka, en einhverntíma kemur að skuldadögunum.  Það er enginn munur á að reka ríkissjóð og fyrirtæki - það þarf að vera jöfnuður á tekjum og útgjöldum.  Þetta virðast stjórnmálamenn eiga mjög erfitt með að skilja og hafa látið greipar sópa um ríkiskassann og hagað sér ekki ósvipað og íslenskir bankaeigendur gerðu á síðasta áratug!  Svei attan segi ég nú bara;)

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 2.7.2011 kl. 16:51

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Neibb, þeim leik er lokið. Kína hefur lýst því yfir að þeir ætli ekki að kaupa meira af bandarískum ríkisskuldabréfum, heldur þvert á móti selja allt að 66% af þeim sem þeir eiga nú þegar. Bandaríkin verða því beinlínis í samkeppni við Kína um að finna nýja kaupendur að skuldum sínum. Það sem Kínverjar ætla að kaupa í staðinn og eru meira að segja byrjaðir á eru skuldabréf evruríkja. Með öðrum orðum þá ætla þeir ekki að bíða lengur eftir auknum völdum innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, heldur einfaldlega að yfirtaka hlutverk hans.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.7.2011 kl. 17:15

6 Smámynd: Sveinn R. Pálsson

Ég held að Kínverjarnir hafi hætt að kaupa þessi bréf og þá hafi seðlabankinn þeirra farið að kaupa í staðinn. Bernanke sagði víst að þeir væru reiðubúnir að nota þyrlur til að dreifa dollurum til að efla hagkerfið.

Sveinn R. Pálsson, 2.7.2011 kl. 17:16

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Og hvað ætli menn fengju nú fyrir dollarinn ef Bernanke gerði það. Hann yrði jafngildi Sómalísks dollars eða þaðan af verra. Ef þeir ætla sér að stúta dollarnum til að greiða götu sameiginlegrar Amerískrar myntar (Amero) þá er þetta náttúrlega besta leiðin. Menn þyrftu að fara með dollara í hjólbörum til að kaupa brauð. Menn þekkja svo framhaldið í því ferli.

Það er Game over. Allir tapa og svo gefum við upp á nýtt.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.7.2011 kl. 19:14

8 Smámynd: Sveinn R. Pálsson

Þeir eru vísvitandi að keyra upp verðbólguna. Það þarf ekki annað en skoða línuritin hér til vinstri hjá Guðmundi til að sjá að verðbólgan er kominn á fullt í hrávörunum.

Sveinn R. Pálsson, 2.7.2011 kl. 20:42

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er búið að heilaþvo almenning til að einblína á hlutabréfaverð sem hin eina sanna efnahagsmælikvarða. Á meðan það hrynur ekki er hægt að telja fólki trú um að allt sé í góðu lagi og fyrirbyggja panikk. Blekkingin liggur hinsvegar í því að hlutabréfaverð er mælt að nafnvirði og tekur því ekki tillit til kaupmáttar. Til þess að viðhalda þessari blekkingu allt frá 19. október 1987 ("Black Monday") skipaði þáverandi forseti "samráðs- og vinnuhóp um fjármálamarkaði" sem gengur í daglegu tali gengur undir nafninu "Plunge Protection Team". Eins og sjá má hefur þeim tekist afburðavel að viðhalda nafnvirði Dow Jones vísitölunnar í nágrenni við 10.000 stig (breiða línan).http://upload.wikimedia.org/wikipedia/commons/thumb/f/fc/DJIA_2000s_graph_%28log%29.svg/800px-DJIA_2000s_graph_%28log%29.svg.png

Á þeim áratug sem þessi mynd nær yfir hefur hinsvegar kaupmáttur ummræddra 10.000 dollara rýrnað þannig að í lok tímabilsins jafngiltu þeir aðeins 7.770 dollurum miðað við verðlagið um aldamót.

Eins og Sannur Íslendingur bendir á þá endurspeglast þessi gjaldmiðilsrýrnun mjög vel í hrávöruverðinu eins og sjá má í vinstri dálki síðunar.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.7.2011 kl. 00:25

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Skemmtiefni: David Craig.

Taktu eftir fánefndu atriði, sem er vald EU yfir fjölmiðlum, sem gangrýna þá aldrei vegna þess að tilvera þeirra byggir á styrkjum frá sambandinu. (sagði einhver dreifð eignaraðild? Hlutlaus fjölmiðlun)

N.B. Maðurinn er ekki evrópubandalagsandstæðingur.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.7.2011 kl. 09:02

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Martha Andreasen Höfundur bókarinnar Brussels laid bare.

Hún er þingmaður á Evrópuþinginu, Evrópusinni.

Vitnisburðir þessa fólks er vægast sagt hrollvekjandi og þörf á að vekja athygli á þeim hér.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.7.2011 kl. 09:21

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég á reyndar alltaf dálítið erfitt með þetta hugtak: "evrópubandalagsandstæðingur".

Í fyrsta lagi er mikilvægt að gera skýr skil á milli annarsvegar ESB sem yfirþjóðlegrar stofnunar, og hinsvegar ríkjanna í Evrópu og fólksins sem í þeim býr. Þannig skilgreint eru Íslendingar til dæmis ekkert andstæðingar Frakka eða Möltubúa, þó að þeir séu í ESB. Þetta eru vinaþjóðir í þeim skilningi.

Í öðru lagi þarf að gera skýr skil á milli þess að fólk geti haft annarsvegar skoðun á stofnuninni sem slíkri, og hinsvegar tekið afstöðu til aðildar tiltekins ríkis að sambandinu. Í pólitísku samhengi innan ESB eru þeir sem efast um ágæti stofnunarinnar gjarnan kallaðir efasemdarmenn (eurosceptics) en það er hinsvegar ekki það sama og til dæmis að hafa skoðun á því sem Íslendingur hvort ég vil að landið mitt gerist aðili, eða eitthvað annað land ætti að gerast aðili eins og Noregur, eða hvort aðild að ESB hafi verið af hinu góða fyrir önnur ríki eins og Grikkland eða Eystrasaltslöndin eða eitthvað annað.

Persónulega hef ég frekar einfalda afstöðu til ESB: ég vil ekki að Ísland gerist aðili að sambandinu, og tel jafnvel ástæðu til að bakka nokkuð frá þeim samrunaverkefnum sem við höfum tekið þátt í t.d. Schengen o.fl. Það þýðir samt ekki að ég telji ESB allt til foráttu, heldur einfaldlega að það passi ekki fyrir íslenskar aðstæður. Yfir 80% þjóðarinnar eru N-Ameríkubúar.

Þar með er það heldur ekki mitt að segja til um hvað sé öðrum ríkjum fyrir bestu varðandi Evrópusamvinnu, og ekki er ég andvígur því að önnur ríki myndi með sér bandalög ef þau það vilja. Ef ég væri spurður hvaða afstöðu ég hafi til ESB sem slíks, þá myndi ég líklega svara því til að samruni í einhverri mynd kynni að vera af hinu góða fyrir ríkin á meginlandinu frá Miðjarðarhafi í suðri til Eystrasalts í norðri að Balkanskaga í austri, en að ESB í núverandi mynd sé þó ekki endilega skynsamlegasta útfærslan á slíkri hugmynd.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.7.2011 kl. 17:21

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Timothy Geithner fjármálaráðherra Bandaríkjanna hefur margoft sagt að engin varaáætlun sé til staðar, saþykki þingið ekki hækkun skuldaþaksins fyrir 2. ágúst. En rétt eins og í Evrópu eru slíkar yfirlýsingar tómur hræðsluáróður.

Treasury Secretly Weighs Options to Avert Default

Meðal þeirra möguleika sem eru til skoðunar: hvort hægt sé að finna gloppur í lögum sem gera forsetanum kleift að sniðganga stjórnarskránna og þingið og halda skuldabréfaútgáfu áfram. Það virðist ekki trufla þá þó tilgangur þess að stjórnarskrárbinda fjárveitingarvaldið hafi upphaflega verið að koma í veg fyrir að einn maður geti upp á sitt einsdæmi skuldsett hina þegnana.

Guðmundur Ásgeirsson, 8.7.2011 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband