Eldhúsdagsmótmæli á miðvikudagskvöld

Nú er þessu þingi að ljúka með eldhúsdagsumræðum næstkomandi miðvikudag kl. 19:40, enn eitt þingið á hrunárunum þar sem heimili landsins eru látin sitja á hakanum varðandi úrlausnir í lánamálum og endalausum byrðum er á herðar þeirra hlaðið.

Hvar er réttlætið?! Fór það í frí?

Fjölmennum á Austurvöll á miðvikudagskvöldið næstkomandi, þann 8. júní og höfum hátt á meðan eldhúsdagsumræður fara fram. Látum í okkur heyra, látum Alþingi heyra hversu ósátt við erum með árangursleysi þingsins í skuldamálum heimilanna.

Kjarni málsins;

Efnahagshrun, áralöng markaðsmisnotkun og svik fjármálastofnana, stöðutaka gegn krónunni á meðan veitt voru ólögleg gengistryggð lán. Verðtryggðu lánin hlaða utan á sig eins og snjóflóð og stuðla að hreinni og beinni eignaupptöku þegar litið er til uppsafnaðra verðbóta. Uppsöfnuð verðbólga er nú hátt í 40% bara frá árinu 2008.

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð í janúar 2009, kröfðust almennra leiðréttinga á því tjóni sem heimilin urðu fyrir með oftöku verðbóta og vaxta í formi gengistryggingar. Þess var krafist að byrðum hrunsins yrði deilt milli heimilanna og fjármálastofnana. Ekkert gerðist nema hálfkák og aum úrræði, nauðungarsölur og vörslusviptingar voru látnar viðgangast þrátt fyrir vitneskju um að gengistryggðu lánin væru líklegast ólögmæt, sem síðan kom réttilega í ljós. Stjórnvöld settu þá lög til að heimila lögbrjótunum að endurreikna lán aftur í tímann þrátt fyrir að kröfur þess tíma hafi þegar verið greiddar. Bæði íslensk lög og evróputilskipanir virtar að vettugi til að hygla lögbrjótunum og enginn vill viðurkenna mistökin þrátt fyrir að svo augljós séu.

Tíminn líður og heimilin blæða, hærri afborganir og óréttlæti látið viðgangast, verðbætur hlaðast upp á höfuðstól verðtryggðra lána á meðan stjórnvöld gefa það út að ekki verði farið í frekari aðgerðir í þágu heimilanna, engar almennar leiðréttingar, stórfellt tjón heimilanna ekki viðurkennt sem skyldi og ekki litið á það sem forsendurbrest í lánasamningum sem beri að leiðrétta.

Hvar er réttlætið?! Fór það í frí?

Við krefjumst þess enn og aftur að þetta tjón verði leiðrétt með almennum hætti og við krefjumst afnáms verðtryggingar á neytendalán. Við krefjumst þess einnig að lögleysa 151/2010 verði felld úr gildi og ný réttlát lög sett um endurútreikninga gengistryggðra lána.

Leiðréttingar á forsendubresti lána eru ekki ölmusa til hinna fátæku né heldur eru þær gjafir - þær eru einfaldlega leiðréttingar á oftöku vaxta og verðbóta sem allir urðu fyrir og Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að þeim verði skilað!

Þetta skilafé mun auka hagsæld heimilanna og um leið hagsæld landins sem mun rísa um leið og réttlætinu verður framfylgt og heimilin hafa úr meiru að moða.

Fjölmennum á Austurvöll á miðvikudagskvöldið og höfum hátt á meðan eldhúsdagsumræður fara fram. Látum í okkur heyra, látum Alþingi heyra að við erum ekki ánægð með árangursleysi þingsins í skuldamálum heimilanna.

Nánari upplýsingar um þennan viðburð hér


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband