Skotfæri fyrir 7,3 milljarða ISK fuðra upp

Talsmaður Bandaríkjahers sagði í kvöld að 112 Tomahawk stýriflaugum hefði verið skotið á Líbýu (ekki Líbíu eins og það er ritað í frétt mbl).

Stykkið af þessum flaugum kostar skv. Wikipedia rúma hálfa milljón USD eða 65,4 milljónir ISK mv. gengi dagsins. Miðað við þessar forsendur kostuðu bara skotfærin í þessari árás ígildi 7,3 milljarða ISK, og er þá ótalinn kostnaður við rekstur þeirra fjölmörgu umfangsmiklu kerfa sem nauðsynleg eru til að framkvæma svona hárnákvæma árás úr fjarska, auk mannafla o.s.frv. Svo dæmi sé tekið eru GPS hnit skotmarkanna fengin fyrirfram með nákvæmum mælingum og loftmyndum frá háþróuðum njósnagervihnöttum, verð á slíkri þjónustu fæst varla gefið upp opinberlega en er líklega allmörgum verðflokkum fyrir ofan venjulega fermingarmyndatöku.

Á sama tíma segjast sum ríki innan Bandaríkjanna ekki eiga fyrir launum opinberra starfsmanna. Þetta er athyglisvert og ætti að vekja fólk til umhugsunar um hverskonar ógöngur hið svokallaða fjármálakerfi heimsins er komið út í. Því miður hafa samt ekki nógu margir vaknað til vitundar ennþá, en kannski það muni breytast þegar sprengjum fer að rigna í þínum eigin bakgarði sem er varla meira en tímaspursmál fyrst að stríð er orðið svona arðbært.

Það verður samt líklega ekki arðbært fyrir líbýsku þjóðina, sem verður núna sú þriðja á ca. áratug sem Bandaríkjaher sprengir aftur til steinaldar frá sjónarhóli tækniþróunar og innri uppbyggingar.

Tomahawk flugskeytin eru smíðuð hjá General Dynamics (GD) sem er einn af stærstu hergagnaframleiðendum heims. Verð á hlutabréfum fyrirtækisins í kauphöllinni í New York (NYSE) fór að stíga um miðja síðustu viku eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

GD

Leiða má að því líkur að hækkunina megi hugsanlega rekja til spákaupmennsku þar sem veðjað er á hernaðaraðgerðir gegn Líbýu = aukna eftirspurn eftir hergögnum = aukinn hagnað hjá GD. Það sem er hinsvegar enn athyglisverðara er magn viðskipta sem þrefaldaðist frá mánudegi en 75% af viðskiptunum á föstudeginum fóru fram á síðasta klukkutímanum fyrir helgarlokun. Þrátt fyrir að ég sé ekki sérfræðingur í hlutabréfamörkuðum og hafi aldrei átt kristalkúlu heldur, ætla ég samt að gerast svo djarfur að spá því hér og nú að þegar markaðir opna eftir helgina muni verðið á hlutabréfum General Dynamics snarhækka í umfangsmiklum viðskiptum, og hugsanlega annara hergagnaframleiðenda líka. Ég myndi gjarnan vilja hafa rangt fyrir mér um þetta en það breytir samt ekki veruleikanum sem við lifum við.

Svo skilst mér að fátt haldi nú uppi hlutabréfaverði í Japan eftir jarðskjálfta flóðbylgju og kjarnorkuslys, annað en gengdarlaus peningaprentun (15 trilljón Yen í vikunni og við erum ennþá að telja). Nema kannski ef vera skyldi spákaupmennska með hlutabréf í verktakafyrirtækjum og vinnuvélaverksmiðjum, það verður nefninlega nóg af verkefnum fyrir þau við hreinsunar- og enduruppbyggingarstarf um ókomin ár. Hvort helstu vörur sem fólki eru nauðsynlegar til lífsviðurværis eins og t.d. vatn og matvæli (án geislavirkni) munu verða fáanleg fyrir alla þessa peninga, á hinsvegar ennþá eftir að koma í ljós.

Beygjum okkur nú öll í lotningu fyrir hagkerfi nútímans, þar sem hugtakið "hagnaður" þýðir dauði og eyðilegging. Eða þannig...


mbl.is 112 stýriflaugum skotið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Eru stríð ekki alltaf góð fyrir efnahaginn? 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 20.3.2011 kl. 01:13

2 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Góður pistill í öllum sínum skelfilegheitum. Get fátt sagt.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 20.3.2011 kl. 01:21

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jóna Kolbrún: eru dauði eyðilegging einhverntíman góð fyrir einhvern? Vandamálið sem ég er að lýsa hér liggur í því að hið svokallaða efnahagskerfi sem heimurinn býr við ýtir beinlínis undir svona hörmungar.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.3.2011 kl. 04:35

4 identicon

Mér sýnist nú hver eldflaug kosta aðeins meira en hálfa milljón dollara í dag.

Tæplega 756.000$ sýnist mér á http://en.wikipedia.org/wiki/Tomahawk_(missile)

Björn I (IP-tala skráð) 20.3.2011 kl. 08:07

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þess þá heldur Björn, ég tók bara fyrstu töluna sem ég fann. Það má vel vera að hún sé úrelt en passar samt ágætlega við það að oftast hef ég heyrt talað um þessi skeyti þannig að eitt þeirra kosti á við góðan sportbíl af dýrari gerðinni. 500-756 þúsund $ passar miðað við það verðbil.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.3.2011 kl. 13:51

6 Smámynd: Kristinn Pétursson

  1. Mesta viðskiptabjartsýni - "ever" er að reyna að kaupa Tomahawk flugskeyti á kaupleigu - kaskótryggt fyrir hugsanlegu tjóni.....
  2. ....
  3. Þegar kóreanska farþegaþotan var skotin niður um árið... með 269 manns  þá var teiknuð skopmynd af fréttinni eins og hún var sögð á TASS fréttastofunni .... og textinn undir skopmyndinni var hvað sovéski fréttaþulur Tass sagði í fréttaþulurinn:

"hitasækin sovésk stýriflaug lenti í árekstri við kóreanska farþegaþotu með 269 njósnara innanborðs.  Engan Sovétmann sakaði - en flugskeytið gjöreyðilagðist"....    

Kristinn Pétursson, 20.3.2011 kl. 18:30

7 identicon

Takk fyrir síðast.

kv. Þóra

Þóra Skúlad. (IP-tala skráð) 20.3.2011 kl. 22:15

8 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég var nú ekki að tala um dauða og eyðileggingu, heldur hverjir græða mest á stríðum... Svona almennt talað, BNA hafa oft byrjað stríð, þegar illa gengur heima fyrir hjá þeim...  Núna máttu þeir ekki, "byrja" vegna haturs á stefnu BNA í mið-austurlöndum, heldur varð ESB "Nató" að byrja þessar loftárásir.... Þetta segir okkur ýmislegt um pólitíkina í dag...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 21.3.2011 kl. 01:34

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Kristinn, þessi brandari er ansi svartur, en déskoti fyndinn! ;)

Já Jóna Kolbrún, skil hvað þú átt við og er bara nokkuð sammála þessu.

Þóra, takk sömuleiðis. Það var frábært að hitta ykkur.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.3.2011 kl. 11:16

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hmmm... verðið á GD tók kipp við opnun í dag í umfangsmiklum viðskiptum sem stóðu fram eftir degi. Ég hafði því miður rétt fyrir mér...

Guðmundur Ásgeirsson, 22.3.2011 kl. 03:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband