Eignarnámsleiðin kostar ekkert !

Starfshópur sem unnið hefur að tillögum um skuldavanda heimilanna hefur lagt fram ólíkar aðferðir við að fást við vandann. Hópurinn leggur mat á nokkrar leiðir en telur sig ekki hafa nægileg gögn í höndunum til að leggja mat á sumar þeirra, þar á meðal eignarnám og niðurfærslu skulda með gerðardómi sem Gísli Tryggvason talsmaður neytenda og fleiri hafa talað fyrir (tengill).

Mat hópsins er þríþætt:

  1. Hvað hver leið kostar
  2. Hversu mikið skuldir þeirra verstu settu lækka
  3. Til hversu margra einstaklinga lausnin nær

Nú vill svo til að sá er þetta skrifar hefur sjálfur lagt mat á svipaða leið, sem felur í sér að Íbúðalánasjóður beiti heimild sem honum var veitt með neyðarlögunum haustið 2008 til þess að yfirtaka húsnæðislán frá fjármálafyrirtækjum. Þegar lánin yrðu öll komin á einn stað væri mun auðveldara að hrinda lausnum í framkvæmd þar sem áhrif þeirra eru þá skilmerkilega afmörkuð við efnahagsreikning Íbúðalánasjóðs, ásamt því að svigrúm til niðurfærslu eykst miðað við aðrar fjármálastofnanir vegna lægri kröfu um eiginfjárhlutfall. Við matið var gengið út frá eftirfarandi forsendum og markmiðum:

  1. Tölulegar upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu (tengill
  2. Að lánin séu bókfærð á hálfvirði nú þegar hjá bönkum
  3. Að eignarnámsbætur greiðist á sbrl. tíma og lánin sjálf
  4. Flöt niðurfærsla um 14-16% sbr. tillögur HH (15,5%)
  5. Að ÍLS standi eftir með 3-5% eigið fé (er nú tæp 3%)

Með þessu móti yrðu áhrifin á efnahagsreikninga og tekjustreymi banka og lífeyrissjóða þau sömu og ef lánasöfnin stæðu óhreyfð (skaðleysi). Ástæðan fyrir því að gert er ráð fyrir flatri niðurfærslu skv. tillögum Hagsmuna Heimilanna er að útreikningar þeirra miðast við hversu mikið lánin hafa hækkað umfram verðbólgumarkmið, en niðurstaðan eftir leiðréttingu yrði þá í samræmi við lögmætar væntingar sem lántakendur gerðu fyrirfram og þannig leiðréttist sá forsendubrestur sem raunverulega olli vandanum. Auk þess er það sanngjarnt því þá er enginn að fá hlutfallslega meiru skilað en annar og skuldarar þurfa þá ekki að hafa áhyggjur af misræmi gagnvart öðrum skuldurum, en það hafa einmitt verið helstu rökin á móti niðurfærslum yfir höfuð. Eini fyrirvarinn við áðurnefndar forsendur er um raunverulegt bókfært virði lána hjá bönkum, en það hefur verið metið á bilinu 40-60% og taldi ég einfaldlega réttast að nota meðaltalið af því.

Niðurstöðurnar eru eftirfarandi (með áðurnefndum fyrirvara):

  1. Kostar engin útgjöld, aðeins smá vinnu
  2. Skuldir þeirra verst settu lækka strax um 15,5%
  3. Nær til allra sem skulda vegna eigin húsnæðis

Það athyglisverðasta við niðurstöðuna er líklega að þessi leið kostar ekki krónu. Eflaust kann einhverjum að þykja það ótrúlegt en engu að síður er það svo og ég get sýnt fram á það með útreikningum (sjá viðhengi). Háttsettir stjórnmálamenn hafa hinsvegar af miklu ábyrgðarleysi varpað fram í umræðuna svimandi háum kostnaðartölum (t.d. 220 milljarða) sem augljóslega var enginn fótur fyrir fyrst ekki hefur farið fram opinbert mat á því. Verður ekki betur séð en að þar sé um hreinan áróður að ræða til að draga úr almennum stuðningi við leiðréttingu, en slíkur málflutningur getur eingöngu þjónað hagsmunum fjármálafyrirtækja og verið á kostnað almennings. Hinsvegar má benda á að dýrasta niðurstaðan verður alltaf sú að gera ekki neitt, því að óbreyttu myndi það hafa í för með sér þjóðfélagslega upplausn sem seint verður metin til fjár. Eða hvers virði eru mannslíf? Ég er ennþá að heyra sögur af fólki sem tekur líf sitt vegna svartsýnis á ástandið, en það mætti koma í veg fyrir með þeim einföldu og ódýru bókhaldstilfærslum sem hér er lýst.

Hversu marga í viðbót ætla stjórnvöld að drepa úr pólitískri kerfistregðu?


mbl.is 9 leiðir vegna skuldavandans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæll Guðmundur, við fyrstu sýn virðist sem þú gerir ráð fyrir að skuldabréf húsnæðislána bankanna liggi óhreyfð inní bönkunum og þess vegna ganga röksemdir þínar kannski upp í teoríunni en er ekki allt eins líklegt að þau hafi nú þegar verið seld eða veðsett af bönkunum, sem gerir málið eins flokið og raun ber vitni. Minnir mig á sögu sem Guðmundur Franklín sagði af viðskiptum sínum við íslenska seðlabankamenn þegar hann var verðbréfamiðlari í New York. En þá hafði íslenska ríkið tekið stórt lán í Bandaríkjunum og þessi skuldabréf gengu kaupum og sölum með miklum afföllum. Guðmundur lét vita hingað heim að nú væri tækifæri til að kaupa þessi bréf á hrakvirði en Seðlabankamenn sinntu því ekki. Þeir hafa sennilega haldið að lánveitandinn bara geumdi skuldabréfin í læstum skjalaskáp uns þau væru greidd að fullu og þá fengjust þau afhent og yrðu afskráð eins og tíðkaðist í viðskiptum á Íslandi.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 10.11.2010 kl. 21:17

2 identicon

Því miður eru hér ennþá í gildi lög og stjórnarskrá sem þarf víst að fara eftir. Eignaupptaka þýðir að það þarf að greiða fullt markaðsverð, ekki bókfært virði eða síðasta kaupverð. Og það þarf að borga strax, ekki á einhverju árabili sem ákveðið er einhliða. 100% strax. Auk þess skortir lagaheimildir til eignaupptöku þegar önnur jafngóð úrræði bjóðast.

Það er lítill vandi að setja upp draumadæmið, redda öllu með einu pennastriki, ef ekki þarf að taka tillit til eignarréttar og laga.

Spurningin verður alltaf á endanum "Hvað ert þú tilbúinn til að borga mikið og tapa miklu til þess að greiða niður annarra manna lán?". Hver einasta króna sem fer í þessar niðurgreiðslur verður sótt í okkar vasa.

Dúlli (IP-tala skráð) 10.11.2010 kl. 23:25

3 Smámynd: Sævar Einarsson

Svoldið merkilegt þessir útreikningar hjá þeim, tökum bara öll heimilin í landinu sem dæmi en ekki 10.700 heimili, skuldir Íslenskra heimila eru í dag áætlaðar um 2000 milljarða og það eru ca 110 þúsund heimili á Íslandi, þannig að meðalskuldir íslenskra heimila eru í kringum 18 milljónir króna. En þetta er ekki allskostar rétt ef maður skoðar það betur, maður er að lesa að sumar fjölskyldur eru að fá afskrifaðar vel yfir 60 milljarða, þá spyr maður sig eðlilega, hvað skulda heimilin í landinu ef við mínusum t.d. 20 skuldugustu heimilin í landinu frá? ef við segjum að 20 skuldugustu heimilin í landinu skuldi svipað, segjum bara 50 milljarða, þá eru það 50 milljarðar x 20 eða 1000 milljarðar, bara þessi 20 heimili skekkja reikninginn til muna svo í raun skulda ÖLL þessi 110 þúsund heimili á Íslandi mínus þessi 20 heimili um 1000 milljarða eða um 9 milljónir hvert heimili, svo ég blæs á að skuldaniðurfærsla á almenn heimili muni hleypa öllu í kalda kol.

Sævar Einarsson, 11.11.2010 kl. 00:04

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég skil þetta ekki allt, en í fljótu bragði lítur þetta ágætlega út....

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 11.11.2010 kl. 00:10

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir athugasemdirnar gott fólk. Ég er alls ekki að halda því fram að þetta sé heilagur sannleikur sem ég er að boða, ekki frekar en tölurnar frá "sérfræðingahópnum". Alveg eins og þær ættu mínar tölur að vera teknar með fyrirvara því ég er ekki óskeikull og hef aðeins aðgang að takmörkuðum upplýsingum til að byggja á. Þetta er þó allt gert af bestu vitund og vilja hjá mér, og tilgangurinn með því að fjalla um þetta hér er að kalla eftir viðbrögðum. Uppbyggileg gagnrýni er því vel þegin. Ég er ekki útlærður í lögfræði en vil jafnframt benda á að tillaga mín er mjög keimlík tillögu Talsmanns Neytenda um eignarnám á lánasöfnunum, sem ég vísa til og fylgir með sem viðhengi. Þar er að finna 20 blaðsíður af ítarlegum lögfræðilegan rökstuðning og ég ætla ekki að bæta neinu þar við, held að ég sé langt frá því að jafnast á við Gísla í lögspeki. Það sem ég reyndi hinsvegar að gera með þessu var að leggja mat á kostnaðinn við slíka leið, eitthvað sem "sérfræðinganefndin" kaus að vanrækja. Lykilatriði til að skilja aðferðafræðina sem ég beiti er að átta sig á því að Íbúðalánasjóður þarf ekki að vera með nema 5% eiginfjárhlutfall á meðan bankarnir þurfa að vera með 16%, og hvaða áhrif það hefur á reikningsdæmið.

Jóhannes: Hvort lánasöfnin hafa verið endurseld eða veðsett til þriðja aðila er í raun aukaatriði. Lykilatriði ítillögu minni er að á heildina litið haldist efnahagsreikningar bankanna óbreyttir og tekjustreymið sambærilegt við það sem hefði orðið ef bankarnir sæu sjálfir um að innheimta þau áfram. Hvort afborganirnar koma í smáskömmtum beint frá lántakendum eða stærri skömmtum frá ríkinu ætti ekki að skipta máli ef upphæðin er sú sama. Skuldbindingar ríkssjóðs vegna þessa eru jafnframt að fullu fjármagnaðar samkvæmt tillögunni og kosta því engin viðbótarútgjöld.

Dúlli: Hvað segirðu þarf allt í einu núna að fara eftir stjórnarskránni? Það væri þá nýmæli fyrir núverandi stjórnvöld! En það gleður mig að þú tilheyrir sama hópi og ég sem ber virðingu fyrir æðstu lögum landsins. Í því samhengi vil ég benda á það sem fram kemur í andsvari mínu til Jóhannesar, að tillagan mín er einmitt gerð með það í huga að forðast að valda bönkunum tjóni. Ég vil benda þérá að"fullt markaðsvert" er vandfundið þegar enginn kaupandi er fyrir hendi. Eina viðmiðið í þessu tilviki er það verð sem nýju bankarnir fengu lánasöfnin á sem var með ríflegum afslætti. Viðskiptaráðherra hefur margoft lýst því yfir að hann ætlist beinlínis til þess að bankarnir láti það svigrúm ganga áfram til lántakenda. Að sama skapi ætlast ég líka til þess að hann fylgi því eftir.

Varðandi það að hver einast króna sem fer í þetta komi úr okkar vasa, þá vil ég benda á að það er þegar búið að taka af okkur hverja krónu sem fer í þetta, það eina sem ég fer fram á er að þeim verði skilað aftur á sama stað. Tilgangurinn með útreikningum mínum er meðal annars að blása á þá villutrú að ef verðlagsbreyting lánanna sé leiðrétt um X krónur þá hljóti það að kosta X krónur. Það er mikill misskilningur sem á líklega rætur að rekja til þess að almenningur hefu almennt engan skilning á því hvernig útlánastarfsemi virkar í bönkum. Þegar húsnæðislán er tekið skipta engir peningar um hendur heldur aðeins lánsloforð (sem er síðar hægt að skipta fyrir pening en yfirleitt á lengri tíma). Þegar lánið hækkar svo skyndilega úr 20 milljónum í 25 þá er það ekki vegna þess að einhver hafi tekið meira að láni heldur er það samningsbundin eignaupptaka sem hefur verið lögleidd. Þau lög stangast reyndar á við lög um gjaldmiðil Íslands, samkvæmt þeim eru venjulegar íslenskar krónur lögeyrir og fjárkröfur í verðtryggðum krónum því ólöglegar skv. skilgreiningu hugtaksins, en það er önnur saga sem ég ætla að ekki að fara nánar úti að svo stöddu.

Sævarinn: Já, ég er sammála því að fyrstu sýn virðast útreikningar "sérfræðinganna" vera eitthvað vafasamir, með þeim fyrirvara að ég á reyndar eftir að lesa skýrslu þeirra nánar. Í einni frétt sem ég sá var fullyrt að þeir hefðu komist að þeirri niðurstöðu að ein leiðin sem þeir skoðuðu myndi kosta meira en 100 milljónir á hverja fjölskyldu. Sé það rétt haft eftir er það stærðfræðilega ómögulegt því það er talsvert meira en meðal fjölskyldan skuldar í húsnæði sínu, og þá væri einfaldlega ódýrara að gefa eftir allar húsnæðisskuldir. Augljóslega er eitthvað bogið við slíkar fullyrðingar, en hér hjálpar heldur ekki landlæg ónákvæmni fréttamanna og almennur skortur þeirra á grundvallar talnalæsi og reiknikunnáttu.

Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.11.2010 kl. 00:54

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Góðar hugmyndir, sendu þær til þingmanna og ráðherra.

Varðandi það sem Jóhann Laxdal segir, þá á auðvitað að banna með öllu brask fjármálastofnana með skuldabréf vegna fasteignalána. Ekki minnist ég þess að hafa gefið leyfi fyrir því að lánið mitt yrði selt einhverjum okurlánara úti í heimi.

Svona peningaprentun eiga ekki einhverjir jólasveinar í bönkum og fjármálastofnunum að geta framkvæmt.

Theódór Norðkvist, 11.11.2010 kl. 02:31

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Jóhannes Laxdal.

Theódór Norðkvist, 11.11.2010 kl. 02:31

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Útreikningar sérfræðinganna svokölluðu miða að því að reikna sig frá réttlætinu. Því er hins vegar ekki að heilsa hér hjá þér. Furðulegt að þeir sem ríkisstjórnin kallar hagsmunaaðila skuldavandans séu fulltrúar glæpastofnananna sem ullu skaðanum, þ.e. forsendubrestinum Það væri nær að það væru fulltrúar okkar. Réttsýnt og heiðarlegt fólk með yfirsýn og skilning á vandanum eins og þú.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.11.2010 kl. 02:38

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Theódór: Þrír þingmenn og einn fulltrúi í "sérfræðinganefndinni" fengu afrit af þessum drögum fyrir meira en viku síðan. Ég hef verið hikandi við að dreifa þeim opinberlega þar til ég hef fengið sérfróða aðila til að leggja mat á forsendurnar sem ég nota við útreikningana. Í gærkvöldi ákvað ég hinsvegar að láta vaða og birta þetta þér, því mér ofbauð þegar ég sá hversu ófullkomnir útreikningar "sérfræðingahópsins" virðast vera.

Rakel: Takk fyrir jákvæðar undirtektir. Þetta var einmitt hugsað sem mótsvar við niðurstöðum "sérfræðinganefndarinnar" því ég bjóst alveg við því fyrirfram að þeir myndu vanrækja tilgang þeirrar vinnu sem þeim var falin. Nú er það líka komið á daginn að þeir virðast hafa hrapað að fyrirfram ákveðnum niðurstöðu á afar yfirborðslegum forsendum. Það er t.d. út í hött að þeir skuli hunsa þá niðurfærslu sem varð á lánasöfnunum strax við flutning í nýju bankanna, og gera þar með ráð fyrir að bankarnir stingi mismuninum í eigin vasa.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.11.2010 kl. 13:03

10 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Eins og ég hef alltaf sagt - ef lögin standa í vegi fyrir réttlæti til almennings, breytið þá lögunum. Þeim hefur nógu oft verið breytt auðvaldinu í hag.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 16.11.2010 kl. 10:28

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Nú eru komnar fram í dagsljósið opinberlega staðfestar upplýsingar um afsláttinn sem nýju bankarnir fengu við yfirtöku húsnæðislánanna (28%), ásamt bókfærðu virði húsnæðislána hjá lífeyrissjóðum (100%). Einnig eru komnar fram nýjar upplýsingar um stöðu Íbúðalánasjóðs (2% eigið fé og stefnir í tæknilegt gjaldþrot), ásamt mati á niðurfærslu vegna gengistryggðra lána (sjá aths. með frumvarpi viðsk.ráðh.). Ég mun á næstu dögum uppfæra reiknilíkanið miðað við þessar nýju og traustari forsendur og gefa í kjölfarið út uppfært og endanlegt kostnaðarmat á eignarnámsleiðinni. Fljótt á litið má búast við að sú niðurstaða verði að svigrúm til niðurfærslu sé minna en í þessum frumdrögum sem hér voru birt og niðurfærslan því ekki lengur ókeypis, en rétt skal vera rétt. Fylgist með hér á þessu bloggi.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.11.2010 kl. 20:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband