Búa einkabankar til peninga?

Jón Þór Ólafsson skrifaði stórgóða grein í Fréttablaðið í gær sem ber titilinn "Einkabankar búa til lögeyri landsins". Ég leyfi mér að vitna í greinina:

Landslög segja að íslenska krónan skuli vera lögeyrir og í henni skuli innheimta skatta. Allir sem vilja lifa og starfa á Íslandi verða því að eiga og versla með íslenskar krónur. Alþingi fól Seðlabankanum ábyrgð á því að stuðla að stöðugu verðlagi ásamt valdi til að gefa út gjaldmiðilinn. Seðlabankinn afhenti hins vegar einkabönkum valdið til að skapa mikinn meirihluta nýrra krónupeninga og hugðist fjarstýra verðstöðugleikanum. Við lifum og störfum í rústum þessa peningakerfis. ...

Eitt meginmarkmið Seðlabanka Íslands er að kaupmáttur krónunnar lækki um 2,5% árlega. Þetta skal gert með því að auka magn nýrra peninga meira en magn vöru og þjónustu sem þeir kaupa. Í daglegu tali heitir þessi kaupmáttarskerðing verðbólga. Í peningakerfinu eru nýir peningar skapaðir og settir í umferð til að valda stöðugri kaupmáttarskerðingu. ...

Allar krónur á Íslandi fara því í umferð sem skuld við einkaaðila sem ómögulegt er að endurgreiða þar sem aldrei eru í umferð nægar krónur til að borga bæði höfuðstólinn, þ.e. upprunalega lánið, og vextina sem á hann falla. Aukin gjaldþrot, og kostnaðurinn sem af þeim hlýst, er því byggður inn í peningakerfið. ...

Sterkt að orði kveðið, vissulega. Í kjölfarið á birtingu greinarinnar fjallaði Eyjan líka um hana undir fyrirsögninni "Nauðsynlegt að breyta peningakerfinu sem fyrst", og spunnust dágóðar umræður þar í athugasemdakerfinu. Merkilega margir virtust tilbúnir að taka undir með Jóni, en þó voru ekki allir tilbúnir að taka hverja einustu fullyrðingu hans trúanlega, enda er vestræna blekkingin um hið sanna eðli fjármagns útbreidd jafnvel meðal besta fólks. Reyndu sumir jafnvel að gera lítið úr þekkingu Jóns en hann er stjórnmálafræðingur. Undirritaður fór því á stúfana til að kanna hvað væri hæft í þessu, og það kom í ljós að þetta er reyndar svona víðast hvar um hinn vestræna heim:

"Both central banks and private commercial banks can create money. In the euro monetary system money creation arises mainly through the granting of loans..."

- Fræðslurit Deutsche Bundesbank, Geld und Geldpolitik bls. 88-93 (þýð. Google Translate)

"The actual process of money creation takes place primarily in banks."

- Fræðslurit Federal Reserve Bank of Chicago, Modern Money Mechanics

"...þegar einn aðili leggur fé inn á bankareikning þá lánar bankinn hluta fjárins út aftur. Sá sem fær féð að láni eða viðskiptavinir hans leggja svo aftur einhvern hluta þess sem þeir fá inn á bankareikninga. Það fé er svo aftur lánað út og þannig koll af kolli. Heildarinnstæður á bankareikningum aukast því um margfalda þá upphæð sem upphaflega bættist við peningamagn í umferð."
 
- Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði, vísindavefur Háskóla Íslands.
 
"Ef ríkið lætur prenta meira af peningum býr það ekki til nein verðmæti. Það verða bara til fleiri pappírssnifsi og myntir sem hægt er að nota til að kaupa þau raunverulegu verðmæti sem framleidd eru af íbúum landsins. ... Afleiðingin af aukinni peningaprentun verður því einkum sú að meira þarf af peningum en áður til að kaupa það sama. Með öðrum orðum, verð á vörum og þjónustu hefur hækkað. Það köllum við auðvitað verðbólgu."
 
- Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði, vísindavefur Háskóla Íslands
 

Seðlabankinn stefnir að því að verðbólga, reiknuð sem árleg hækkun vísitölu neysluverðs á tólf mánuðum, verði að jafnaði sem næst 2½%.

- Yfirlýsing um verðbólgumarkmið og breytta gengisstefnu, Seðlabanki Íslands

Sé tekið tillit til þess að verðbólguáhrif peningasköpunar í opnu nútímahagkerfi eru hin sömu, hvort sem það eru prentaðir peningar eða búnar til rafrænar innstæður, þá er hægt að lesa ýmislegt út úr þessum útskýringum efnahagsráðherrans fyrrverandi:

  1. Langmest af þeim peningum sem komast í umferð eru búnir til af bankakerfinu, sem er að meirihluta einkarekið.
  2. Afleiðingin er óhjákvæmilega verðbólga eða kaupmáttarrýrnun, og það er meira að segja yfirlýst markmið núverandi fyrirkomulags peningamála.

Niðurstaðan er sú að kerfið veitir einkaaðilum heimild og beinlínis hvetur þá til þess að rýra stöðugt kaupmátt almennings, sem er í raun ekkert annað en lögleiddur þjófnaður!

Í fyrri grein Gylfa um peningamagn í umferð tiltekur hann enn fremur að það eina sem takmarkar hversu mikið bankarnir geta búið til af peningum eru reglur um lágmarks eigið fé og bindiskylda. Á Íslandi er reglan núna 16% eiginfjárhlutfall sem þýðir að peningamargfaldarinn er 1/0,16 = 6,25 eða rúmlega fimmfalt umframmagn peninga sem bankarnir geta búið til úr engu, en sögulega hefur hlutfallið jafnvel verið enn lægra og bankar eru mjög snjallir að falsa eigið fé eins og er t.d. fjallað um í skýrslu RNA, köflum 9.6.2, 21.2.1.4 og víðar.

Viljum við að slíkir aðilar stjórni peningasköpun og þar með kaupmætti?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottur - fæ þetta lánað hjá þér, félagi.

Á svipuðum nótum: http://kryppa.com/olog-i-landinu/

Gullvagninn (IP-tala skráð) 17.9.2010 kl. 10:20

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir innlitið.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.9.2010 kl. 10:21

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Vonandi ekki...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 18.9.2010 kl. 01:17

4 Smámynd: Jón Lárusson

Blessaður Guðmundur. Flott samantekt hjá þér. Leyfi mér líka að plögga vídeóinu hjá okkur í Umbót, en þar er ég með fyrirlesturinn um eðli peningakerfinsins.

Jón Lárusson, 18.9.2010 kl. 09:42

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk Jón, þetta er viðfangsefni sem þarfnast sárlega gagnrýnnar umræðu.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.9.2010 kl. 22:25

6 identicon

15 ágúst 1971 breyttust reglur peningana þegar R. Nixon tók dollarann af gullfætinum. Dollarinn breyttist úr því að vera ávísun á gull í það að vera ávísun á skuld. Það sem verður til úr engu mun alltaf leitast til að verða aftur að engu.  Áhugaverðar tölur sem ég sá um helgina. Frá 1913 þegar Federal Reserve ehf. var stofnað og fram að 2007 voru settar 825 billjónir(US) í umferð í BNA. Haustið 2009 er magnið komið í 1700 billjónir.  Og enn er prentað. 

Eigum við bara ekki að njót þess að vera stödd í auga fellibilsins og koma okkur vel fyrir áður en herlegheitin byrja fyrir alvöru Það eru spennandi tímar framundan því að það er bara spurning um tíma þar til allar þessar ríkisstuddu svikamyllur hrynja yfir okkur.

Alex (IP-tala skráð) 27.9.2010 kl. 14:27

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir innlitið Alex. Já, þetta eru spennandi tímar sem við lifum. Ég hef t.d. ekki fundið mikla þörf hjá mér til að horfa á kvikmyndir undanfarið til að fá útrás fyrir spennufíknina, finnst alveg nóg að kveikja á fréttunum.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.9.2010 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband