Tilviljanakennt óhapp?

Árekstur tveggja gervihnatta á braut um jörðu var alls ekki eini atburðurinn þennan dag sem var með ólíkindum, og það sem meira er þá eru óbein tengsl þar á milli sem eru ekki á allra vitorði. Upplýsingarnar sem hér fara á eftir eru að mestu leyti fengnar af Wikipedia og úr eftirfarandi grein á cryptogon.com:

Orbital Collision: Please Pick Up the Nearest Black Courtesy Phone

Þarna er sagt frá því að í fyrsta skipti í sögunni átti sér stað árekstur milli tveggja starfhæfra gervihnatta á braut um jörðu. Samkvæm opinberum yfirlýsingum um málið var þetta "óhapp" algerlega óvænt, sem er merkilegt í ljósi þess hversu mikið eftirlit er með gervihnöttum og sporbaugum þeirra. Það er ekki eins og þarna hafi orðið árekstur við eitthvað geimrusl eða loftstein sem var of lítill til að sjást, heldur varð árekstur á milli tveggja manngerðra hluta sem a.m.k. nokkrar mismunandi stofnanir á sviði varnarmála og geimvísinda vissu nákvæmlega hvar voru staðsettir og hvert leiðir þeirra lægju. Líkurnar á að slíkur árekstur verði í óravíddum geimsins öllum að óvörum eru, tjah... stjarnfræðilega litlar!

Athyglisverðar staðreyndir um þennan atburð:

  • Rússneski hnötturinn hét Kosmos-2251 og var af gerðinni Strela-2M en það eru fjarskiptahnettir, gjarnan notaðir af rússneska hernum.
  • Bandaríski hnötturinn var líka fjarskiptahnöttur en hann var í eigu Iridium símafyrirtækisins og var hluti af alheimssímakerfi þeirra, sem er m.a. notað af bandaríska hernum.
  • Iridium kerfið var byggt upp af Motorola fyrir 5 milljarða dollara, en ári eftir gangsetningu fór dótturfélagið sem rak kerfið á hausinn. Í gjaldþrotameðferð var Motorola sýknað af öllum óbeinum kröfum sem voru útistandandi vegna Iridium.
  • Þrotabúið (ásamt gervihnattakerfinu) seldist fyrir aðeins 25 milljón dollara eða um 5% af stofnkostnaði Motorola við kerfið.
  • Kaupendurnir voru hópur óþekktra fjárfesta en í forsvari fyrir þá var maður að nafni Dan Colussy, sem einnig sat í stjórn United Nuclear sem var stofnað af UFO-sérvitringnum Bob Lazar.
  • Í sama mánuði og þessir aðilar keyptu fyrirtækið á spottprís gerði varnarmálaráðuneytið samning við þá um afnot af kerfinu, en verðmæti samningsins var metið á 75-252 milljónir dollara. Heldur betur skjótur og góður hagnaður af 25 milljón dollara fjárfestingu!
  • Ríkisenduskoðun Bandaríkjanna reyndi að komast að því hvað hefði átt sér stað í þessum viðskiptum, en var stoppað með skipun að ofan í skjóli hins margnotaða "þjóðaröryggis".
  • Árið 2003 upplýsti USA Today að 24% af fyrirtækinu væri í eigu Khalid bin Abdullah bin Abdulrahman fursta í Saudi-Arabíu, í samstarfi við fjölskyldufyrirtækið Saudi Binladen Group. (já, fjölskylda Osama!)
  • Árið 2007 tók sæti í stjórn Iridium maður að nafni Alvin B. (”Buzzy”) Krongard, en það vill svo til að hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri og 3. æðsti maður bandarísku leyniþjónustunnar, CIA. Meðal afreka hans þar var yfirumsjón með samskiptum við Blackwater öryggisverktakafyrirtækið alræmda sem var svo ánægt með samstarfið að þeir réðu hann til sín sem "ráðgjafa" en þannig eru menn gjarnan "keyptir" af varnarmálaiðnaðinum vestanhafs. Buzzy stýrði allt til ársins 1998 fjárfestingarsjóðnum Alex Brown sem er nú í eigu Deutsche Bank og átti m.a. aðild að sérkennilegum viðskiptum með hlutabréf í United Airlines dagana fyrir og eftir 9/11, þar sem stóð til að einhver myndi hagnast gríðarlega á verðfalli flugfélagsins.
  • Bróðir Alvins, Howard Krongard, var 2005-2007 yfirmaður endurskoðunarskrifstofu Utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna. Hann sagði af sér í kjölfar ásakana um að hafa hindrað rannsókn á spillingu og fjársvikum í tengslum við verktakasamninga í Írak. Meðal þess sem reynt var að rannsaka voru ásaknir um að Blackwater, sem um sama leyti réð bróður hans "Buzzy" sem ráðgjafa, væri viðriðið vopnasmygl o.fl. Eins og nú er komið á daginn voru þeir hinsvegar að fást við margt fleira og munn verra að því er virðist. Sáu meðal annars um fangaflutninga fyrir leyniþjónustuna, báru ábyrgð á illri meðferð stríðsfanga og drápum á almennum borgurum, o.s.frv.
  • Meðal viðskiptavina Iridium eru: bandaríska varnarmálaráðuneytið og leyniþjónustustofnanir, breski herinn og leyniþjónusta hennar hátignar, einnig Talibanar í Aghanistan. Sá frægasti er þó líklega sjálfur Osama Bin Laden, en komið hefur í ljós að allan tímann sem Al-Qaeda er talið/sagt hafa verið að skipuleggja árásirnar 9/11 var gervihnattasíminn hans hleraður af NSA, þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna. Meira um það er að finna í þættinum PBS Nova þann 3. febrúar sl. sem ber titilinn 'The Spy Factory'.

Eruð þið ennþá að fylgjast með? Það er meira:

  • Áreksturinn varð 12. febrúar, daginn fyrir föstudaginn 13. febrúar. Hjátrúin sem tengist dagsetningunni er hugsanlega talin eiga rætur að rekja til þess þegar Philip IV frakklandskonungur lét handtaka Musterisriddarana, föstudaginn 13. október árið 1307. Söguleg tengsl riddaranna við Frímúrara nútímans eru talsverð, og eru þeir jafnvel á vissan hátt álitnir arftakar reglunnar. Í stigveldinu sem er notað í Bandaríkjunum heitir t.d. 28° frímúraragráðan "foringi riddara musterisins" í lauslegri þýðingu.
  • Bandaríski gervihnötturinn var sá 33. í Iridium kerfinu og gekk því undir nafninu Iridium 33. Í skosku Frímúrarareglunni er 33° einmitt æðsta gráðan og talan sjálf er gjarnan sögð hafa afar djúpstæða og jafnvel dularfulla merkingu, getur meðal annars táknað sjálfan sannleikann. Er það kannski einmitt það sem er verið að segja með þessum táknum öllum?

Heyrið þið núna? Þið ráðið auðvitað hverju þið viljið trúa en þetta er svo sannarlega með ólíkindum!

Ekki er nóg með að tveir vægast sagt einkennilegir fréttnæmir atburðir sem fela í sér fáheyrilegar tilviljanir eigi sér stað á nákvæmlega sama deginum, heldur vill svo til að báðir tengjast meira eða minna 9/11 og hina svokallaða hryðjuverkastríði. Þessir atburðir eru ekki síst merkilegir frá táknrænu sjónarmiði, en eins og allir vita sem eru með hausinn á kafi í samsæriskenningum þá spilar táknfræði undantekningalaust stórt hlutverk í slíkum atburðum og skipulagningu þeirra...


mbl.is Fjarskiptahnettir rákust saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband