Hvað sagði ég? Allt snýst þetta um olíu...

Það vill svo til að ég spáði í gær fyrir um þessa innrás í Abkhaziuhérað í kjölfar þess að Rússar sendu hversveitir sínar inn í Ossetíu, en mig grunar að það hafi í raun verið yfirvarp og Abkhazia hafi í öllu falli verið eitt af meginmarkmiðunum frá upphafi í þessu sjónarspili. Raunverulegar ástæður þessara atburða eru einfaldar: svæðið er landfræðilega mjög mikilvægt með tilliti til olíuhagsmuna og Rússar geta með því að sölsa undir sig Abkhaziu aukið standlengju sína að Svarthafi um a.m.k. fjórðung og stytt um leið þá Georgísku sem því nemur eins sjá má á þessu korti en Abkhazia er vinstra megin með fjólubláum lit.

Caucasus

Meðal stærstu orkukaupenda Rússa eru Evrópusambandsríkin en rússnesk olíu- og gasfyrirtæki eru meira og minna undir stjórn Pútins og félaga úr FSB og illu heilli er Evrópa þannig að miklu leyti háð þeim um orku. Árið 2012 ætla þeir svo að taka í notkun olíuleiðslu frá Kaspíahafssvæðinu um Svarthaf til Evrópusambandsins og auka þannig enn við söluna. Með því að leggja hana um Abkhaziu myndi sá hluti leiðarinnar sennilega styttast nokkuð, en olíulindirnar við Kaspíahaf eru taldar með þeim stærstu í heimi og metnar á 12 trilljón bandaríkjadali hvorki meira né minna. Sökum fjarlægðar frá úthöfum og þar með siglingaleiðum olíuskipa er aðgengi að svæðinu hinsvegar vandamál og hefur lengst af verið eingöngu um Rússneskt landsvæði. Fyrir tveimur árum varð þó breyting á því þegar verktakafyrirtækið Bechtel (sem einnig byggði Fjarðaál!) ásamt fleirum luku við smíði Baku-Tbilisi-Ceyhan olíuleiðslunnar sem tengir saman Kaspíahaf, Svartahaf og Miðjarðarhaf. Eigendur hennar eru: British Petroleum, Chevron, ConocoPhillips, Agip, StatoilHydro o.fl. kunnugleg vestræn nöfn en leiðslan þeirra liggur einmitt gegnum Georgíu og sneiðir þannig mjög heppilega framhjá Rússnesku yfirráðasvæði. Einn af hvatamönnum lagningar leiðslunnar var Eduard Shevardnadze fyrrverandi utanríkisráðherra Sovétríkjanna og forseti Georgíu en verkefnið hefur líka notið heilshugar stuðnings Mikhail Saakashvili núverandi forseta sem hefur með samstarfinu eygt von um stuðning frá NATO gegn meintum yfirgangi Rússa á svæðinu. Aðkoma Öryggisstofnunar Evrópu (ÖSE) að samningaferlinu um verkefnið ber vott um mikilvægi leiðslunnar fyrir álfuna. Þetta forskot samkeppnisaðilanna úr vestri virðist samt hafa farið fyrir brjóstið á Rússunum og þess vegna gera þeir nú árás einmitt þegar augu heimsins beinast annað þ.e. til Beijing. Kannski er þetta að hluta til hefnigirni sem virðist vera þeim nokkuð eðlislæg, en eflaust er líka ætlunin að sýna grannríkjunum hvað þeir eigi í vændum sem standi í vegi fyrir einokunarbrölti Gazprom klíkunnar.

Við þetta má bæta að í gærkvöldi sagði BBC frá því að áðurnefnd Baku-Tbilisi-Ceyhan olíuleiðsla hefði einmitt verið meðal þeirra skotmarka sem Rússar vörpuðu sprengjum á. Ekki fylgdi sögunni hvort hún hefði orðið fyrir skemmdum en ef svo er þá eru þeir greinilega að sækjast eftir yfirráðum yfir Evrópskum orkuöryggismálum. Þar er eftir miklu að slægjast enda er það um fjórðungur af heimsmarkaðnum og ólíklegt er að olíuverð muni lækka að ráði í framtíðinni!


mbl.is Abkhasía dregst inn í átökin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Á Wikipedia er búið að setja upp síðu um stríðið í S-Ossetíu 2008.

Guðmundur Ásgeirsson, 9.8.2008 kl. 15:27

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Viðbót: BTC olíuleiðslan hefur víst verið lokuð frá því á þriðjudaginn þegar skæruliðar úr Kúrdíska Verkamannaflokknum sprengdu Tyrklandshluta hennar og enn loga þar eldar. Flutningstapið nemur hálfri milljón tunna af olíu á dag en reiknað er með að viðgerð taki a.m.k. 2 vikur, því kann að vera að setja þurfi neyðarbirgðir af eldsneyti á markað í Evrópu! Þrátt fyrir að leiðslan sé að mestu niðurgrafin er óttast að árásir Rússa kunni að valda enn meiri skemmdum á henni, auk þess sem átökin koma í veg fyrir að hægt sé að flytja olíubirgðir landleiðina.

Guðmundur Ásgeirsson, 9.8.2008 kl. 15:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband