Ríkisábyrgð á bönkum má aldrei í lög leiða

Það er hughreystandi að sjá yfirlýsingar Guðlaugs Þórs utanríkisráðherra um að hann hafi komið því skýrt á framfæri að Ísland samþykki ekki ríkisábyrgð á innstæðum í bönkum. Slíkri ríkisábyrgð hefur í tvígang verið hafnað af Íslendingum í þjóðaratkvæðagreiðslum sem voru báðar bindandi samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins.

Á hinn bóginn eru blikur á lofti því á sama tíma koma fram efasemdir um að Ísland geti fengið undanþágu frá nýrri tilskipun 2014/49/ESB um innstæðutryggingar. Þetta boðar ekki gott því eins og ráðherra bendir réttilega á myndi það þýða að öll hugsanleg "Icesave-mál" framtíðarinnar yrðu fyrirfram töpuð.

Sé þetta rétt virðist Evrópusambandið vilja lögleiða það brot sem Bretland og Holland frömdu gegn þágildandi tilskipun um innstæðutryggingar í fjármálahruninu 2008, og þau reyndu svo að gera Ísland meðsekt um með því að fá okkur til að undirgangast ólöglega ríkisábyrgð. Kemur kannski ekki á óvart þar sem Evrópusambandið tók upp málstað hinna brotlegu fyrir EFTA dómstólnum, sem töpuðu málinu. Þetta er því mögulega einhverskonar andsvar til að reyna að bjarga andlitinu.

Ekki er þó öll nótt úti enn þar sem Evrópusambandið virðist í öllum æðibunuganginum hafa gleymt að taka tillit til þess að ríkisábyrgð felur í sér ríkisaðstoð, sem er algjört bannorð í öllum grundvallarreglum Evrópuréttarins. Almenn löggjöf sem brýtur í bága við grunnreglur (svo sem stjórnarskrá) telst nefninlega ómerk í flestum vestrænum réttarkerfum og má því virða hana að vettugi eins og hver önnur ólög.

Nú skiptir öllu máli að íslensk stjórnvöld verði vel á verði og strax og málið kemur til kasta EFTA eða sameiginlegu EES nefndarinnar verði lagðar fram bókanir á öllum stigum þar sem ríkisábyrgð er mótmælt. Ef til þess kæmi að tilskipunin yrði engu að síður tekin upp í EES samninginn yrði óhjákvæmilega að gera stjórnskipulegan fyrirvara við það af hálfu Íslands, þar sem slíkri ríkisábyrgð hefur í tvígang verið hafnað af íslenskum kjósendum í stjórnarskrárbundnum þjóðaratkvæðagreiðslum.

Enn fremur er afar nauðsynlegt að háttvirtur utanríkisráðherra upplýsi nákvæmlega í hvaða ákvæðum tilskipunar 2014/49/ESB sé mælt fyrir um ríkisábyrgð, svo við sem látum okkur málið varða getum byrjað að vinna að vörnum Íslands gegn þessu eins og við höfum gert hingað til í málum er varða ríkisábyrgð á bankainnstæðum.


mbl.is Snýst um kjarna Icesave-deilunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ertu að segja Guðmundur að þú viljir að venjulegir íslenskir sparifjáreigendur hér á landi skuli enga vernd hafa ef íslenskur banki fer á hausinn?

Að íslenskum sparifjáreigendum sé best að geyma sparifé sitt undir koddanum?

Enda íslenskir sparifjáreigendur réttlausir og tapi öllum innistæðum í banka, ef t.d. Arion banki fer á hausinn?  

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 20.1.2020 kl. 08:06

2 identicon

Icesave málið snerist um útrás einkavinavæddra íslenskra bankaglæpamanna.  Fyrir það glæpsamlega atferli, "tæru snilldina", vorum við 100% sammála um að sauðsvartur íslenskur almenningur ætti ekki að borga fyrir syndir þeirra.

Hér voru sett neyðarlög vegna þess að allir bankarnir hrundu.  Allt þetta veistu.

En að nú mæli þú með, beint og óbeint, að nú geti t.d. einn banki stolið öllu sparifé af íslenskum sparifjáreigendum?  Eða býstu við að einkavæddur banki, færi hann á hausinn, t.d. þrotabú Arion banka myndi af góðmennsku borga þeim innistæðu sem lög kvæðu ekki á um?

Hver er annars innistæðutrygging í íslenskum bönkum í dag?  Það fara allir undan í flæmingi þegar um það er spurt.  Er það tilviljun Guðmundur?  Ekki treysti ég Bjarna Ben. og Guðlaugi Þór, þó þú virðist gera það núna.  Finnst þér þeir trausts verðir, svona í ljósi sögunnar?  

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 20.1.2020 kl. 08:40

3 identicon

Það skal tekið fram að ég er, hef verið og mun ætíð vera andstæðingur ESB aðildar og EES samningsins, en það hefur ekkert með þá skoðun mína að gera, að

aldrei má firra banka og ríkisvaldi þeirri ábyrgð að sparifé almennings í viðkomandi landi sé tryggt.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 20.1.2020 kl. 11:01

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Símon.

Í athugasemdum þínum gætir allnokkurs misskilnings á staðreyndum, sem ég skal reyna að leiðrétta með því að svara hverju og einu atriði sem þú veltir upp, eins vandlega og ég get.

1. "Ertu að segja Guðmundur að þú viljir að venjulegir íslenskir sparifjáreigendur hér á landi skuli enga vernd hafa ef íslenskur banki fer á hausinn?"

Alls ekki. Nú þegar eru í gildi lög um tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta sem hefur verið starfræktur áratugum saman. Jafnframt voru í hruninu sett svokölluð "neyðarlög" sem gerður kröfur vegna innstæðna að forgangskröfum við slitameðferð banka og gerðu stjórnvöldum kleift að færa innstæður í nýja banka ásamt eignum á móti. Þannig eru innstæður tryggðar.

Ég er hins vegar alfarið á móti því að þær sé tryggðar með fjárhagslegri ábyrgð skattgreiðenda. Sú fjárhagslega ábyrgð á að vera borin af bönkunum sjálfum, eins og heppnaðist svo vel í hruninu að það er orðið að fyrirmynd fyrir önnur ríki.

2. "Að íslenskum sparifjáreigendum sé best að geyma sparifé sitt undir koddanum?"

Það er alveg óháð þessu. Ef ég ætti mikið af sparifé sem ég vildi varðveita á tryggan hátt þá myndi ég fjárfesta það í einhverju áþreifanleg verðmæti eins og fasteignum, góðmálmum eða einhverju öðru sem byggir verðgildi sitt ekki á rekstrarhæfi banka. Ég treysti hvorki bönkum né öðrum til að varðveita peningana mína, en fasteignir varðveitast ágætlega og gull enn betur.

3. "Enda íslenskir sparifjáreigendur réttlausir og tapi öllum innistæðum í banka, ef t.d. Arion banki fer á hausinn?"

Nei. Engar innstæður töpuðust síðast þegar sá banki (áður Kaupþing) fór á hausinn ásamt hinum. Það er einmitt vegna þeirra laga sem vísað var til í lið 1. og eru enn í fullu gildi. Innstæðueigendur nytu því sömu verndar ef þetta skyldi gerast aftur.

4. "Icesave málið snerist um útrás einkavinavæddra íslenskra bankaglæpamanna."

Nei. Icesave vörumerkið og bankareikningarnir sem undir það féllu, urðu til vegna útrásar "einkavinavæddra íslenskra bankaglæpamanna". Icesave málið kom hins vegar ekki upp fyrr en eftir að gamli Landsbankinn fór á hausinn og útrásinni var lokið.

Í þessari umræðu skilgreinist "Icesave málið" sem sú atburðarás sem fór af stað í kjölfar hrunsins þegar misvitrir stjórnmálamenn reyndu að gera okkur skattgreiðendur þ.e. almenning í landinu, fjárhagslega ábyrg fyrir skuldum hins fallna banka, þrátt fyrir að slík ríkisábyrgð væri bönnuð samkvæmt þágildandi reglum. Með mikilli samstöðu þjóðarinnar tókst okkur að stöðva þær fyrirætlanir, höfnuðum ríkisábyrgð í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum og unnum fullnaðarsigur í málinu fyrir EFTA dómstólnum.

5. "Fyrir það glæpsamlega atferli, "tæru snilldina", vorum við 100% sammála um að sauðsvartur íslenskur almenningur ætti ekki að borga fyrir syndir þeirra."

Rétt.

6. "Hér voru sett neyðarlög vegna þess að allir bankarnir hrundu.  Allt þetta veistu."

Mikið rétt, sbr. lið 1.

7. "En að nú mæli þú með, beint og óbeint, að nú geti t.d. einn banki stolið öllu sparifé af íslenskum sparifjáreigendum?  Eða býstu við að einkavæddur banki, færi hann á hausinn, t.d. þrotabú Arion banka myndi af góðmennsku borga þeim innistæðu sem lög kvæðu ekki á um?"

Nei alls ekki. Ef einkavæddur banki ætlaði að stela sparifé af viðskiptavinum myndi hann þurfa að gera það áður en hann færi á hausinn. Eftir að hann færi á hausinn yrði hann nefninlega ekki lengur einkavæddur banki heldur þrotabú í opinberri slitameðferð. Við slíka slitameðferð gilda einmitt þau sömu lög og vísað var til í lið 1. um innstæðutrygging og forgang krafna vegna innstæðna við uppgjör viðkomandi slitabús. Þannig yrðu innstæðurnar tryggðar rétt eins og þær voru í síðasta hruni. Það hefði ekkert með neina góðmennsku að gera heldur einfaldlega lagaskyldu.

8. "Hver er annars innistæðutrygging í íslenskum bönkum í dag?"

Sú sama og hún var í síðasta hruni.

9. "Það fara allir undan í flæmingi þegar um það er spurt."

Hvað segirðu? Hefurðu beint fyrirspurn til fjármálaráðuneytisins? Þegar ég spurðist fyrir um þetta þar fyrir nokkru síðan fékk ég alveg sæmilega skýr svör.

10. "Er það tilviljun Guðmundur?  Ekki treysti ég Bjarna Ben. og Guðlaugi Þór, þó þú virðist gera það núna.  Finnst þér þeir trausts verðir, svona í ljósi sögunnar?"

Nei og ég gaf ekkert slíkt í skyn. Þvert á móti er pistillinn hér að ofan til þess gerður að vekja athygli á því að það er engan veginn nóg að treysta því að Gulli passi bara upp á þetta fyrir okkur einn og óstuddur. Þvert á móti þarf að virkja á ný þá samstöðu sem skapaðist í kringum Icesave málið og berjast gegn afturgengnum tilraunum til að koma á ólöglegri ríkisábyrgð.

11. "aldrei má firra banka og ríkisvaldi þeirri ábyrgð að sparifé almennings í viðkomandi landi sé tryggt"

Því er ég sammála, en ábyrgð ríkisins takmarkast við að koma upp tryggingakerfi fyrir innstæður, eins og það hefur gert í samræmi við allar reglur þar að lútandi. Fjármögnun þess tryggingakerfis á hins vegar aldrei að vera á kostnað almennings, heldur bankanna sjálfra. Það er mergur málsins og megininntak pistilsins.

Mér sýnist að þrátt fyrir ákveðinn misskilning þinn á tæknilegum smáatriðum (sem þó skipta máli) séum við samt alveg sammála um kjarna málsins. Hann er sá að innstæður eigi að vera tryggðar eins og þær eru nú þegar, án ríkisábyrgðar.

Ríkisábyrgð á bönkum má aldrei í lög leiða.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.1.2020 kl. 12:07

5 identicon

Takk fyrir góð svör þín Guðmundur.  Gott að við erum sammála í meginatriðum.

En af hverju ætti sparifjáreigandi að setja fé sitt í fasteign eða gull, ef allt er í lagi með innistæðutrygginguna?

Þá segir þú að innistæðutrygging sé fyrir hendi, en hver er hún?  Og við hvaða gjalmiðil miðast hún við?

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 20.1.2020 kl. 13:54

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"En af hverju ætti sparifjáreigandi að setja fé sitt í fasteign eða gull, ef allt er í lagi með innistæðutrygginguna?"

Ef hann treystir ekki tryggingunni þó hún sé fyrir hendi.

"Þá segir þú að innistæðutrygging sé fyrir hendi, en hver er hún?  Og við hvaða gjalmiðil miðast hún við?"

Eins og fyrr segir er hún sú sama og í síðasta hruni. Hér eru tenglar á nánari upplýsingar og viðeigandi lagaákvæði:

Stjórnarráðið | Innstæðutryggingar

Lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 98/1999

Lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 - 3. mgr. 102. gr.

Ef kæmi til greiðslu úr tryggingasjóðnum yrði sú greiðsla að sjálfsögðu í lögeyri Íslands, krónum. Lágmarksfjárhæð hennar miðast við 20.887 evrur á því gengi sem gildir á hverjum tíma. Á núverandi gengi jafngildir það 2.882.614 krónum. Aftur á móti er ekkert hámark á tryggingunni heldur fer það eftir því að hversu miklu leyti eignir viðkomandi banka duga til tryggingar umfram lágmarkið.

Að þessu sögðu er rétt að hafa í huga að hvergi í Evrópu, hvorki hér né í öðrum ríkjum á evrópska efnahagssvæðinu, eru tryggingasjóðir nema brotabrot af öllum tryggðum innstæðum. Þess vegna er algjört lykilatriði til að tryggja fjármögnun þeirra, að kröfur um innstæður verði forgangskröfur við slitameðferð, eins og var komið á með neyðarlögunum svokölluðu 7. október 2008 og er núna verið að innleiða um alla Evrópu að íslenskri fyrirmynd.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.1.2020 kl. 14:19

7 Smámynd: Jón Þór Helgason

Í dag gefa bankarnir bara út sértryggð skuldabréf, sem eru skuldabréf tryggð með fasteignaveðum eða sértryggðum tryggingum., þannig að ef bankarnir lenda í vandræðum munu innistæðureiguendur vera tryggðir með eigið fé og veikari trygginum sem bankarnir hafa.

Jón Þór Helgason, 20.1.2020 kl. 15:17

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Jón Þór.

Það sem þú bendir á er nákvæmlega ástæða þess að ég berst fyrir því að kröfur um innstæður verði lögveðskröfur, þannig að þær gangi ekki aðeins framar almennum kröfum heldur einnig veðkröfum.

Sjá hér:

Umsögn um 637. mál á 149. löggjafarþingi - 149-4670.pdf

1986/149 svar: innstæðutryggingar | Þingtíðindi | Alþingi

Guðmundur Ásgeirsson, 20.1.2020 kl. 15:35

9 identicon

Enn og aftur takk fyrir svör þín Guðmundur.

Mjög þarft að ræða um þessi mál.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 20.1.2020 kl. 16:17

10 identicon

Langar að bæta því við að ég er algjörlega sammála þér að innistæður eigi að vera forgangskröfur í slitameðferð.

Veistu til þess Guðmundur, að það hafi verið lögfest hér á landi?  Munum að neyðarlögin gilda ekki lengur

og að

:Hinn 9.september 2016 gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um að fyrri yfirlýsingar um innistæðutryggingar hér á landi væru tryggðar að fullu

séu úr gildi fallnar".

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 20.1.2020 kl. 16:40

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Símon.

Kröfur um innstæður voru gerðar að forgangskröfum með neyðarlögunum svokölluðu. Þau ákvæði hafa alls ekki verið felld úr gildi. Sjá hér um forgang krafna við slitameðferð fjármálafyrirtækja:

Lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 - 3. mgr. 102. gr.

Þessar yfirlýsingar sem vísað er til að hafi verið dregnar til baka eru bara nákvæmlega það, yfirlýsingar sem hafa ekkert lagagildi. Sjálf lagaákvæðin eru samt enn í fullu gildi.

Þegar því var lýst yfir í hruninu að innstæður væru tryggðar að fullu var í raun ekki verið að segja neitt annað en leiðir af lögunum. Margir misskildu þetta og héldu að Geir Haarde hefði með þessu verið að lofa ábyrgð ríkissjóðs á töpuðum innstæðum, sem er kolrangt. Staðreyndin er nefninlega sú að hann var aðeins að árétta að þær væru tryggðar (með eignum bankanna). Þess vegna töpuðust engar innstæður og ekkert þurfti að bæta. Tryggingasjóðurinn þurfti aldrei að greiða neitt út, enda var séð til þess að innstæðurnar væru fyrir hendi og aðgengilegar í bönkunum allan tímann. Þessa yfirlýsingu var engin lögfræðileg þörf á að draga til baka en það var samt gert til að sefa efasemdaraddir þeirra sem voru haldnir misskilningnum. Með öðrum var það pólitísk yfirlýsing sem hafði engin áhrif á hina lagalegu stöðu innstæðna.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.1.2020 kl. 18:09

12 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það má fallast á að til staðar séu einhverjar sparifjártryggingar, en þær þurfa að vera mjög hóflegar. Það er engin sanngirni í því, að þeir sem lítið hafa milli handanna og eiga engar peningalegar eignir, beri kostnaðinn af slíkum tryggingum fyrir þá efnameiri. Því á endanum fellur kostnaðurinn við slíkar tryggingar á viðskiptavini bankanna, jafnvel þótt ekki sé beint um ríkisfé að ræða.

Þorsteinn Siglaugsson, 20.1.2020 kl. 19:53

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir innlitið Þorsteinn.

Góðir punktar sem ég tek undir. Núverandi trygging er að því leytinu hófleg að hún miðast við ákveðin fjárhæðarmörk. Ef svo fer að eignir banka hrökkvi fyrir meiru eru það oftast góðar fréttir. Í þessu felst ákveðinn jöfnuður þó hann sé ekki fullkominn.

Varðandi kostnaðinn sem þú nefnir, vegna tryggingariðgjaldsins, þá er til sáraeinföld leið til að útrýma honum. Það er með því að afnema hið svokallaða brotaforðakerfi og taka upp heilsteypt peningakerfi sem felur í sér að peningar lagðir inn í banka séu raunverulega geymdir í bankanum en ekki lánaðir honum til að spila með, útrýma þannig hættunni á að innstæður "hverfi" og gera tryggingasjóði óþarfa. Ef bankinn færi á hausinn mætti einfaldlega sækja peningana í bankann og afhenda þá réttmætum eigendum þeirra. Þetta væri um leið einfaldasta, skilvirkasta og langsamlegast hagkvæmasta aðferðin við slitameðferð.

Öruggustu lausnirnar eru oft um leið þær einföldustu, en á meðan við neyðumst enn til að búa við brotaforðakerfið mun ég líka berjast fyrir lausnum innan þess kerfis.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.1.2020 kl. 20:29

14 identicon

Besta lausnin er vitaskuld sú sem þú nefnir Guðmundur í aths. #13

Í henni gæti t.d. falist að aðskilja algjörlega á milli fjárfestingabanka (spilavítisbanka) og hefðbundinna viðskiptavinabanka (sparisjóða).

Af hverju er það ekki gert?  Ég vil fullyrða að meirihluti þingmanna, þvert á flokka, er því hlynntur.  En samt gerist ekkert í því.  Sem leiðir hugann að því hvaða myrkraöfl það séu sem stjórni landinu á bakvið tjöldin.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 20.1.2020 kl. 21:11

15 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Símon.

Aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka er reyndar ekki liður í afnema brotaforðakerfið og myndi einn og sér ekki laga umrædd vandamál nema að hluta til. Aftur á móti er þetta nauðsynleg lágmarkskrafa um breytingu á núverandi kerfi, eins lengi og það fær enn að vera við lýði þó úrelt sé.

Þau öfl sem fyrst og fremst standa gegn slíkum breytingum eru einfaldlega bankarnir og samtök þeirra, sem hafa gríðarleg ítök í stjórnkerfinu. Þetta er ekkert leyndarmál heldur opinberar upplýsingar. Ég kalla þau ekki "myrkraöfl" því þau fremja verk sín um nótt sem hábjartan dag, án tillits til birtustigs.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.1.2020 kl. 21:23

16 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég er nú ekki sannfærður um að jafnvel þótt brotaforðakerfið yrði afnumið væri hægt að ná í aurana í bankann þegar hann færi á hausinn. Því bankinn tekur ekki bara peninga að láni og geymir þá. Hann lánar þá nefnilega út, og þá eru þeir ekki lengur til staðar í bankanum og þeir sem hyggjast sækja þá grípa í tómt. Ef þú ert hins vegar að hugsa þér bankakerfi sem aðeins tekur við peningum en lánar enga út, þá er væntanlega einfaldara að geyma bara aurana undir dýnunni, eða fá sér peningaskáp. Engin þörf á bönkum.

Þorsteinn Siglaugsson, 21.1.2020 kl. 10:24

17 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Einmitt, þá yrði engin þörf á bönkum, sem myndi spara þjóðfélaginu gríðarlegan kostnað sem felst í að halda þeim uppi.

Það þarf nefninlega ekki banka til að lána heldur þarf bara einhvern sem á fé og er tilbúinn að lána það.

Lánasjóður íslenskra námsmanna er ekki banki.

Íbúðalánasjóður er ekki banki.

Lífeyrissjóðir eru ekki bankar.

Smálánafyrirtæki eru ekki bankar.

Samt eru allir þessir aðilar lánveitendur.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.1.2020 kl. 17:14

18 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Fyrir um það bil 9 árum síðan kom þetta til umræðu:

Séu einstök fyrirtæki of stór, þarf að takmarka stærð þeirra - marinogn.blog.is

Guðmundur Ásgeirsson, 24.1.2020 kl. 01:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband