Refsivert á Íslandi líka

Talsverð umræða hefur sprottið að undanförnu um svokölluð "þvinguð hjónabönd" og sumir hafa velt því fyrir sér hvort setja þurfi sérstök lög til að koma í veg fyrir slíkt hér á landi. Til þess að svara slíkum spurningum er kannski rétt að byrja á því að skoða hvað gildandi lög hér á landi hafa að segja um þessi málefni.

Samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 28. gr. hjúskaparlaga, getur annað hjóna krafist ógildingar hjúskapar, hafi það verið neytt til vígslunnar. Þetta ákvæði virðist eiga fullan rétt á sér, hinsvegar er helsti gallinn við það að virkni þess getur aðeins komið til sögunnar eftir að einhver hefur verið neyddur til vígslu í hjúskap, en getur ekki beinlínis hindrað slíkt athæfi, ef einbeittur vilji stendur til þess að fremja það.

Almenn hegningarlög hafa hinsvegar að geyma ýmis ákvæði sem geta komið til álita. Samkvæmt 225. og 226. gr. almennra hegningarlaga er frelsissvipting refsiverð með allt að 4 ára fangelsi og alveg upp í 16 ár eða ævilangt ef brotið er langvarandi eða í ágóðaskyni.

Ef tilgangurinn með verknaðinum er að misnota manneskju kynferðislega eða til nauðungarvinnu eða líffæranáms úr henni, flokkast brotið undir mansal skv. a- lið 227. gr. sömu laga. Refsing við slíkum brotum er allt að 12 ára fangelsi.

Af þessu er alveg ljóst að "þvinguð hjónabönd" eru harðbönnuð á Íslandi og við því liggja þungar refsingar að þvinga einhvern til slíks. Þar sem flestir eru líklega sammála því að athæfi sem þetta skuli vera bannað og refsivert, þá geta vonandi allir verið sammála því að jarða frekari umræðu um hvort slíkar reglur verði einhverntíma nauðsynlegar á Íslandi.

Við höfum haft slíkar reglur í áratugi nú þegar.


mbl.is Bann lagt við þvinguðum hjónaböndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En ná þessi lög yfir giftingar erlendis?

Múslimar, sem eru búsettir t.d. í Svíþjóð og Danmörku fara til heimalandsinns með dæturnar, sem þá eru undir lögaldri og gifta þær þar og oftas án þeirra vilja og koma síðan til baka meða dóttir og maka. Danir hafa stíft eftirlit með þessu hátterni og þar sem þetta er ólöglegt í Danmörku, þá útvísa þeir makanum úr landi þegar komið er til baka.

Valdimar Jóhannsson (IP-tala skráð) 16.6.2014 kl. 17:25

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég myndi í fljótu bragði halda að ef viðkomandi hafi verið neyddur til hjónabands í öðru landi, að þá sé samt sem áður hægt að ná fram ógildingu þess hjónabands samkvæmt íslenskum lögum, svo lengi sem aðilar eru búsettir hér á landi og gætt er að réttu varnarþingi.

Hafi hinsvegar brotið sjálft verið framið á erlendri grundu myndu líklega lög þess lands gilda um refsinguna við athæfinu, ef um slíkt er að ræða. Íslensk lög um mansal gilda aðeins um mansal sem fer fram á Íslandi. Það er almennt eðlilegt samkvæmt réttarskipan á vesturlöndum að fara eftir lögum þess lands þar sem viðkomandi atvik á sér stað, þó til séu undantekningar.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.6.2014 kl. 19:09

3 identicon

Vandamálið getur orðið aðeins dýpra en svo að einföld lagasetning dugi til. Í því sambandi má benda á fíkniefnavandann á Íslandi sem er bannaður með lögum en þrífst þó ;-)        

Hér er  kynningarrit frá sænsku ríkisstjórninni um vandamálið sem þú og fleiri hefðu gott af því að lesa sér til upplýsingar.http://www.government.se/content/1/c6/16/82/86/3cba1734.pdf

Hér er t.d. tilvitnun af blaðsíðu 9 þar sem spurt er hvers vegna ekki dugi þau lög sem fyrir eru og banni þvingaðar giftingar og giftingar barna.


Why is there a need to review the legislation when Swedish law already don´t allow forced marriages and child marriages?                      „The need is there because these kinds of marriages still take place. It is possible to circumvent the legislation, which is a serious problem. The investigation will try to understand why the current legislation is proving insufficient.“

 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 16.6.2014 kl. 19:35

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ef vandamálið liggur í því að gildandi lögum sé ekki framfylgt er lausnin svo sáraeinföld: framfylgjum þeim þá fjandinn hafi það !

Guðmundur Ásgeirsson, 16.6.2014 kl. 21:39

5 identicon

V. Jóhannesen, nauðungahjónabönd (framkvæmd utan landsins) eru ekki ólögleg fyrir þá sem búa í Danmörku. Hins vegar hefur 24ra ára reglan verið í gildi síðan 2002 auk kröfunnar um tengingu við Danmörku, sem hefur komið í veg fyrir flest þannig hjónabönd, vegna eðlis þeirra í þessu sambandi. Eftir það fluttist þetta vandamál í auknun mæli til Noregs of Svíþjóðar, þar sem ólíkt Danmörku hefur verið og er enn þöggun í gangi gagnvart vandamálunum. Þessi þöggun lýsir sér m.a. sem sjálfsritskoðun helztu fjölmiðlanna.

Annar bloggari, sem þekkir vel til Danmerkur á 9. og 10. áratugnum, hefur skrifað í smáatriðum um þessi mál, sem innihalda bæði menningarlegar og fjárhagslegar hliðar.

Það væri hægt að halda ráðstefnu með efninu: "Danmörk 1983 - 2001: Hvernig innflytjenda- og flóttamannapólítík ætti EKKI að vera" og þá myndu allir ráðstefnugestir ekki gera annað en að hrista hausinn stynjandi.

Pétur D. (IP-tala skráð) 16.6.2014 kl. 22:22

6 identicon

Þetta átti að vera Jóhannsson, biðst forláts.

Pétur D. (IP-tala skráð) 16.6.2014 kl. 22:24

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

 Blessunarlega erum við ekki hluti af Danmörku, lengur...

Guðmundur Ásgeirsson, 17.6.2014 kl. 02:20

8 identicon

Varðandi gagnsemi/gagnleysi laga þá má líka benda á vandann varðandi skipulögð glæpasamtök. T.d. hafa stjórnvöld ítrekað snúið við meðlimum mótorhjólasamtaka frá norðurlöndum á þeirri forsendu að þeir væru LÍKLEGA að koma hér í glæpsamlegum tilgangi.   Af hverju var þeim ekki bara hleypt hér inn í landið og íslensk lög látin duga, þau banna jú allt ljótt?

    Þetta dæmi sýnir hvernig stundum verður að grípa til annara ráðstafanna en einfaldra lagasetninga. 

Ef hér ná fótfestu trúarsamtök sem vilja ganga á skjön við íslensk gildi eins og þau birtast t.d. í stórnarskrá, þá geta þau virkað eins og skipulögð glæpasamtök þar sem vitni eru kúguð og enginn þorir að segja neitt og þannig sannast engir glæpir.

Þess vegna verðum við að ganga hægt um gleðinnar dyr varðandi það að hleypa hér hverjum sem er inn, í trúarlegum jafnt sem veraldlegum efnum.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.6.2014 kl. 07:26

9 Smámynd: Jóhann Elíasson

Vandamálið er það Guðmundur, að t.d múslimar líta á kóraninn og "sharíalög" æðri þeim lögum sem gilda í "gistilandinu" og þá gerir frekar lítið gagn að setja lög sem fyrirfram er vitað að ekki er hægt að framfylgja.................

Jóhann Elíasson, 17.6.2014 kl. 10:23

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég tek undir fyrsta innlegg Valdimars hér. "Danir hafa stíft eftirlit með þessu hátterni og þar sem þetta er ólöglegt í Danmörku, þá útvísa þeir makanum úr landi þegar komið er til baka." Og Bretarnir, sem vitaskuld hafa haft ákvæði hingað til í lögum gegn þvinguðum hjónaböndum,* hafa nú með nýjum lög­um "lagt bann við þvinguðum hjóna­bönd­um Breta og gild­ir bannið um breska þegna í öðrum ríkj­um" og refsingin sjö ára fang­elsi (Mbl.is-fréttin).

"Það er því lög­brot að fara með ung­menni, sem eru bú­sett í Bretlandi, til annarra landa í þess­um til­gangi. Sam­kvæmt frétt AFP er ekki óal­gengt að farið sé með ung­menni til Ind­lands, Pak­ist­ans og Bangla­dess í þeim til­gangi." (S.st.)

Ég sé ekkert að því, að Ísland og hin Norðurlöndin taki upp svo einarða, skýra löggjöf. Það á ekki að vera stjórnlyndum múslimafeðrum nein afsökun, að hjónavígslan hafi farið fram í Austurlöndum.

Þess vegna er líka aðhrópan "vinstri-frjálslyndis"-borgarkrata og Gnarrista að Sveinbjörgu Birnu vegna ummæla hennar um þessi mál allsendis út í hött eins og annað sem frá þessum naívu islamó-fílum kemur.

* Kristindómurinn barðist gegn slíkum hjónaböndum strax á miðöldum.

Jón Valur Jensson, 17.6.2014 kl. 13:19

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það sem ég benti var að þvinguð hjónavígsla er ógild á Íslandi alveg nákvæmlega sama hvar í heiminum sú þvingun hefur verið framin.

Þeir sem ákveða að fara eftir einhverju öðru en landslögum hér á landi eru augljóslega að brjóta landslög. Skiptir engu máli hverju þeir fara þá eftir í staðinn, þeir eru samt að brjóta landslög ef þeir virða þau ekki.

Svo er hér mjög merkileg setning frá ágætum viðmælanda:

Ef hér ná fótfestu trúarsamtök sem vilja ganga á skjön við íslensk gildi eins og þau birtast t.d. í stórnarskrá, þá geta þau virkað eins og skipulögð glæpasamtök þar sem vitni eru kúguð og enginn þorir að segja neitt og þannig sannast engir glæpir. 

Ertu nokkuð að tala um bankana? Lýsingin passar nefninlega við þá.

Hells Angels ætluðu að hasla sér völl á Íslandi en hrökkluðust undan Íbúðalánasjóði. Þetta eru bara kettlingar sem kunna ekki stórglæpi. Hér á Íslandi eru miklu hættulegri og betur skipulögð öfl starfandi heldur en mótorhjólafélög eða skeggjaðir menn í sloppum sem krjúpa á teppi.

Ef við höfum svona miklar áhyggjur af því að einhver glæpsamleg öfl reyni ná undirtökum í hérlendu þjóðfélagi til að kollvarpa því, þá ættum við nú að byrja á því að úthýsa bönkunum sem halda hér öllu í helgreipum.

En fyrst umræðan snýst um "þvinguð" hjónabönd, hvað finnst mönnum þá um "göbbuð" hjónabönd? Það er nefninlega það sem þjókrikjan gerir, hún lætur þig halda að hjónaband sé eitthvað, en ef einhverntíman reynir á það kemur fljótt í ljós að það er nákvæmlega akkúrat ekki neitt og ef eitthvað er setur það mann í verri stöðu heldur en maður hefði bara einfaldlega sleppt því.

Hvernig væri nú að taka svoleiðis umræðu, um eitthvað sem er raunverulegur  hluti af daglegu lífi fólks á Íslandi, í staðinn fyrir tröllasögur frá útlöndum?

Guðmundur Ásgeirsson, 17.6.2014 kl. 14:21

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

"Tröllasögurnar" eru miklu tröllslegri en þú virðist gera þér grein fyrir, Guðmudur minn.

Lestu bækurnar Islamistar og naívistar og hina, sem Magnús Þór Hafsteinsson þýddi, þá kemstu aðeins nær sanni um þessi islamistamál.

Og gleðilega þjóðhátíð.

Jón Valur Jensson, 17.6.2014 kl. 15:03

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sömuleiðis, gleiðilegan þjóðhátíðardag.

En ertu að gefa í skyn að á Íslandi séu dæmi um þvinguð hjónabönd?

Ég hef nefninlega ekki vitneskju um hvort að svo sé í reynd.

Veit hinsvegar um mörg plathjónabönd sem eru lögleg.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.6.2014 kl. 19:41

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nei, ég var ekki að gefa það í skyn, Guðmundur. :)

En byrgja þarf brunninn, áður en einhver dettur ofan í.

Jón Valur Jensson, 17.6.2014 kl. 22:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband