Bréf til hagræðingarhóps

http://betrapeningakerfi.is/bref-til-hagraedingarhops/

- Sent hagræðingahópi á vegum ríkisstjórnar Íslands og birt á vef birt á vef Betra peningakerfis þann 30. ágúst  2013.

Guðmundur Ásgeirsson kerfisfræðingur hefur sent eftirfarandi bréf til Hagræðingarhóps um ríkisfjármál.

Góðan dag. Mig langar að koma eftirfarandi ábendingu á framfæri við hagræðingarhóp um ríkisfjármál.
 
Þar sem stærsti einstaki útgjaldaliðurinn á fjárlögum eru vaxtagreiðslur, til að mynda voru þær tæpir 78 milljarðar á fjárlögum 2012 eða 14,3% af útgjöldum ríkissjóðs, hlýtur að koma til athugunar hvort stærsta einstaka hugsanlega hagræðingaraðgerðin gæti ef til vill falist í því að lækka vaxtagjöld ríkisins. Helst ætti ríkið reyndar alfarið að hætta því að greiða vexti, enda er engin þörf á að það geri það. En hvernig væri hægt að ná því fram? Til þess að nálgast svar við þeirri spurningu verður fyrst að skoða hvað vextir eru, eðli þeirra, og ekki síst hvert allar þessar vaxtagreiðslur renna. Með því að skoða það nánar er svo hægt að gera grein fyrir því hvernig ná mætti fram lækkun á vaxtagjöldum ríkisins.
 
Eins og núverandi fyrirkomulagi peningamála og fjármálaviðskipta er háttað hér á landi, þá er það þannig að einungis brot af peningamagni í umferð eða innan við 3% er búið til og gefið út af Seðlabanka Íslands sem seðlar og mynt, í umboði löggjafans og ríkisvaldsins. Hinn hlutinn eða langmest af peningamagninu verður til í formi rafkróna sem eru skuldbindingar í fjármálakerfinu, til dæmis ný innstæða á bankareikningi sem verður til við lánveitingu frá bankakerfinu. Þessi hluti peningamagnsins, rafkrónur í formi fjármagnseigna af ýmsu tagi, eru allar vaxtaberandi.
 

Þegar ríkið sækir sér fé til ráðstöfunar umfram tekjur er það gert með skuldsetningu, til dæmis með því að taka lán eða gefa út skuldabréf og selja þau. Þá greiða kaupendurnir samkvæmt þessu að jafnaði í það minnsta 97% kaupverðsins með rafkrónum, til dæmis bankainnstæðum, frekar en með eiginlegum lögeyri sem eru seðlar og mynt. Jafnvel má leiða að því líkur sökum eðlis nútíma fjármagnsmarkaða að hlutfall rafkróna í slíkum viðskiptum sé langoftast miklu nær því að vera 100%, en notkun lögeyris heyri hinsvegar til undantekninga.

Þar sem flestallar rafkrónurnar sem notaðar eru til að kaupa ríkisskuldabréf og veita þannig ríkinu lán eru vaxtaberandi, gera lánveitendurnir sem eru fjárfestar, óhjákvæmilega ávöxtunarkröfu á fé sitt enda er enginn önnur leið til þess að geta staðið undir vaxtabyrðinni sem innbygð er í rafkrónukerfið. Hvaða leið sem þessar vaxtagreiðslur fara svo til baka um fjármálakerfið á milli hina ýmsu aðila, þá er óhjákvæmilegt að sá hluti þeirra sem svarar til grunnvaxta útlána fjármálakerfisins, endi alltaf hjá upphaflegum útgefendum rafkrónanna, lánveitendum, sem eru oftast bankastofnanir. Vissulega verða þóknanir í formi vaxtaálags eftir í fjárhirslum ýmissa milliliða á þessari leið um kerfið, en margir þeirra eru sjálfir líka lánveitendur eða fjármagnaðir af lánveitendum með þeim hætti að tekjur þeirra renna líka í vaxtagreiðslur til útgefenda rafkróna sem eru lánastofnanir. Hvernig sem á það er litið þá geta vextir sem greiddir eru af lánsfé einungis endað á einum stað, hjá upphaflegri uppsprettu lánsfjárins, alveg sama hversu oft það hefur verið endurlánað í millitíðinni. Þessi uppspretta er hjá útgefundum rafkróna sem eru allar settar í umferð með lánveitingum þeirra til almennings, fyrirtækja, eða ríkisins, beint eða óbeint.

Þá hlýtur að þurfa að spyrja sig hvort það sé eðlilegt að íslenska þjóðin greiði útgefendum rafkróna gríðarlegar fjárhæðir í vexti, fyrir það eitt að hafa afnot af peningamagni þjóðarinnar til viðskipta manna á milli og vegna hefðbundins atvinnurekstrar? Er það að sama skapi eðlilegt að ríkið, sem að öllu öðru virtu hefur einkarétt til þess að gefa út lögeyri landsins, greiði 14,3% af tekjum sínum (skattgreiðslum almennings og fyrirtækja) fyrir afnot af rafkrónum sem það hefur falið fyrirtækjum einkarétt til að skapa? Fyrirtækjum sem í mörgum tilfellum eru í einkaeigu, og jafnvel í eigu erlendra aðila sem er nafnlausir á bak við erlend skúffufélög eins og á til dæmis við að miklu leyti um tvo af þremur langstærstu viðskiptbönkum landsins um þessar mundir. Þessir aðilar hafa ekki neitt lýðræðislegt forsvar eða ábyrgð.

Ef íslenska ríkið myndi afturkalla einkarétt fjármálakerfisins til útgáfu á peningamagni í formi rafkróna, og beita þess í stað á ný lögvörðum rétti sínum til að gefa sjálft út lögeyri landsins og að kveða á um hvaða takmörkunum útgáfa hans og notkun er háð, auk þeirra réttinda sem því fylgja, þá gæti ríkið fjármagnað sig sjálft með því að gefa út nægilegt magn lögeyris (sem gætu allt eins verið rafkrónur) og sett það fé í umferð einfaldlega með greiðslu útgjalda ríkisins. Fyrir afnot þessara fjármuna þyrfti ríkið ekki að greiða neinum einkaaðilum vexti og gæti því sparað sér þann kostnað (eða 14,3% mv. 2012). Með þessu móti er vissulega sú hætta fyrir hendi að of mikil ríkisútgjöld á stuttu tímabili fjármögnuð með nýjum peningum geti aukið peningamagn umfram þarfir þjóðfélagsins og valdið þannig verðrýrnun gjaldmiðilsins sem gjarnan birtist í hækkandi verðlagi (verðbólgu), og þarf því að huga vel að agaðri hagstjórn til þess að slíkt fyrirkonulag skili tilætluðum árangri.
 
Eitt mikilvægasta hagstjórnartækið í þessu samhengi gæti þá verið skattheimta ríkisins, en með henni skapast innflæði sem hægt er stýra að hve miklu leyti er ráðstafað til útgjalda, eða hvort það sé tekið til hliðar og úr umferð. Þannig væri hægt að draga úr peningamagni í umferð til mótvægis við aukningu þess vegna ríkisútgjalda, og stilla þannig af það peningamagn sem er í umferð úti í samfélaginu hverju sinni, sem farsælast er að sé í samræmi við þarfir þjóðarbúsins á hverjum tíma til að stunda eðlileg viðskipti manna á milli og nota í heilbrigðu atvinnulífi. Heildarpeningamagn ætti þá ekki að auka nema smám saman ef þörf þykir vegna aukins umfangs þjóðfélagsins vegna mannfjölgunar eða framleiðniaukningar, en mætti jafnframt draga úr vexti þess á tímum samdráttar í þjóðfélaginu. Þannig gæti ríkið sjálft haf tök á því að jafna hagsveiflur að nokkru leyti, svo lengi sem skynsamlega er staðið að hagstjórninni. Að sjálfsögðu er sú hætta fyrir hendi að slíkt vald sé misnotað, en það er óháð því hver hefur það vald með höndum, með núverandi fyrirkomulagi er það að langmestu leyti í höndum einkaaðila sem hafa hvorki lýðræðislegt forsvar né ábyrgð gagnvart almenningi með sama hætti og lýðræðislega kjörnir fulltrúar sem fara með valdið til fjárlagagerðar ríkisins. Þannig hlýtur spurningin um hættu á misnotkun peningavaldsins að snúast um það val hvort því sé betur komið í höndum einkaaðila eða kjörinna fulltrúa. Kröfur samtímans um aukið og beinna lýðræði og þáttöku almennings í mikilvægum ákvörðunum, hljóta að veita sterkar vísbendingar um svör við þessum spurningum.
 

Sumir gætu e.t.v. talið að sú hugmynd sem hér er sett fram eða aðrar af svipuðum toga, þýði sjálfkrafa mikla röskun á rekstrargrundvelli og starfsumhverfi lánastofnana, en það er þó ekki að öllu leyti rétt. Vissulega yrði þeim ekki framar heimilt að skapa takmarkalaust magn af nýju fjármagni með útlánum, sem eins og dæmi sögunnar sýna hafa ekki alltaf reynst vera á byggð á traustum grunni, en þá má líka spyrja sig hvort einhver ástæða sé yfir höfuð til þess að þeim sé það heimilt með slíkum hætti? Það þyrfti þá líklega fyrst að rökstyðja kosti og galla slíks fyrirkomulags á sama hátt, og reyndar liggur fyrir af hálfu margra málsmetandi aðila, jafnvel nóbelsverðlaunahafa, að eldra fyrirkomulagið hafi þegar runnið sitt skeið vegna augljósra galla þess sem hafa opinberast í seinni tíð. Þrátt fyrir að breyting yrði gerð á sjálfri útgáfu fjármagnsins, yrði fjármálastofnunum (bönkum) eftir sem áður heimilt að gera það sem lengst af hefur verið litið svo á að skuli einmitt vera þeirra meginhlutverk: að taka við innlánum frá almenningi og fyrirtækjum og miðla því fé til endurlána gegn traustum veðum og greiðslumati á lántakendum sem nota það til arðbærra verkefna og endurgjalda lánveitanda hluta þess arðs í formi vaxta. Banki sem er milliliður í slíkum viðskiptum myndi þá hagnast á því að heimta eitthvað hærri vexti af útlánum sínum en eru á innlánum, og nota vaxtamuninn til þess að fjármagna rekstrarkostnað sinn. Ef vel er að gáð þá er það reyndar einmitt þannig sem bankastarfsemi er gjarnan lýst í skólabókum nú þegar, þó að þar sé reyndar um mikla einföldun að ræða. Slík einföldun er einmitt það sem umrædd breyting myndi fela í sér, og myndi þannig gera fjármálakerfið einfaldara, skilvirkara, öruggara, og betur sniðið að þörfum nútímans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Stuttu máli er þessi tillaga bull og vitelysa

Til þess að ná skuldum niður þurfum við að skera hressilega niður í hinu opinbera. Stylla tekjur og gjöld þannig að það verður myndarlegur afgangur til að borga skuldir. Svo skulum við lækka skatta um leið og svigrún gefst sem mun leiða til gríðarlegs hagvaxtars auk þess að einfalda reglukerfið duglega.

 Hættu þessu smáskammtalækkana og hókus pókus aðferðurm. Udnirlyggjandi vandinn er að það er of mikið bruðl hjá hinu opinbera. 

Sleggjan og Hvellurinn, 1.9.2013 kl. 14:51

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Stuttu máli er þessi tillaga bull og vitelysa

Það væri miklu uppbyggilega ef þessum fullyrðingum þín fylgdi einhver rökstuðningur. Endilega útskýrðu hvers vegna þú telur þetta vera bull og vitleysa. Allaveg ef þú ætlast til að tekið verði mark á þér.

Jafnframt væri gaman að vita, fyrst þér er svo mikið í mun að rífa þetta niður, hvort þú hafir þá betri hugmynd til að hagræða?

Stylla tekjur og gjöld þannig að það verður myndarlegur afgangur til að borga skuldir. Svo skulum við lækka skatta um leið og svigrún gefst sem mun leiða til gríðarlegs hagvaxtars auk þess að einfalda reglukerfið duglega.

Já það er einmitt það sem tillagan að ofan gengur út á. Lastu hana ekki alveg í gegn áður þú ákvaðst að ráðast á hana með ómálefnalegum og órökstuddum fullyrðingum þínum? Hver er með bull og vitleysu hér?

Hættu þessu smáskammtalækkana og hókus pókus aðferðurm.

Þetta er ekki smákammta neitt, heldur stór og róttæk endurskoðun á fyrirkomulagi peningamáli sem hér er verið að leggja til.

Udnirlyggjandi vandinn er að það er of mikið bruðl hjá hinu opinbera. 

Þetta er alveg rétt og það er þess vegna sem beint er tillögum til hagræðingarhóps á vegum stjórnvalda um hvernig megi skera það bruðl niður. (Sendir þú þeim þínar tillögur um hvernig væri best að standa að þessu, eða ertu bara hérna til að rífa niður hugmyndir annara?)

Eins og fram kemur skýrt og skilmerkilega í tillögunni hér að ofan sem staðfesta má eftir opinberum heimildum, þá er stærsti einstaki útgjaldaliður ríkisins vaxtagjöld eða um 14,3%. Tillagan gengur öll út á að fella brott þann langstærsta kostnaðarlið. Þessi kostnaðarliður er bruðl, eins og útskýrt er í færslunni, vegna þess að við borgararnir sem greiðum skatta fáum ekkert í okkar hlut á móti þessum greiðslum sem fara í vexti, hvorki aukna þjónustu eða lægri skatta, heldur þvert á móti minni þjónustu eða hærri skatta svo að greiða megi vextina. Með því að hætta slíku bulli og vitleysu væri hægt að bæta þjónustu eða lækka skatta fyrir þennan pening í stað þess að borga hann í einhverja óskilgreinda hít sem við fáum ekkert í staðinn fyrir nema mínus.

Nema jú afnot af peningamagninu, sem er sameiginleg auðlind okkar allra. Aðgangur að þeirri auðlind og ráðstöfun þess á ekki að vera einkamál örfárra einkarekinna fyrirtækja í jafn ríkum mæli og nú er. Myndum við eitthvað frekar sætta okkur við einkaeign á auðlindum, ef ríkið fengi að halda eftir 3% af árlegum afnotarétti? Berum það til að mynda saman við fiskveiðikvóta og þá hlýtur að vera augljóst að slíkt sættir íslensk þjóð sig engan veginn við. Þess vegna er svo mikilvægt að fræða fólk um að nákvæmlega sömu lögmál ættu að gilda um peningana sjálfa, sem eru eins og annað sem er sameiginlegt með okkur, ekki einkaeign örfárra aðilaheldur með réttu sameign þjóðarinnar allrar.

Hætt ÞÚ svo að vera með bull og vitleysu sleggjuhvellur. Athugasemdin þín var ómálefnaleg og órökstudd. Aðeins kellingar slá fyrir neðan belti.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.9.2013 kl. 15:48

3 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Mummi,

 flott bréf hjá þér og alls ekki bull eða vitleysa. Í raun eina skynsamlega leiðin til réttlætis.

Gunnar Skúli Ármannsson, 1.9.2013 kl. 18:15

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Já en það eru hinsvegar til aðilar sem vilja halda áfram að þiggja vexti úr ríkissjóði á kostnað almennings eins og þeir hafa getað komist upp með að gera allt of lengi. Við höfum bara því miður sem þjóðfélag ekki efni á slíkri ölmusu lengur handa þeim sem eiga nóg fyrir sig nú þegar, eins og sést á því að þeir skuli eiga afgangsfé til að lána ríkissjóði. Ef þeir þurfa ekki nota það ættu þeir miklu frekar að beina því til góðra verka, af þeim er nóg að taka.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.9.2013 kl. 22:01

5 Smámynd: Steingrímur Helgason

Vitleg og góð skrif.

Steingrímur Helgason, 2.9.2013 kl. 00:24

6 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Góð tillaga hjá þér Guðmundur. Ég myndi vilja bæta við hana eða um leið og peningaprentunin er tekin af fjármálastofnunum, þá breytum við um mynt í sama anda og Lilja Móselsdóttir og Hægri Grænir voru með.

Með því gætum við íslendingar náð utan um þá aðila sem eiga allar þessar krónueignir sem hanga yfir okkur og eru okkur að kæfa.

Eggert Guðmundsson, 3.9.2013 kl. 22:42

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Eggert, þessi hugmynd sem þú nefnir, er í rauninni hluti af þessu, því ef þetta yrði gert eins og hér er lýst þá er í raun um myntbreytingu að ræða þar sem útgáfa myntarinnar yrði þá á allt öðrum og nýjum forsendum.

En hvaða krónueiginir eru að kæfa okkur og hverjir eru eigendurnir?

Ég hef bara orðið var við krónuskuldir sem eru að kæfa okkur...

Og ég hef aldrei hitt Erlend Kröfuhafa. Hvar á hann heima? :)

Guðmundur Ásgeirsson, 4.9.2013 kl. 12:22

8 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Þetta verður allt afskrifað hvort eð er þegar Endurreist Þjóðveldi rís. Mestaf því er þegar útskýrt á frelsi.not.is og annað á gudjon.not.is.

Guðjón E. Hreinberg, 26.9.2013 kl. 12:53

9 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

þetta http://frelsi.not.is/ er mesta bull sem ég hef kynnt mér

Sleggjan og Hvellurinn, 27.9.2013 kl. 16:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband