SUS gefur rafbók út á pappír og fer aftur um hálfa öld í prentsögunni

Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) hefur gefið út bók sem nefnist Málþóf. Í bókinni, sem er á fimmta hundrað síður, er lengsta þingræða sögunnar birt í heild sinni. Ræðan var flutt af Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á Alþingi frá kl. 12:27 fimmtudaginn 14. maí 1998 til kl. 00:37 föstudaginn 15. maí 1998 og fjallaði hún um húsnæðismál.

Framangreint er bein tilvitnun af vef Sambands ungra Sjálfstæðismanna. Ég tek það fram að í þessum skrifum felst enginn áróður með eða á móti, mér finnst þetta bara einfaldlega fyndið. Því hefur lengi verið haldið fram að helsta færni Íslendinga sé rökræðulist og ef eitthvað sannar það er það kannski þetta.

Ég ætla ekki að eyða neinum orðum hér í þá fornfleifafræði sem greining á innihaldi ræðu Jóhönnu þarna um árið myndi óhjákvæmilega fela í sér, það eru tíðindi gærdagsins. Það er hinsvegar stórkostlegt að rýna í þá rökræðu og þingskapatækni sem þarna birtist. Til að afgreiða það í stuttu máli þá er nýútgefin bók SUS aðgengileg í rafbókarformi og hefur reyndar verið það um allnokkurt skeið.

Hér er fyrsti kaflinn:

http://www.althingi.is/altext/122/05/r14122702.sgml

Þetta er reyndar aðeins fyrsti kafli af þremur, enda hefst hann svona:

(Forseti (StB): Forseti vill geta þess, vegna sérstakra óska hv. þm., að gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að gera henni vistina í ræðustólnum sem besta. Hér hefur verið komið með púlt að ósk þingmannsins.)

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hugulsemi forseta að búa mér bærilega aðstöðu í ræðustólnum vegna þess að ég á eftir að dvelja hér þó nokkurn tíma, enda er hér stórt mál á ferðinni. 

Þessum orðum var ekki ofaukið, en ræðan hófst klukkan tæplega hálftólf og klukkan eitt gerðist þetta:

(Forseti (StB): Forseti leyfir sér að trufla hv. þm. í ræðunni en gert hafði verið ráð fyrir því að gera matarhlé kl. eitt. Nú er klukkan eitt og forseti vill spyrja hv. þm. hvort ekki séu tök á því að þingmaðurinn geri hlé á ræðu sinni í 30 mínútur og gert verði matarhlé.)

Það er sjálfsagt, herra forseti.

Þá var tekið matarhlé í rúman hálftíma og svo var haldið áfram.

Hér er annar kafli:

http://www.althingi.is/altext/122/05/r14133400.sgml 

Honum lýkur svo á þann hátt sem verður best lýst með orðum þásitjandi þingforseta:

(Forseti (GÁS): Forseti vill spyrja hv. þm., í ljósi þess að ræða hennar hefur nú staðið fimm og hálfa klukkustund, sem er samkvæmt upplýsingum skrifstofu þingsins lengsta samfellda ræða sem flutt hefur verið, hvort stefni í lok ræðunnar eða hvort heppilegt sé að gera á henni hlé nú þannig að áður áformað matarhlé verði gert til kl. 20.30 og ræðunni fram haldið eftir það.)

Ég hef hvergi nærri lokið máli mínu, en ég læt forseta auðvitað um að ákveða hvort ég haldi hér áfram eða byrji að loknu matarhléi. Stjórnin er í höndum forseta.

(Forseti (GÁS): Þá tekur forseti þá ákvörðun að nú verði gert hlé á þessum fundi og honum fram haldið kl. 20.30.)

Fundarhlé var tekið klukkan sjö til að matast og hófst gleðin að nýju um klukkan hálfníu.

Hér er þriðji og lokakaflinn:

http://www.althingi.is/altext/122/05/r14203217.sgml 

Herra forseti. Ég hef farið nokkuð ítarlega yfir það mál sem er á dagskrá en enn á ég töluvert ósagt...

Það sem var þá ósagt átti eftir að standa yfir látlaust í rúmar fjórar klukkustundir og var afrekinu ekki lokið fyrr en klukkan var orðin hálfeitt eftir miðnætti og sjö mínútum betur, með þessu niðurlagi:

Herra forseti. Það skulu vera lokaorð mín að ég lýsi allri ábyrgð á hendur þessari ríkisstjórn verði þetta frv. að lögum eins og hér er stefnt að. 

Það sem þá upphófst verður hinsvegar best lýst sem algjörum skrípaleik. Þá var þarna um miðja nóttina útbýtt þingskjölum um framkvæmd vegaáætlunar og skattamál sem verður að teljast ólíklegt að þeir sem þá voru viðstaddir í þingsal hafi verið í nokkru ástandi til að kynna sér. Tók þá til máls þingmaður nokkur sem gerði athugasemdir við fundarstjórn sem eru eftir á að hyggja merkilegar, og tók umræða um þær alls sjö mínútur. Ég get ekki endursagt þessa umræðu á neinn hátt sem gæti náð stemningunni í þingsalnum betur en þessar beinu tilvitnanir:

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætlaði að leyfa mér að spyrja virðulegan forseta hvað er fyrirhugað með fundahald, hvort ekki er nóg að gert eins og þar stendur. Fundur hefur staðið linnulaust síðan hálfellefu í morgun og reyndar lengur því a.m.k. ein og líklega frekar þó tvær þingnefndir hófu störf klukkan átta. Miðað við hvíldartímaskipan þá sem upp hefur verið tekin hér, m.a. að evrópskum sið og staðfest á Íslandi, og ég veit að sá ráðherra sem hér á mál á dagskrá er mjög annt um að sé virt, hæstv. félmrh., sýnist mér að ekki sé fært að halda lengur áfram fundinum miðað við að hann eigi að hefjast aftur á svipuðum tíma í fyrramálið og fundir hafa hafist undanfarna daga, þ.e. um hálfellefu. Ef ég kann rétt að reikna veitir ekki af að hætta störfum nú og þó fyrr hefði verið ef menn eiga að ná lágmarkshvíld samkvæmt þeim reglum sem nú eru gengnar í gildi. Ég vil því leyfa mér að koma þessari ábendingu á framfæri við hæstv. forseta og vænti þess að forseti sjái að það er eðlilegast úr því sem komið er að fresta fundinum að svo stöddu.

[00:39]

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Eins og öllum má ljóst vera verður að nýta hverja stund í sólarhringnum svo ljúka megi umræðunni. Gert hafði verið ráð fyrir að halda fundinum áfram nokkra stund enn. 

[00:39]

Bryndís Hlöðversdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir þá ósk sem hefur komið fram og hvetja hæstv. forseta til þess að við hér sem höfum verið að setja lög á grundvelli þar til gerðra samþykkta um hvíldartíma, virðum a.m.k. þær reglur og bjóðum ekki okkur sjálfum upp á það sem við erum að binda í lög að ekki megi bjóða öðrum upp á. Ég held að það sé lágmark að þessi samkunda hér, hið háa Alþingi, virði sjálft þau lög sem það er að setja. Ég vil því hvetja til þess, herra forseti, að tekið sé tillit til þessarar óskar. Þetta hefur verið langur og strangur fundur í dag og þinghaldið verður að gera ráð fyrir því að menn geti talað lengi og það hefur verið tekið tillit til þess hér en ég vil hvetja til þess að við fáum tóm til þess að hvíla okkur í a.m.k. einhverja klukkutíma áður en að næsti fundur hefst.

(Forseti (StB): Forseti hefur hlýtt á eðlilegar óskir hv. þm.) 

[00:41]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef fullan skilning á ákefð forseta að halda áfram umræðunni. Hún hefur nú staðið frá kl. 10.30 í morgun en eins og fram hefur komið hófust nefndafundir kl. 8.15 í morgun og nokkrir þeirra sem eru í húsinu sátu þá nefndafundi. Ég minni á að fyrir tveimur kvöldum um þetta leyti var vakin athygli forseta á því að næsta morgun væri búið að boða fund í félmn. kl. 8.15 og það gæti ekki gengið að halda áfram fram eftir nóttu við þær aðstæður. Það var engu að síður gert og lýst yfir af forsetastóli að fundi í félmn. yrði aflýst. Það var ekki gert og við sem vorum hér mættum til fundar næsta morgun klukkan átta. Það er ekkert hægt að leika sér með þessi ákveðnu mörk. Það er búið að setja lög á Alþingi, reyndar um ellefu tíma hvíldartíma, fyrir alla landsmenn, átta stundir við sérstakar aðstæður ef á að bjarga verðmætum, ef ég man rétt. Við höfum fylgt þeim mörkum. Við erum komin að þeim. Við vorum á fundi klukkan átta í morgun og það er mál að linni, virðulegi forseti. 

[00:43]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla ekkert að jagast um þetta mál við herra forseta. Ég vil aðeins leggja frekari áherslu á það sem ég var að segja. Hér hafa staðið langir og miklir fundir, fyrst í þingnefndum og síðan á þingi. Ég tek eftir því að ýmsir eru orðnir þreytulegir, að til að mynda er hæstv. félmrh. orðinn þreytulegur, og ég leyfi mér að fullyrða að hæstv. ráðherra hefði gott af því að fara að komast heim og hvíla sig og halla sér hjá sinni góðu konu. Ég vil einnig beina því til hæstv. forseta að við erum hér í miðjum klíðum og það er ljóst að það er heilmikil vinna fram undan á Alþingi þannig að það hefur ekkert upp á sig að keyra sig út á hverjum degi. Mönnum vinnst best með því að hafa vinnudaginn jafnan, sígandi lukka er best í þessum efnum. Ég held því að það sé ekki skynsamlegt að vera að keyra hér á löngum næturfundum þannig að mannskapurinn sé þeim mun dasaðri daginn eftir. Það liggur þannig að verði næturfundur frekar en orðið er er augljóslega ekki hægt að endurtaka það á morgun. Það er ekki til siðs á Alþingi að halda kvöld- eða a.m.k. næturfundi marga daga í röð þannig að mér sýnist að ósköp lítið vinnist með því að halda miklu lengur áfram og ef það yrði gert þá mundi það fyrst og fremst leiða til þess að það yrði ekki hægt að byrja á sama tíma aftur í fyrramálið. Ég vil því í allri vinsemd biðja forseta að hugleiða það betur en hann hefur þó gert hingað til, hvort ekki sé skynsamlegt að fresta fundi nú eða a.m.k. halda honum ekki áfram nema í mjög skamma hríð í viðbót. 

[00:44]

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Forseti hefur góðan skilning á þeim óskum sem fram hafa komið hjá hv. þm. og með þeim orðum gefur hann hv. 8. þm. Reykn. orðið.

Þegar þarna var komið við sögu var klukkan orðin kortér í eitt og síðust á mælendaskrá var Sigríður Jóhannesdóttir. Hún hélt efnislega ræðu um frumvarpið sem stóð yfir í meira en hálfa klukkustund til viðbótar en fundi var loksins slitið klukkan 1:21.

Það verður ekki af Sturlu Böðvarssyni þáverandi þingforseta tekin, vinnusemin, en það er allavega nokkuð ljóst að sumir þingmenn voru beinlínis farnir að kveinka sér undan langdregnum ræðuhöldunum og sífelldri næturvinnu.

Ritdómur: Það er engin leið að gefa þessari bókaútgáfu SUS neina einkunn fyrir framlag til bókmennta né stjórnmálavísinda því þetta eru ekki neinar bókmenntir af neinu tagi og afritun er ekki vísindi heldur dagleg iðja fjölda fólks á internetinu. Ég gef SUS fjórar stjörnur af fimm mögulegum fyrir frumlega gjörningalist með blöndu af léttum húmor, og ráðlegg þeim að ganga í pírataflokkinn sem fílar þetta framtak örugglega í leynum þó það yrði kannski seint viðurkennt.

Loks skal ítrekað að þetta er ekki með eða á móti neinum aðilum eða sjónarmiðum heldur aðeins til þess að draga fram spaugilegar hliðar. :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Skemmtileg söguskoðun

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 10.3.2013 kl. 01:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband