Fjársvelt eftirlit með neytendalánum

Neytendastofa hefur samkvæmt lögum um neytendalán það hlutverk að framfylgja lögum og reglum og hafa eftirlit á sviði neytendalánastarfsemi. Þessu hlutverki hefur stofnunin þó afar takmarkaða möguleika til að gegna sem skyldi, sökum knappra fjárveitinga frá hinu opinbera. Í ársreikningi stofnunarinnar 2011 kemur fram að tekjur ársins voru rúmar 154 milljónir króna, að meginhluta framlag úr ríkissjóði að fjárhæð 111 milljónir sem skerðist um 8 milljónir frá fyrra ári.

Á sama tíma hefur verið stofnað embætti Umboðsmanns skuldara sem samkvæmt fjárlögum 2011 fékk úthlutað 600 miljónum króna og hefur ráðið um hundrað manns til starfa, en stofnunin hefur þó engar valdheimildir til þess að framfylgja lögum um rétt neytenda gagnvart lánveitendum.

Fjármálaeftirlitið, sem hefur það lögboðna hlutverk að hafa eftirlit með fjármálafyrirtækjum og að sjá til þess að þau fari að lögum í starfsemi sinni, fær jafnframt úthlutað yfir 1.300 milljónum samkvæmt fjárlögum 2011. Í sínu fyrsta fjölmiðlaviðtali hefur nýráðinn forstjóri FME afneitað þessu lögboðna hlutverki. Forstjórinn telur það ekki vera í verkhring stofnunarinnar að gæta að framkvæmd laga, heldur fyrst og fremst að passa að bankarnir verði ekki fyrir skakkaföllum, eins ótrúlegt og það kann að virðast frá sjónarmiði heilbrigðrar skynsemi.

Þegar lög um neytendalán voru sett árið 1993 var eftirlit með þeim falið Samkeppniseftirlitinu en svo Neytendastofu þegar hún var stofnuð árið 2005. Frá upphafi hafa fjárveitingar til þess reyndar verið af mjög skornum skammti, sem skýtur afar skökku við, hafi nokkurntíma verið vilji til þess að réttur neytenda í lánastarfsemi væri virtur, en útskýrir jafnframt að nokkrum hluta hvers vegna brot á neytendarétti lántakenda eru svo algeng sem raun ber vitni hér á landi.

Svo dæmi sé tekið, þá var lögum um neytendalán breytt árið 2000 þannig að þau næðu einnig til húsnæðislána, og margfaldaðist þannig umfang þeirrar starfsemi sem undir eftirlitsskylduna fellur. Í umsögn fjárlagaskrifstofu um frumvarpið er sett fram það mat að lagasetningin muni ekki hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Augljóslega er slíkt ómögulegt nema með mikilli og aukinni hagræðingu, og sú leið sem virðist hafa verið farin til þess er einfaldlega að láta þessa lögboðnu eftirlitsstarfsemi og réttarvörslu neytenda sitja á hakanum.

Sem hún hefur svo sannarlega fengið að gera alla tíð.

Í staðinn fá Íslendingar öðru hverju fréttir af því að slegið sé á puttana á verslunum fyrir villandi verðmerkingar á lítilfjörlegum varningi, eða skort á vottorðum frá sambærilegum eftirlitsstofnunum í öðrum löndum. Við fáum líka holla hreyfingu þegar við þurfum að labba frá kjötkælinum að verðskanna, sem er sagt efla samkeppni og lækka vöruverð. Þó er vandséð annað en að sömu rök hljóti að eiga við lánastarfsemi á neytendamarkaði.

Að þetta fyrirkomulag sé á villigötum, er líklega vægt til orða tekið.


mbl.is Málafjöldi vex á öllum sviðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband