Forsendubrestur verðtryggðra lána útskýrður

I. Fjölgun á krónum í umferð skilgreind sem orsök verðbólgu

"Eitt af hlutverkum peninga er að vera mælieining á verðmæti. Þessi mælieining hefur þó þann galla, ólíkt til dæmis mælieiningum metrakerfisins, að vera síbreytileg. Stundum er hægt að kaupa minna fyrir ákveðinn fjölda króna nú en áður. Þetta þýðir að mælieiningin hefur breyst og það er almennt kallað verðbólga. Einfaldasta skýringin á verðbólgu er að krónum í umferð fjölgar stundum hraðar en þeim vörum sem hægt er að kaupa fyrir þær."

 - Gylfi Magnússon, Vísindavefur HÍ http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=140

II. Bankastarfsemi skilgreind sem orsök yfir 90% af krónum í umferð

"Hægt er að nota margs konar mælikvarða til að mæla peningamagn í umferð. Sú þrengsta er seðlar og mynt í umferð, sú næstþrengsta er svokallað grunnfé, en þá er bætt við innstæðum viðskiptabanka í seðlabanka og birgðum þeirra af seðlum og mynt. Önnur algeng skilgreining er kölluð M1, þá eru lagðar saman annars vegar upphæð seðla og myntar í umferð og hins vegar innstæður á tékkareikningum. Ef bætt er við innstæðum á almennum sparifjárreikningum fæst M2, og séu bundin innlán líka tekin með fæst M3. Algengast er að nota M1 eða M2 þegar talað er um peningamagn og Seðlabanki Íslands notar M1. ...þegar einn aðili leggur fé inn á bankareikning þá lánar bankinn hluta fjárins út aftur. Sá sem fær féð að láni eða viðskiptavinir hans leggja svo aftur einhvern hluta þess sem þeir fá inn á bankareikninga. Það fé er svo aftur lánað út og þannig koll af kolli. Heildarinnstæður á bankareikningum aukast því um margfalda þá upphæð sem upphaflega bættist við peningamagn í umferð."

 - Gylfi Magnússon, Vísindavefur HÍ http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=841

III. Fjölgun á krónum í umferð undanfarin ár

Rauðu línurnar sýna aukningu hverar mælistærðar um sig, sem eins og sjá má er gríðarleg á tímabilinu eftir að bankarnir voru einkavæddir.

Einkavædd peningaprentun

 - Unnið úr talnagögnum frá Seðlabanka Íslands.

IV. Afleiðingarnar fyrir lántakendur

"Afleiðingin af aukinni peningaprentun verður því einkum sú að meira þarf af peningum en áður til að kaupa það sama. Með öðrum orðum, verð á vörum og þjónustu hefur hækkað. Það köllum við auðvitað verðbólgu."

- Gylfi Magnússon, Vísindavefur HÍ http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=2547

"...verðtrygging lána auk hærri og jákvæðra vaxta hafa skilað þeim árangri að skuldir heimila hafa hækkað í stað þess að rýrna fyrir tilstilli verðbólgu"

- Ársskýrsla Seðlabanka Íslands 1992, bls. 31

V. Niðurstaða

  1. Krónufjölgun veldur verðbólgu
  2. Bankar valda krónufjölgun að mestu leyti
  3. => Bankar valda verðbólgu að mestu leyti
  4. Verðbólga veldur hækkun verðtryggðra lána
  5. Flest húsnæðislán, öll námslán o.fl. eru verðtryggð
  6. => Bankar orsaka mikla hækkun á skuldastöðu heimila
  7. Bankar hafa stundað hið ofangreinda í gríðarlegum mæli
  8. Og haft af því ómældan hagnað á undanförnum árum
  9. => Grunlausir viðskiptavinir kunna að eiga rétt á skaðabótum

En í því tilviki væri sennilega um að ræða verulegar fjárhæðir:

Áhrif verðtryggingar á skuldir heimila

Rétt er að taka fram að hagfræðiskýringar af Vísindavefnum eru miklar einfaldanir á flóknum aðgerðum, en afleiðingarnar af þeim eru þær sömu þrátt fyrir það, eins og tilvitnanir í skýrslur Seðlabankans staðfesta, og geirnegla þannig rökleiðsluna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo lána bankarnir til einhverrar stórframkvæmdar, t.d. risaverslunarhúsnæði þar sem þó nóg er til fyrir af verslunarfermetrum. Þetta telst  þó vera hagkvæmt vegna þess að bankinn "býr" til peningana sem hann lánar og telur sig geta það í trausti þess að fá afborganir og vexti til baka.  Gallinn er bara sá að fjármagninu er stolið á lúmskan hátt úr vasa almennings, t.d. í aukinni verðbólgu vegna "peningaprentunar" bankans og sóunar í hagkerfinu þegar samkeppnisaðilar fara á hausinn svo og stundum með einokunaraðstöðu nýja fyrirtækisins.

 Þessu er horft framhjá af þeim sem ráða því það hentar ekki. Stórpilsfaldakapítalistarnir hafa  pólitíkusana í vasanum(nema kanski þá sem eru nytsamir sakleysingar og trúa í alvöru á bullið eða þurfa kanski að nota það í kosningaáróðri.) Svo fylgir hagfræðingastóðið með, ýmist kostað af kapítalinu eða fast í sínum skólabókum og amerísku tískukreddum.

Eitt er þó fast í hendi í stjórnun íslenska hagkerfisins, því fé sem hefur verið stolið af almennum skuldurum í gegnum verðtrygginguna skal ekki skilað til baka fyrr en frýs í helvíti.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 20.3.2012 kl. 22:40

2 Smámynd: Hjördís Vilhjálmsdóttir

Það þarf að láta reyna á skaðabótakröfu gegn bönkunum, sem þú nefnir sem möguleika ( liður 9). Lög um hópmálsókn er lykilatriði hvað þann möguleika varðar.

Hjördís Vilhjálmsdóttir, 20.3.2012 kl. 23:37

3 Smámynd: Sigurður Jón Hreinsson

Já, verðtryggingin er ekkert annað en stór og feit peningaprentvél.  Því er það ekkert annað en öfugmæli að kalla það hættulega peningaprentun, ef Seðlabankinn myndi gefa út skuldabréf til þess að leiðrétta lán almennings.  Sú aðgerð væri til þess fallin að taka peninga úr umferð, ekki að auka þá, öfugt við verðtrygginguna. 

Sigurður Jón Hreinsson, 20.3.2012 kl. 23:51

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

@Hjördís  Það þarf að láta reyna á skaðabótakröfu gegn bönkunum

heimilin.is - Lögsókn gegn verðtryggingu neytendalána

Stofnaður hefur verið sérstakur reikningur í nafni Hagsmunasamtaka heimilanna til að fara í málarekstur til að fá úr því skorið hvort verðbindandi ákvæði í neytendalánum standist lög.

Hagsmunasamtök heimilanna bjóða nú félagsmönnum sem öðrum að leggja málefninu lið með fjárframlögum inn á bankareikning 1110-05-250427 kt. 520209-2120. Nú þegar eru yfir 1.100.000 á reikningnum sem samtökin hafa lagt til úr félagssjóði auk framlaga stjórnarmanna. Fyrir liggja loforð frá nokkrum aðilum sem munu væntanlega tínast inn á næstunni.

Lög um hópmálsókn er lykilatriði hvað þann möguleika varðar. 

Ekki endilega, því það er fordæmisgildið sem skiptir mestu máli. Niðurstaða hópmálsóknar gildir aðeins fyrir þá sem hafa stofnað með sér málsóknarfélag um málshöfðunina. Hæstaréttardómur í máli einstaklings getur hinsvegar haft víðtækt foræmisgildi sem nýtist öllum. Það er sú nálgun sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa ákveðið að taka á þetta, svo kraftar og fé nýtist sem best.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.3.2012 kl. 14:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband