Þjóðþrifaverk að sporna við kennitöluflakki

Þingmenn úr þremur flokkum, VG, Framsókn og Hreyfingunni, hafa lagt fram frumvarp sem ætlað er að sporna við kennitöluflakki. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög í þá veru að synja megi félögum skráningu ef stjórnendur þess hafi ítrekað átt hlut að rekstri sem farið hefur í þrot, auk þess sem ekki megi ráðstafa úr þrotabúum fyrirtækja til slíkra aðila. Þetta er nauðsynlegt réttlætismál og verður að teljast stórfurðulegt að ekki skuli hafa verið tekið á því fyrr, en Lilja og félagar fá prik fyrir framtakið.

Ég veit sjálfur um tilvik þar sem sami rekstur hefur farið gegnum 3-4 kennitölur á jafn mörgum árum og ávallt skilið eftir sig sviðna jörð, launakröfur sem falla á ábyrgðarsjóð launa, opinber gjöld og lífeyrisskuldbindingar sem aldrei innheimtast og þar fram eftir götunum. Þetta er auðvitað ekkert annað en þjófnaður úr sameiginlegum sjóðum þjóðfélagsins, og furðulegt að slíkt athæfi skuli ekki hingað til hafa verið skilgreint með afgerandi hætti sem glæpsamlegt. Svona aðilar virðast geta verið ótrúlega fljótir að flytja reksturinn yfir á nýja kennitölu jafnvel án þess að svo mikið sem skipta um nafn, en þannig beita menn blekkingum til að láta líta út fyrir að enn sé um sama fyrirtækið að ræða þó að svo sé í raun ekki.

Það er því álitaefni hvort ekki væri ráð að bæta því við frumvarpið að eftir að fyrirtæki hafi orðið gjaldþrota megi hvorki breyta nafni þess né stofna nýtt með sama nafni, því nafnið er jú það sem fólk sér en ekki kennitalan. Auk þess teljast firmaheiti og vörumerki sem notuð eru við markaðssetningu til hugverkaréttinda og eru jafnvel einu verðmætin sem eftir sitja í þrotabúum kennitöluflakkara. Eins og kom fram í vefbókarfærslu sem ég skrifaði nýlega þá er tilfinning mín sú að víða sé pottur brotinn á meðferð slíkra réttinda við gjaldþrotaskipti, en tilfærslur á þeim skömmu fyrir gjaldþrot hljóta að teljast til málamyndagjörninga í skilningi gjaldþrotalaga og áframhaldandi notkun þeirra undir nýrri kennitölu þ.a.l. ólögmæt án endurgjalds í þrotabúið.

P.S. Ég kem þessu líka á framfæri við flutningsmenn frumvarpsins.


mbl.is Vilja sporna við kennitöluflakki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll. Þetta er ágæt hugsun í sjálfu sér. En fleira þarf svo þetta virki. Það þarf nefnilega samhliða þessu að bæta samkeppnisumhverfi fyrirtækja þannig að ríkið sé ekki að eyðileggja rekstrarumhverfi fyrir eðlilegum fyrirtækjum og koma þeim í þrot með því að styðja á óeðlilegan hátt við gjaldþrota stórfyrirtæki. Það er það versta í rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi núna að ríkið er langstærsti kennitöluflakkarinn. Þá á ég ekki við fjölda kennitalna heldur upphæðir upphæðir tapaðra krafna og flatarmál sviðinnar jarðar sem ríkið er að niðurgreiða til að þessi gjaldþrota fyrirtæki geti haldið áfram rekstri og undirboðið þá sem eru að reyna að borga skuldir sínar án ríkisaðstoðar.

Það er öfugmæli að átelja vandræði þeirra sem verða halloka í svona rekstrarumhverfi og fara í þrot þegar ríkið er að veðja á móti þeim með fjárgöfum til samkeppnisaðila.

Það eina sem þetta frumvarp mun því stuðla að er fákeppni eða einokun á markaði sem þarf á öllu öðru meira að halda.

Jón Pétur Líndal, 25.3.2010 kl. 22:59

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jón Pétur, ég er hjartanlega sammála áhyggjum þínum af kennitöluflakki hins opinbera. Sjaldan hefur verið farið jafn langt út að mörkum hins lagalega og siðferðislega boðlega með heila þjóð án þess að detta hreinlega fram af þeirri bjargbrún. Vonum að það eigi ekki eftir að gerast.

Í heilbrigðu umhverfi verða svona girðingar hinsvegar að vera til staðar, í forvarnarskyni. Vissulega er þetta ekki fullkomin tillaga og má eflaust bæta hana í meðförum þingsins ef hún hlýtur þar málefnalega umræðu. Hinsvegar er þetta stórt skref í rétta átt aldrei þessu vant og frekar en að gagnrýna það vil ég koma á framfæri því sem ég tel vera uppbyggilegar tillögur.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.3.2010 kl. 23:19

3 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll, þetta er svo sem rétt hjá þér, en í því samhengi sem þetta kemur fram, þegar samkeppnisumhverfið og kennitöluflakk hins opinbera blómstar sem aldrei fyrr gerir þetta sennilega bara illt verra. Það er vandamálið. En í eðlilegu þjóðfélagsástandi og stjórnmálaumhverfi væri þetta eðlilegasta mál. Þess vegna þurfa þingmenn að líta sér nær, einmitt núna og taka sjálfa sig og sín mál taki frekar en að hamast á öðrum sem geta ekki leitað í opinbera peningasjóði og kennitölulagera þegar á bjátar.

Jón Pétur Líndal, 25.3.2010 kl. 23:48

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jamm, hjartanlega sammála. Það er ekki krónan sem er vandamál, heldur þeir sem eru að skemma hana með svona háttalagi.

En svo það komi skýrt fram þá geri ég greinarmun á merkimiðunum "eðlilegt/óeðlilegt" annars vegar og hinsvegar því sem talist getur heilbrigt eða óheilbrigt. Þetta tvennt fer ekkert endilega alltaf saman, dæmi: sumt af því sem vestræn læknavísindi hafa fordæmt og talið óeðlilegt hefur svo við nánari athugun reynst vera mjög heilbrigt. Annað dæmi: árið 2007 þótti mörgum Íslendingum ríkjandi þjóðfélagsástand vera eðlilegt, þrátt fyrir að það væri gjörsamlega óheilbrigt. Heilbrigt er það sem getur lifað af sjálfu sér en óheilbrigt það sem eyðir sjálfu sér og/eða öðru í kringum sig. Í heilbrigðu umhverfi er auðvelt að vera eðlilegur en í óheilbrigðu umhverfi er það hinsvegar sá sem er óeðlilegur sem mun lifa af.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.3.2010 kl. 01:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband