Bréf til vinnumálastofnunar

Ég sendi svohljóðandi tölvupóst til Vinnumálastofnunar núna áðan, sem ég ákvað að birta líka hérna til að gefa lesendum smá sýnishorn af því hvað tilveran á Íslandi í dag getur verið súrrealísk á köflum. Það skal tekið fram að ekki er um neitt óhreint að ræða hér af hálfu starfsmanna viðkomandi stofnana, bara það sem mér sýnist að séu heiðarleg og mannleg mistök. Til að gæta fyllsta sanngirnis mun ég því væntanlega skýra frá viðbrögðum við skeytinu hér líka, verði þau í frásögur færandi á annað borð.
---------------------------
 
Góðan dag Greiðslustofa.

Ég hef verið án fullrar vinnu frá því í nóvember 2009, en blessunarlega hafa mér áskotnast tilfallandi tekjur síðan þá til viðbótar við atvinnuleysisbæturnar sem eru alls engin ofrausn. Í gær barst mér svo í pósti bréf frá Greiðslustofu Vinnumálastofnunar, þar sem gerð er athugasemd vegna meintra óuppgefinna tekna í desember 2009 sem hafi komið í ljós við samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra.

Við mína eigin samkeyrslu tölvugagna frá launagreiðanda annars vegar og Ríkisskattstjóra hinsvegar, hefur komið í ljós að um er að ræða misræmi milli launagreiðslna og staðgreiðsluskila. Villuna tel ég að megi rekja til þess að persónuuppbót sem var greidd með launum fyrir vinnu í nóvember, áður en ég hóf að þiggja atvinnuleysisbætur, var ekki talin með í heildarlaunum þann mánuð heldur virðist hafa verið talin með desembermánuði í staðgreiðsluskilum.

Raunverulegar launagreiðslur til mín í desember 2009 voru undir frítekjumarki atvinnuleysisbóta eins og fram kemur á meðfylgjandi launaseðli frá [launagreiðanda]. Ég vek athygli á því að mismunur á þeim og hinum meintu óuppgefnu tekjum er nákvæmlega sama fjárhæð og persónuuppbótin sem kemur fram á meðfylgjandi launseðli fyrir nóvember, og á staðgreiðsluyfirliti sem einnig fylgir má sjá að í nóvember er þessi sama fjárhæð vantalin miðað við útborguð laun.

Hér virðist því einfaldlega vera um að ræða bókhaldslega tilfærslu milli launatímabila, sem er ekki í fullum tengslum við raunveruleikann. Ég er handviss um að hafa sent greiðslustofu tilkynningu um réttar tekjur þann 11. desember sl. eða vel innan eðlilegra tímamarka. Til öryggis þá fylgir samt afrit af þeirri tilkynningu einnig með í viðhengi.

Í bréfinu frá ykkur, sem er dagsett 9. mars en barst mér þó ekki fyrr en í gær 15. mars, er hótað stöðvun á bótagreiðslum ef ég skili ekki umbeðnum gögnum og geri grein fyrir málinu innan 7 daga frá dagsetningu bréfsins, sem er í dag. (Þetta er skrifað um miðnætti 16. mars og sent hálftíma síðar ásamt fylgigögnum.)

Bótasvik þarf að uppræta með öllum tiltækum ráðum og hef ég fullan skilning á því, en hér er hinsvegar ekkert slíkt á ferðinni og upphæðirnar sem um ræðir eru ekki einu sinni háar. Svona framkoma kemur mér því vægast sagt spánskt fyrir sjónir, ekki síst fyrir þær sakir að allir hlutaðeigandi aðilar eru ríkisstofnanir, nema undirritaður!

Því spyr ég, er eðlilegt að ríkið gefi mér rúmlega sólarhringsfrest áður en ég verð "tekinn úr sambandi" við það sem heldur í mér lífinu, vegna villu upp á nokkur þúsund krónur sem er ekki einu sinni mér að kenna? Á meðan er sukkað botnlaust með hagsmuni almennings upp á hundruðir milljarða í fjármálakerfinu. Þess væri óskandi að svona skörungslega væri gengið fram gegn þeim sem þar véla um ráðin!

Vonandi verða þessar útskýringar ásamt meðfylgjandi gögnum til þess að varpa ljósi á sannleikann í málinu og forða mér frá yfirvofandi afhroði af völdum hins opinbera.

Virðingarfyllst...

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar

Ég get ekki staðist þessa freistingu sorrý:  En þú værir sennilega með vinnu ef Icesave málið hefði verið klárað í haust!

Óskar, 17.3.2010 kl. 01:53

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Haha, góður þessi. Ég er reyndar með vinnu og svo einkennilega sem það kanna að hljóma þá fæ ég svipað útborgað og þegar ég var í fullri vinnu, þökk sé skattkerfisbreytingum og fleiri afrekum vinstristjórnar hinna ríku og efnameiri.

Það er í rauninni enginn hvati fyrir mig að auka hvorki vinnu eða tekjur á þessu stigi, a.m.k ekki nema ég fengi yfir hálfa á mánuði. Auk þess myndi það ekkert hjálpa mér að hafa hærri tekjur, ef mismunurinn færi allur í að borga IceSave !

Sorry, en ég stóðst bara ekki freistinguna að skjóta til baka.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.3.2010 kl. 03:47

3 identicon

Flott Guðmundur. Svona á fólk að svara fyrir sig. Á Íslandi býr vel upplýst og menntað fólk sem á að veita kerfinu aðhald öllum stundum. Þannig gerum við gott kerfi betra. Menn læra jú ekki af mistökunum ef þeir vita ekki af þeim.

Birgir (IP-tala skráð) 17.3.2010 kl. 12:47

4 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Guðmundur. Skýringin sem þú sjálfsagt færð á þessum ruglingi í kerfinu verður sú að persónuuppbótin sé fyrirframgreidd og eigi þess vegna að teljast með desembergreiðslu þó hún sé greidd út með eftirágreiddum nóvembergreiðslum. Svo verður þó sennilega látinn bera tjónið af því að hafa ekki kunnað á þetta ruglingslega kerfi.

Það er nefnilega munurinn á þér og útrásarliðinu, að það kunni á kerfið og er búið að láta það vinna fyrir sig um árabil. Þess vegna er ekkert atast í því fólki. Það er líka ástæðan fyrir því að vinirnir Steingrímur J. og Óskar Haraldsson sem var að grínast í þér út af þessari færslu er alveg uppveðraðir og uppteknir við Icesave. Þeir hafa alveg lent í því hjólfari að þjóna útrásinni og lánardrottnum því þessir aðilar kunna alveg á svona menn og kunna að láta þá vinna fyrir sig.

En þú færð örugglega á baukinn fyrir að skilja þetta greiðslukerfi ekki. Sjálfsagt verðurðu settur út úr kerfinu með skófar nr. 44 á rassinum og mátt þakka fyrir ef þú sleppur með kærur út af þessari desemberuppbót sem er svona villandi hönnuð í greiðslukerfinu.

Jón Pétur Líndal, 17.3.2010 kl. 15:05

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ekki eru þetta nú hughreystandi ummæli Jón Pétur, en ég skil samt alveg þessa gagnrýni hjá þér og hún á sjálfsagt rétt á sér að miklu leyti.

Varðandi desemberuppbótina, þá er hún greidd út í samræmi við þau réttindi sem maður hefur aflað sér yfir allt árið. Það er því með engu móti hægt að líta svo á að þessara tekna hafi verið aflað í desember eingöngu, heldur að mestu leyti á tímabilinu áður en ég hóf að þiggja bætur. En hvernig verður úrskurðað um þetta á svo eftir að koma á daginn, ég leyfi mér að vona það besta.

Þó svo að samskipti við vinnumálastofnun hafi verið upp og ofan gegnum tíðina, þá hafa þau verið til fyrirmyndar í allan vetur þangað til að þetta kom upp. Eins og ég tók fram í upphafi pistils þá vona ég að þetta verði úr sögunni nú þegar ég er búinn að koma fullnægjandi skýringum á framfæri, enda ekkert tilefni til annars. Ef þeir ætla hinsvegar að bannfæra mig út af skitnum 25þúsundkalli sem er meira að segja bara bókhaldsatriði, þá mun það pottþétt hafa afleiðingar í för með sér fyrir fleiri en bara mig sjálfan! 

Guðmundur Ásgeirsson, 17.3.2010 kl. 17:56

6 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll aftur Guðmundur. Ég er alls ekki að gagnrýna þig. Taktu það ekki þannig. En hið opinbera stjórnsýslukerfi er bara hannað til að traðka á peðum eins og okkur og okkar líkum. Rétt og rangt skiptir engu í þessu kerfi og að ná í gegn einföldum leiðréttingum á augljósum hlutum getur orðið að margra mánaða þvargi áður en það hefst. En svo eru aðrir sem eru einfaldlega hafnir yfir þetta kerfi eða geta keypt sér ómælda lögfræðaðstoð til að komast fram hjá því. Það er nefnilega ein lygin í okkar þjóðfélagi að allir séu jafnir fyrir lögunum. Hið rétta í því er að menn eru eins ójafnir gagnvart lögum og fjárhagurinn leyfir. Baugsmálin eru besta dæmið um það.

En ég vona að þetta fari vel hjá þér.

Jón Pétur Líndal, 17.3.2010 kl. 20:35

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk, og nei nei, ég er ekkert móðgaður.

Ég vona líka að þetta fari vel, og viðbrögðin verði á jákvæðum nótum. Ef þetta er bara spurning um einhverja leiðréttingu þá anda ég léttar, ég yrði verulega hissa ef þetta hefði mikil eftirköst vegna þess hve upphæðin er lág.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.3.2010 kl. 23:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband