Mun fleiri mættu en síðast, minnst þúsund manns

Yðar einlægur er nýkominn af kröfufundi Hagsmunasamtaka Heimilana og Nýs Íslands á Austurvelli. Samkvæmt mati fréttamanns mbl.is voru um 300-400 manns mættir, en mig grunar að fréttaskeytið hafi verið sent við upphaf fundar þegar fólk var enn að tínast á svæðið því raunverulegur fjöldi á meðan fundur stóð yfir var miklu meiri. Í frétt á visir.is er haft eftir Marinó G. Njálssyni, ritara Hagsmunasamtaka Heimilanna: „Þegar best lét voru örugglega um 1500 til 1800 manns hérna". Mín ágiskun er sú að sannleikurinn sé einhversstaðar þarna á milli, eða a.m.k. eitt þúsund manns, sem hlýtur að teljast góð mæting þegar margir eru á kafi í jólaundirbúningi.
Fundurinn heppnaðist vel, kraftmiklar ræður voru haldnar við góðar undirtektir viðstaddra, og umgengni var til fyrirmyndar. Á sama tíma stóð yfir fundur á Alþingi og óskaði Þór Saari þingmaður eftir fundarhléi svo að þingmenn gætu verið viðstaddir á Austurvelli, en ekki var orðið við þeirri beiðni. Þrátt fyrir það mætti Þór og hlýddi á fundinn ásamt félögum sínum úr Hreyfingunni þeim Birgittu Jónsdóttur og Margréti Tryggvadóttur, en þingmenn annara flokka voru hvergi sjáanlegir.
Til stendur að halda fleiri fundi þangað til hlustað verði á kröfur almennings um raunverulegar aðgerðir í þágu heimilanna í landinu, og verður sá næsti að viku liðinni. Allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til að mæta og taka fjölskylduna með, sem er fullkomlega óhætt því mótmælin eru friðsamleg. Fundargestir eru auk þess hvattir til að taka með sér rauð spjöld og sameinast um að halda þeim á loft, en þannig munum við dæma spillingarliðið úr leik með táknrænum hætti.

mbl.is Kröfufundur á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Ef þeir, sem standa fyrir fundinum telja að fjölmiðlar séu að gera minna úr fundarsókninni en efni standa til væri þá ekki einfaldast fyrir þá, sem standa fyrir fundinum að fá sér gestabók og biðja fundargesti að skrifa nafn sitt í hana. Það gæti vissulega verið flókið í rigningu en það er örugglega hægt að leysa það mál.

Vissulega eru alltaf einhverjir fundargestir, sem ekki munu vilja skrá nafn sitt í slíka bók en það ætti að vera sambærilegt hlutfall milli funda þannig að í það minnsta myndi slkíkt gefa einhverja hugmynd um fundarsókn og einnig hvort hún er að aukast eða minnka milli funda. Á móti þessu kemur að fjöli fólks, sem aðeins er á staðnum hluta fundartímans mun skrá sig og ætti slík gestabók því að fara nokkuð nærri eða jafnvel yfir þann fjölda, sem er á staðnum þegar mest er.

Væntanlega væri betra að ganga með gestabókina á milli fundargesta í stað þess að láta hana standa á einum stað. Ef hins vegar á að láta hana vera á einum stað væri til dæmis hægt að semja við sjoppu eða kaffihús í nágrenninu um að hún fengi að vera á borði við útidyrnar. Slíkt myndu hugsanlega geta leitt til einhverrar sölu fyrir viðkomandi og þá væri vanamálið varðandi rigningardaga leyst.

Sigurður M Grétarsson, 6.12.2009 kl. 10:53

2 identicon

Ég legg til ljósmyndun af þaki nærliggjandi húsa á nokkurra mínútna fresti á meðan fundinum stendur Sigurður M.  Út frá myndunum má meta mannfjölda fljótt og örugglega. Þannig er þetta gert hjá háþróuðum þjóðum, en gestabók er auðvitað ágætis hugmynd.

Seiken (IP-tala skráð) 6.12.2009 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband