Þriðjungur endurheimta á kostnað skattgreiðenda?

Samkvæmt tengdri frétt nema forgangskröfur í þrotabú Landsbankans 1273,5 milljörðum króna, en langstærstur hluti þeirra er vegna IceSave. Samkvæmt nýjasta mati skilanefndar Landsbankans nema eignir gamla bankans um 1195 milljörðum króna og miðað við þær forsendur verða endurheimtur vegna forgangskrafna um það bil 94%. Því standa um 80 milljarðar út af samkvæmt fréttinni, án þess þó að tekið sé tillit til vaxtakostnaðar.

Af þessu mætti halda að allt stefni í "glæsilega niðurstöðu" varðandi IceSave, að það vanti "ekki nema" 80 milljarða upp á sem muni falla á íslenska skattgreiðendur. Lesendur ættu þó ekki að láta blekkjast af svona flugeldahagfræði, því eins og ég hef áður skrifað um þá mun samt sem áður íslenska ríkið þurfa að borga á bilinu 348 til 410 milljarða inn um bakdyrnar hjá skilanefndinni, fyrir yfirtökuna á innlendri starfsemi bankans undir nafni NBI hf (nýji bankinn) og sú upphæð er ca. þriðjungur af áætluðum endurheimtum úr þrotabúinu. Á móti kemur reyndar 85-100% eignarhlutur ríkisins í nýja bankanum en þá verður maður að spyrja sig að því hvort það sé eðlilegt kaupverð fyrir hræið af þessu gjaldþrota fyrirtæki. Þegar Landsbankinn var einkavæddur árið 2002 var hann metinn á tæpa 25 milljarða og eingöngu með innlenda starfsemi.

Samanlagður kostnaður íslenska ríkisins vegna eftirmála af rekstri Landsbankans mun því samkvæmt þessu verða að lágmarki 348+80 = 428 milljarðar en að hámarki allt að 410+80 = 490 milljarðar króna, að frádregnu verðmæti NBI hf sem ríkið eignast að mestu leyti. Hér má leika sér með tölur en ef við gerum ráð fyrir að raunvirði innlendu starfseminnar hafi fjórfaldast frá einkavæðingu, sem er ríflegt að mínu mati fyrir rekstur sem er nýbúinn að fara á hausinn, þá gerir það samt ekki nema 100 milljarða. Drögum það frá heildarkostnaðinum og eftir standa 328-390 milljarðar sem íslenska ríkið þarf að leggja út án þess að fá neitt í staðinn nema kaupa sér frið fyrir Bretum og Hollendingum.

Þess ber svo að geta að hvergi í þessum útreikningum er tekið tillit til vaxta, en yfirtakan á innlendu starfseminni er skuldsett gagnvart skilanefndinni með 260 milljarða króna gengistryggðu og vaxtaberandi skuldabréfi til 10 ára, en til að átta sig á samhenginu þá eru 5% ársvextir af þeirri upphæð um 13 milljarðar. Einnig þarf að greiða vexti af IceSave láninu á þeim tíma sem tekur að greiða upp höfuðstólinn, sem gætu orðið mörg ár eftir því hversu hratt gengur að selja aðrar eignir úr þrotabúinu. Hvernig svo sem þetta er reiknað þá er augljóst af ofangreindu að þegar upp er staðið verða íslenskir skattgreiðendur látnir greiða mörg hundruð milljarða vegna eftirmála af IceSave svikamyllu Landsbankans.


mbl.is 6500 milljarða kröfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Viðbót: Samkvæmt hádegisfréttum Bylgjunnar í dag bætist nú við þetta 80 milljarða töpuð krafa ríkisins á hendur þrotabúi Landsbankans vegna veð- og daglána (svokölluð "ástarbréf") sem reyndust verðlaus eftir fall bankanna og settu Seðlabanka Íslands á hausinn. Áætlaður kostnaður skattgreiðenda vegna Landsbankans er því núna kominn upp í eftirfarandi summu:

Kostnaður vegna yfirtöku NBI hf: 348 til 410 milljarðar + vextir af 260ma

Kostnaður vegna IceSave ríkisábyrgðar: 80 milljarðar + vextir af höfuðstól

Tap vegna endurhverfra viðskipta: 80 milljarðar

Samtals: 508 til  570 milljarðar + vextir vegna NBI og IceSave.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.11.2009 kl. 12:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband