Gunnar afhjúpar vanþekkingu sína (eða óheilindi)

Ég hef ákveðnar skoðanir á Gunnar I. Birgissyni og þeim málum sem tengjast meintum óeðlilegum viðskiptum hans fyrir hönd Kópavogsbæjar og Lánasjóðs Íslenskra Námsmanna við "dótturfélag" sitt (þ.e. félag dóttur hans). Ég hef ákveðið að eyða ekki tíma og plássi hér á blogginu í að tjá mig um þau í löngu máli, þeir sem á annað borð þekkja til mín vita vel hvaða viðhorf ég hef gagnvart slíkri spillingu sem falist getur í viðskiptum milli tengdra aðila, og fjármögnuð eru af almannafé.

En nú er komið upp mál sem hefur verið kært til lögreglu og snýst um meintar óeðlilegar tilfærslur fjármuna til bæjarsjóðs Kópavogs úr Lífeyrissjóði Starfsmanna bæjarins. Ef satt reynist þá bætir þetta auðvitað bara gráu ofan á svart fyrir Gunnar, og festir enn frekar í sessi áðurnefnd viðhorf mín til mála honum tengdum. Ég ætla því ekki að eyða miklu púðri í það heldur, en get þó ekki orða bundist yfir þeim afsökunum sem hann hefur sett fram opinberlega fyrir þessum gjörningum sínum sem stjórnarformanns LSK. Þetta er í raun afar einfalt eins og það blasir við mér, hann mokaði peningum úr bæjarsjóði til "dótturfélagsins" og mokaði svo peningum úr lífeyrissjóðnum til bæjarsjóðs. Þannig mokaði hann óbeint peningum úr lífeyrissjóðnum til fyrirtækis dóttur sinnar, og gerði Kópavogsbæ að millilið. Ég er svosem ekkert að gefa í skyn að þetta hafi verið markmiðið hjá honum í upphafi enda er formlega um tvö ótengd tengd mál sé að ræða. Það breytir ekki því að í reynd er þetta niðurstaðan burtséð frá formsatriðum, en auðvitað eru viðskipti dóttur hans bara brot af þeim upphæðum sem þarna eru í spilinu.

Gunnar hefur varið þennan gjörning með lífeyrissjóðinn þannig að þetta hafi verið nauðvörn, og að stjórn sjóðsins hafi álitið þetta skynsamlega leið til að verja hagsmuni sjóðfélaga vegna óvissu á fjármálamörkuðum. Slík rök halda auðvitað engu vatni, þar sem vel hefði mátt koma fjármunum sjóðsins í ávöxtun og öruggt skjól á verðtryggðum bankareikningi, en eins og flestum ætti að vera kunnugt setti Alþingi fulla ríkisábyrgð á slíka reikninga síðasta haust með neyðarlögum. Yfirbragð málsins ber miklu frekar keim af því að Gunnar hafi viljað koma þessum fjármunum í bæjarsjóð þar sem hægt væri að ráðstafa þeim að vild í þágu Kópavogsbæjar, það hafi þótt mjög hentugt frá pólitísku sjónarmiði að bæjarsjóður hafi haft yfir nægu lausafé að ráða á þessum erfiðu tímum. Annars hefðu Gunnar og félagar í bæjarstjórn mögulega þurft að grípa til niðurskurðar sem væri ekki til þess fallinn að afla þeim pólitískra vinsælda. Samt sem áður var lánveitingin á "hæstu vöxtum" skv. Gunnar sjálfum, en þá vexti hefði á endanum alltaf þurft að fjármagna með útsvari bæjarbúa eða öðrum tekjum bæjarsjóðs.

Ein setning í þessu viðtali við Gunnar vakti sérstaklega athygli mína, því annaðhvort er maðurinn að ljúga eða þá að hann kemur upp um vanþekkingu sína. Hvort sem er raunin, þá er í besta falli vafasamt að þessum manni sé treystandi til að sýsla með fjármuni annara.

"Við náðum upphæð út úr bönkunum fyrir hrun og það var erfitt að setja peningana í öruggt skjól. Það voru að líkindum tugir milljarða undir koddunum hjá fólki á þessum tíma."

Samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands voru seðlar og mynt í umferð á Íslandi hinsvegar aðeins um 14 milljarðar króna fyrir rúmu ári síðan en höfðu í ársbyrjun 2009 aukist í um 24 milljarða. Ef við gefum okkur að þetta mat Gunnars væri marktækt, að "tugir milljarða" hafi verið undir koddum landsmanna á umræddu tímabili, þá væri vafamál hvort nokkrir peningar væru yfirhöfuð í umferð, hvorki í hraðbönkum, bankahvelfingum, eða sem skiptimynt í afgreiðslukössum verslana o.s.frv. Það þarf varla meira en heilbrigða skynsemi til að sjá að þetta getur engan veginn passað. Þessar afsakanir Gunnars eru því lítið annað en máttlaust yfirklór, og bera vott um annaðhvort óheilindi eða þá stórfellda vanþekkingu Gunnars í fjármálum. Ekki síst þar sem flestar peningafærslur nú til dags eru rafrænar og það eru sjálfsagt margir áratugir síðan Kópavogsbær hætti að greiða nokkurn skapaðan hlut í beinhörðum peningum, líkt og hjá flestum opinberum aðilum er það nú til dags oftast gert í formi millifærslu eða í undantekningartilfellum með ávísun sem er svo innleyst í banka og peningar færðir milli reikninga með rafrænum hætti. Kerfið sem Gunnar er að lýsa er því miður ekki lengur við lýði og löngu kominn tími til að menn eins og hann hætti að þyrla upp ryki með svona innihaldslausum fullyrðingum.


mbl.is Sjóðsbjörgun kærunnar virði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Landfari

Hversu örugg er inneign með Ríkisábyrgð núna. Ert þú viss um að Ríkið hafi einhverja burði til að ábyrgjast meira en þeir hafa nú þegar á sinni könnu.

Þú vitnar sjálfur í tölur frá Seðlabankanum um hvað Gunnar er að tala um þegar hann segir tugi miljarða undir kotddanum hjá fóliki. 24 miljarðar eru tugir miljarða. ég var nú reyndar búinn að heyra allt uppundir 30 miljarða. Svo mikið er víst að fimmþúsundkallarnir voru búnir í Seðlabankanum svo gamlir aflagðir seðlar vpru aftur teknir í notkun.

Þar sem Kópavogsbær er ábyrgðaraðili að sjóðnum er það bænum mikið hagsmunamál að sjóðurinn standi vel. á sama hátt er sjóðsfélögum mikið hagsmunamál að bærinn geti, ef til kemur staðið undir þeirri ábyrgð. 

Bærinn stendur væntalega beturað vígi til þess ef hann er að greiða sjóðnum 18% vexti af láni heldur en að vera greiða enn hærri vexti annars staðar. 

Lífeyrisjóður starfsmanna ríkisins fjárfesti út um allt og tapaði miklu en það gerir lífeyrisþegum ekkert til því ríkið borgar mismuninn. Það hefði verið skynsamlegar hjá þeim að fjárfesta meira í ríkisbréfum. Það hefði komið bæði ríkinu og sjóðnum til góða. Aðallega þó ríkinu því eins og áður sagði lendir tapið að fullu á því, það er að segja skattgreiðendum sem eru meðal annara lífeyrisþegar annara sjóða sem hafa líkað tapað miklu og geta því aðeins greitt skertan lífeyri í framtíðinni.

Mér finnst pólitískur fnykur af þessu máli. Hélt að Fjármálaeftilitið hefði öðrum brýnni málum að sinna.

Kanski er þarna komin skýringin á þessu hruni öllu. Eftirlitið var í aurabissniss meðan milljónirnar voru eftilitslausar.

Landfari, 21.6.2009 kl. 14:14

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Engin ábyrgð er tryggari en ríkisábyrgð, en svo getum við deilt um hversu trygg hún er yfir höfuð. Í því sambandi vil ég benda á að bakvið ríkisábyrgð standa skattgreiðendur allir, en á bakvið ábyrgð Kópavogsbæjar standa eingöngu útsvarsgreiðendur í Kópavogi. Íbúafjöldi í Kópavogi er um 30.000 á móti 320.000 Íslendingum, eða innan við 10% til að gefa samhengi.

"Bærinn stendur væntalega betur að vígi til þess ef hann er að greiða sjóðnum 18% vexti af láni heldur en að vera greiða enn hærri vexti annars staðar. "

Þetta er einfaldlega rangt, þar sem skuldabréfalán bera almennt mun lægri vexti, en 18% þekkjast hinsvegar varla nema á yfirdráttarlánum til einstaklinga. Fyrir lífeyrissjóðinn er það vissulega góð fjárfesting, en fyrir Kópavogsbæ eru þetta hinsvegar afleit lánakjör.

Varðandi "milljarðatugina undir koddum landsmanna". Þá er ég að benda á að Gunnar nefnir milljarðatugi í fleirtölu, sem þýðir lágmark 20 milljarðar. Miðað við síðustu áramót væru það rúm 83% af öllum seðlum og mynt í umferð (M0), þessu er hægt að fletta upp í skýrslum á vef Seðlabankans.

Þessar stærðir sem ég nefni eru settar fram til að setja fullyrðingar Gunnars í samhengi, til þess að sýna fram á hversu fjarstæðukenndar þær eru. Til að bæta meiru við samhengið þá er lausafjármagn í umferð (M1 = M0 + innstæður á óbundnum bankareikningum o.þ.h.) á Íslandi alls um 740 milljarðar í árslok 2008, þannig að yfir 96% af því eru rafrænar innstæður og bókhaldsfærslur sem er mjög erfitt að troða undir koddann, jafnvel með einbeittum vilja. Beinharðir peningar í umferð voru eftir sem áður ekki nema um 24 milljarðar á sama tímabili eða rúm 3% af því sem kallað er lausafé.

Ef þú vilt hafa aðra skoðun þá er þér það að sjálfsögðu frjálst. Persónulega myndi ég allavega ekki vilja að þessi maður væri að "gambla" báðu megin borðsins með mína hagsmuni, og prísa mig því sælan að búa ekki í Kópavogi. Því miður þá grunar mig samt að lítið skárra sé uppi á teningnum hér í Reykjavík...

Hafðu þökk fyrir athugasemdirnar og lifðu heill.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.6.2009 kl. 15:22

3 identicon

þú eyðir samt miklu plássi og tíma og löngu máli í þessar athugasemdir um GIB! GIB sem góður og heill maður!

kristin jons (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 17:27

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þetta er, og verður líklega eina færslan sem ég skrifa um þetta mál, sem hefur annars fengið mjög mikið pláss í fjölmiðlum marga daga í röð, og verið mikið fjallað um m.a. á bloggsíðum. Ef færslan er lesin lengra en að fyrstu málsgrein, ásamt athugasemdum, þá hlýtur að sjást að umfjöllun mín snýst aðallega um efnahagslegar staðreyndir og vangaveltur. Hvergi er vegið sérstaklega að persónu Gunnars eða einkalífi hans, heldur færi ég rök fyrir gagnrýni minni. Ég er því miður ekki sammála þér, kristin jons, heldur er stjórnmálamaðurinn GIB að mínu mati einn af holdgervingum þess sem var, og vonandi verður aldrei aftur. En nóg um það að sinni, ég sagðist ekki ætla að eyða miklu púðri í þetta mál... enda þarf mér ekkert að finnast gott að búa í Kópavogi þar sem ég bý í Reykjavík. ;)

Guðmundur Ásgeirsson, 22.6.2009 kl. 03:12

5 identicon

Vanþekking hvers?

 "Við náðum upphæð út úr bönkunum fyrir hrun og það var erfitt að setja peningana í öruggt skjól."

hefur þú eftir Gunnari og segir svo:

"Slík rök halda auðvitað engu vatni, þar sem vel hefði mátt koma fjármunum sjóðsins í ávöxtun og öruggt skjól á verðtryggðum bankareikningi, en eins og flestum ætti að vera kunnugt setti Alþingi fulla ríkisábyrgð á slíka reikninga síðasta haust með neyðarlögum."

Peningum er skv. þessu bjargað fyrir bankahrun eða áður en neyðarlögin eru sett. Þá var ekkert til sem sem hét "öruggt skjól á verðtryggðum bankareikningi" Það varð eins og allir vita til við neyðarlögin sem settu "skyndilega" bankainnistæður (umfram 2 millj. kr.) í forgang.

Haukur (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 23:19

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Neyðarlögin voru sett 6. október og síðan þá hafa bankainnstæður verið ríkistryggðar. Hvað eru þá peningarnir að gera ennþá í bæjarsjóði nú í júni, 9 mánuðum seinna?

Guðmundur Ásgeirsson, 23.6.2009 kl. 13:35

7 Smámynd: Landfari

Þegar talað er um að fólk geymi peningana undir koddanum er það myndlíking. Held að fæstir geymi þá raunverulega undir koddanum. Sumir geyma þá reyndar undir rúmdínunni og fre´ttir voru um daginn úm gamal konu sem geymdi einhvern helling, 100.000 dollara að mig minnir í dínunni sem góðhjártaður ættingi henti fyrir hana með öllu sem í henni var, þegar viðkomandi gaf henni nýja.

Flestir geyma peningana sína í bankahólfi ef um einhverjar upphæðir er að ræðaen það kalla flestir samt að geyma þetta undir koddanum.

Við hrunið var talað um í fréttum að seðlamagn í umferð hefði aukist um hálfan annan tug milljarða og gera má ráð fyrir að sú viðbót hafi ekki verið sett í hraðbankana heldur hafi almenningur frekar verið þar á ferð og stungið þessu undir "koddann" því hann treysti ekki bönkunum. Ég treysti mér ekki til að segja til um hvort er réttari íslenska að segja einn og hálfan tug miljarða vera tug miljarða eða tugi miljarða. Þú veirðist samt vera með það á hreinu. Athugaðu að þessi eini og hálfi miljarður sem talað var um í fréttum var aukning. Eitthvað átti nú almenningur fyrir undir "koddanum".

Það eru eingöngu verðtryggð skuldabréf sem báru almennt mun lægri vexti en 18% á sama tíma og stýrivextir Seðlabankanns voru á 15 -18% róli.  Það lánar enginn banki á lægri vöxtum en stýrivöxtum Seðlabankanns. Það sagði allavega minn bankastjóri þegar mig vantaði aura.

Landfari, 23.6.2009 kl. 16:43

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Landfari. Hvort sem það er undir kodda, inni í skáp, í bankahólfi, hraðbönkum sem skiptimynt í verslunum, eða hvar sem það er niðurkomið, þá var reiðufé (beinharðir peningar eða M0) í umferð á Íslandi 14.151,6 milljónir króna eða rúmir 14 milljarðar þann 31. ágúst 2006 og hafði aukist í 24.436,4 milljónir króna eða rúma 24 milljarða þann 31.12.2008. Þetta er samkvæmt opinberum gögnum frá Seðlabanka Íslands sem finna má hér.

Fullyrðingar um "milljarðatugi undir koddum" geta (vegna notkunar fleirtölu) að lágmarki átt við um 20 milljarða í slíkum hirslum hvort sem það er í myndlíkingamáli eða ekki, sem væri þannig u.þ.b. 82% af öllu reiðufé í umferð sé miðað við síðustu áramót. Ef slík fullyrðing væri rétt þá væri tómt mál að tala um að fara í hraðbanka og ansi tómlegt hefði verið um að litast í peningaskúffum afgreiðslukassa í verslunum á umræddu tímabili, sem heilbrigð skynsemi segir manni að fær varla staðist. Fjárfestingar af því tagi sem um ræðir í fréttinni fara auk þess jafnan fram með rafrænum færslum í bókhaldi bankakerfisins og því skiptir akkúrat engu máli í því sambandi hvar reiðufé landsmanna er niðurkomið.

Það sem ég er að sýna fram á er að umræddar fullyrðingar séu ekki trúverðugar og bera því vott um annaðhvort vanþekkingu eða tilraunir til að drepa umræðunni á dreif, og mig grunar að það síðarnefnda sé einmitt tilfellið.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.6.2009 kl. 17:56

9 Smámynd: Landfari

Þú ert alltaf að blanda rafrænum færslum saman við þegar talað var um hvað seðlamagn í umferð hefði aukist við hrunið.

Það var talað um að seðlamagn hefði um það bil töfaldast, þ.e.a.s. farið úr um það bil 15 miljörðum í nálægt 30. Það er aukning um einn og hálfan tug miljarða. Eitthvað höfðu menn af handbæru fé fyrir þannig að það er ekki fjarri lagi að ætla að einn og hálfur til tveir tugir miljarða væru í seðlum hjá fólki. 

Þú ert með tölur frá áramótunum en þá var ítrekað búið að vara fólk við að vera með seðla heima hjá sér og fólk farið að treysta nýju ríkisbönkunum betur en fyrst eftir hrunið. Þar af leiðir að seðlarnir voru farnir að tínast inn í seðlabankann aftur enda fór maður að sjá minna af gömlu fimmþúsundköllunum í umferð en fyrst eftir hrunið.

Þetta er tilefni Gunnars til að vísa í tugi miljarðana hjá almenningi og kemur millifærslum Lífeyrisjósins og Kópavogsbæjar ekkert við. Það hefur enginn sagt eða gefið í skin að þær greiðslur hafi verið gerðar með seðlum. Mér er fyrirmunað að skilja hvað þú ert alltaf að tala um rafrænar færslur þegar verið er að tala um seðlamagn í umferð. 

Landfari, 25.6.2009 kl. 20:39

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég er ekkert að blanda rafrænum færslum og reiðufé saman, þekki ósköp vel muninn á þessu tvennu.

Það er staðreynd sem þú getur lesið þér til um á vef Seðlabankans ef þú kærir þig um, að reiðufé (seðlar og mynt) í umferð á Íslandi er ekki nema örfáir tugir milljarða. Ef þessir "tugir milljarða" væru að mestu leyti fastir "undir kodda" eða í öðrum leynum þá væri lítið sem ekkert ekkert eftir í hraðbönkum og sem skiptimynt í verslunum, en svo er hinsvegar ekki sem betur fer.

Ástæðan fyrir því að ég nefni rafrænar færslur er að lánveitingar á borð við þá sem fór frá LSK í bæjarsjóð Kópavogs fara fram með nákvæmlega þeim hætti, og því skiptir reiðufé akkúrat engu máli í slíkum viðskiptum. Þess vegna held ég því fram að áðurnefndar fullyrðingar séu aðeins til að þyrla upp ryki.

Þú mátt svo vera ósammála ef þú vilt, Landfari, en mér sýnist það vera þú sem ert ekki með hugtökin alveg á hreinu. Ef þú heldur að það séu alvöru peningar "á debetkortinu" þínu þá skaltu prófa að setja það undir koddann, en ég get fullvissað þig um að þeir peningar verða samt sem áður áfram í bankanum eins og þeir hafa verið allan tímann. Plastið er ekkert annað en skilríki sem þú notar til að heimila þeim sem þú átt viðskipti við að millifæra fjárhæð viðskiptanna af reikningi þínum yfir á sinn, en peningarnir yfirgefa samt aldrei bankann. Þegar ég tók lán fyrir íbúðinni minni var ekki heldur sendur neinn trukkur með milljónir í seðlabúntum heim til seljandans...

Guðmundur Ásgeirsson, 26.6.2009 kl. 11:46

11 Smámynd: Landfari

Það er með ólíkindum að þú skiljir ekki hvað Gunnar var að tala um.

Það var í fréttum að seðlamagn í umferð hefði aukist um hátt í 100% úr 15 miljörðum í hátt í 30. Þess vegna varð að taka gömlu 5000 kallana aftur í notkun. Þeta hefur ekkert með neina debetkortareikninga að gera, nema það að fólk treysti ekki bönkunum og í stað þess að eiga innistæður sínar á bankareikningum (t.d. debetkortareikningum) þá tók það peningana út í seðlum. 

Ástæðan var vantraust á bankakerfið. Það er það sem Gunnar var að vísa í. Þess vegna töldu þeir í stjórn Lífeyrissjóðsins peninga sjóðsins ekki síður trygga hjá Kópavogsbæ en hjá fallvöltum bönkum. Það hefur engum nema þér dottið í hug að þeir hafi farið að keyra bílfarma af seðlum á bæjarskrifstofurnar.

Þér hlýtur að vera meira en lítið uppsigað við Gunnar ef þú getur ekki skilið hvað hann var að segja heldur þarft að reyna að snúa útur því. Í þessu tilfelli gerirðu að sjálfan þig að hálferðum kjána með þessum skrifum.

Þau eru svo vitlaus og ruglingsleg að engu tali tekur því þú reynir að blanda inn í þau einhverju sem kemur málinu ekkert við.

Landfari, 1.7.2009 kl. 18:29

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Nei Landfari, ég er að benda á að Gunnar var að þyrla upp ryki með því að blanda inn í málið einhverju sem kemur því ekkert við. Landfari, það virðist vera að þú sért ekkert að skilja hvað það er sem ég á við. Ég bendi einmitt á það í athugasemdum sem þú virðist ekki einu sinni hafa lesið, að það voru engir trukkar á ferðinni með bílfarma af peningum, hvorki inn á bæjarskrifstofur Kóðavogs né annað þar sem langflestar peningafræslur eru rafrænar, sérstaklega þær sem eru svona stórar. Það má vel vera að þér finnist ég kjánalegur, en ég held mig þó við málefnið og er ekki að níða persónu Gunnars sérstaklega, heldur vara bara að gagnrýna tiltekin ummæli hans. Hvort það eru skrif mín eða þín sem eru "vitlaus og ruglingsleg" eða hvort það er ég eða þú sem "reynir að blanda inn í þau einhverju sem kemur málinu ekkert við" verða aðrir að dæma. Ef þú ert svona ósammála mér eða eitthvað við gagnrýni mína fer í taugarnar á þér, þá verður það bara svo að vera.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.7.2009 kl. 09:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband