Óefnisleg verðmæti?

Þetta er auðvitað bara gargandi snilld! En samt vesalings afgreiðslumanneskjan sem varð uppvís að því að taka ekki bara við seðlinum sem greiðslu, heldur að gefa til baka heilar 7.000 kr. í "beinhörðum" peningum! Það er reyndar í besta falli teygjanlegt hugtak nú til dags, þar sem það er nánast lögmæt spurning hvort sé marktækara, tíuþúsund dabbinn eða aðrir krónuseðlar sem eru í umferð?

Í Zimbabwe, svo dæmi sé tekið, er núna u.þ.b. 230.000% verðbólga (án gríns) vegna alvarlegrar efnahags- og stjórnarkreppu (kunnuglegar aðstæður hmmm?). Þar er nýbúið að klippa tíu núll (...0000000000 !!!) aftan af gjaldmiðlinum, og samt eru þeir strax aftur byrjaðir að prenta seðla upp á tugi milljóna. Úti í búð dugir einn slíkur seðill núna fyrir hálfu brauði eða svo, en í næstu viku kannski fyrir frímerki! Höfundur 10.000 kr. seðilsins hefur því e.t.v. bara verið að búa sig undir það sem koma skal...

Auk þess er auðvitað pappírssparandi og þar með umhverfisvænna að geta verið með einn seðil fyrir þessari upphæð í stað lágmark tveggja áður. Það gæti t.d. létt undir pappírs- og blekinnflutningi, nú þegar gjaldeyrir er af skornum skammti er mikilvægt að nýta allt hráefni sem best. Nú er líka áríðandi að við sameinumst um að "framleiða, framleiða, framleiða" eins og Geirharður sagði í þingræðu sinni og tók hvergi fram að þar væru peningaseðlar undanskildir.

Eða ætli þetta sé kannski hluti af viðbragðsáætlun stjórnvalda vegna seðlaskorts í hraðbönkum? Vegna mikilla úttekta úr bönkum undanfarið hefur nefninlega seðlamagn í umferð verið tvöfalt það sem er undir eðlilegum kringumstæðum, en fastlega má gera ráð fyrir að aukningin hafi verið mest undir koddum landsmanna. Ég tók til að mynda út hámarkið í gær og fékk allt í þúsundköllum, fimmararnir greinilega búnir og sennilega komnir í dýnu einhvers sem vonandi sefur vel á þeim!

Kannski er þetta líka bara vísir að því sem koma skal, einkaprentaðir peningar t.d. frá fyrirtækinu sem þú vinnur hjá. Svo færi það eftir "viðskiptavild" hvar hann fengist innleystur og á hvaða gengi, í Krónunni yrði t.d. ekki tekið við seðlum útgefnum af Baugi en þeir væru hinsvegar gjaldgengir fyrir áskrift að Stöð 2, o.s.frv. Stórir viðskiptajöfrar gætu þá jafnvel bara gefið út sinn eigin gjaldmiðil til að leika sér að gengisfella og misnota á allan hátt, enda virðast "hagkerfin" sem þeir smíða ekki vera í neinni snertingu við veruleikann hvort eð er. Með þessum hætti fengi bara hver viðskiptablokk að hafa sinn Seðlabanka til að arðræna sitt eigið starfsfólk með í friði...

Krónan er fallin. Lengi lifi krónan!


mbl.is Notaði seðil með mynd af Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband