Einföld lausn er til sem stjórnvöld hafa ekki notað

Sjá: Lögbann til verndar heildarhagsmunum neytenda

Engra lagabreytinga er þörf heldur aðeins að þar til bær stjórnvöld nýti þau lagalegu úrræði sem þeim standa nú þegar til boða. (Sjá viðtengda frétt og fyrri færslur hér þessu bloggi.)

Að stjórnvöld hafi ekki nýtt sér lögboðnar heimildir afsakar þau ekki frá því að hafa ekki stöðvað hina ólöglegu starfsemi, sem vel að merkja enginn hefur getað fært gild rök fyrir því að samræmist lögum, hvorki umrædd fyrirtæki né hlutaðeigandi stjórnvöld.

Það væri mjög einfalt að leggja lögbann á glæpastarfsemina ef vilji stæði til þess. Ekki þarf að breyta neinum lögum heldur væri nóg að framfylgja þeim lögum sem þegar eru í gildi.

Helstu vandamál íslensks samfélags stafa ekki af því að lögin séu ekki nóg góð heldur af því að ekki er eftir þeim farið og þeim er ekki heldur framfylgt þegar á þau reynir.

Enginn hefur ennþá kært mig fyrir meiðyrði í garð umræddra glæpastofnana á undanförnum árum og hlýtur því að verða að túlka það sem samþykki þeirra fyrir því að slíkar ásakanir eigi rétt á sér. Þetta eru því viðurkenndar glæpastofnanir!

(Það sama á við um hinar lánastofanirnar sem eru aðeins lunknari að dylja okrið.)


mbl.is Smálán vaxandi vandi meðal ungs fólks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Lögbann er skammtímaúrræði. Jafnvel þótt lögbann fengist lagt á þessa starfsemi er engin trygging fyrir að það myndi halda.

Það að menn séu ekki kærðir fyrir að skammast út í einhvern þýðir ekki sjálfkrafa að sá sem er skammast úr í sé krimmi :)

Þorsteinn Siglaugsson, 27.2.2018 kl. 23:30

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Lögbann af þessu tagi er ekki skammtímaúrræði heldur varanlegt og er að því leyti ólíkt venjulegu lögbanni. Úrræðið byggist á Evróputilskipun og eru dæmi um beitingu þess frá öðrum Evrópulöndum. Til dæmis var slíkt lögbann lagt á beitingu óréttmætra vaxtaskilmála í tilteknu lánum spænskra banka. Með því var þeim einfaldlega bannað að beita umræddum skilmálum og það bann stendur enda gerir það ekkert annað en að staðfesta það sem lög segja, að ólöglegur skilmáli er ólöglegur og því má ekki nota hann. Rétt er að athuga að það er hvort sem er bannað að nota ólöglega skilmála og lögbann bætir engu við það heldur þjónar þeim tilgangi að virkja þær valdheimildir sem stjórnvöld hafa til að framfylgja lögbanni, svo sem með því að innsigla starfsstöðvar eða grípa með öðrum hætti inn í rekstur brotlegra aðila til að stöðva brotin. Þar sem smálánafyrirtækin stunda enga aðra starfsemi en þá sem er ólögleg myndi þetta auðvitað þýða endalok þeirra, sem er einmitt það sem kallað hefur verið eftir í þjóðfélagsumræðunni.

Varðandi hitt atriðið þá var ég auðvitað ekki að halda því fram að þögn eða athafnaleysi jafngildi sönnun á broti, heldur fyrst og fremst að undirstrika að fyrirtæki sem stundar eingöngu ólöglega starfsemi og sýnir af sér einbeittan brotavilja er í rauninni ekkert annað en glæpasamtök með kennitölu. Lengi hafa verið heimildir í lögum til að stöðva starfsemi félaga sem hafa ólöglegan tilgang og ber þar hæst 1. mgr. 74. gr. stjórnarskráinnar:

Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.2.2018 kl. 23:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband