Frumvarpið löngu tilbúið

Katrín Jakobsdóttir (VG) spurði forsætisráðherra á Alþingi í dag um afnám verðtryggingar, meðal annars "hvernig nákvæmlega hann sjái það fyrir sér að það fari fram".

Þó svo að forsætisráðherra hafi ekki svarað því hreint út þá er svarið í raun sáraeinfalt: með lagafrumvarpi sem fellir neytendasamninga undan þeim heimildum sem annars er að finna í lögum til þess að verðtryggja og vísitölutengja. Reyndar var slíkt frumvarp einmitt lagt fram á Alþingi fyrir hartnær ári síðan: http://www.althingi.is/altext/141/s/1138.html

Frumvarpið hefur síðan verið uppfært svo það taki mið af nýjum lögum um neytendalán sem tóku gildi 1. nóvember síðastliðinn, og felli ákvæði um verðtryggingu brott úr þeim líka. Nýtt frumvarp með þessum breytingum var afhent sérfræðingahópnum sem átti að hafa það verkefni með höndum að útfæra þessa aðgerð.

Þetta gæti því varla verið einfaldara, þar sem útfærslan hefur legið fyrir frá upphafi. Í ljósi þess er jafnframt óskiljanlegt að hópi sérfræðinga sem var falið þetta verkefni á grundvelli þingsályktunar, skuli ekki hafa tekist að setja fram fullnaðarútfærslu afnámsins.

Ekki svo að skilja að starf hópsins sé til einskis, þvert á móti, til að mynda setur hann fram góð rök fyrir afnámi verðtryggingar, sem eiga jafn vel við um fullt afnám hennar hvort sem það náist fram fyrr eða seinna. Einnig hefur hópurinn að því er virðist kortlagt landslagið nokkuð vel og í raun gert það frekar auðvelt að klára verkið.

Þrátt fyrir allt á þó eftir að setja saman frumvarpstexta til að leggja fram og allir kjörnir fulltrúar  hafa heimild til þess að leggja fram breytingartillögur og fá atkvæðagreiðslu um þær. Eitt sinn var meira að segja lagt fram heilt frumvarp að nýrri stjórnarskrá í formi breytingartillögu. Örfáar setningar til þess að afnema verðtryggingu eru minniháttar í samanburði og eru jafnframt mörg fordæmi fyrir slíku, til dæmis þegar ákvæði um hámarksvexti neytendalána voru lögfest samkvæmt breytingartillögu.

Nú þarf bara að þora að ganga alla leið og standa við stóru orðin.


mbl.is Hægt að afnema verðtrygginguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þess má geta að stjórnvöld eru strax byrjuð að afnema verðtrygginguna, reyndar bara í smáskrefum, en hér er raunhæft dæmi:

Gosdrykkjaumbúðir hafa hingað til verið eina leið almennings til að verða sér úti um verðtryggð raunverðmæti í formi hrávöru, án þess að gerast fjárfestar á ótryggum fjármagnsmarkaði. Þetta hefur verið tryggt hingað til með því að ákvarðanir um skilagjald drykkjarumbúða hafa miðast við breytingar á vísitölu neysluverðs. Samkvæmt heimild í lögunum hefur ráðherra nú ákveðið að skilagjald verði óbreytt, það er að segja að það haldi nafnvirði sínu, en taki ekki á sig vísitöluhækkun í þetta sinn.

Hér má sjá nýjustu reglugerðina um skilagjald sem sett var af umhverfis- og auðlindaráðherra: http://stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=5f892d4f-7257-4e80-b539-47ece1a2143f

Það má því segja að í það minnsta einn ráðherra ríkisstjórnarinnar sé strax byrjaður að afnema verðtryggingu á sínum málaflokkum. Verst er samt að það skuli ekki vera lánamálin sem heyri undir hann, en sá ráðherra sem hefur með þau að gera tilheyrir víst öðrum stjórnmálaflokki, sem virðist ekki vera alveg eins áhugasamur um afnám verðtryggingar og flokkur þess ráðherra sem fer með umhverfis- og auðlindaráðuneytið...

Guðmundur Ásgeirsson, 4.2.2014 kl. 23:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband