TPB AFK IBI

TPB AFK - The Pirate Bay, away from keyboard: http://www.tpbafk.tv/video/

IBI: Inspired by Iceland.

Strákarnir sem bjuggu til þennan vef eru algjörir snillingar og sem slíkir almennt mjög vanmetnir í samtímanum, ásamt framlagi þeirra til umbyltingar á samfélaginu með meiri og betri upplýsingum. Burtséð frá öllum vangaveltum varðandi höfundarrétt og hvort upplýsingar af öllu tagi skuli vera frjálsar eða háðar einhverjum takmörkunum, þá hefur mál þessara sænsku sjóræningja opinberað ýmsa óhugnanlega hluti um það hvernig erlendir auðhringar breiða út spillingu í frjálsum ríkjum, líka norrænum velferðarríkjum, en í máli þeira félaga kom til dæmis í ljós að ýmsir af þeim sem komu að saksókn og dómsmáli þeirra þáðu háar greiðslur frá nurður amerískum fyrirtækjasamsteypum sem þykjast eiga rafeindir þær sem streyma um netkapla í öðrum löndum.

Baráttu þeirra sem standa fyrir Pirate Bay er ekki sanngjarnt að einfalda með því að kalla hana bara frekju einhverra óþekkra krakka og hugverkaþjófa um að fá að afrita hvað sem er og nota án leyfis, heldur er það barátta fyrir málfrelsi og gegn stafrænnni kúgun. Með því að vera skráaskiptasíða eru þeir auðvitað að búa til mjög stórt skotmark fyrir slíkar tilhneigingar, og má segja að síðan sé í raun hálfgerð skotskífa fyrir höfundarréttarnasista og önnur spillingaröfl sem víla ekki fyrir sér að bera fé á embættismenn í því skyni að fremja réttarbrot í erlendum lýðræðisríkjum. Ég hvet til þess að þau stjórnvöld sem taka munu við hér á landi eftir kosningar taki þannig á þessu að banna og stöðva í öllum tilvikum slík óeðlileg erlend afskipti af málefnum landsmanna. Landráð, mútur og réttarspjöll eru allt saman alverleg refsiverð athæfi nú þegar hér á landi og liggur við þeim allt að 16 ára fangelsisvist. Mikilvægt er að nýr innanríkisráðherra muni hafa það vel í huga.

Það verður án efa vanmetið af mörgum hversu mikil lyftistöng fyrir íslenskan tækni- og hugverkaiðnað þetta gæti orðið. Já ég held þessu fullum fetum fram beint upp í opið geð SMÁÍS og annara sem ekki skilja internetið og 21. öldina sem við lifum á. Pirate bay er nefninlega ekki bara stærsti vefur sinnar tegundar fyrr og síðar heldur meðal vinsælustu vefsíðna á internetinu. Auk þess er þetta eitt þeirra tölvukerfa í heiminum sem eru líklega einna mest tæknilega háþróuð, og án efa eitt best varða slíkt kerfið frá sjónarhóli öryggismála. Þetta sannast af því að þrátt fyrir gríðarlegir árásir fjölmargra illgjarnra hakkara sem ráðnir hafa verið af erlendum auðhringum hefur engum þeirra tekist að granda kerfinu eða stöðva það, enda er það hvergi hýst á neinni einni tölvu í heild sinni, heldur eru mismunandi hlutar vistaðir hér og þar á ýmsum stöðum, sem ekki eiga sér endilega neina jarðneska tilveru. Þannig er engin tölva neinstaðar sem hægt væri að slökkva á til að slökka á Pirate Bay, ekki nema með því að taka allt internetið úr sambandi, því Pirate bay lifir á internetinu og er internetið.

Ég spái því að umræða um sjónarmið er varða stafrænt frelsi á aðra hönd og á hinn bóginn ritskoðun muni verða háværari en aldrei fyrr hér á landi á næstunni. Einnig spái ég því að fleiri mál muni koma upp þar sem erlend öfl reyna að sækja á hérlenda aðila í tengslum við þessi mál, sambærilegt við það þegar bandarísk alríkislögreglan sendi hingað menn í fullkomnu heimildarleysi til þess að hafa í besta falli mjög óeðlileg afskipti af íslensku réttarfari vegna málefna tengdum WikiLeaks. Það mun því reyna á þann sem verður innanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn, og almættið forði oss frá því að það verði tiltekinn frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins sem einnig er fyrrverandi formaður lögmannafélagsins og í hópi þeirra sem hvorki skilja internetið né lýðfrelsi og almannarétt. Ef hann hefði fengið að ráða væri, svo dæmi sé tekið, líklega búið að taka bíla og hús af öllum hér á landi sem hafa gerst uppvísir að þeirri miklu sök (að hans mati) af hafa keypt slíka hluti fyrir lánsfé sem var veitt gagngert í þeim tilgangi en hefði annars ekki verið það.

Til hamingju Ísland, með tækifærin sem nú bjóðast til að sýna úr hverju við erum gerð, það er afar mikilvægt fyrir ímynd lands og þjóðar út á við að vera brautryðjendur í þessum efnum sem og ýmsum öðrum.


mbl.is Pirate Bay með íslenskt lén
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Foster Hjartarson

Flottur pistill Guðmundur - vonandi fær þetta að vaxa og dafna í friði.

Gísli Foster Hjartarson, 25.4.2013 kl. 17:58

2 identicon

piratebay er ekkert að fara að hverfa.

það eru hins vegar miklu meiri líkur á að "auðvaldið" sé að hverfa.

valdið er fólksins.

það fer í raun eftir hvort "auðvaldið" nái að breytast, hvernig valdið verður notað.

heimskan hjá "auðvaldinu" virðist vera hinsvegar þvílík að þetta gæti því miður orðið ansi blóðugt..

en það sem tekur við verður ekki svo mikið skárra.

heimskan hjá "alþýðunni" er þvílík að við segjumst búa við lýðræði.. en varla nokkur maður virðist kippa sér upp við orð eins og

"valdstjórn"

"RáðHerra."

sem eru notuð dagsdaglega..

sveinn ólafsson (IP-tala skráð) 25.4.2013 kl. 21:52

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þessi kynslóð sem þú ert að tala um mun hverfa líka. Þess vegna nota ég orðalagið "fólkið sem skilur ekki internetið og 21. öldina". Sú kynslóð mun færast inn á öldrunarstofnanir á næstu árum og hverfa af sjónarsviðinu.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.4.2013 kl. 00:57

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þrír þingmenn fyrir Pírata. Yarr!!!

Guðmundur Ásgeirsson, 28.4.2013 kl. 13:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband