Aukinn hagnaður banka á kostnað almennings

Seðlabanki Íslands hækkaði í gær stýrivexti um hálft prósentustig. Er þetta sagt vera enn ein tilraunin til þess "hemja þenslu" í því skyni að "koma böndum verðbólguna".

Við þessa aðferðafræði eru ýmsir gallar:

1) Hún hefur engin áhrif á meirihluta útlána til almennings sem eru verðtryggð á föstum vöxtum til langs tíma.

2) Hagnaður banka kemur frá tvennu: vöxtum og þjónustugjöldum. Ef vaxtahækkun hefði einhver áhrif væru það þau að auka hagnað bankanna og þar með hvetja þá til frekari útlána til að auka enn hagnað sinn. Hvernig aukinn hagnaður banka hemji verðbólgu er lógík sem ég hef aldrei skilið.

3) Þeir sem greiða vexti eru almenningur og fyrirtæki, sem eiga nú þegar í skuldavanda sem er öllum augljós. Aftur, ef vaxtahækkunin skilaði sér til þeirra þýddi það aukinn kostnað og meiri skuldavanda sem fyrirtæki þyrftu að velta út í verðlag og launþegar út í launakröfur.

4) Síðastnefndi liðurinn auk stýrivaxtahækkunarinnar munu klárlega valda forsendubresti kjarasamninga sem eru ekki nema um það bil ársgamlir. Þar sem samningarnir voru afleitir er það kannski ekki svo slæmt en aðrir en ég hafa alveg örugglega ólíkar og fjölbreyttar skoðanir á því.

Burtséð frá meintum gæðum samninganna hefur hér á þessu bloggi margoft verið fullyrt að væntingar verkalýðsforystunnar um forsendur kjarasamninganna væru ekki bara óraunhæfar heldur beinlínis óábyrgt við núverandi aðstæður að tefla þeim fram sem slíkum. Ég stend enn við hvert einasta orð af því.

P.S. Já og ég gleymdi því næstum: vaxtahækkanir sem ráð til að "hemja verðbólgu" eru af sama meiðinum og við hrun fjármálakerfisins þegar stýrivextirnir enduðu rétt sunnan við tuttugu prósent, í því skyni að "hemja verðbólgu" var þá sagt ef ég man rétt...


mbl.is Stýrivextir hækka um 0,5 prósentur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll Guðmundur; æfinlega !

Einungis; dæmigerð vinnubrögð Banka Mafíunnar, á höndur almenningi.

Tími til kominn, að lúskra ærlega á þessu liði, persónulega, fornvinur góður.

Með beztu kveðjum; sem jafnan - og fyrri /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 18.5.2012 kl. 14:45

2 Smámynd: Neo

Já Guðmundur, þetta er alveg með ólíkindum, það sjá allir að keysarinn er ekki í neinum fötum en samt þrjóskast þeir við, ætli þeir haldi í alvörunni að þeir séu að sporna við verðbólgu með þessum hætti?

Ég er nú alltaf búinn að vera á leiðinni að mæta á IFRI fund og spyrja eftirfarandi (en læt flakka hér):

Er einhver stjórnmálaflokkur/hreyfing sem þú veist af sem verður í framboði næst og mun berjast fyrir því sem IFRI setur fram á http://www.ifri.is ??

Góð færsla hjá þér

Neo, 18.5.2012 kl. 14:54

3 Smámynd: Ómar Gíslason

Heill og sæll Guðmundur

Það er alltaf gaman að heyra Hr. Már tala um stýrivexti, svörun eru eins og það séu geimvísindi sem hann jú á í miklum vandræðum  með að skilja sjálfur. Mér hefur fundist að um 10 berrassaðir keisarar væru að stjórna myntinni, en ekki einn aðili og allir væru að fara í sitthvora áttina.

Ómar Gíslason, 18.5.2012 kl. 17:24

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Neo: Takk fyrir innlitið.

Ég get ekki bent á einhvern einn flokk sem hefur tekið upp innihald vefsíðu IFRI beinlínis sem stefnuskrá enda eins gott. Ég myndi líka ekki mæla með því þar sem þetta eru í raun bara þau atriði sem við komum okkur saman um að leggja fram til umhugsunar, nokkurskonar "topp 10" listi sem varð til þegar við vorum á frumstigum þess að móta sýn okkar á fjármálakerfið.

Síðan þá hefur liðið eitt og hálft ár og á þeim tíma hefur þekking okkar batnað á sama tíma og við höfum áttað okkur á hversu lítið er í raun vitað um fyrirbærið. Jafnframt er ljóst að ekki bara er kerfið rangt heldur líka margt af því sem meintir eða yfirlýstir andstæðingar þess halda fram um það. Tillögur byggðar á misskilningi geta augljóslega ekki skilað sér í góðri afurð. Ég vil taka fram að það er ekki við góðviljað fólk að sakast þó það bíti í sig einhvern misskilning þegar peningamálahagfræði er annars vegar, því sá misskilningur gæti allt eins verið kominn beint upp úr kennslubók eftir höfund með doktorsgráðu í hagfræði og feitan kennslustyrk!

IFRI eignaðist t.d. nýlega kennslubók í þjóðhagfræði eftir fyrrverandi aðalhagfræðing IMF þar sem tilurð peninga er útskýrð með þeim hætti að sem kerfislýsing væri það ekki aðeins ófullnægjandi heldur beinlínis villandi að mörgu leyti. Ég myndi allavega ekki þora að lofa kúnnanum að apparat byggt eftir þeirri lýsingu myndi gera neitt vitrænt, ekki frekar en ef reynt væri að smíða bíl án þess að vera viss hvernig mikilvægir hlutar eins og gírkassinn eða kúplingin eiga að virka. Viltu veðja hvort bíllinn ekur?

Þegar svo er ástatt get ég ekki með ábyrgum hætti bent á einhverja "lausn" á óleystum og óljóst skilgreindum vandamálum eins og "fjármálastöðugleika" því fólk er ekki einu sinni sammála um hvað slíkt þýðir. Ég treysti þess vegna engum flokki sem þykist hafa einhverja "lausn" alveg á kristaltæru fyrir hagkerfið (búin að prófa það einu sinni) og svo eru líka til úlfar í sauðargæru sem festa kerfið aðeins í sessi þó þeir kalli það fögrum nöfnum sem er ætlað að gefa í skyn að um úrbætur sé að ræða. Við höfum þó á tilfinningunni að sumir hinna nýju smáflokka séu opnir fyrir alvöru endurskoðun fjármálakerfisins og sá flokkur sem ég kenni mig helst við er svo sannarlega með það á sinni stefnuskrá.

Í þessu gildir hinsvegar að stíga varlega til jarðar og ég tel ábyrgast að reyna að taka eins vel til og hægt er í núverandi kerfi (þar er enn mjög langt í land) en hefja á meðan þróun á raunverulegum og prufanlegum útfærslur sem hægt er að mæla og meta að verðleikum. Ég myndi ekki reyna að segja þér að henda internetinu á morgun vegna þess að það sé úrelt tækni nema ég gæti bent þér á eitthvað skárra, eða hvað? Við hættum ekki að nota VHS vegna þess að fólk fattaði að í raun hafi Beta verið betri tækni allan tímann, heldur hættum við því um leið og við hættum að nota segulbönd sem geymslumiðil.

Skásta "alternatívið" sem við höfum dottið niður á ennþá er það fjárhagslega rekstrarfom sem við notum fyrir hugveituna sjálfa, en IFRI er óskráður aðili og tilheyrir því hinum peningalausa hluta hagkerfisins. Þeir sem hafa lesið kennslubækur um hagfræði hafa líklega fæstir áttað sig á því að í þeim er nákvæmlega ekkert að finna um þennan sístækkandi geira þjóðfélagsins, þ.e.a.s. þann peningalausa. En það má þó segja að viðséum búin að færa okkur úr VHS yfir í Beta, en eigum ennþá eftir að finna upp DVD diska og taka skrefið til fulls.

Fjármálabraskarar nútímans tala gjarnan um gull eins og notkun þess í peningalegum tilgangi sé villimannlegur fornsiður. Ég sé fyrir mér að í framtíðinni verði notkun pappírs í peninga álitin villimannlegur fornsiður. Jafnvel notkun peninga yfir höfuð. Star Trek virkar fínt án þeirra...

Guðmundur Ásgeirsson, 19.5.2012 kl. 05:50

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Henry Þór er sem oft fyrr alveg með þetta:

http://www.dv.is/media/news/story/image/GP_DV_2012-05-17_712_jpg_620x820_q95.jpg?entry=78609

Guðmundur Ásgeirsson, 19.5.2012 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband