Engin túlkun = engir vextir

Mikið hefur verið skrifað og skrafað á þeim tveimur sólarhringum sem liðnir eru frá hæstaréttardómi í máli nr. 600/2011 þar sem tekist var á um fullnaðargildi kvittana fyrir vöxtum áður greiddra gjalddaga lána með ólögmæta gengistryggingu. Eftir fyrstu höggbylgjurnar hafa viðbrögðin smám saman byrjað að koma í ljós og strax eru embættismenn, að ekki sé minnst á fjármálafyrirtæki, byrjuð á þeim ljóta ósið sem kallast að "túlka" lög þannig að túlkunin falli að einhverri fyrirfram mótaðri útkomu. Gjarnan þeirri sem þjónar best hagsmunum túlksins, hverjir sem þeir eru.

En það á ekki að þurfa túlk til að fara eftir lögum ef maður hefur lokið grunnskólaprófi. Lög sem eru ekki á skýru og skiljanlegu móðurmálinu eru ólög. Með lögum skal land byggja og ætlum við að byggja eitthvað traust sem á að endast þurfum við að byrja á því að lesa leiðbeiningarnar. Ekki túlka þær þannig að eitt verði annað, svart verði hvítt, og hundar búi með köttum; heldur að lesa einfaldlega hvað stendur í lögunum og sjá svo til hvort þau eru ekki á skýru og skiljanlegu máli. Ef svo er þá kemur ekkert í veg fyrir að hægt sé að fara eftir þeim. Við skulum skoða þau lagaákvæði sem gilda um neytendavernd í lánaviðskiptum á Íslandi.

Undirstrikanir í tilvitnunum eru mínar.

1936 nr. 7 1. febrúar/ Lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga

36. gr. b. Skriflegur samningur, sem atvinnurekandi gefur neytanda kost á, skal vera á skýru og skiljanlegu máli. Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skal túlka samninginn neytandanum í hag.

Þar sem hugtakið "skýrt og skiljanlegt mál" er ekki skilgreint nánar vaknar óhjákvæmilega sú spurning hvort önnur ákvæði lánasamninga uppfylli þetta skilyrði, margir skilja ekki hvernig venjuleg verðstrygging virkar heldur, en það er efni í annan pistil. Þarna stendur líka að ef upp komi vafi um merkingu staðlaðs neytendalánasamnings, eins og á einmitt núna við um tugþúsundir slíkra að sögn yfirvalda, skal túlka þá neytendum í hag.

36. gr. c. Ákvæði 36. gr. gilda um samninga skv. 1. mgr. 36. gr. a, þó með þeim breytingum sem leiðir af 2. og 3. mgr.
Við mat á því hvort samningur skv. 1. mgr. sé ósanngjarn skal líta til atriða og atvika sem nefnd eru í 2. mgr. 36. gr., m.a. skilmála í öðrum samningi sem hann tengist. Þó skal eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag.

Hér segir að við mat á því hvort samningur teljist ósanngjarn skuli líta til atvika sem síðar komu til, sem gæti til dæmis átti við um dóma eða lagasetningu sem hækka vextina. En þó skuli eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til neytanda í óhag, til dæmis dóma eða lagasetningar sem hækka vextina. Með því að grípa inn í þessa kröfu neytanda um túlkun samningsins sér í hag og hindra honum fullnustu hennar kunna stjórnvöld að hafa gengið á eignarrétt neytenda og skapað ríkissjóði bótaskyldu. Þó kann að vera að ríkið geti enn komist hjá bótaskyldu án þess að breyta lögum, með því að framfylgja þeim eins og hér er lýst.

Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.

Þarna stendur að ólögmætum og þar með ósanngjörnum samningsskilmála megi víkja til hliðar eins og hæstiréttur hefur áður skapað fordæmi fyrir. Hæstiréttur bjó líka til þá skilgreiningu að órjúfanlegt samband væri milli verðtryggingar og vaxta, sem hlýtur að leiða af sér að ef öðru hvoru sé vikið frá vegna þess að það teljist ógilt hljóti það að gilda um bæði verðtryggingar- og vaxtaákvæði. Eftir stendur þá samningur sem að kröfu neytanda skal gilda að öðru leyti án breytinga, verði hann efndur öðru leyti. Telja má líklegt að flestir neytendur muni fallast á að hægt sé að efna lánasamning án verðtryggingar og vaxta, og geri þar af leiðandi kröfu um að hann gildi að öðru leyti án breytinga. Um lánasamning sem þennan kunna auk þess að gilda:

1994 nr. 121 21. september/ Lög um neytendalán

14. gr. Nú eru vextir eða annar lántökukostnaður ekki tilgreindir í lánssamningi og er lánveitanda þá eigi heimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra. Að öðru leyti fer um vexti af neytendalánum samkvæmt ákvæðum vaxtalaga.

Eftir að verðtryggingar- og vaxtaákvæðum lánasamnings hefur verið vikið frá vegna þess að annað eða bæði hafi reynst ógild, eru engir vextir tilgreindir í samningnum. Undir þeim kringumstæðum er lánveitanda eigi heimilt að krefja neytanda um greiðslu vaxta. Þar sem vaxtaákvæðinu hefur verið vikið til hliðar er ekkert sem "að öðru leyti" þarf að fara um með samkvæmt vaxtalögum nr. 38/2001, og því fæst ekki séð að ákvæði þeirra komi til álita hér.

Það sem þarf einfaldlega að gera er að framfylgja réttum lögum í staðinn fyrir að hlaupa á sig með vitlausar breytingar á röngum lögum, og muna líka: LFLF! Það getur ekki skapað ríkinu skaðabótaskyldu að láta neytendur njóta vafans, því það er beinlínis lagaskylda. Bótaskylda getur þvert á móti verið fyrir hendi hafi stjórnvöld vanrækt þessa lagaskyldu sína gagnvart neytendum.


mbl.is Lánin bera neikvæða raunvexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir góða grein Guðmundur.

Það er ljóst að ný atlaga er í undirbúningi og það verður svo um alla tíð þar til hart er látið mæta hörðu.

Það er í eðli þjófa að stela og þeir gera það á meðan þeir komast upp með það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.2.2012 kl. 14:07

2 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Hæstiréttur hefur ekkert með það að ákvarða vexti í samningum milla aðila.

Eggert Guðmundsson, 17.2.2012 kl. 15:25

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Alþingi hefur með að gera að setja lög.

Þar á meðal lög sem ákvarða vexti.

Hæstiréttur sker svo úr um réttan skilning þeirra.

Með því er hæstiréttur ekki að ákvarða vexti, heldur gera lögin það.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.2.2012 kl. 19:52

4 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Telur þú mögulegt að Alþingi geti sett lög sem upphefja neytandalögin í ljósi nýorðinna atburða í samfélaginu þ.m.t. þessi hæstaréttardómur.

Ef ESA kemur með úrskurð á næstu  mánuðum um að allt standi í samningum gjaldeyrislána nema gengisviðmiðunin, þá tel ég íllmögulegt fyrir okkar RÉTTARRÍKI að Alþingi setji íþyngjandi lög fyrir þennan hóp sem var með erlend lán.

Einnig er möguleiki á að þessi lán verði vaxtalaus, eins og þú færir góð rök fyrir.

Eggert Guðmundsson, 17.2.2012 kl. 22:05

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Alþingi getur sett hver þau lög sem meirihluti þingmanna samþykkir og forseti skrifar undir eða að öðrum kosti eru samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Svo getur sameiginlega EES-nefndin ákveðið að samningsbundnar tilskipanir taki gildi á Íslandi. Þetta eru tæmandi möguleikar á því hvernig lög geta orðið til.

Það er svo hæstaréttar að skera endanlega úr um gildi laga. Sé umdeilt hvort tiltekin lagaákvæði standist önnur lög t.d. stjórnarskrá verður dómurinn að vega og meta málið og taka tillit til forgangs lagaákvæða eftir því hvort það standist að þau víki frá meginreglum eða hvort æðri lög skuldi gilda eins og stjórnarskrá í ákveðnum tilvikum. Ef ekki er heimilt í stjórnarskrá að víkja frá meginreglu skal hún ráða. Lög um neytendalán og vaxtalög eru jafnstæð gagnvart stjórnarskrá, en þar sem neytendalánalögin eru sértækari gilda þau í tilvikum sem ekki er tekið á sérstaklega í almennum vaxtalögum. Þetta er samt óhjákvæmilega alltaf matskennt að einhverju leyti.Svo er ú vissum tilvikum ákvæði þar sem tekið er sérstaklega fram samspil þeirra við önnur lög til þess að ekkert fari á milli mála, eins og er gert í áðurnefndri 14. gr. laga um neytendalán sem er beinlínis skilgreind þannig að hún standi framar almennum lögum um vexti varðandi þau atriði sem undir hana falla.

Á því byggi ég meginniðurstöðu mína, að ekki megi rukka vexti af samningi þar sem vöxtum hefur verið vikið til hliðar vegna ólögmætra samningsákvæða.

Eins og sjá má þá hafa lög um neytendalán verið í gildi frá árinu 1994, en gildissvið þeirra var útvíkkað árið 2000 þannig að þau ná síðan þá einnig til fasteignalána. Það var ári síðar eða 2001 sem sett voru núgildandi lög um vexti og verðtryggingu þar sem heimild til gengistryggingar var aflögð. Síðan þá hafa lög um neytendalán þannig gilt um öll lán einstaklinga sem báru hina ólöglegu gengistryggingu á þessu tímabili. Þessu geta hvorki Alþingi né dómstólar breytt afturvikt eins og hæstiréttur hefur nú staðfest. Hinsvegar getur Alþingi sett lög sem hafa framvirk áhrif á þessa samninga, en ef það verður til þess að rýra endurkröfuréttindi neytenda vegna tjóns af völdum brota á þessum lögum, þá myndi sú bótaskylda einfaldlega færast yfir á ríkissjóð. Skynsamlegast væri því að löggjafinn haldi nú að sér höndum.

Skynsamlegustu viðbrögðin væru framkvæmdavaldsins í gegnum eftirlitsstofnanir á sviði neytendamála og fjármálamarkaða. Umboðsmaður skuldara ætti nú að bjóða Hagsmunasamtökum Heimilanna, sem hafa haft rétt fyrir sér um þetta allan tímann, að taka að sér endurútreikninga á lánum samkvæmt laganna bókstaf og að snúa því upp á fjármálafyrirtækin að leita meints betri réttar síns telji þau sig hafa hann. Stjórnvöld geta aldrei orðið bótaskyld af því þar sem þeim er beinlínis skylt að gera þetta þannig samkvæmt lögum sem gilt hafa um árabil og voru í gildi þegar allir þessir samningar voru gerðir. Lögum þessum er ekki hægt að framfylgja öðruvísi en að ganga á hugsanlegan rétt lánveitenda, því það er einmitt það sem þau kveða á um að eigi að gera í tilvikum sem þessum!

Guðmundur Ásgeirsson, 17.2.2012 kl. 22:42

6 identicon

Þú ert í góðu stuði í dag með fullt af góðum athugasemdum og skýringum í nokkrum færslum.

Hver borgar þér fyrir þetta ?

Ég þakka sérstaklega fyrir þessi skrif, því sjaldan þakka ég einhverjum fyrir skrif enda frekar þunn umræða hjá öllu "vaknaða" liðinu sem er búið að "fatt'edda", - því miður.

En hér má sjá vandaða og nákvæma umfjöllun og tilvísanir í eitthvað svo hægt sé að fá botn í málin og athuga sjálfur.

Nú er ég sérstaklega - en ekki eingöngu - að vitna til skrifa þinna um ný fallinn Hæstaréttardóm og tilvísun í lögin frá 1936 sem alltaf gleymast í umræðunni.

Annars vil ég taka það fram að þessi bucheit sem þú skrifar um í annarri færsli í dag, er padda sem ég hef alltaf skynjað sem slíka, enda sérfræðingur í meindýrum og sníkulifnaðar dýrum.

Ef ég finn þig síðar í fjöru eða annars staðar, þá get ég sagt þér í einkasamtali, sannleikann um samsærið sem er á bak við bucheit pödduna.

Kristján Þorsteinsson. (IP-tala skráð) 18.2.2012 kl. 04:12

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir jákvæðar undirtektir Kristján.

Það borgar mér enginn fyrir þetta. Finnst þér að eigi að gera það?

Ég get upplýst það hér að ég gegni stöðu ritara í stjórn Hagsmunasamtaka Heimilanna, sem eru sjálfboðaliðasamtök og samkvæmt gildandi samþykktum þeirra eru stjórnarstörf ólaunuð. Tekjur mínar eru nú allar í formi bóta.

Ég er hinsvegar að leita að launaðri vinnu, sótti meðal annars um starf forstjóra Fjármálaeftirlitsins síðast þegar það var laust en þá var annar maður ráðinn. Mér skilst að nú sé möguleiki á að það losni að nýju...

Ég veit reyndar ekki hvort ég uppfylli þau ströngu hæfisskilyrði sem sett eru.

Ég hef til dæmis ekki á ferilsskránni að hafa þann 30. júní 2010 gefið út tilmæli um álagningu svimandi hárra vaxta, sem hæstiréttur dæmdi svo ólöglega þann 15. febrúar 2012. Ég hef þvert á móti gerst sekur um að hafa sem meðhöfundur þann 4. nóvember 2011, skrifað undir álit á lögum um vexti og verðtryggingu sem hæstirréttur hefur nú staðfest í meginatriðum.

Ég hef ekki heldur á ferilsskránni að stofnun undir minni stjórn hafi haldið hlífiskildi yfir skipulagðri starfsemi bílaþjófa sem fara í skjóli nætur inn á einkalóðir og heimili fólks, þrátt fyrir aðvörun æðsta yfirmanns dómsmála í landinu. Þvert á móti hef ég verið beittur áðurnefndri "vörslusviptingu" fyrir að virða ekki hin áðurnefndu tilmæli Fjármálaeftirlitsins.

Ég telst því varla hæfur til starfsins, eða hvað finnst þér Kristján?

Guðmundur Ásgeirsson, 18.2.2012 kl. 20:06

8 identicon

Það er einmitt málið að þeir sem gera góða og rétta hluti sem stuðla að ahfjúpun og upprætingu glæpa og spillingar og reyna að koma í veg fyrir frekari rangindi og landráð, að já þeir einmitt fá ekkert borgað en ættu að fá borgað fyrir það sem eftirlitsaðilar o.s.frv. sem fá svimandi há laun ættu að sjá um.

Takk fyrir skemmtilegt svar með innihaldsríka tengla !

Kristján Þorsteinsson. (IP-tala skráð) 18.2.2012 kl. 21:56

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk, mér finnst gaman að geta gefið svör sem einhverjum finnst bæði skemmtileg og innihaldsrík.

Til að setja þetta í samhengi, þá eru hér tölulegar staðreyndir:

Skjólstæðingar:

  • HH: tæplega 8.000 félagsmenn, undirskriftasöfnun: rúm 36.000
  • FME: tæplega 320.000 Íslendingar og ýmsir erlendir aðilar

Stjórnendateymi:

  • HH: 7 stjórnarmenn og 7 varamenn, nokkrir ráðgjafar
    • sjálfboðaliðar með fjölbreyttan bakgrunn
  • FME: 3 stjórnarmenn og 3 varamenn, forstjóri og 8 yfirstjórnendur
    • Einsleitur hópur hálaunasérfræðinga

Starfsmenn:

  • HH: hálfur
  • FME: 107

Ársvelta:

  • HH: örfáar milljónir 
  • FME: stefnir í tvo milljarða

Kærumál:

  • HH: 600 einstaklingar kærðir fyrir gengislánabrotin
  • FME: 80 mál send til sérstaks saksóknara 

Afrakstur:

  • HH: hafa stuðlað að neytendaréttarbótum upp á ótalda milljarða
  • FME: hefur kostað skattgreiðendur (neytendur) ótalda milljarða og mögulega bakað mikla skaðabótaskyldu, fyrir utan að hafa allt að því sofið af sér hrunið sem varð árið 2008 og kostaði blóðsúthellingar

Hvenær er tímabært að skipta um?

Rétt er að rifja upp að undirritaður var meðal umsækjenda um starf forstjóra FME, þess sem nú virðist verið að reka frá störfum sökum vanhæfni.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.2.2012 kl. 04:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband