Hefur einhver lesið neyðarlögin?

Um meinta ríkisábyrgð og mismunun á grundvelli þjóðernis

Þeir eru til sem halda að lög nr. 125/2008, svokölluð neyðarlög vegna hruns fjármálakerfisins, feli í sér ríkisábyrgð á innstæðum, og þess vegna sé íslenska ríkinu skylt að ábyrgjast útgreiðslu á öllum innstæður í öllum fjármálafyrirtækjum með íslenskar kennitölur, þar með talið útibú þeirra erlendis. Þeir eru líka til sem halda að þessi lög feli í sér ólögmæta mismunun á grundvelli þjóðernis og þess vegna sé íslenska ríkið bótaskylt. Í þessa tvö hópa fellur gjarnan sama fólkið, svokallaðir borgunarsinnar, sem annaðhvort eru of blindir í fylgni sinni við tiltekna stjórnmálaleiðtoga til að véfengja boðskap þeirra þó falskur sé, eða einfaldlega vita ekki betur. Misskilningur er fyrirgefanlegur en það virðist hinsvegar full ástæða til að hvetja fólk til að rækja þá borgaralegu skyldu sína að lesa lögin (án flokksgleraugna) áður en það kýs að nýta þau borgaralegu réttindi sín að tjá sig um þau. Umrædd lög eru ekki nema 4 blaðsíður, 10 með athugasemdum, og í þeim er hvorki stafkrókur um þjóðerni né ríkisábyrgð.

- Svo það sé ítrekað þá er engin ríkisábyrgð á innstæðum og hefur aldrei verið samkvæmt íslenskum lögum!

Hinsvegar gáfu íslensk stjórnvöld út yfirlýsingu um að þau myndu tryggja björgun innstæðna úr þrotabúum gömlu bankanna, sem er í grundvallaratriðum allt annað mál. Þessi björgun fólst í því að setja áðurnefnd lög nr. 125/2008 þar sem innstæður voru settar framfyrir kröfuröð í þrotabú fjármálafyrirtækja, og eru þannig tryggðar að því marki sem eignir bankans hrökkva til. Við gjaldþrot er það augljóslega minna en sem nemur skuldbindingum, að innstæðum þar meðtöldum, og því er óvissa um fullar endurheimtur sjálfgefin. Í krafti sömu laga var Fjármálaeftirlitinu heimilað að yfirtaka þrotabúin og endurskipuleggja þau til að tryggja rekstrarsamfellu og þar með aðgengi fólks að innstæðum sínum. Það var gert með því að stofna nýjar kennitölur og láta þær yfirtaka skuldbindingar í formi innstæðna ásamt eignum á móti í formi lánasafna, greiðslukerfa, nauðsynlegs húsnæðis og útbúnaðar, ráðningarsamninga starfsfólks o.fl. Þessum nýju fyrirtækjum var svo lagt til eigið fé úr ríkissjóði til að gera þau rekstrarhæf í skilningi laga um fjármálafyrirtæki. Við endurskipulagninguna tók Fjármálaeftirlitið hinsvegar þá ákvörðun að færa ekki neitt úr erlendum útibúum yfir í nýju bankana, enda átti ríkið engan gjaldeyri til að leggja slíkri starfsemi til eigið fé og hún samræmdist heldur ekki rekstrarmarkmiðum nýju bankanna. Í þessu felst vissulega mismunun gagnvart innstæðueigendum, en hún er ekki á grundvelli þjóðernis heldur viðskiptasambands við tiltekna starfsstöð fyrirtækis, og fyrir þeirri ákvörðun liggja málefnalegar forsendur eins og hér verður rakið.

Til að útskýra hvers vegna þjóðernið er aukaatriði þá má ímynda sér að ef meirihluti innstæðna í einherju öðru útibú Landsbankans, t.d. á Selfossi, hefðu verið í Evrum og Pundum, þá hefði það útibú líka verið skilið eftir í þrotabúinu. Íslendingar hafa sjálfir einmitt mátt þola mismunun gagnvart sínum fjárhagslegu hagsmunum eftir því hvar þeir voru í viðskiptum. Þeir sem höfðu ofgreitt af gengistryggðum lánum hjá Avant fá sumir ekki nema hluta endurgreiddan á meðan viðskiptavinir SP-Fjármögnunar fá allt sitt gert upp. Lántakar hjá fyrirtækjum sem fóru í þrot hafa ekki haft sama aðgang að úrræðum vegna greiðsluerfiðleika og þeir sem eru í viðskiptum við endurskipulögð fyrirtæki. Meðal viðskiptavina nýju bankanna ríkir heldur ekki jafnræði, og svona mætti lengi telja.

Erlendir innstæðueigendur hafa hinsvegar allir fengið innstæður sínar greiddar samkvæmt gildandi skilmálum innstæðutrygginga burtséð frá því hvort um dótturfélag eða útibú var að ræða. En Bretar og Hollendingar mismunuðu sjálfir innstæðueigendum á grundvelli þjóðernis, með því að setja mismunandi hámark á tryggingavernd innstæðna, bretar 50.000 pund og Hollendingar 100.000 evrur. Nú er svo komið í ljós að Danir mismunuðu líka innstæðueigendum í sænskum útibúum dansks banka, dönsku viðskiptavinirnir fengu 100% tryggingu en þeir sænsku aðeins lágmarkstrygginguna.

- Svo það sé ítrekað þá hafa allir erlendir innstæðeeigendur fengið innstæður sínar greiddar úr íslenskum bönkum skv. gildandi skilmálum!

- Svo það sé enn fremur ítrekað þá átti sér engin mismunun á grundvelli þjóðernis stað af hálfu Íslands, heldur þvert á móti annara Evrópuríkja og þar á meðal Breta og Hollendinga sjálfra!

Þær ákvarðanir sem voru teknar af Fjármálaeftirlitinu og skilanefndum veturinn 2008-2009, voru heimilaðar með neyðarlögunum en þó ekki beinlínis afleiðing þeirra. Við framkvæmd endurskipulagningarinnar voru teknar ákvarðanir sem fólu í sér mismunun, en voru einfaldlega teknar með hliðsjón af því sem var framkvæmanlegt. Eitt sem var ekki framkvæmanlegt á þessum tíma var að fjármagna yfirtöku á stórum skuldbindingum í erlendum gjaldeyri, þar sem sá gjaldeyrir var einfaldlega ekki til og þó hann hefði verið fáanlegur að láni voru Bretar búnir að loka fyrir aðgang að slíku með beitingu hryðjuverkalaga. Þess vegna var af tæknilegum ástæðum ekki annað hægt en að skilja erlendu útibúin eftir í þrotabúi Landsbankans. Innstæðurnar sem var hægt að bjarga úr öðrum útibúum voru í krónum og þess vegna var hægt að bjarga þeim. Íslenska ríkið getur tæknilega gert hvað sem það vill við krónuna, t.d. prentað nánast óendanlega mikið af henni, en yfir öðrum gjaldmiðlum höfum við ekki yfirráð.

- Svo það sé ítrekað þá þurftu íslensk stjórnvöld að skilja IceSave eftir í þrotabúi Landsbankans, og voru beinlínis tilnedd vegna aðgerða Breta sjálfra sem lokuðu fyrir aðgang að gjaldeyrismörkuðum. Án gjaldeyris er ekki hægt að fjármagna yfirtöku á erlendum rekstri.

Þegar reyndi á endurgreiðsluskyldu Tryggingasjóðs Innstæðueigenda og Fjárfesta vegna IceSave innstæðna kom í ljós að hann átti ekki nema 18 milljarða upp í hundruða milljarða kröfu og gat hvergi fengið lán. Þegar þarna var komið við sögu opinberaðist sú blekking sem tryggingakerfi innstæðueigenda felur í sér, þar sem það lá ljóst fyrir að tæknilega var ómögulegt að uppfylla það loforð um skilyrðislausa tryggingavernd sem kerfið á að veita. Á þessum tímapunkti var talin raunveruleg hættu á að áhlaup á bankakerfið gæti breiðst út um Evrópu, og leiðtogar álfunnar myndu að lokum þurfa að horfast í augu við reiði borgaranna þegar þeir vöknuðu til vitundar um að sparifé þeirra væri í raun horfið. Fyrst að hér á Íslandi varð búsáhalda-bylting þrátt fyrir að engar innstæður hafi tapast í reynd, þá má ímynda sér hvernig hefði farið í hinni sögulega sundurleitu Evrópu ef allar innstæður hefðu tapast.

Eina leiðin fyrir leiðtoga Evrópuríkjanna til að afstýra blóðugri borgarastyrjöld á meginlandinu var að lýsa yfir ríkisábyrgð á innstæðum, beinlínis í trássi við samkeppnisreglur EES svæðisins, og eina leiðin til að komast upp með þann glæp er að gera alla samseka, þar með talið Ísland. Þess vegna er það sótt af svo miklu harðfylgi að þröngva þessu upp á okkur, og vekur athygli hversu viðsemjendur virðast fúsir til að slá af upphæðinni sem skal greiða, en standa hinsvegar fastar en fótunum á kröfunni um að framið verði lögbrot með samþykkt ríkisábyrgðar.

- Svo það sé kirfilega ítrekað þá voru það Evrópusambandslöndin sjálf sem þverbrutu gildandi reglur á evrópska efnahagssvæðinu og ætla sér að gera íslensk stjórnvöl aðila að samsærinu, en samsæri er þegar fleiri en einn hafa samráð um lögbrot og yfirhylmingu.

Til að knýja fram samþykki og öðrum til vítis og varnaðar hefur Ísland verið sett á alþjóðlega vanskilaskrá vegna láns sem var aldrei tekið. Alveg eins og Írar voru þvingaðir til að taka lán sem þeir vildu ekki, vegna ríkisábyrgðar á bönkum sem hefðu einfaldlega átt að verða gjaldþrota. Nú er aftur komið að okkur að sýna fordæmi með synjun greiðslu fyrir klúður og blekkingaleik vanhæfra stjórnvalda.

Áfram Ísland!


mbl.is Neyðarlögin ekki brot á EES-samningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Bretar mismunuðu líka innistæðueigendum í Gurnesey og Isle of Man þegar þeir tóku það upp hjá sér að borga innistæður án þess að bera til þess skyldu.

 Þeir voru að bjarga stæstu bönkunu frá áhlaupi. Sparifjáreigendur fengu sitt, þótt það væri ekki lögbundið. Innistæðutryggingar á bretlandi duga ekki fyrir broti af þessum innistæðumfrekar en hér. Breska ríkið bar ekki ábyrgð, Danska ríkið bar ekki ábyrgð. Þeir borguðu samt. 

Svo á að neyða okkur til að taka lán til að greiða þeim þetta og til og með krefjast þeir breytinga landslögum til að okkur verði kleyft að kyngja þessu þvert ofan í allt.

Það voru ekki við sem mismunuðum í upphafi, heldur Bretar, og það án þess að hafa nokkra lagalega skyldu til þess. Er það okkur að kenna?

Jón Steinar Ragnarsson, 15.12.2010 kl. 20:03

2 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Játning eins borgunar-sinnans hljóðar svo (í drottins nafni):

    >>Um það er þarflaust að þrefa: Okkur skjátlaðist. Við, þessi minnihluti landsmanna sem vildum ljúka Icesave-málinu um síðustu áramót, fá þetta út úr heiminum og halda áfram út úr kreppunni með hjálp annarra þjóða - okkur skjátlaðist, við paníkeruðum.<<

Hér er meira um borgunar-sinnann:

http://thjodarheidur.blog.is/blog/thjodarheidur/entry/1125515/

Hér er meira um álit ESA:

15.12.2010: http://altice.blogcentral.is/blog/2010/12/15/neydarlogin-eru-byggd-a-traustum-thjodrettarlegum-grunni/

17.12.2009: http://altice.blogcentral.is/blog/2010/12/15/neydarlogin-standast-skodun-eftirlitsstofnunar-efta/

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 15.12.2010 kl. 20:50

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

þetta er það sama.   Flokkast undir mismunun eftir þjóðerni.  Má segja búsetu líka.    Bara sorrý.

Bottom læn:  Aðilar að ísl. útibúum fengu allt aðra meðhöndlun en aðilar að erlendum útibúum.

Sé hérna annarsstaðar að þú ert að reyna að búa til flækju með því að segja að ríki hafi eigi tryggt á ísl.,  heldur eignir hin fallna banka látnar gera það etc.  Gengur ekki.  Þetta er í raun de faktó ríkistrygging.  Bara útfærð á þennan hátt með athöfnum ríkisins.  

Ennfremur það sem sumir hafa talað um, að TIF eigi að fá súper-forgang í eignir uppí fyrstu 20.000 evrurnar erlendis - efast um að það gangi,  vegna sömu grunnfaktora og til umræðu eru hér ofar.  Jafnræðiprinsippsins.   Innstæður almennt eða öllu heldur eigendur krafnanna verða að vera jafnsettir.  Held það.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 15.12.2010 kl. 21:32

4 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ómar Bjarki ætlar seint biðjast afsökunar, eins og Guðmundur Andri Thorsson hefur gert, þótt ekki sé víst að að hann viti það sjálfur.

Það er beinlínis tekið fram í Tilskipun 2001/24/EC, að lög heimaríkis (Íslands) gilda um forgangsröðun við gjaldþrot. Í tilskipuninni segir: 
»Lánastofnun skal slitið í samræmi við lög, reglur og málsmeðferð sem í gildi er í heimaaðildarríkinu, nema kveðið sé á um annað í þessari tilskipun.«
 Um þetta segir ESA: 
»72. As regards secondary legislation there exists no harmonisation of the ranking of claims at EEA level. The Winding-up Directive 2001/24/EC generally recognises that EEA States may rank creditors&#39; claims on the estate of a bank in winding-up proceedings. According to Article 10(2) letter h) of the Directive, the law of the credit institution&#39;s home EEA State shall determine. inter alia. &#147;the rankins of claims&#148;.«
 

Nákvæm skoðun ESA, leiðir í ljós að bæði forsendur Neyðarlaganna og framkvæmd þeirra undir stjórn Fjármálaeftirlitsins voru í samræmi við þær kröfur sem Evrópuríkið gerir. Fullyrða má því að Icesave-málið er komið á beinu brautina og hagsmunir almennings á Íslandi eru tryggðir, svo framarlega sem ríkisstjórnin verður gerð aftur-reka með Icesave-samning III.

 

Er ekki gaman í Bretavinnunni, Ómar Bjarki ?

Loftur Altice Þorsteinsson, 15.12.2010 kl. 21:53

5 identicon

Góður pistill hjá þér Guðmundur.  Sorglegt hvað margir apa hlutina upp eftir haugsmiðlum og þeirra samspillingu.

Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 15.12.2010 kl. 22:15

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég eyði ekki tíma mínum í að munnhöggvast við tröll, Ómar Bjarki hefur sína skoðun og ég mína, gott og vel. Mig langar hinsvegar að benda á, vegna þess að ég tel það gagnlegt:

Yfirlýsing ríkisstjórnar er pólitískt loforð. Stjórnmálamenn brjóta pólitísk loforð í sífellu og það hefur hingað til ekki falið í sér ríkisábyrgð, hvorki de facto eða de jure. Það sem ekki er samkvæmt lögum er lögleysa. Punktur.

Varðandi kröfu Breta og Hollendinga um jafnstöðu við kröfur TIF í þrotabú Landsbankans (Pari Passu klausan*) þá er fjallað um hana í sérstökum viðaukasamningi, sem eins og áður fylgir ekki með nýja IceSave frumvarpinu sem var lagt fram í kvöld.

Takið eftir: já það eru enn einu sinni leyniskjöl og hliðarsamningar í gangi sem eru ekki birtir opinberlega. En "samtök áhugafólks um opna stjórnsýslu" hafa lekið a.m.k. þremur af þessum viðaukaskjölum á vefinn ásamt afritum af samningsdrögunum undirrituðum. Og spennusagan byrjar aftur...

Ég  vek einnig athygli á bls. 29 í hollenska samningnum, en þar er listi yfir samningsskjölin sem er ekki heldur birtur opinberlega, og þau skjöl sem þar eru talin upp hafa sum hver ekki enn litið dagsins ljós:

ICESAVE DOCUMENTS LIST 8 December 2010
Dutch Documents
1. Reimbursement and Indemnity Agreement (fylgir frumvarpinu)
2. Currency side letter (ekki birt)
3. DNB Assignment Agreement (lekið)
4. DNB Pari Passu Agreement (lekið)
5. LEX Opinion (ekki tilbúið)
6. State Attorney Opinion (ekki tilbúið)
UK Documents
7. Disbursement, Reimbursement and Indemnity Agreement (fylgir frumvarpi)
8. Currency side letter (ekki birt)
9. Side Letter to Settlement Agreement (lekið)
Settlement Agreement (leyniskjal frá 5. júní 2009 sem var lekið þá)
10. UK Deed of Asignment (ekki birt)
11. LEX Opinion (sama og #5)

* Pari Passu er lagamál sem þýðir á mannamáli "jöfn kröfuröð" og er vel þekkt klausa í þjóðréttarlegum lánasamningum. Ef hún á hinsvegar við um jafnan forgang krafna í þrotabú Landsbankans þá er það áhyggjuefni. Sjá einnig lesefni eftir Lee Buchheit, formann samninganefndarinnar:

Buchheit, Pam - The Pari Passu Clause in Sovereign Debt Instruments (PDF)

Guðmundur Ásgeirsson, 16.12.2010 kl. 04:21

7 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

   

Krafa nýlenduveldanna um jafnstöðu (pari passu) er krafa um að Neyðarlögin gildi ekki. Það fjármagn sem ríkisstjórnir Bretlands og Holland vörðu á eigin ábyrgð, til yfirborgana umfram lágmark ESB, fengi þá jafnstöðu við lágmark ESB, sem er á ábyrgð TIF.

 

Ef TIF nyti Neyðarlaganna, eins og samningar EES og ESB heimila, þá væri Icesave-kúgunin margfaldlega þær forsendulausu kröfur, sem þær eru af öðrum ástæðum. Jafnstöðu-krafan gerir því ennþá mikilvægara að sópa Icesave-málinu út af borðinu og þetta verður ekki öðruvísi gert en að Icesave-stjórninni verði sópað burt samtímis.

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 16.12.2010 kl. 12:23

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Loftur, ESA er búið að úrskurða að neyðarlögin standast.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.12.2010 kl. 18:30

9 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Það er rétt Guðmundur, en jafnstöðu-samningurinn er samt ennþá hluti af Icesave-samningum III. Jafnstöðu-krafan í samningunum gerir ennþá mikilvægara að sópa Icesave-málinu út af borðinu, en ella væri.

Loftur Altice Þorsteinsson, 16.12.2010 kl. 23:41

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þessu er ég sammála Loftur. Ég er ekki búinn að lesa Pari Passu samninginn, en ég geri ráð fyrir að hann snúist einmitt um þetta.

Ég sé fram á að hafa nóg af lesefni um hátiðarnar. Gleðilegt IceSave.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.12.2010 kl. 04:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband