Kostnaður vegna Landsbankans fyrir utan IceSave

Menn hafa verið að leika sér með tölur um kostnað vegna IceSave, en í því gleymist oft kostnaðurinn við eiginfjárframlag ríkisins til nýja bankans ásamt gengistryggðu skuldabréfi NBI við skilanefndina sem ríkið þarf óbeint að greiða af sem eigandi bankans (afborganirnar teknar af mögulegum hagnaði á rekstri bankans sem kemur út á það sama og ef ríkið væri sjálft að borga það). Auk þess stendur til að kaupa til baka verðlausa pappíra frá Seðlabanka Luxembourg fyrir 185 milljarða (í Evrum!) til að leysa út eignir úr þrotabúi bankans sem þar er haldið í gíslingu, þessar eignir eru þó ekki metnar á nema "nokkra tugi milljarða" og verða teknar upp í IceSave kröfuna.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um yfirtöku ríkisins á innlendu starfseminni hef ég áætlað kostnað íslenskra skattgreiðenda eingöngu vegna Landsbankans eftirfarandi:

  • 140 milljarða kaupverð ríkisins fyrir yfirtöku NBI hf. 
  • 208 - 280 milljarða skuldsetning NBI (gagnvart skilanefnd)
  • 100 - 185 milljarða lausnargjald fyrir pappíra í Luxembourg
  • 80 milljarða veðlánatap Seðlabanka Íslands (repo viðskipti)

Samtals gera þetta á bilinu 528 - 685 milljarða króna úr vasa skattgreiðenda og athugið að það er fyrir utan hugsanlegan kostnað við ríkisábyrgð vegna IceSave, án tillits til vaxta og gengisáhættu. Á móti kemur reyndar eign sem er innlenda starfsemi Landsbankans, en þegar bankinn var einkavæddur á sínum tíma var sú eign metin á 25 milljarða, sem er minna en skekkjan í þessari ágiskun og innan við 5% af heildarkostnaðinum miðað við neðri mörkin!

Ég vek sérstaklega athygli á því að þessir upphæðir eru teknar beint úr vasa okkar skattgreiðenda,  og fara þaðan til annars vegar fjármagnseigenda sem áttu innstæður í Landsbankanum og hinsvegar til skilanefndarinnar og þaðan beint upp í IceSave kröfur Breta og Hollendinga. Þannig er það í raun og veru kaupsamningurinn milli ríkisins og skilanefndarinnar sem tryggir öðru fremur margumræddar "góðar endurheimtur" upp í tapaðar innstæður, sem er engu að síður á kostnað almennings. Með slíkum bókhaldsbrellum vil ég meina að búið sé að ríkisvæða bankann að fullu, þar með talið þau vinnubrögð sem þar hafa tíðkast fram að hruni! 

Það sem mér finnst samt einna merkilegast er að heildarkostnaður fyrir utan IceSave stefnir í að verða svipaður og áætlað var í fyrstu að IceSave myndi kosta, þannig að jafnvel þó að endurheimtist 100% upp í þá kröfu verða afleiðingarnar af hruni bankans afar dýrkeyptar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Karl

Ég held að þessir "pappírar" í Lúx séu ríkisskuldabréf, "krónubréf". En fréttir um þetta voru óskýrar, smá pistill um það hér á http://bloggheimar.is/einarkarl/?p=310#comments

Annars margt til í þessu, en þú verður að athuga að meðal þess sem "keypt" er ("kaupverð ríkisins fyrir yfirtöku NBI") eru útlán bankans, húsnæðislán o.fl. - skuldaviðurkenningar sem ríkisbankinn á nú, svo ekki er það allt verðlaust. 

Einar Karl, 27.1.2010 kl. 11:54

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Já, þetta eru jöklabréf/krónubréf sem Luxararnir halda í gíslingu fyrir hönd evrópska Seðlabankans. Bréfin eru verðlögð í krónum, og því afar vafasamt að ætla að fara að kaupa þau til baka fyrir Evrur sem við þurfum að afla með útflutningi í staðinn fyrir krónur sem við getum prentað. Reyndar var talað um að með þessu móti fengist talsverður aflsáttur af viðskiptunum, en mér þætti áhugavert að fá að vita á hvaða gengi þau munu fara fram. Ég reikna þetta í öllu falli sem kostnað því ég einskorða þetta mat við endurreisn bankans hér heima, án tillits til eftirstöðvanna af gjaldþroti hans erlendis sem er önnur saga og kallast IceSave.

Varðandi það sem "keypt" er, þá er það fyrirtæki sem væri gjaldþrota ef ekki væri fyrir eiginfjárinnspýtingu skattgreiðenda. Ég leyfi mér að stórefast að slíkt fyrirtæki sé mikils virði, og bendi á til samanburðar að þegar bankinn var einkavæddur á sínum tíma var hann metinn á 25 milljarða. Þau eignasöfn sem þú vísar til eru auðvitað ekki alveg verðlaus, t.d. voru öll húsnæðislán Íslendinga flutt á milli með ríflegum afslætti (ca. 40% segja sumir) en þrátt fyrir það halda þau áfram að rýrna að gæðum í samræmi við fallandi húsnæðisverð. Á móti þessu eignasafni eru svo auðvitað ýmsar skuldbindingar, fyrst og fremst innstæður í bankanum en líka 260 milljarða króna gengistryggt skuldabréf við skilanefnd gamla bankans. Hér er semsagt verið að kaupa skuldsetta eign fyrir fullt af peningum. Þú myndir ekki kaupa þér bíl eða hús á fullu verði ef á því hvíla skuldir, er það nokkuð?

Ég er ekki að reyna að verðmeta NBI hf. hérna, heldur aðeins að draga fram kostnað skattgreiðenda. Persónulega held ég að það hefði verið ódýrara að láta Landsbankann fara á hausinn eins og hvert annað fyrirtæki. Ef stjórnvöld hefðu verið tilbúin með Plan B (stofna einn nýjan ríkisbanka og flytja almenn íslensk viðskipti þangað) þá hefðu skattgreiðendur ekki þurft að bera eins mikinn kostnað af því og landið hefði heldur ekki þurft lenda í algerri rekstrarstöðvun á meðan þrotabú gömlu bankanna væru gerð upp.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.1.2010 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband