Tvær bombur á WikiLeaks

Nýtt á WikiLeaks:
  1. Tölvupóstsamskipti Indriða H. Þorlákssonar og Mark Flanagan (IMF)
  2. Gögn um málaferli og umsvif Björgólfsfeðga í Rússlandi 1996-2009

---

Fyrri bomban er ansi merkileg og er hluti af þeim leyniskjölum í IceSave málinu sem hingað til hafa eingöngu verið birt Alþingismönnum. Í tölvupósti til Mark Flanagan 13. apríl sl. gerir Indriði H. Þorláksson grein fyrir stöðu í IceSave samningaviðræðunum og nýjustu tillögum samninganefndar Íslands. Indriði segist svo sjá vísbendingar um dulbúnar hótanir ("hint of intimidation") í viðbrögðum Breta og Hollendinga við tillögunum. Undir lokin verður orðalagið dálítið óljóst en þó má skilja sem svo að Indriði hafi áhyggjur af því að Bretar og Hollendingar muni beita sér gegnum gjaldeyrissjóðinn til að þrýsta á að fá sínu framgengt í IceSave samningaviðræðunum. Hann biður svo Flanagan að reyna að beita sér fyrir hagsmunum Íslands gegn Hollendingum og Bretum, sem er nokkuð merkilegt. Ekki þó eins og merkilegt og í lokin þar sem Indriði gefur upp hvar hægt sé að ná í sig, gefur upp farsímanúmer og einkanetfang sitt á léninu mac.com sem vel að merkja liggur utan íslenskrar lögsögu og samskiptin um það því ekki skráð í rafræna skjalaskrá stjórnarráðsins.

Svarið frá Flanagan kemur daginn eftir og er á þá leið að IceSave samkomulag sé lykilatriði ("crucial issue") í tengslum fyrir endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands, nær ómögulegt sé að ljúka henni fyrr en komist hafi verið að samkomulagi við Breta og Hollendinga. Þrátt fyrir að sjóðurinn vildi gjarnan liðka fyrir þá megi hann ekki skipta sér af pólitískum milliríkjadeilum og muni því ekki beita sér með þeim hætti sem Indriði fór fram á. Þrátt fyrir það segir hann að sjóðurinn hafi upplýst viðsemjendur um skuldastöðu Íslands í tengslum við mat á greiðslugetu. Flanagan segist svo sjá margar hindranir í vegi fyrir jákvæðri niðurstöðu í málinu, meðal annars lagalega óvissu vegna uppgjörs á þrotabúi Landsbankans sem Bretar og Hollendingar vilji ekki búa við án íslenskrar ríkisábyrgðar. Úrlausn þessara óvissuþátta geti tekið langan tíma og kunni að tefja endurskoðun efnhagasáætlunar Íslands. Að lokum bendir hann á að þó sjóðurinn sé ekki á móti nýjum forsendum samkomulags um IceSave þá standi upprunalegi möguleikinn líka opinn, að íslenska ríkið taki taki lán á "Parísar-klúbbs" skilmálum þ.e. 12+ ára lánstíma greiðslulaust fyrstu 5 árin með 150 punkta vaxtaálagi ofan á fjármagnskostnað. "Þegar allt kemur til alls hlýtur að vera hægt að útskýra lántökuna fyrir íslenskum almenningi og róa taugatitringinn. Lánin verða jú að mestu endurgreidd með endurheimtum eigna." [Innskot: hér er átt við endurheimtur þrotabús Landsbankans en þriðjungur þeirra er á kostnað íslenskra skattgreiðenda hvort sem er! (sjá eldri færslu)]

Maður spyr sig að því í ljósi þessara samskipta hvað Flanagan á eiginlega við þegar hann segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn megi ekki hafa afskipti af pólitískum milliríkjadeilum? Hér er augljóslega ekki verið að gæta hagsmuna Íslands, á meðan sjónarmið Breta og Hollendinga eiga greiða leið upp á pallborðið. AGS virðist fyrst og fremst líta á IceSave sem formsatriði sem þurfi að komast á klárt sem fyrst svo þeir geti slegið efnahagslegu forsendunum inn í Excel skjal og reiknað út nákvæmlega hversu gjaldþrota við erum eða hversu fast þurfi að herða þumalskrúfurnar.

Það magnaðasta við þetta er samt að samskipti embættismanna sem gegna lykilstöðu í einhverju mikilvægasta hagsmunamáli og erfiðustu milliríkjadeilu Íslands frá upphafi, skuli hafa farið ódulrituð í almennum tölvupósti gegnum samskiptaleiðir sem liggja um yfirráðasvæði stærsta mótaðilans. Allir sem hafa snefil af þekkingu á tölvuöryggi vita að þetta er álíka traustur samskiptamáti og að senda póstkort, og leyniþjónusta hennar hátignar fylgist vel með á sínum enda. Flest fjarskiptakerfi liggja frá Íslandi til útlanda gegnum Bretlandseyjar og þessu hef ég oft varað við!

Tilvísun Indriða á einkanetfang sitt er líka mjög alvarlegt mál, þar sem það er ekki hluti af hinu opinbera stjórnsýslukerfi. Hafi slík samskipti átt sér stað væri það rafrænt ígildi þess að eiga leynifundi á afviknum stöðum.

---

Seinni bomban er svo mappa af ýmsum gögnum varðandi umsvif Björgólfsfeðga í Rússlandi árin 1996-2009. Þar á meðal blaðagreinar og dómsskjöl vegna málaferla þar sem aflandsfélög á Tortola og bjórverksmiðja í St. Pétursborg koma við sögu. Að sögn WikiLeaks er ekki um nein leyniskjöl eða trúnaðargögn að ræða, en sum þeirra kunni að vera vandfundin og hafi hvergi áður verið aðgengileg á einum og sama staðnum. Ég hef ekki kynnt mér innihaldið í smáatriðum og á líklega ekki eftir að gera það enda mikið magn upplýsinga og sumt þeirra jafnvel á rússnesku.


mbl.is Icesave-póstar á Wikileaks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband